Bullandi karlmennska

Hvað eigum við þá að gera? Það er spurning guðspjallsins. Samtöl á bar rétt hjá Dómkirkjunni og Alþingishúsinu fönguðu athygli margra síðustu vikurnar. Klausturupptökur Marvins, sem reyndar er kona og heitir Bára, voru opinberaðar í skömmtum. Sumt af því, sem sagt var á barnum, var meinlítið röfl en annað var meiðandi. Fjölmiðlafólkið, sem hlustaði fyrst á upptökurnar, spurði sig. „Hvað eigum við þá að gera?“ Og þegar efnið var svo opinberað þyrluðust upp álitaefni. Hvernig átti að bregðast við hlutgervingu kvenna og að þær voru túlkaðar sem tól? Fötlun fólks varð enn einu sinni skotspónn. Samtölin opinberuðu ýmsa fordóma og reiði. Já, hvað eigum við þá að gera?

Textar þessa þriðja sunnudags í aðventu varða samtöl á bar og reyndar líka hvernig karlar, já allt fólk, þarf að lifa og vera. Karlar hafa lengi ráðið mestu í hinu opinbera rými. Hlutur karla er íhugunarefni. Og þar sem karlarnir gegna mörgum hlutverkum í messu dagsins, ómbrimandi karlakór syngur, karl spilar á orgelið og tveir þjóna fyrir altari – og textinn gefur tilefnið – verður talað um karlmennsku af prédikunarstóli, eðli hennar og skuggahliðar. Þau, sem eru með símana sína tilbúna, hafa hér með fulla heimild til að taka upp allt, sem hér verður sagt, birta á netinu og framsenda hvert sem er.

Biblían hefur margt að segja við karla um styrkleika þeirra og veikleika – hvað þeir geta gert eða ættu að gera. Já, Biblían hefur mótað margt í sögu okkar og þar á meðal haft áhrif – með biblíupersónum – á karlmennskuhugmyndir okkar. Og þegar karlar láta allt flakka, óra sína, fordóma, stefnumál og átök þá er margt, sem Biblían getur bent þeim á og bætt við. Biblían heldur áfram að leggja til vísdóm og líka karlímyndir.

Klausturbarsgjörningurinn er merkilegt stykki á leiksviði þjóðfélags. Ekkert handrit var skrifað, heldur var flæðið og spuninn í samræmi hvatir og tilfinningar. Á Klausturbarnum var öll mennska undir, tengsl fólks, gildi og þrýstilínur samfélags, eðli og hlutverk kvenna og fatlaðra. Því er þetta mál rætt í dag og varðar alla karla og allar konur.

Verk karla

„Hvað eigum við þá að gera?“ Svo var og verður spurt. Jóhannes skírari var merkilegur karl. Hann fór ekki á barinn heldur út í eyðimörkina. Hann hafði komist að því að gamla pólitíkin hafði bara klúðrað málum og nú þurfti eitthvað nýtt að vinda ofan af vitleysunni. Jóhannes barðist fyrir bættu samfélagi. Margir hrifust og töldu, að fram væri kominn nýr leiðtogi fyrir nýjan miðflokk fólksins. Jóhannes kom úr eyðimörkinni og að vatninu, skírði og hélt ræður, sem hlustað var á. Hann var vissulega rosalegur, með hunang í skegginu og þyrna í kyrtli, en það var ekkert rugl eða röfl í málflutningi hans. Boðskapurinn var fyrir karla í krapinu, konur að störfum og réttlátt samfélag. Hann hélt fram: Ef þið eruð rík, náið þá í fjármunina úr skjólum ykkar og gefið hinum fátæku. Ef þið eigið föt og mat aflögu ættuð þið að að gefa með ykkur. Og þau, sem voru jaðarsett í samfélaginu (og biblían kallar tollheimtumenn), spurðu: „Meistari, hvað eigum við þá að gera?“ Jóhannes sagði þeim að græða ekki meira en hæfilega. Allir skyldu taka tillit til annarra, enginn skyldi beita slægð eða svikum. Menn skyldu gæta hófstillingar. Og af því það var stemming fyrir búsáhaldabyltingu í þjóðfélaginu vildu margir að Jóhannes yrði foringinn. „Nei, nei,“ sagði hann. Hann væri ekki í pólitík til að bola einni valdastétt frá til að koma annarri að. Hann væri í stóru málunum – þessum sem jól og páskar varða.

Orð og gerðir Jóhannesar skírara sýna karl, sem var sterkur leiðtogi og skilgreindi forystu sína í þágu annrra. Jóhannes sýndi okkur meginþætti karlmennsku. Karl sem þjónn, karl sem siðferðisvera, karl sem vitringur, karl sem lítur á sig sem hlekk í keðju, hluta heildar og í þágu annarra. Það er karlaímynd Biblíunnar – og enginn ábyrgðarflótti.

Karlímyndir

Það var nú ekki markmið þeirra á Klausturbarnum að bjóða Jóhannesi skírara til sín. En Jóhannes þarf að mæta þangað líka með alvöru pólitík. Hann þarf að mæta til okkar allra því við gerum öll mistök, dettum í rugl og missum okkur. Við erum öll undir auga alskyggninnar. Þegar karlar lýsa konum sem tólum er karlmennskan sködduð. Karlar, sem tala niður til einhverra og jafnvel gera grín að þeim eins og þau væru dýr, hafa tapað getunni og flekkað mennskuna. En klausturbargjörningurinn er ekki undantekning heldur eitt af mörgum dæmum um afstöðu einstaklinga og hópa í samfélagi okkar, sem höndla illa samfélagsbreytingar, ógnanir alþjóðavæðingar og fljótandi siðferðisviðmið. Óttinn hefur magnast. Alls konar ótti, við nýbúa, flóttamenn, homma og lesbíur og fleiri. Og reiðin er systir óttans. Þegar karlmennskan tapar getunni er stutt í ofbeldið. Um það verðum við að ræða undanbragðalaust og ekki setja okkur sjálf utan hrings.

Styrkur eða veikleiki

Í öllum samfélögum eru til karlar, sem eru hræddir við sjálfa sig, um sjálfa sig og þar með hræddir við konur. Ein af aðferðum hins hrædda er að hlutgera annað fólk, niðurlægja, lítillækka og hreykja sér á kostnað annarra. Þegar konur eða karlar ná ekki að þroskast til visku og máttar – verða til skuggamenni, sem misnota. Hverjir verða fyrir? Jafnan þrenningin: Börn, konur og náttúra. Það eru helstu þolendur sjúkrar mennsku. Litlir karlar níða aðra niður eða riðlast á öðru fóki til að sjást. Hræddir karlar beita ofbeldi. Ófullnægðir karlar tuddast áfram og trampa á öðrum. Siðblekktir karlar varpa draumórum um eigin mikilleika á heiminn og sækja í vald. Kenna öðrum eða aðstæðum um allt sem aflaga fer. Ábyrgðarflótti einkennir atferli þeirra.

Það er annað en karlímynd Biblíunnar. Stóru karlar kristninnar eru þjónar, karlar sem siðferðisverur, vitringar sem sjá hlutverk sitt í tengslum og í þágu annarra. Og gangast við ábyrgð sinni.

Lýsa upp skuggana

Tónlistarmaðurinn Svavar Knútur sagði einu sinni frá því, að í skóla dóttur hans hefðu tólf ára drengir sagt, að það þyrfi að nauðga stelpum með skoðanir. Og takið eftir: Þetta eru drengir, sem ekki eru komnir á fermingaraldur! Ekki væri tekið mark á stelpunum vegna þess að þær væru “ómerkilegar, þær væru ílát, drasl” – eins og drengirnir orðuðu það! Tólf ára drengir í skóla, en töluðu eins og drengir á bar. Ofbeldismenning varðar okkur öll og skiptir okkur máli. Við eigum að bregðast við henni. Allt annað er meðvirkni. Hið illa lifir og dafnar meðan gott fólk gerir ekkert. Við þurfum að staldra við og spyrja okkur sjálf hvort við ræktum óttann innan í okkur og ofbeldið þar með? Við erum öll í hættu og hættir til að verða skuggaverur.

Jóhannes var flottur karl. Hann ól ekki á ótta og lagði ekki til nauðganir og mannfyrirlitningu. Nei, hann beindi sjónum að því, sem mestu máli skipti, Guði, komu hins góða, trúarlega í mannheim. Aðventan er undirbúningstími. Við megum gjarnan skúra að hætti Jóhannesar. Skúra út ótta og hreinsa okkar andans vistarverur. Taka á móti Jesú Kristi. Hann þjónaði alltaf fólki, virti fólk, gerði ekki grín að fötlun þess, heldur studdi og læknaði. Jóhannes var flottur karl og Jesús Kristur er ímynd þroskaðrar karlmennsku.

Aðventan kallar á alvöru kalla!

Stöldrum við og þorum að endurskoða mennsku okkar. Þið karlar, syngjandi, þjónandi, verandi. Þorið að vera alvöru karlar, sem ræktið þroska en ekki smæðarlegar skuggamyndir. Dætur okkar og synir, allt fólk í umhverfi okkar á að fá að njóta hæfileika sinna án heftinga. Haturshópar eiga ekki rétt á starfsfriði og ofbeldiskúltúr hentar bara í endurvinnsluna. Nú eigum við að leyfa draumum að rætast. Bönnum lausagöngu karltrölla í almannarýminu, en ræktum mennskuna. Notum aðventuna til að hreinsa út fordóma og falsímyndir úr lífi okkar. Hvað eigum við þá að gera? Opnum bar himinsins, leyfum sálmum lífsins að hljóma, körlum að leika og mannlífi að blómstra.

Amen.

Íhugun um karlmennsku, skuggahliðar og alvöru karla.

B-röð texta. Hallgrímskirkja 16. des 2018