Greinasafn fyrir merki: náttúruvernd

Saga býflugnanna

Það er nafnið á bók Maju Lunde. Saga býflugnanna er marglaga saga. Hún spannar ekki aðeins langan tíma heldur tengir saman lönd og álfur, menningarhefðir og ólíkt fólk.

Árið 1852 reis Willam upp úr langvarandi þunglyndi og fór að vinna að nýrri gerð býflugnabúa. Við kynnumst sögu hans og draumum um að geta helgað sig vísindum. En hann datt út og niður. Lífið hélt þó áfram og börnin hans höfðu sínar vonir. Og þær fléttuðust í aðrar sögur og vísuðu til framtíðar, eins og vonir manna gera.

Svo er í býflugnasögunni hoppað til George sem stritaði við býflugnaræktun í Bandaríkjunum árið 2007. Lífsbaráttu hans, konu hans og draumum sonarins er lýst. Allt í einu varð skyndidauði í búum George og líf fjölskyldunnar breyttist fullkomlega. En sonurinn átti sér sýn um annað en iðnarbúskap, sýn um lífvænlega veröld. Vonir vísa fram.

Svo er líka hoppað í sögunni til Tao sem vann við að handfrjóvga ávaxtatré í Kína árið 2098  þegar býflugur heimsins höfðu dáið. Tao á mann og líka son. Hún stritar á ökrunum en hefði gjarnan viljað helga sig bókum og fræðum, en sá lúxus hafði vikið fyrir líkamspuði. Svo varð slys sem breytti lífi Tao og hún lagðið upp í mikla ferð til að leita að syni sínum og kanna örlög hans.

Í þeirri ferð fléttast saman saga Williams frá 1852, saga George frá 2007 og saga Tao árið 2098. Þau áttu öll börn sem voru ekki aðeins viðtakendur í lífinu, heldur gerendur. Saga þeirra allra tengist grunnþáttum lífsins, sem býflugur eru tákn fyrir. Þegar býflugurnar urðu skyndidauðanum að bráð breyttist allt í veröldinni.

Í fyrra las ég bókina Blá eftir Maju Lunde. Og svo las ég þessa merkilegu, margslungnu og vel fléttuðu bók Saga býflugnanna. Báðar bækurnar eru náttúrutengdar. Þær segja sögur um afleiðingar þess ef fólk tapar náttúruvisku, virðir ekki teikn umhverfisins og skeytir ekki um hjálparbeiðni lífríkisins, þ.e. vill ekki heyra guðshvíslið. Mæli með báðum bókunum.

Saga býflugnanna er áleitin bók um frumþætti lífs. Maja Lunde er klókur og fræðalesinn höfundur. Í Blá er það vatnið og ríkidæmi þess sem er í forgrunni, en flugnafræðin í býflugnabókinni. Maja Lunde kann þau og miðlar þeim ásamt því að segja spennandi sögu hinna vængjuðu vina planta og mannfólks. Sögurnar þeyta upp alls konar skemmtilegheitum. Guðfræðingnum þótti t.d. skemmtilegt að ein söguhetjan las Rómverjabréfið til að fræðast um Pál postula. Skýringin var að það rit gæfi besta yfirlitið um guðfræði postulans. Maja Lunde vel lesin og búin að vinna heimavinnuna. Hún er ekki aðeins penni skemmtandi fagurbókmennta eða hliðrænna veralda heldur þekkingartúlkandi fræðari sem vekur til vitundar um tengsl við umhverfi og ríki lífsins.

Ingunn Ásdísardóttir þýddi, hún er í uppáhaldi á mínum bæ. Forlagið gefur út. Mæli með Maju Lunde. Og varðandi býflugurnar er ég að velta vöngum yfir hvort ég ætti að fá mér bú.  

  1. ágúst, 2020.

Svona til dýpkunar er hér að baki þessari smellu grein á BBC um býflugurnar á okkar tíma. 

Þú skalt ekki morð fremja!

Fimmta boðorðið er til skoðunar í dag. Hvernig var það nú aftur? Já, það er bannið við að drepa. Þú skalt ekki morð fremja. Boðið er gott en hvar liggja mörkin? Hvenær verður eyðing lífs morð og hvenær ekki? Er bara átt við menn eða getur verið, að endurtúlkun Jesú á boðorðunum þenji regluna út? Varðar boðið jafnvel meira en karla og konur, börn og gamalmenni? Getur verið að náttúran sé systir, bróðir og náungi okkar? Varðar þetta boð umhverfissóða?

Í Íslandsklukkunni er Jón Hreggviðsson alls ekki viss um hvenær menn deyða. Hann svaraði Arnas Arnæus: „Hef ég drepið mann eða hef ég ekki drepið mann?… …Hvenær drepur maður mann og hvenær drepur maður ekki mann?” Fimmta boðorðið leynir á sér og á raunar meira erindi við okkur en að banna líkamleg voðaverk.

Í dag verður fjallað um þrennt: Fyrst ástæður boðsins til til forna. Síðan andlega dýpkun Jesú, sem stækkaði umfang boðsins og bætti við innhverfingu þess. Þar á eftir klofum við í guðfræðisögunni alla leið til Lúthers, sem kenndi, að fimmta boðorðið er ekki neikvætt heldur jákvætt og virkjandi. Lúther taldi að við ættum ekki að halda aftur af okkur heldur væru það jákvæðar samfélagsskyldur allra að efla hag allra. Í lokin íhugum við gildi fimmta boðorðins fyrir fólk í samtíðinni. Boð, sem virðist ekki vera sérlega mikilvægt fyrir okkur, sem erum ekki í drápshug, verður allt í einu ágengt og mál dagsins.

Lífsvernd

Lífið er alltaf dýrmætt og á öllum öldum. Þegar blóð hafði flætt, sorgin níst og ástvinir voru grafnir var og verður alltaf niðurstaða hugsandi fólks að nauðsynlegt væri að hefta drápin. Fimmta boðorðið var og er regla um lífsrétt sem var sett gegn hrárri villimennsku, yfirgangi, ofbeldi, vörn gegn hefndum og blóðugri samkeppni, já skikkan gegn hrottaskap. Líf einstaklinga var ekki og mátti ekki vera eitthvað, sem annar gat tekið si svona eða af því svírinn lægi svo vel við höggi eins og sagt er frá í Fóstbræðrasögu og var réttlæting Þorgeirs á mannsmorði. Dráp má aldrei vera geðþóttamál, hrottaleikur og hvatvís hugdetta.

Hið forna samfélag hebreanna bannaði ekki að losa sig við illvirkja. Hagsýni allra tíma hefur reiknað út, að öxin og jörðin geymdu slíka best. Síðan hafa alltaf verið til rök – misgóð – um fælingarmátt dauðarefsinga. Lífsvernd er þó meira en bara einföld hagsýni. Líf mannsins er grundvallað heilagri réttsýni, ákvörðun Guðs. Fimmta boðorðið er stefna Guðs. Lífið er gott – ekki bara vegna þess að það sé svo gaman að lifa og það sé stundum gaman hjá okkur – heldur vegna þess að Guð hefur ákveðið að manneskjan hafi gildi, maðurinn sé kallaður til samvinnu í guðsverkinu. Efnislega er manneskjan ekki mikils virði – tæplega 60 lítrar af vatni, 2 kg af fitu og 1,2 kg af kalki og einhver grömm af ýmsum efnum. Það er ekki hráefnið sem býr til manngildi. Trúmenn fyrr og síðar hafa ekki álitið lífið heilagt vegna útreiknings á einhverjum stærðum og víddum, heldur af því Guð hefur ákveðið það. Guð var trygging manngildis. Manngildisafstaða trúarinnar hefur síðan alið af sér mannhelgi siðakerfa Vesturlanda, löggjöf þjóða og félaga og mannréttindasáttmála Sameinuðu Þjóðanna. Trúmenn eiga því að styðja alla viðleitni manna til að tryggja velferð fólks og réttindi. Sá réttur er óháður trú þó trúmenn sjái í þeim rétti guðlega visku.

Jesús og boðorðið

Jesús vissi vel um reglur samfélagsins. Hann beitti sér ekki gegn siðakerfum og hefðum, sem þjónuðu góðu mannlífi. En hann beitti sér alltaf þegar menn vildu hangýta sér lög og reglur í eigin þágu eða einhverrar þrönghyggju, sem væri á kostnað elsku og umhyggju.

Hópur af mönnum, sem vildu klekkja á Jesú færðu t.d. til hans konu, sem var brotleg í siðferðisefnum og svo mjög að skv. reglunum mátti drepa hana með því að henda í hana grjóti. Dólgarnir ætluðu að koma Jesú í bobba. En hann stóð með lífinu í þetta sinn sem endranær þó hann afsakaði ekki gerning konunnar. Viska Jesú var til að eyðileggja prettavit hópsins. Hann sagði að þeir sem væru syndlausir ættu að kasta steinunum (Jóh. 8.7). Við það hurfu kastararnir. Freka karlinum er alltaf illa við að sjónum er beint að honum.

Í Fjallræðunni kemur fram, að Jesús er sammála boðinu, en hann gaf því þó nýja og dýpri merkingu. Hann túlkaði stórt og vítt. Menn megi ekki deyða aðra heldur sé boðið líka andlegt. Við deyðum ekki aðeins fólk með því að meiða líkamlega, heldur með ýmsu móti, t.d. með því að reiðast einhverjum. Jesús stækkar eða víkkar því merkingarsvið boðsins, lætur sér ekki nægja hið ytra heldur færir það inn í fólk, í afstöðu, tilfinningar þess og innræti.

Af hverju þessi stækkun, breikkun og dýpkun Jesú? Það er vegna afstöðu hans til fólks. Jesús leit svo á, að maðurinn væri óendanlega mikils virði og ætti að hegða sér í samræmi við þær notkunarleiðbeiningar, sem Guð setur fyrir gott mannlíf.

Lúther úthverfði

Þá tökum við langt guðfræðiskref og til siðbótartímans. Margir verða hissa á boðorðaafstöðu Marteins Lúthers, en hrífast þegar skýringarnar hans eru skoðaðar. Lúther þekkti vel sögu siðfræðinnar og að Jesús túlkaði alltaf mannræktandi. Í skýringu Lúthers á fimmta boðorðinu er ekki talað um einangrað ofbeldisverk, heldur er ramminn stór og jákvæður: “Við eigum að óttast og elska Guð, svo við ekki meiðum náunga okkar, né vinnum honum nokkurt mein á líkama hans, heldur björgum honum og hjálpum í allri líkamlegri neyð.”

Í viðbót við innhverfingu Jesú varðandi boðorðin úthverfir Lúther og í samræmi við anda Jesú. Boðorðið hefur samfélagsvídd. Samkvæmt Lúther er ekki aðeins bannað að skadda aðra, heldur er hlutverk okkar að efla aðra og bæta hag þeirra. Hlutverk okkar er að tryggja velferð annarra, beita okkur í samfélaginu svo við eflum lífsgæði, ekki aðeins okkar eigin, heldur samfélagsins alls. Við hlýðum fimmta boðorðinu þegar við erum tilfinningalega og samfélagslega heilbrigð og ábyrg og samfélagið virkar vel og til hags fyrir heildina. Bannið við morðum, fimmta boðorðið, varðar stjórnmál okkar, umhverfismál, samskipti við aðra. Líf okkar er, samkvæmt guðlegri ákvörðun, heilagt. Við eigum að hegða okkur í samræmi við þá skilgreindu stöðu okkar með því að rækta umhyggju og gera öðrum gott.

Boðorð fyrir okkur

Já, hvenær drepur maður mann? Við deyðum þegar við stingum, skjótum, lemjum eða keyrum á einstaklinga svo þeir láta lífið. Það er óheimilt trúarlega og líka lögbrot. Samfélagið hefur reglur um slíkt og refsar fyrir. En svo er allt hitt að auki. Við getum deytt þegar tilfinningar okkar leiða okkur í gönur, þegar við leyfum heift að sá sér hið innra, spíra þar og vaxa. Þá verður til dauðaferli. Reiði, hatur, vondar hugsanir og ljótleiki eyða og deyða. Ofsi hið innra er eitur, sem lífið þolir illa eða ekki. Þegar slíkt lifnar í þér og vex er dauðinn að grípa þig og kæfa. Þú byrjar að deyja.

Við deyðum þegar við tökum þátt í eða leyfum að varnarlitlir séu beittir harðræði, einelti, rangsleitni, ofbeldi, baktali og öðru álíka. Við erum samsek þegar við leyfum kerfum að viðhaldast, sem niðurlægja fólk, réttlæta kynjamismunun, þjóðamismunun, kynþáttamismunun eða aðra óeðlilega og ómannlega aðgreiningu hinna betri og hinna verri, hinna æðri eða óæðri. Maður drepur mann ef við gætum ekki hagsmuna fólks og reynum að efla hag og velferð annarra. Boðið er róttækt og lífið er heilagt. Mannlíf fólks er eitthvað, sem okkur ber að virða og engan afslátt veita. Og svo er náttúran systir okkar sem við höfum ekki heimild til að deyða.

Guð vill að lífið sé virt, þitt eigið líf, líf þeirra sem þú elskar, en líka líf hinna sem þér er í nöp við eða eru þér jafnvel kvalræði, líf allra, kvenna og karla, allra manna, allrar veraldar. Við eigum ekki aðeins að beita okkur í mannvernd, náttúruvernd og samfélagsvernd vegna þess að það sé hagkvæmt og tryggi okkur sjálf, heldur vegna þess að Guð vill það. Í því verður siðsemin róttæk og boðið djúpt og altækt. Og boðið á við þig og mig.

Amen

Hallgrímskirkja, 10 mars 2019. Í röð boðorðaprédikana í janúar – apríl, 2019.

Lexían

Þú skalt ekki morð fremja.

  1. Mósebók 20,13

Pistillinn

Skuldið ekki neinum neitt nema það eitt að elska hvert annað því að sá sem elskar náunga sinn hefur uppfyllt lögmálið. Boðorðin: „Þú skalt ekki drýgja hór, þú skalt ekki morð fremja, þú skalt ekki stela, þú skalt ekki girnast,“ og hvert annað boðorð er innifalið í þessari grein: „Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.“ Kærleikurinn gerir ekki náunganum mein. Þess vegna er kærleikurinn uppfylling lögmálsins.

Rómverjabréfið 13,8-10

Guðspjallið

Þér hafið heyrt að sagt var við forfeðurna: Þú skalt ekki morð fremja. Sá sem morð fremur skal svara til saka fyrir dómi. En ég segi yður: Hver sem reiðist[ bróður sínum skal svara til saka fyrir dómi. Sá sem hrakyrðir bróður sinn skal svara til saka fyrir ráðinu og hver sem svívirðir hann hefur unnið til eldsvítis. Sértu því að færa fórn þína á altarið og minnist þess þar að bróðir þinn hefur eitthvað á móti þér þá skaltu skilja gjöf þína eftir fyrir framan altarið, fara fyrst og sættast við bróður þinn, koma síðan og færa fórn þína. Vertu skjótur til sátta við andstæðing þinn meðan þú ert enn á vegi með honum.

Matt. 5, 21-25

 

Greta, Guð og blessunin

Hún er fimmtán ára gömul og vakti athygli Svía í haust. Í stað þess að fara í skólann á föstudögum fór hún í skólaverkfall. Hún fór að þinghúsinu í Stokkhólmi og mótmælti mengun jarðar og lofts. Hún heitir Greta Thunberg og skólaverkfallið hennar vakti svo mikla athygli að henni var boðið til Katovice í desember síðastliðnum til að flytja ávarp á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, sem þar var haldin. Þessi lágvaxni risi sakaði leiðtoga heimsins um að stela framtíð barna. Í fjögurra mínútna ræðu sagði hún, að gömlu aðferðir þeirra hefðu ekki skilað neinu. Allt of mikið væri talað í stað þess að gera það sem væri lífsnauðsynlegt. Hún sagði: „Þið talið bara um grænan hagvöxt því þið eruð hrædd við óvinsældir. Þið talið bara um sömu vondu hugmyndirnar, sem komu okkur í vanda í stað þess að taka í neyðarhemilinn. Þið eruð ekki nógu þroskuð til að segja hlutina eins og þeir eru. … Þið segist elska börnin ykkar heitar en nokkuð annað, en samt stelið þið framtíð þeirra fyrir framan nefið á þeim.“ Og svo hélt hún áfram og minnti á að lífhvolfi jarðar væri fórnað svo að auðugt fólk í löndum gæti áfram lifað í vellystingum. Þægindi fárra væru keypt með þjáningu. Og Greta Thunberg sagði pótíkusunum upp. Hún hefur sett sér áramótaheit, kveikti skilning margra og kallar til ábyrgðar og starfa. Boðskapur þessarar ungu konu er erindi úr framtíð.

Blessunin er alls konar

Nú er nýársdagur, opinn tími nýrra möguleika. Hvert er nýársheit Guðs? Það kemur úr framtíðinni líka. Og hvert er þitt heit? Áttu þér draum? Hvað viltu að hverfi og yfirgefi þig? Við erum kölluð til góðs lífs. Sá nýársboðskapur kemur fram í textum dagsins. Er þar eitthvað sagt, sem varðar líf okkar á nýju ári, gilt fyrir heila, hjarta, hendur og fætur? Framtíðin kallar til þín – kallar þig.

Lexía dagsins eru eiginlega stóryrði – og svo mikilvæg að Gyðingar álitu þau meginmál. Og kristnin, með Jesú Krist sem fyrirmynd, gerði þau að niðurlagi í messum. Þetta eru blessunarorðin, sem prestar fara með í lok allra messugerða. Þau eru skráð í fjórðu Mósebók. Kannski hljóma þau eins og þula eða orðasúpa, en þau eru svo sannarlega ekki inntantóm merkingaleysa, heldur varða líf og hamingju allra:

Drottinn blessi þig og varðveiti þig. Drottinn láti sína ásjónu lýsa yfir þig og sé þér náðugur. Drottinn upplyfti sínu augliti yfir þig og gefi þér frið.

Hefur þú heyrt þessi orð? Þetta er hin aronítíska blessun, sem líka er kölluð prestslega blessunin. Svo eru til fleiri blessanir í Biblíunni, t.d. sæluboðin og postulega kveðjan. Og mömmur og pabbar, afar og ömmur hafa breitt elsku yfir fólkið sitt og afkomendur í sama anda og sagt: „Guð blessi þig“ – eða – „Guð geymi þig.“

Blessun merkir að lífið verði gott þeim, sem þiggur blessun. Blessun er til bóta. Við menn erum farvegur en Guð er lind blessunar. Þegar Guð blessar eru gjafir gefnar og þær eru allt hið góða, sem við njótum; gjöful og fögur náttúra, friður meðal þjóða og hópa, matur, öryggi fólks, gott skólakerfi og heilsugæsla. Ekkert af þessu eru sjálfsögð gæði, sem við eigum heimtingu á til að nota eða misnota. Hver er blessun þín?

Tvíhyggja eða eining?

Mörgum hættir til að hugsa um hið trúarlega sem innra líf, hugarró, innra traust eða æðruleysi. Já, það er blessun en hún er líka stærri. Blessun Guðs varðar líka efnaferla í eldfjöllum, sprengingar í sólkerfum, nýjustu rannsóknir í krabbameinslækningum og hvort Trump trompast (aftur og áfram?). Okkur hættir til að hugsa um trú í anda tvíhyggju. Tvíhyggja er sú nálgun, að hið efnislega og andlega séu andstæður og trúmenn eigi bara að halda sér til hlés frá ati heimsins. Hið andlega sé aðalmálið en líkami, efni, peningar og samfélag sé óæðra. En slík lífsafstaða er ekki komin frá Jesú Kristi eða Biblíunni. Trú varðar heilsu fólks, líkamlega næringu, efnislegar þarfir, náttúru, frið og líka flóttafólk. Samkvæmt Bibllíunni er hið andlega, félagslega, náttúrulega og pólitíska þættir sem varða Guð og trú. Hið hebresk kristna samhengi kennir heildarhyggju. En tvíhyggjan, sem kom inn í heim fólks, eyðilagði þá heild. Og það er komið að því að við hættum að rugla.

Hvað er blessun? Hún er stórpólitísk yfirlýsing og kall til átaka. Blessunin í messunni er ekki fróm ósk prestsins um að þér líði skár innan í þér í næstu viku en í þeirri síðustu. Hún varðar að þú lifir lífinu vel á öllum sviðum, gerir upp brot þín og áföll, vinnir í þínum málum, hugir að heilsu þinni, látir ekki spillt fólk spilla friði og fara illa með aðra. Og hún merkir, að þú leggir þitt á vogarskálar svo líf heimsins fái lifað. Blessun Guðs er áramótagjöf Guðs svo líf þitt og líf heimsins batni.

Umhverfi, blessun, ábyrgð

Nýtt ár, nýir möguleikar og framkvæmdir til góðs.

Drottinn blessi þig – en við menn dælum samt árlega átta milljónum tonna af plastefnum í hafið, sem skaða alla þætti lífríkisins. Ein milljón fugla deyr árlega vegna þessa og eitt hundrað þúsund sjávarspendýr. Drottinn varðveiti þig.

Drottin láti sína ásjónu lýsa yfir þig. Ant­onio Guter­res, fram­kvæmda­stjóri Sam­einuðu þjóðanna, sagði í liðnum mánuði í Katovice, að lofts­lags­breyt­ing­ar væru nú þegar spurn­ing um líf eða dauða í mörg­um lönd­um heims.Það merkir á máli trúar, að gott fólk um allan heim er kallað til að láta til sín taka en ekki bara tala eins og forréttindafólki vestursins hættir til. Og Drottin sé þér náðugur.

Drottinn upplyfti sínu augliti yfir þig. Þegar þú skrúfar frá krana í eldhúsinu heima hjá þér streymir dásamlegt vatn. Um fjórðungur mannkyns, 2 milljarðar, býr við alvarlegan vatnsskort. Vatn er heilagt eins og fram kemur í sakramentum kirkjunnar, altarisgöngu og skírn. Þú varst borin til skírnar sem barn. Milljarðagamalt hreint vatn lék um hársvörð þinn og vatnið, sem þú nærðist af í móðurmjólkinni varð þér til lífs. Þegar þú gengur til altaris á eftir gengur þú að uppsprettu lífsins í margföldum skilningi. Og Drottinn upplyfti sínu augliti yfir þig og gefi þér frið.

Við erum kölluð til lífs og verndar lífi. Á nýju ári kallar Guð lærisveina, fólk til starfa. Áramótablessun Guðs varðar þitt líf. Við erum ekki kölluð til að bjarga heiminum en öll getum við gert eitthvað. Á heimilum okkar og vinnustöðum, í neyslu okkar og meðferð lífsgæða, hvernig við verjum athkvæði okkar og notum peninga.  Sóknarnefnd Hallgrímskirkju t.d. undirbýr nú að Hallgrímskirkja verði græn kirkja.

Á nýju ári er heimurinn blessaður. Í ómstríðri raddhviðu heimsbyggðarinnar hljóma hughreystingarorð, í sorg hljómar hvísl vonarinnar. Gegn mengun hljóma textar blessunar. Kristnin virðir skugga og áföll – talar alltaf með rödd hins góða og eflandi.

Kristindómur er átrúnaður lífs gegn dauða. Boðskapurinn er: Dauðinn dó en lífið lifir. Guð kallar fram líf – gleði, von, vit, ljós og kallar fólk til verka. Nýársheit Guðs er blessun.

Amen.

Prédikun 1. janúar, 2018. Hallgrímskirkja. 

Grist: https://grist.org/article/greta-thunberg-activist-cop24-katowice/

http://www.visir.is/g/2018181219320

Blessunarorðin – 4Mós 6.22-26
Drottinn talaði til Móse og sagði: „Ávarpaðu Aron og syni hans og segðu: Með þessum orðum skuluð þið blessa Ísraelsmenn: Drottinn blessi þig og varðveiti þig, Drottinn láti sína ásjónu lýsa yfir þig og sé þér náðugur, Drottinn upplyfti sínu augliti yfir þig og gefi þér frið.