Greinasafn fyrir merki: Saga býflugnanna

Saga býflugnanna

Það er nafnið á bók Maju Lunde. Saga býflugnanna er marglaga saga. Hún spannar ekki aðeins langan tíma heldur tengir saman lönd og álfur, menningarhefðir og ólíkt fólk.

Árið 1852 reis Willam upp úr langvarandi þunglyndi og fór að vinna að nýrri gerð býflugnabúa. Við kynnumst sögu hans og draumum um að geta helgað sig vísindum. En hann datt út og niður. Lífið hélt þó áfram og börnin hans höfðu sínar vonir. Og þær fléttuðust í aðrar sögur og vísuðu til framtíðar, eins og vonir manna gera.

Svo er í býflugnasögunni hoppað til George sem stritaði við býflugnaræktun í Bandaríkjunum árið 2007. Lífsbaráttu hans, konu hans og draumum sonarins er lýst. Allt í einu varð skyndidauði í búum George og líf fjölskyldunnar breyttist fullkomlega. En sonurinn átti sér sýn um annað en iðnarbúskap, sýn um lífvænlega veröld. Vonir vísa fram.

Svo er líka hoppað í sögunni til Tao sem vann við að handfrjóvga ávaxtatré í Kína árið 2098  þegar býflugur heimsins höfðu dáið. Tao á mann og líka son. Hún stritar á ökrunum en hefði gjarnan viljað helga sig bókum og fræðum, en sá lúxus hafði vikið fyrir líkamspuði. Svo varð slys sem breytti lífi Tao og hún lagðið upp í mikla ferð til að leita að syni sínum og kanna örlög hans.

Í þeirri ferð fléttast saman saga Williams frá 1852, saga George frá 2007 og saga Tao árið 2098. Þau áttu öll börn sem voru ekki aðeins viðtakendur í lífinu, heldur gerendur. Saga þeirra allra tengist grunnþáttum lífsins, sem býflugur eru tákn fyrir. Þegar býflugurnar urðu skyndidauðanum að bráð breyttist allt í veröldinni.

Í fyrra las ég bókina Blá eftir Maju Lunde. Og svo las ég þessa merkilegu, margslungnu og vel fléttuðu bók Saga býflugnanna. Báðar bækurnar eru náttúrutengdar. Þær segja sögur um afleiðingar þess ef fólk tapar náttúruvisku, virðir ekki teikn umhverfisins og skeytir ekki um hjálparbeiðni lífríkisins, þ.e. vill ekki heyra guðshvíslið. Mæli með báðum bókunum.

Saga býflugnanna er áleitin bók um frumþætti lífs. Maja Lunde er klókur og fræðalesinn höfundur. Í Blá er það vatnið og ríkidæmi þess sem er í forgrunni, en flugnafræðin í býflugnabókinni. Maja Lunde kann þau og miðlar þeim ásamt því að segja spennandi sögu hinna vængjuðu vina planta og mannfólks. Sögurnar þeyta upp alls konar skemmtilegheitum. Guðfræðingnum þótti t.d. skemmtilegt að ein söguhetjan las Rómverjabréfið til að fræðast um Pál postula. Skýringin var að það rit gæfi besta yfirlitið um guðfræði postulans. Maja Lunde vel lesin og búin að vinna heimavinnuna. Hún er ekki aðeins penni skemmtandi fagurbókmennta eða hliðrænna veralda heldur þekkingartúlkandi fræðari sem vekur til vitundar um tengsl við umhverfi og ríki lífsins.

Ingunn Ásdísardóttir þýddi, hún er í uppáhaldi á mínum bæ. Forlagið gefur út. Mæli með Maju Lunde. Og varðandi býflugurnar er ég að velta vöngum yfir hvort ég ætti að fá mér bú.  

  1. ágúst, 2020.

Svona til dýpkunar er hér að baki þessari smellu grein á BBC um býflugurnar á okkar tíma.