Ásgeir Ásgeirsson – maðurinn og meistarinn

Gagnrýni er nauðsynleg og mikilvægt að mál séu skoðuð og rædd. En átök harðna þessa dagana í aðdraganda forsetakjörs. Sumar facebooksíðurnar eru rætnar og hjólað er í „manninn“ fremur en málefnin. Sanngirni og mannvirðing eru mikilvægar systur gagnrýninnar.

Á þessum framboðstíma er ég er að lesa persónulega bók um annan forseta lýðveldisins. Tryggvi Pálsson, fyrrum bankastjóri og núverandi formaður bankasýslunnar, skrifaði hana: Ásgeir Ásgeirsson, maðurinn og meistarinn. Tryggvi og Rannveig kona hans komu í vikunni á heimili mitt á útskriftarhátíð Magnavita-námsins og komu færandi hendi. Tryggvi áritaði bókina og gaf syni mínum. Ég sé af bókamerkinu að drengurinn er að lesa bókina en laumaðist í hana meðan hann er í skólanum. Skemmtileg bók. Tryggvi gerir vel grein fyrir ferli Ásgeirs, pólitískum áherslum, stefnumálum, þjónustu við umbjóðendur. Þá lýsir hann pólitískum gildum og viðmiðum Ásgeirs  og áhugaefnum og hvernig hann mótaði  forsetaembættið. Ásgeir gerði Bessastaðakirkju mikið gagn og mótaði viðgerð, skreytingu og búnað og hafði mótandi áhrif á breytingum staðarhúsa. Svo er frímúravíddin líka merkileg og merkilegur þáttur bókarinnar. 

Ég man vel eftir Ásgeiri forseta þegar hann í elli og ekkilsstandi bjó á Aragötunni. Ég fór stundum með vörur til hans úr Árnabúð á Fálkagötunni og hann tók mér alltaf vel. Síðar las ég ýmis rit Ásgeirs til undirbúnings skrifa doktorsritgerðar minnar og m.a. hið hressilega og áhugverða rit Kver og kirkja. Ég sannfærðist þá um hæfni og getu Ásgeirs og þótti snerpan merkileg. Í bók Tryggva um afa hans eru ýmsar sögur og m.a. þessi lykilsaga um nálgun og afstöðu Ásgeirs.

Bóndi að vestan í Reykjavíkurför hitti fyrst Jónas frá Hriflu og síðan Ásgeir Ásgeirsson en þá greindi oft á um mál og leiðir og áttu raunar í langvinnu átakasambandi. Bóndinn hitti fyrst Jónas sem lagði illt til Ásgeirs. Síðan hitti hann Ásgeir sem vildi láta Jónas njóta sanngirni. „Bóndinn mælti í undrunartón: „Það er fallegt af þér að tala svona vingjarnlega um Jónas frá Hriflu, þar sem hann talar svona illa um þig.“ Ásgeir svaraði alúðlega: „Ef til vill skjátlast okkur báðum.“ 

Illkvittið orðalag er ekki að finna í skrifum Ásgeirs en hann var hnyttinn og þurfti ekki hávaða til að skella öðrum. Orðkynngi er betri en hnútukast. Sagan er innlegg til íhugunar fyrir kosningabaráttu maímánaðar. Takk Tryggvi og lof sé þér fyrir þessa skemmilegu bók.