+ Jón Örvar Skagfjörð +

Það var gott að leita til Jóns Skagfjörð. Fyrir meira en þrjátíu árum var ég í vandræðum með póstsendingu þegar hann var stöðvarstjóri á Selfossi. Ég var ósáttur við málsmeðferð póstsins og yfirmaðurinn var því kallaður til. Jón hlustaði vel, spurði lykilspurninga, bar fulla virðingu fyrir viðmælanda sínum og úrskurðaði svo í málinu og allir máttu vel við una. Ég hugsaði með mér þegar ég kom út úr pósthúsinu á Selfossi. Þetta er merkilegur maður. Hann er vanda og stöðu vaxinn, góður yfirmaður, sem hlustar og fer ekki í varnarstöðu og greiðir farsællega úr vanda.

Fyrstu kynni okkar rifjuðust upp þegar við vorum báðir komnir til Reykjavíkur að nýju eftir langdvalir í Árnessýslu. Hann á Dunhagann og ég á Grímsstaðaholtið. Og svo tengdust við betur þegar Unnur lést og var jarðsungin frá Neskirkju. Við töluðum saman og fórum yfir stærstu mál lífsins Þá leyfði hann mér að skyggnast inn í huga sinn og kynnast sér persónulega. Þá skildi ég betur gæðin, skerpuna, greindina og mannúð Jóns og vinsemd. Við kveðjum þennan Jón Örvar Skagfjörð, mannkostamann, sem alla vildi virða og efla, gekk til verka sinna með heilindum og alúð og færði allt til betri vegar. Í honum bjó viska, gæði, festa og kyrra, sem hreif mig og samferðamenn hans. Hann speglaði í lífi sínu og tengslum bylgjur af himninum, þessu sem Jesús Kristur vildi að einkenndi samskipti fólks. Kærleika.

Upphaf og æfi

Jón Örvar Skagfjörð var Reykjavíkurmaður, en bjó lengi á landsbyggðinni. Hann var sumarmaður, fæddist 14. júlí 1928, en lést svo inn í haustið. Foreldrar Jóns voru Sigurður Skagfjörð, trésmiður (1878 -1964) og Guðfinna Skagfjörð, húsmóðir (1899-1988). Talsverður aldursmunur var á foreldrum hans, 21 ár. Sigurður var ekkjumaður þegar þau Guðfinna tóku saman. Jón átti eldri hálfsystkin af fyrra hjónabandi föður hans. Þau voru Vilhelm Stefán (1905-1973) og Björghildur Klara, (1907-1985), bæði látin fyrir áratugum, Vilhelm lést 1973 og Björghildur 1985. Alsystkini Jóns, sammæðra voru Sigríður (f. 1933) og Jórunn (1937-1948). Sigríður lést árið 2007 en Jórunn varð ekki nema tíu ára er hún dó.

Jón ólst upp í Þingholtunum. Fjölskyldan bjó á Baldursgötu 16, sem er næsta hús við þar sem nú er veitingastaðurinn Þrír frakkar. Í hverfinu var ríkulegt mannlíf, fjöldi barna var í flestum húsum og margir að leika við. Jón rölti yfir Skólavörðuholtið til náms í Austubæjarskola. Svo þegar hann hafði lokið honum fór hann í Gagnfræðaskóla Austurbæjar.

Jón var sá lukkhrólfur, að geta farið í sveit á sumrum. Hann fór austur í Ölfus og var snúningadrengur á Krossi hjá afa sínum og ömmu, Jóni Jónssyni og Jórunni Markúsdóttur, fram á unglingsár. Bærinn Kross var í þjóðleið og Jón fylgdist því með því sem var að gerast í Hveragerði, sveitunum í kring og líka Selfossi. Hann sagði síðar, að hann hefði verið hændur að skepnunum og verið mikill vinur heimilishundsins á Krossi. Og þeir hefðu haft líka skoðun á tómötum, sem Jón smakkaði í fyrsta sinn þar eystra. Honum þótti tómaturinn forvondur og hundinum líka. Vegna þessarar sveitaveru í Ölfusinu varð Jón líka sveitamaður og Árnesingur. Og kannski skýrir það að hann vildi síðar búa austan fyrir fjall.   

Þegar Jón stálpaðist fór hann að leita sér að vinnu í Reykjavík. Á unglingsaldri tók hann að sér það ábyrgðarverk að sendast með lyf og vörur fyrir Reykjavíkurapótek. Unglingum hefði ekki verið treyst fyrir slíku verki nú, en Jóni Örvari Skagfjörð var treyst. Honum var alltaf treystandi.

Eftir gagnfræðapróf fór Jón í Loftskeytaskólann og lærði síðan símvirkjun hjá Landssímanum. Hann fékk strax vinnu að loknu námi og starfaði á radíóverkstæði Landsímans. Og af því Jóni var treystandi var hann sendur víða um land til að gera við fjarskiptabúnað. Honum þótti gaman að fá tækifæri til að skoða landið og m.a. þótti honum áhrifaríkt að koma í Breiðafjarðareyjar.

Á þessum árum þróðust fjarskipti ört og símamennirnir fylgdust með að lórantæknin lofaði góðu. Svo varð að ráði í samskiptum við Bandaríkjamenn að byggð var Lóranstöð á Gufuskálum á Snæfellsnesi. Hópur af símamönnum var sendur vestur um haf til að læra tæknina og á tækin. Jón var í þeim hópi og fór árið 1960 til New Jersey og Connecticut til náms. Í framhaldinu varð Jón næstráðandi á Gufuskálum og var þar til ársins 1966 og naut stuðnings konu sinnar til þessarar veru á Snæfellsnesi. Það var ekki sjálfsagt að fara með tvö ung börn vestur, en þau hjón voru samstiga. Eftir flutning í bæinn – þ.e. frá 1966 – starfaði Jón á skrifstofu ritsímastjóra í Reykjavík til 1975. Þá var hann skipaður stöðvarstjóri Pósts og síma á Selfossi og var í einn og hálfan áratug. Árið 1989 varð Jón svo umsjónarmaður Póst- og símaminjasafnins í Hafnarfirði og var þar næstu tíu árin.

Hjúskapur Jóns og Unnar

Það var hrífandi að heyra Jón tala um Unni, tilhugalíf þeirra og hjúskap. Jón átti í konu sinni öflugan maka, félaga, ráðgjafa og vin.

Það var á móts við Hegningarhúsið við Skólavörðustíg, sem Jón sá Unni og hún hann. Hann var á leiðinni til mömmu sinnar í mat, en hún var á leið milli saumastofu Kápunnar og heimilis. Hegningarhúsið hefur sjaldan verið talið ástartákn, en Unnur var húmoristi, kannski vissi hún um ferðir Jóns og valdi jafnvel staðinn! En ævi þeirra Jóns var líf í frelsi, líf fyrir hvort annað og í krafti beggja. Þeirra hús var hús elskunnar. En Skólavörðustígurinn til móts við Hegningarhúsið verður ávallt rómantískur staður í mínum huga eftir að ég heyrði Jón segja svo fagurlega og blíðlega frá ástarvitrun þeirra!

Þau höfðu séð hvort annað áður en Skólavörðustígurinn varð þeirra ástarstígur. Jón hafði séð þennan „vel klædda kvenmann“ – eins og hann orðaði það sjálfur – á balli í Vetrargarðinum í Tívolí, „konuna með stóru, brúnu augun.“ Honum leist vel á hana. Einhver hvíslaði líka að Unni, að hún skyldi hafa augun með þessum Jóni því hann væri góður strákur! Frá vorinu árið 1951 leiddust þau síðan í gegnum lífið og gengu í hjónaband 12. júní 1953. Þau áttu samleið í meira en hálfa öld þar til Unnur lést árið 2005.

Fyrstu hjúskaparárin leigðu þau Jón á Skeggjagötu 6. Þeim var svo boðið að vera með í byggingu símablokkarinnar við Dunhaga. Tilboðið var einfalt: Þau Unnur þyrftu ekki að eiga neina peninga, þetta kæmi allt af sjálfu sér! Íslenska aðferði, þetta reddast, og hún gekk í þetta skiptið, enda Jón og Unnur samstillt og stefnuföst. Fyrsta innborgun – tíu þúsund krónur – var ekki auðveld viðureignar, en þau hvikuðu ekki. Þeim tókst að öngla saman og héldu áfram með ráðdeild og með hjálp ættingja og vina

Á Dunhaganum varð heimili fjölskyldunnar og umhverfi, með öllum tilbrigðum, kostum, möguleikum og spennu nýbyggingarhverfis. Stutt var niður í fjöru, stutt í mjólkurbúðina, skóbúðina og KRON. Dóri í fiskbúðinni seldi fiskinn og barnafjöldinn var mikill í hverfinu sem iðaði af lífi og leikjum. Og stutt var í skólana í hverfinu. 

Börnin og afkomendur

Börn Unnar og Jóns eru tvö: Guðfinna Alda Skagfjörð og Gísli Skagfjörð. Guðfinna fæddist 2. nóvember árið 1953 en Gísli 14. ágúst árið 1957.

Guðfinna hefur starfað sem viðskiptafræðingur hjá dönsku póstþjónustunni. Maður hennar er Björgvin Gylfi Snorrason. Þau eiga þau tvær dætur. Þær eru Karen Lilja og Eva Björk. Karen Lilja (f. 14. apríl 1985) er meistari í viðskiftafræði og vinnur hjá Pepsico Nordic. Sambýlismaður hennar er Christian Parisot Guterres. Þau eiga synina Tao Lilja (f. 27. júní 2012) og Soul Lilja (f. 16. júlí 2014).

Eva Björk (f. 28. nóvember 1988) er með meistarapróf í stærðfræði og hagfræði og vinnur hjá orkufyrirtækinu Örsted. Sambýlismaður hennar er Anders S. R. Ødum.

Sonur Unnar og Jóns er Gísli Skagfjörð, verkfræðingur. Hann starfar hjá Borgarskjalasafni.

Jón var natinn fjölskyldumaður, sinnti börnum sínum vel í uppvexti, studdi í námi, hafði skoðun á ballferðum unglingsáranna og Guðfinna hafði lag á að fá mömmu sína að tala við pabban ef óvisst var um útivistarleyfið. Engum sögum fer af því, að Gísli hafi beitt sömu ráðum! Þau Unnur fóru gjarnan til Danmerkur til að vitja Guðfinnu og fjölskyldu hennar, þótti gott að vera með þeim og hjá þeim. Og svo þegar dótturdæturnar voru nægilega stórar komu þær og nutu góðs atlætis á Dunhaganum. Jón sá til þess að ungviðinu liði vel.

Dinah Dunn og Magnús Hansson geta ekki verið við útför en biðja fyrir kveðju til ykkar ástvina og fjölskyldu.

Minningarnar

Nú er valmennið Jón Örvar Skagfjörð allur. Hvernig minnistu hans og hvernig viltu vitja hans í huga þér? Hann var skapgóður geðprýðismaður, sanngjarn og traustur. Alltaf var hægt að reiða sig á Jón – á hverju sem gekk. Hann hafði líka hvetjandi áhrif og vænti þess að fólk stæði við það sem það hafði lofað eða talað um. Hann efldi fólk til ábyrgðar og að vera stöndugt. Jón var því öflugur uppaldandi og eflandi stjórnandi. Enda var honum falin ábyrgð fyrr og síðar í störfum. Jóni var treystandi. Og hann vildi að fólkið hans væri þannig, afkomendur einnig. Það hefur enda gengið eftir.

Það var tónlist í Jóni og þau Unnur sóttu gjarnan tónleika. Jón var félagslyndur, sótti gjarnan mannfundi og kom sér hvarvetna vel vegna gæflyndis og jákvæðni í samskiptum. Og ég tók eftir, að þegar hann fór að sækja kirkjustarf í Neskirkju, laðaðist fólk að honum. Hann hafði lag á að skapa traust og allir áttu í honum góðan og hlýjan viðræðufélaga. Þökk sé Jóni fyrir allt það sem hann lagði gott til.

Jón fylgdist vel með samfélagsmálum. Hann var fær um að breyta til í pólitík þegar hann taldi það nauðsynlegt. Hann kaus ekki endilega sama flokkinn aftur og aftur. Unnur var líka góður greinandi þjóðfélags og þau hjón stóðu með uppbyggingu og réttlæti.

Jón var ljóðamaður og las ekki bara Einar Ben., Stephan G. og Tómas heldur líka nútímaskáldin. Hann var alla tíð opinn og þorði að skoða nýungar og íhuga dýpri rök og þróun. Jón var enginn dellumaður en hafði hins vegar áhuga á mörgu og skoðaði með vökulum huga.

Og hann vann svo með líf og störf að hann horfði sáttur til baka. Sátt við eigin líf er öllum mikilvægt.

Leiðarlok

Þegar aldur færðist yfir og heilsan fór að bresta flutti Gísli til föður síns til að tryggja velferð hans. Þökk sé Gísla fyrir umhyggjuna. En Jón var meðvitaður um eigin stöðu og heilsufarsmál sín og ákvað sjálfur, að tímbært væri að hann færi á dvalarheimili. Hann fékk inni á Grund og dvaldi þar í góðu yfirlæti í tvö ár. Flestir, sem þangað hafa farið og verið, vita að fólkið er mikilvægara en húsnæði. Starfsfólkið gerir allt hvað það getur til að þjóna heimilisfólki vel. Þökk sé þeim. Jón lést á Grund þann 30. október síðastliðinn og var því níræður þegar hann fór inn í himininn.

Við leiðarlok horfum við til baka. Jón kunni að tengja, kunni á löngu línurnar – í atvinnu- og einka-lífi einnig. Við megum gjarnan hugsa um, hvað við getum lært af honum í tengslum. Við þurfum að gæta þess að rækta stöðugt tengsl við fólk, atvinnulíf og gildin í djúpum sálar og menningar. Í því var Jón okkur skínandi fyrirmynd. Svo hafði hann ágætar tengingar inn í ofurvíddir himinsins. Þar virkar ekki lóran, bylgjur eða búnaður – heldur sálaropnun – trú. Þegar lífi lýkur og við stöndum við brú eilífðar þá megum við opna. Guð kristninnar er Guð algerrar elsku. Guð er traustur, alltaf til staðar, staðsetur okkur af nákvæmni og týnir okkur aldrei. Inn í þá bylgjuvídd er Jón farinn og Unnur líka. Guð geymi þau. Og Guð geymi þig.

Minningarorð í Neskirkju þriðjudaginn 20. nóvember 2018, kl. 13. Bálför og erfidrykkja í Neskirkju. Vinakórinn. Steingrímur Þórhallsson. Útfararstofa kirkjugarðanna.