Himinn í mömmubumbu

Á þessum mæðradegi ræðum við um himininn og móður allrar miskunnar, Guð. Margar sögur eru um hvernig fólk hugsar um líf handan dauða. Lína langsokkur var móðurlaus og horfði oft upp í himininn og hugsaði um mömmu sína. Henni fannst hliðin, sem að okkur snýr, öfuga hliðin á himninum, vera falleg og dró því þá ályktun, að hin hliðin hlyti að vera enn betri fyrst rangan væri svona flott.

Veraldarvefurinn ber vott um, að himininn er mikilvægt umhugsunarefni. Ég fletti með Google og komst að því að 640 milljón síður koma upp þegar leitað er undir orðinu heaven. Himmel vísaði á 173 milljónir síðna. Og þegar íslenska orðið himinn var sett inn voru vísanirnar 634 þúsund. Paradís er það, sem flestir vona og um það efni eru á vefnum 664 milljónir vísanir.

Himnaríkisdæmi

Áhuginn er mikill, en svo eru hugmyndirnar um himnaríki mjög mismunandi. Allir foreldrar þekkja glímuna við að skýra út dauðann fyrir börnum, lífsför langömmu eða afa inn í eilífðina. Síðan verður að skýra hvar Guð býr og hvar ekki. Barnið gerir sér bókstaflegar ímyndir og skýringar. Niður er vont, upp er gott.

Í Gullna hliðinu notaði Davíð Stefánsson – í viðbót við stefin úr Opinberunarbók Jóhannesar – kotbændatúlkun á himinhliðinu. Húmor er til hjápar við að nálgast flókin mál, en kannski fjallaði Gullna hliðið fremur um meðvirka eiginkonu hins látna en ferð þeirra hjóna að himinhliðinu!

Í Islam hefur himindýrðin verið útmáluð með munúðarfullum sögum um líkamsnautnir hinna hólpnu í Paradís. Í fornöld vildu norrænir spennufíklar og dýrkendur hermennsku gjarnan halda leikjum áfram. Í Valhöll var hryllingi stríðsins sleppt en haldið í gamanið. Spíritistar fregnuðu og kenndu á sínum tíma, að himinvíddir væru alla vega sjö og sálin færi mishratt um þær veraldir á þroskaferli sínum. Joe Hill talaði um “You’ll get pie in the sky, when you die.” Astrid Lindgren dró upp dásamlega veröld í Rósadal Nangijala í bókinni Bróðir minn Ljónshjarta, sem flestir íslenskir krakkar hafa heyrt eða lesið. Himnaríkið, sem Astrid Lindgren lýsti, var þróunarveröld rétt eins sálarheimar spíritista.

Frá hinu þekkta til hins óþekkta

Himinsýn – mynd Þorsteins Jósepssonar

Hvernig verða himnaríkismyndir til? Eins og barnið, sem sér stjörnurnar og skilur með sínum forsendum, erum við öll misstór börn, sem liggjum á bakinu, störum upp í himininn og skiljum og tjáum með okkar viti hvað verður. En orð um aðra veröld eru ekki og verða aldrei sannanleg lýsing. Við getum aldrei talað um himininn í öðru en líkingum. Myndmálið er tæki til að tjá það, sem við höfum hugboð um, dreymir um og vonum.

Til að staðsetja trúarhugmyndir okkar, sem varða himnaríkið og framhaldið, ættum við íhuga fyrst hvernig við manneskjurnar hugsum. Það er þarft að muna hvernig við lærum og þroskumst. Við byrjum alltaf þar sem við erum, lærum út frá því sem við kunnum, skiljum alltaf út frá hinu þekkta.

Himinvarp

Munum, að menn varpa þrá og djúpsettum hugmyndum upp á himin vonanna. Það þarf ekki mikið hugarflug til að gera sér grein fyrir að þá múslima, sem dreymdi munúðarfulla drauma um tilkippilegar meyjar, voru kynsveltir karlar. Kannski má sjá í elýsesískri þægindaveröld Grikkja að einhverju leyti vörpun á vonum þeirra, sem var annað hvort of heitt eða kalt. Vísast var Valhallarveröldin draumur hermanna og spennufíkla, sem hræddumst hrylling stríðs en þráðu spennuna áfram. Gullslegin hús og prýdd veröld himnaríkis er vörpun á þrá hins fátæka manns. Kannski er Disneyland einna besta raungering hinna barnalegu drauma.

Himnaríkið þitt

En hvert er þitt himnaríki? Íhugaðu og virtu vonir þínar og reyndu að greina þína himinveröld. Það er mikilvægt og frjótt að vinna það verk því þá lærir þú betur að þekkja þig. Þér mun örugglega ekki takast að búa til himininn. En ef þér lánast vel gerir þú þér kannski betur grein fyrir takmörkunum sjálfs þín, mörkum hinnar mannlegu ímyndunar og skilnings og hvert er sumarland þinnar dýpstu þrár.

Búa ykkur stað

Verið ekki áhyggjufull minnir Jesús vini sína á í guðspjalli dagsins. Ég fer frá ykkur til að undirbúa framtíðarveröld ykkar, búa ykkur stað því vistarverur guðsríkisins eru svo margar að komu ykkar þarf að undirbúa. Tómas var nægilega jarðtengdur og í sambandi við sjálfan sig að hann viðurkendi, að hann skildi Jesú ekki, vissi ekki hvaða leið lægi til ríkis Guðs og hvernig himnaríkið yrði. Hvernig eigum við að vita hvaða leið við eigum að fara?

Jesús tekur af allan vafa um, að það sé hann sem opnar hliðið, það sé hann sem gerir veginn og segir efasemdarmanninum Tómasi, að hann sé vegurinn sjálfur, sannleikurinn og lífið. Þar með gerði hann grein fyrir himninum, skýrði út eðli og gerð hans.

Fósturhugmyndir

Oft horfi ég dáleiddur á litlu börnin, sem ég skíri og velti vöngum yfir upplifunum þeirra og hugsunum. Einu sinni varstu svona peð. Hvað hugsaðir þú, hvernig var veröld þín? Var hún ekki talsvert ólík veröld þinni nú?

Og hvað hugsaðir þú þegar þú enn varst í kviði móður þinnar? Gastu ímyndað þér veröldina þegar þú varst þar inni? Vissulega gastu heyrt hljóð, fannst til með mömmu þinni, fékkst innskot af adrenalíni í æðar þínar, þegar hún var hrædd eða spennt, fannst fyrir vellíðan hennar, þegar henni leið vel. Þá slakaðir þú á í kyrrð mömmunnar. Þú fannst fyrir veröldinni utan bumbunnar en skildir hana ekki. Vissir ekkert um liti hennar, fannst ekki fyrir vindinum, sást ekki fuglana, ásjónur þeirra sem elskuðu þig, vissir ekkert um útlit herbergjanna eða vistarveranna, sem fjölskylda þín bjó í.

Vissir þú í móðurbumbunni nokkuð um bíla, neyslu, fátækt, kreppu eða loftslagsvá? Nei, en þú varst samt sprellifandi. Smátilveran var þér fullkomlega nægileg. En þó tilveran væri stærri en móðurlegið skildir þú hana ekki. Þú og öll börn fæðast fákunnandi um veröldina. Það er nóg sem gefið er til að hefja lífið. Kunnáttan, skilningurinn kemur síðar þegar þroskinn vex í þessari raunveröld okkar. Eitt skref í einu og góðir hlutir gerast hægt. Góðar mömmur og góðir pabbar eru undraverðir leiðbeinendur og þroskavakar. 

Hin stórkostlega fæðing

Við fáum og njótum þess, sem er okkur nægilegt á hverju skeiði. Fóstrið hafði allt og síðan elskuarma til stuðnings eftir fæðingu til nýrrar veraldar. Og það er okkur til skilningsauka þegar við hugsum um eilífa lífið. Hvað tekur við eftir dauðann? Hvernig verður hinum megin? Getur þú ímyndað þér það? Þó að þú hafir ekki getað ímyndað þér hvað tæki við þegar þú fæddist þá tók tilveran við og var margbreytileg og fjölskrúðug. Þó þú getir ekki ímyndað þér hvernig eilífa lífið verður getur það orðið mun stórkostlegra en þú getur ímyndað þér, rétt eins og tilveran varð litríkari og fjölbreytilegri en barn í móðurkviði hefði getað hugsað sér.

Margir eiga í erfiðleikum með trú og eru kvíðnir gagnvart óvissuferðinni inn í eilífðina. Fólk á í erfiðleikum með hvað við tekur, reynir að fá botn í hugsanir sínar, uppgötva með skynsemi sinni um framhaldið. Að vera kristinn er að fylgja Jesú alla leið. Hann dó en hann reis upp. Þú munt deyja, allir þínir munu deyja, en Jesús vill að þú og allt þitt fólk rísið upp til eilífs lífs. Hann fór alla leið og leiðir þig leiðina líka. Vegurinn, sannleikurinn og lífið.

Þú mátt horfa með augum barnsins og ímynda þér réttuna á himinum. Þú getur gert þér grein fyrir, að allt eru þetta aðeins vísbendingar því þú ert í móðurkviði náttúrunnar. Þú átt eftir að fæðast til réttunnar, inn í faðm þeirra sem elska þig. Og sá móðurfaðmur er Guð. Jesús Kristur, er búinn að hanna og smíða stórkostlega veröld. Þar eru vistarverur handa þér. Við vitum ekki hvernig hún verður nákvæmlega, því hið biblíulega málfar er ekki bókstafleg lýsing heldur er mál Biblíunnar myndrænt, hliðstæðu-orðræða. En þú mátt trúa Jesú, að hann verði nærri og það er aðalatriðið.

Ferðin þín inn í eilífðina byrjar ekki í framtíð, heldur í bernsku þinni, þegar rétta himinsins umvafði tilveru þína við skírnarfontinn. Eilífðarlífið er byrjað í þér – það byrjaði í skírninni. Þú ert á meðgönguskeiði en fæðing til himins verður síðar. Notaðu lífið, þessa meðgöngu anda þíns og sálar til að leyfa hinum andlegu líffærum að þroskast vel. Stressaðu þig ekki yfir því þótt þú skiljir ekki öll hljóð og áhrif himinsins nú þótt þau berist þér í gegnum náttúrubumbuna og móðurleg kirkjunnar. Þegar þú deyrð, fæðist þú til nýrrar tilveru og þá muntu sjá ljós, liti og dýrð sem tekur fram öllu því, sem þú ímyndar þér á fósturskeiði trúar þinnar. Spennandi! Já, svo sannarlega því lífið lifir fyrir Jesú Krist.

Hallgrímskirkja 3sdepaska 2019, mæðradagurinn, messunni úrvarpað á RÚV. Slóðin verður opin einhverja daga: https://www.ruv.is/sjonvarp/spila/gudsthjonusta/24228?ep=7hi3bm

Lexía: Slm 126

Þegar Drottinn sneri við hag Síonar
var sem oss dreymdi.
Þá fylltist munnur vor hlátri
og tungur vorar fögnuði.
Þá sögðu menn meðal þjóðanna:
„Mikla hluti hefur Drottinn gert við þá.“
Drottinn hefur gert mikla hluti við oss,
vér vorum glaðir.
Snú við hag vorum, Drottinn,
eins og þú fyllir þurra farvegi í Suðurlandi.
Þeir sem sá með tárum
munu uppskera með gleðisöng.
Grátandi fara menn
og bera sáðkorn til sáningar,
með gleðisöng koma þeir aftur
og bera kornbindin heim.

Pistill: 2Kor 4.14-18
Ég veit að Guð, sem vakti upp Drottin Jesú, mun einnig uppvekja mig ásamt Jesú og leiða mig fram ásamt ykkur. Allt er þetta ykkar vegna til þess að náðin verði sem mest og láti sem flesta flytja þakkargjörð Guði til dýrðar. Fyrir því læt ég ekki hugfallast. Jafnvel þótt minn ytri maður hrörni þá endurnýjast dag frá degi minn innri maður. Þrenging mín er skammvinn og léttbær og aflar mér eilífrar dýrðar sem stórum yfirgnæfir allt. Ég horfi ekki á hið sýnilega heldur hið ósýnilega. Hið sýnilega er stundlegt en hið ósýnilega eilíft.

Guðspjall: Jóh 14.1-11
„Hjarta yðar skelfist ekki. Trúið á Guð og trúið á mig. Í húsi föður míns eru margar vistarverur. Væri ekki svo hefði ég þá sagt yður að ég færi burt að búa yður stað? Þegar ég er farinn burt og hef búið yður stað kem ég aftur og tek yður til mín svo að þér séuð einnig þar sem ég er. Veginn þangað sem ég fer þekkið þér.“ Tómas segir við hann: „Drottinn, við vitum ekki hvert þú ferð, hvernig getum við þá þekkt veginn?“ Jesús segir við hann: „Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið.

Leiðtoginn sem elskar og …

“Drottinn er minn hirðir” segir í 23. Davíðssálmi. Jesús bætir við og segir um sjálfan sig: “Ég er góði hirðirinn.” Mörg eigum við minningar um litríkar biblíumyndir, sem afhentar voru í sunnudagskólum kirkjunnar. Meðal þeirra voru myndir af fallegum Jesú í framandlegum fötum og í upphöfnu landslagi. Á mörgum myndanna hélt Jesús á lambi, sem hvíldi óttalaust á armi hans. Hann hafði gjarnan staf í hendi, risastaf, mannhæðarháan. Myndin á Ljósgeislamyndunum brenndist inn í vitundina, þannig hlytu Jesús og stafurinn að hafa litið út. Eftir á að hyggja held ég, að ég hafi haft meiri áhuga á staf Jesú en hirðishlutverki hans, meiri áhuga á græjunni en gerandanum. Og þannig er það með afstöðu margra til trúar – meiri áhugi á smáatriðunum, en á aðalmálinu, meiri áhugi á aukaatriðum en aðalpersónunni.

Elska og afleiðingar

Í texta dagsins talar Jesús við sitt fólk. Og samtalsaðferðin er mjög persónuleg og ávirk. Hann spyr beinnar spurningar, sömu spurningarinnar, aftur og aftur og ekki annað hægt en svara. Jesús spyr Símon Pétur: “Elskar þú mig?” – ekki einu sinni eða tvisvar, heldur þrisvar! Það hlýtur að hafa verið óþægilegt að svara svona persónulegri spurningu aftur og aftur. Þrisvar nefndi Jesús afleiðingu elskunnar: Gæta sauðanna. Hvað er málið? Það er að elska hirðinn og gæta sauðanna. Þá höfum við það. Boðskapur þessa sunnudags á gleðidögum er að elska og passa. Elskar þú? Gætir þú? Spurning Jesú varðar þjóðfélag, kirkju, menningu, heimili, þennan söfnuð, aðalfund sóknarinnar og þitt eigið líf. Elskar þú? Gætir þú? Þroskatvenna lífs og kirkju er að elska og gæta. Gæta og elska – það er einkenni góðs mannlífs, tilgangsríks lífs.

Brestir og viðmið

Tungumálið er lifandi og breytist. Mikilvægur þáttur þess eru líkingar, myndmálið sem við notum til að túlka viðburði og skýra og skilja. Og líkingar lifna í málinu en geta líka dáið, tapað merkingu og orðið líflausar klisjur. Hirðishlutverkið skildist í landbúnaðarsamhengi, en síður nú þegar engir fjárhirðar eru í fjölskyldu okkar lengur. Ég spurði einu sinni barn hvað fjárhirðir væri og fékk svarið: „Það er sá sem tekur alla peningana og hleypur svo í burtu!“ Sem sé, hirðir peningana og leggur svo á flótta! En hirðir er ekki þjófur heldur þvert á móti. Hirðir er vörður og verndari lífs.

Hverjir eru hirðar í samtíðinni? Það eru þau, sem hafa áhrif til góðs. Það eru leiðtogarnir. Hirðir er leiðtogi, sem eflir líf annarra. Hirðir er ekki sá eða sú, sem stýrir í krafti stöðu eða valds heldur lífsgæða.

Leiðtogahlutverk er ekki sjálfgefið og er á breytingaskeiði í samtíð okkar. Börn þarfnast góðra fyrirmynda, nándar foreldra og ástvina. Annars verður sjálfsmynd þeirra sprungin. Poppgoðin, álitsgjafar og íþróttahetjur eru ímyndir en ekki góðir hirðar, sem taka í hendina á fólki og þrýsta að barmi sér, þegar ástarsorgir dynja yfir, maki deyr eða áföll lama einstaklinga og fjölskyldur. Þau, sem ekki hafa notið góðra fyrirmynda og eru neydd til að búa sig til sjálf, púsla eigið egó úr molum og brotum, verða aldrei annað en samtíningur, án kjarna og heildarmyndar. Hver eru góðir leiðtogar. Elskar þú og passar þú?

Skjól í veröldinni

Hvernig varstu þegar þú fæddist? Þú varst örugglega hrífandi og hafðir mikil áhrif á alla nærstadda. Þú varst vonarvera, með engar spjarir en opna framtíð. Að við fæðumst nakin eru engin tíðindi og öllum augljóst mál. Börn deyja því ekki á Íslandi vegna klæðleysis. En þó við ættum nóg af fötum gætum við þó ekki lifað eða þroskast nema í skjóli annars, sem gerir okkur að mannfólki. Við hljótum þann yl, sem verður okkur vaxtarrammi í samhengi, í því sem við köllum menningu. Föt eru líkamsklæði, en menning er andleg klæði okkar. Við eigum skjólgóðar flíkur og hús, en það er sístæð spurning hvort þjóðfélag okkar sé skjólgott öllum. Af hverju deyja svo margir í sjálfsvígum? Af hverju er svo mikil vanlíðan í öllu ríkidæminu? Af hverju er misskipting í samfélaginu? Er menningin götótt?

Og þá að þér. Hvað hefði orðið um þig, ef þú hefðir ekki notið fræðslu og öryggis, ekki verið miðlað gildum og gæðum í bernsku? Þú hefðir farist í einhverjum skilningi. Menning er ekki bara listir. Menning er allt, sem gefur stefnu, staðfestu og haldreipi í lífinu. Menning er vissulega bækur, myndir, tónverk en ekki síður það sem fólkið þitt, mamma og pabbi hvísluðu að þér þegar þú varst lítill eða lítil. Lífsreglur og viska, sem þú notar síðar í lífinu og miðlar áfram til komandi kynslóða, þinna barna, er líka menning, skjólklæði sálarinnar. Vinnulag, heiðarleiki, hláturefni og sögur eru menning til lífs. Trúarefnin, bænirnar sem þú lærðir, vefur öryggis, sem þér var færður, er líka menning, jafnvel mikilvægasta skjólið sem þér var veitt til lífsgöngunnar. Fötin skapa ekki manninn, heldur skapar menning föt og fólk. Trúmenn vita svo, að Guð gefur máttinn og andann til að skapa fólk og föt sköpunar.

Góði hirðirinn og hamingjan

Einn merkilegasti þáttur mennskunnar, að vera manneskja, er getan eða færnin að snúa við, t.d. hverfa frá villu síns vegar, endurnýjast og taka nýja stefnu. Okkur mönnum er gefið að geta tekið ákvörðun um að láta ekki áföll, slys og sorgarefni brjóta niður heldur fremur stæla til vaxtar. Í mestu hörmungum er líka hægt að greina tækifæri, færi til að snúa frá því sem ekki gekk upp og að því sem er til góðs. Láta ekki fortíð hindra góða framtíð. Opna sig fyrir framtíðinni.

Lífsafstaða skiptir máli. Ímyndir, ofurstirni, hetjur verða þér til lítils, þegar stóru spurningarnar æða um hug þinn eða ljár dauðans syngur. Þú nærð ekki kyrrð og sátt nema þú eigir hið innra með þér það, sem getur verið þér leiðsögn, stefna, hirðir.

„Elskar þú mig?” spyr Jesús. Hvernig er ástarbúskapurinn í þér? Í því er hin góða menning fólgin að elska Guð. Elskan verður uppistaðan í vef lífsins til að við náum sambandi við samhengi alls sem er. Þegar fólk elskar þá er það líka aðgætið og passasamt.

Elskar þú? Gætir þú? Umhyggjan er systir elskunnar og báðar eru dætur Jesú. Það er ástæða þess, að hirðistextarnir eru íhugaðir á gleðidögunum eftir páska. Elskaðu og iðjaðu, njóttu og miðlaðu, lifðu og passaðu. Elskan er gefin og ætti að töfra lífið til unaðar. Lífið lifir af því Guð elskar og gætir. Ef okkur lánast að leyfa elskunni að eflast í okkur nærist líf okkar.

Elska og aðgát eru góðar systur sem fylgja þér úr kirkju í dag vegna þess að dauðinn dó og lífið lifir. Iðkaðu ástina. Farðu heim og játaðu fólkinu ást þína. Þér verður örugglega vel tekið. Elska og aðgát – lyklar dagsins á þessum gleðitíma eftir páska.

Hallgrímskirkju, 2. sunnudag eftir páska, 2019. Aðalfundur safnaðarins.

Textaröð:  B

Lexía:  Slm 23

Davíðssálmur. Drottinn er minn hirðir, mig mun ekkert bresta. Á grænum grundum lætur hann mig hvílast, leiðir mig að vötnum þar sem ég má næðis njóta. Hann hressir sál mína, leiðir mig um rétta vegu fyrir sakir nafns síns. Þótt ég fari um dimman dal óttast ég ekkert illt því að þú ert hjá mér, sproti þinn og stafur hugga mig. Þú býrð mér borð frammi fyrir fjendum mínum, þú smyrð höfuð mitt með olíu, bikar minn er barmafullur. Gæfa og náð fylgja mér alla ævidaga mína og í húsi Drottins bý ég langa ævi.

 

Pistill:  1Pét 5.1-4

Öldungana ykkar á meðal hvet ég sem einnig er öldungur og vottur písla Krists og einnig á hlutdeild í þeirri dýrð sem mun opinberast: Verið hirðar þeirrar hjarðar sem Guð hefur falið ykkur. Gætið hennar ekki nauðugir heldur af fúsu geði eins og Guð vill, ekki af gróðafíkn heldur fúslega. Þið skuluð ekki drottna yfir söfnuðunum heldur vera fyrirmynd hjarðarinnar. Þegar hinn æðsti hirðir birtist munuð þið öðlast þann dýrðarsveig sem aldrei fölnar.

 

Guðspjall:  Jóh 21.15-19

Þegar þeir höfðu matast sagði Jesús við Símon Pétur: „Símon Jóhannesson, elskar þú mig meira en þessir?“ Hann svarar: „Já, Drottinn, þú veist að ég elska þig.“ Jesús segir við hann: „Gæt þú lamba minna.“ Jesús sagði aftur við hann öðru sinni: „Símon Jóhannesson, elskar þú mig?“ Hann svaraði: „Já, Drottinn, þú veist að ég elska þig.“ Jesús segir við hann: „Ver hirðir sauða minna.“ Hann segir við hann í þriðja sinn: „Símon Jóhannesson, elskar þú mig?“ Pétur hryggðist við að hann skyldi spyrja hann þriðja sinni: „Elskar þú mig?“ Hann svaraði: „Drottinn, þú veist allt. Þú veist að ég elska þig.“ Jesús segir við hann: „Gæt þú sauða minna. Sannlega, sannlega segi ég þér: Þegar þú varst ungur bjóstu þig sjálfur og fórst hvert sem þú vildir en þegar þú ert orðinn gamall munt þú rétta út hendurnar og annar býr þig og leiðir þig þangað sem þú vilt ekki.“ Þetta sagði Jesús til að kynna með hvílíkum dauðdaga Pétur mundi vegsama Guð. Og er hann hafði þetta mælt sagði hann við hann: „Fylg þú mér.“

Kraftaverkið 1. maí

Dagur verkalýðsins, fyrsti maí, er í mínum huga dagur undra og stórmerkja. Kröfuspjöld, þungur göngutaktur eða hávaði ræðumanna eru ekki miðja minninga minna, heldur kaffipartí sem móðir mín og vinkonur hennar stóðu fyrir. Ilmur fyrsta maí er blanda af kaffikeim og kökulykt. Hljóð dagsins eru blanda af bollaglamri og hlýjum samræðum. Birtan, þessi dásamlega sólarbirta maíbyrjunar. Kraftaverkið varð í Betaníu, á horni Laufásvegar þar sem nú er safnaðarheimili Fríkirkjunnar. 

Aðfangadagur fyrsta maí

Seinni hluta apríl var mamma í önnum við bakstur, hringdi út og suður, talaði við félagskonurnar, vinkonur sínar í Kristniboðsfélagi kvenna. Að kvöldi 30. apríl fór öll fjölskyldan með alls konar varning niður í Betaníu. Kökur voru bornar inn, stólar færðir og borð dúkuð. Alltaf undraðist ég og laðaðist að hinum dularfullu og seiðmögnuðu myndverkum Betaníu. Þarna var stór mynd af litlum börnum, annað var hvítt, vestrænt og hitt kínverskt. Þau sátu á himnesku engi með dásamleg hús í baksýn og bentu á Jesúmynd. Þetta var merkileg mynd, með mynd í mynd, sem hafði að geyma predikun, sem Lúther hefði glaðst yfir, “bendir til Jesú.” Svo voru á ræðustólsveggnum líka einkennileg spjöld með kínversku letri, sem ég botnaði ekkert í. Ég var þó viss um að textinn væri hákristilegur.

Hið himneska hlé

Svo rann hasardagurinn upp. Mamma fór snemma og allar samstarfskonur hennar. Um tvöleytið fóru kristniboðsvinir að koma í kaffi. Betaníukaffið átti sér fasta og trygga aðdáendur, sem vissu vel að í upphafi var kökuúrvalið fullkomið. Svo voru auðvitað nokkur, sem komu snemma til að styrkja kristniboð en vildu dreifa aðsókn. Þetta voru hinir praktísku en staðföstu kristniboðsvinir. Þegar nær dró kaffitíma fóru svo lúnir verkamenn úr göngunni að skjótast inn. Verkalýðsleiðtogarnir komu líka og ég skildi síðar, að þeir voru ekkert að gera sér rellu út af Marxískum kreddum um trúna sem ópíum fólksins. Verkalýðsbarátta, kristniboð, borgarastétt, kröfuspjöld og verkafólk. Allt var þetta í jafnvægi og í himnesku hléi í kristniboðskaffi í Betaníu.

Kraftaverkakonur í Kristniboðsfélagi kvenna

Blessandi gjaldkeri og formaður

Mamma sat við dyrnar. Hún var gjaldkeri félagsins og það var hefð að slíkir sætu og tækju við greiðslu og ræddu við gesti á leið inn og út. Mamma hélt á brúnni smellutösku sem hún átti og setti borgun fyrir kaffið í töskuna. Margir greiddu margfalt. Þegar á leið voru gríðarlegir fjármunir komnir í töskuna. Ég man að hún hélt vel í töskuólina. Engum hefði tekist að hrifsa til sín fjárhirsluna og hlaupa með hana.

Öllum tók mamma vel og við alla átti hún orðastað. Síðar, þegar hún var formaður, færði hún sig fram í forstofu til að geta rætt við fólk. Hún blessaði alla fyrir framlög og þakkaði fyrir stuðninginn við kristniboðið. Við dyr og í forstofu var hún í essinu sínu að þakka eða taka við greiðslu fyrir kaffi sem var eiginlega meira en borgun. Það var framlag til að kristnir menn á Íslandi gætu staðið við boð Jesú Krists: „Farið og kristnið allar þjóðir…” Kristniboðskonurnar og mamma voru að vinna Guði gagn. Allir sem komu vissu að þeir ættu hlut í stórvirki og góðu verki.

Hið smáa verður stórt í Guðsríki

Pabbi sótti svo mömmu seint að kvöldi 1. maí. Þegar hún kom heim var hún alltaf steinuppgefin en þó alsæl. Alltaf unnu konurnar í kristniboðinu stórvirki fyrir Jesú Krist á þessum dögum. Öll sem frá þeim fóru voru með fullan maga af góðmeti og þakkarorð í eyra og blessun fyrir daga og vegi lífsins. Öll fundu til þess sem fóru úr Betaníu að þau höfðu gert mikið gott með komu sinni. Öll afrekuðu eitthvað fyrir Guð. Á þessum kaffidögum í Betaníu lærði ég að í hinu smáa er mannlegt framlag til guðsríkisins. Kaffiundrið í Betaníu lifir í minningunni. Safnað var til kristniboðs í Eþíópu og sú kirkja er einhver mesta hraðvaxtarkirkja í heimi. Undrið heldur áfram. Starf Betaníukvenna bar árangur og ber enn ávöxt. Fólk í Afríku og Asíu fær menntun, nýtur heilsugæslu og fær að heyra þær góðu fréttir að Guð elskar. Þannig er kristniboð.

(Meðfylgjandi myndir eru annars vegar af Brautarhólssystrum og allar voru þær í Kristniboðsfélagi kvenna. Þær eru Lilja Sólveig, Filippía (sem notaði skáldanafnið Hugrún) og Svanfríður Guðný allar dætur Kristjáns Tryggva og Kristínar Sigfúsínu á Brautarhóli í Svarfaðardal. Hin myndin er af vinkonum í Kristniboðsfélaginu á sumarferð. Þar eru þær systur líka.)

 

Kjúklingaskál með kókos-hrísgrjónum

Mar­in­eraður kjúk­lingur með kó­kos­hrís­grjón­um og lit­ríku græn­meti. Þetta er augnayndi og bragðundur. Ekki aðeins er kjúklingurinn dásamlegur, heldur eru hrísgrjónin unaðsleg og heildarsamsetningin heillar. Fyrir 4.

700 g kjúk­linga­bring­ur

3 msk sojasósa

2 msk púður­syk­ur

2 msk ses­a­mol­ía

1 msk chilisósa

4 hvít­lauksrif, mar­in

1 tsk rif­inn engi­fer

 

Kó­kos-hrís­grjón:

1½ bolli jasmín-hrís­grjón

1½  bolli kó­kos­mjólk

½ bolli kó­kos­vatn

¼ tsk. salt

1½ msk. kó­kosol­ía

 

Fyr­ir skál­ina:

4 vor­lauk­ar, fínt skorn­ir

3 stór­ar gul­ræt­ur, skorn­ar í strimla

2 boll­ar skorið rauðkál

2 avoca­do, skorin í þunn­ar sneiðar

2 msk. ristuð ses­am­fræ

1/2 bolli stein­selja

1 lime

Aðferð:

Setja kjúk­ling­inn í poka. Píska sam­an í skál sojasósu, sykur, ses­a­mol­íu, hvít­laukssósu, hvít­lauk og engi­fer. Hella blönd­unni yfir kjúk­ling­inn og geyma í pokanum og marinera, í klukkutíma eða lengur. Marinering yfir nótt er auðvitað til bóta.

Kó­kos­hrís­grjón: 

Hita pott á meðal­hita og setja hrís­grjón út á pönn­una ásamt kó­kos­mjólk, kó­kos­vatni og salti. Hrærið í og láta suðu koma upp. Lækka þá hit­a og látið malla í 30 mín­út­ur þar til vökvinn hef­ur gufað upp. Hrærið aðeins í hrís­grjón­un­um og bæta kó­kosol­í­unni út í.

Kjúklingurinn:

Grillið annaðhvort kjúk­ling­inn eða setjið í ofn á 220°C í 30 mín­út­ur (at­hugið samt hvort hann sé til­bú­inn eft­ir þann tíma). Leyfið kjúk­lingn­um að hvíla í 10 mín­út­ur áður en hann er skorinn í sneiðar.

Setja kó­kos­hrís­grjón á botn­inn á skál, því næst kem­ur avoca­do, rauðkál, gul­ræt­ur, vor­lauk­ur og smá stein­selja. Toppið með kjúk­lingn­um ásamt nokkr­um avoca­do-sneiðum. Ef kjúklingurinn er steiktur í ofni er gott að nota vökvann sem eftir er í steikarfatinu og setja yfir kjúklinginn. Síðan er ristuðum ses­am­fræj­um stráð yfir og lime kreist yfir allt sam­an.

Borðbænin er: Þökkum Drottni því að hann er góður. Og miskunn hans varir að eilífu.

Verði þér að góðu.

Fjörtíu geira kjúklingur

Því meiri hvítlaukur því betri matur. Enginn skyldi hafa áhyggjur af lyktinni. Því meiri hvítlaukur þeim mun minni lykt! Það er svolítið maus að flysja laukinn en það kemst upp í vana. Ég skora á ykkur að prufa! Uppskriftin f 4.

½ bolli ólífuolía

4 stilkar sellerí (þverskorið fremur smátt)

2 msk. estragon

2 msk. fínt klippt steinselja

1 góður kjúklingur hlutaður í sundur

salt og nýmalaður pipar

2 niðurrifnar múskathnetur

40 afhýddir hvítlauksgeirar

½ dl. koníak eða sletta af sherrý

¾ bolli hveiti vatn

Hitið olíuna, setjið sellerí, steinselju og estragon út í heita olíuna og látið mýkjast í 2-3 mínútur (passa ekki brenna). Stráið vel af salti, pipar og nýrifnu múskati á kjúklingabitana og steikið upp úr olíunni. Setjið allt saman í eldfast mót (með loki), hvítlauksgeirarnir og koníakið sett út í, lokið sett á (helst lok sem fellur vel að). Hrærið saman hveiti og vatni svo úr verði þykkur jafningur og þéttið lokið með honum, sem sé loka pottinum rækilega (það skilar sér vel!). Bakið réttinn í ofni við 190° C í eina og hálfa klst. Athugið að krydda vel með salti, pipar og múskati, annars verður maturinn bragðlítill, sem alls ekki má henda! Mikil og góð sósa verður í pottinum og því er ljómandi að hafa hrísgrjón eða bygg með réttinum og ekki síðra að hafa líka nýbakað brauð til að veiða upp vökvann.