Greinasafn fyrir merki: 1. maí

Þórður í Moskvu 1. maí 1952

Myndin er af árituðum aðgöngumiða Þórðar Halldórssonar, föður míns, að hátíðahöldunum 1. maí á Rauða torginu í Mosku 1952. Og það er skemmtilegt að lesa nafnið Þórður Halldórsson á rússnesku anno 1952.

Föður mínum var boðið að fara í kynnisferð til Mosku í hópi Íslendinga. Þetta var fríður hópur fulltrúa ýmissa íslenskra verkalýðsfélaga. Hópurinn var á ferð í heilan mánuð. Flaug til Kaupmannahafnar, síðan til Stokkhólms og þaðan til Helsinki. Þá var farið í lest til Leningrad og svo áfram til Moskvu. Dagskráin þar var ævintýraleg og eftir skoðunarferðir var svo farið á kvöldin í öll hestu tónlistarhús borgarinnar. Dekrað var við flokkinn. Eftir hátíðahöld og veislufögnuðinn í Moskvu fór hópurinn svo til Kiev í Úkraínu. Þaðan var svo halduð suður til Krímskgaga og farið milli góðbúanna og m.a. komið við í Sevastopol sem Rússar nota nú sem flotastöð og til Yalta sem flestir kannast við úr stríðssögu síðari heimsstyrjaldar.

Pabbi skrifaði afar nákvæma og merkilega ferðasögu sem við Jón Kristján, sonur minn, erum að færa á stafrænt form og ætlum rannsaka. Efnið er mjög áhugavert, myndirnar úr ferðinni og önnur gögn upplýsandi. Kannski gerum við grein saman og förum jafnvel í pílagrímsferð síðar. En það verður verður ekki fyrr en post-Putín! Því fyrr því betra. 

Kraftaverkið 1. maí

Dagur verkalýðsins, fyrsti maí, er í mínum huga dagur undra og stórmerkja. Kröfuspjöld, þungur göngutaktur eða hávaði ræðumanna eru ekki miðja minninga minna, heldur kaffipartí sem móðir mín og vinkonur hennar stóðu fyrir. Ilmur fyrsta maí er blanda af kaffikeim og kökulykt. Hljóð dagsins eru blanda af bollaglamri og hlýjum samræðum. Birtan, þessi dásamlega sólarbirta maíbyrjunar. Kraftaverkið varð í Betaníu, á horni Laufásvegar þar sem nú er safnaðarheimili Fríkirkjunnar. 

Aðfangadagur fyrsta maí

Seinni hluta apríl var mamma í önnum við bakstur, hringdi út og suður, talaði við félagskonurnar, vinkonur sínar í Kristniboðsfélagi kvenna. Að kvöldi 30. apríl fór öll fjölskyldan með alls konar varning niður í Betaníu. Kökur voru bornar inn, stólar færðir og borð dúkuð. Alltaf undraðist ég og laðaðist að hinum dularfullu og seiðmögnuðu myndverkum Betaníu. Þarna var stór mynd af litlum börnum, annað var hvítt, vestrænt og hitt kínverskt. Þau sátu á himnesku engi með dásamleg hús í baksýn og bentu á Jesúmynd. Þetta var merkileg mynd, með mynd í mynd, sem hafði að geyma predikun, sem Lúther hefði glaðst yfir, “bendir til Jesú.” Svo voru á ræðustólsveggnum líka einkennileg spjöld með kínversku letri, sem ég botnaði ekkert í. Ég var þó viss um að textinn væri hákristilegur.

Hið himneska hlé

Svo rann hasardagurinn upp. Mamma fór snemma og allar samstarfskonur hennar. Um tvöleytið fóru kristniboðsvinir að koma í kaffi. Betaníukaffið átti sér fasta og trygga aðdáendur, sem vissu vel að í upphafi var kökuúrvalið fullkomið. Svo voru auðvitað nokkur, sem komu snemma til að styrkja kristniboð en vildu dreifa aðsókn. Þetta voru hinir praktísku en staðföstu kristniboðsvinir. Þegar nær dró kaffitíma fóru svo lúnir verkamenn úr göngunni að skjótast inn. Verkalýðsleiðtogarnir komu líka og ég skildi síðar, að þeir voru ekkert að gera sér rellu út af Marxískum kreddum um trúna sem ópíum fólksins. Verkalýðsbarátta, kristniboð, borgarastétt, kröfuspjöld og verkafólk. Allt var þetta í jafnvægi og í himnesku hléi í kristniboðskaffi í Betaníu.

Kraftaverkakonur í Kristniboðsfélagi kvenna

Blessandi gjaldkeri og formaður

Mamma sat við dyrnar. Hún var gjaldkeri félagsins og það var hefð að slíkir sætu og tækju við greiðslu og ræddu við gesti á leið inn og út. Mamma hélt á brúnni smellutösku sem hún átti og setti borgun fyrir kaffið í töskuna. Margir greiddu margfalt. Þegar á leið voru gríðarlegir fjármunir komnir í töskuna. Ég man að hún hélt vel í töskuólina. Engum hefði tekist að hrifsa til sín fjárhirsluna og hlaupa með hana.

Öllum tók mamma vel og við alla átti hún orðastað. Síðar, þegar hún var formaður, færði hún sig fram í forstofu til að geta rætt við fólk. Hún blessaði alla fyrir framlög og þakkaði fyrir stuðninginn við kristniboðið. Við dyr og í forstofu var hún í essinu sínu að þakka eða taka við greiðslu fyrir kaffi sem var eiginlega meira en borgun. Það var framlag til að kristnir menn á Íslandi gætu staðið við boð Jesú Krists: „Farið og kristnið allar þjóðir…” Kristniboðskonurnar og mamma voru að vinna Guði gagn. Allir sem komu vissu að þeir ættu hlut í stórvirki og góðu verki.

Hið smáa verður stórt í Guðsríki

Pabbi sótti svo mömmu seint að kvöldi 1. maí. Þegar hún kom heim var hún alltaf steinuppgefin en þó alsæl. Alltaf unnu konurnar í kristniboðinu stórvirki fyrir Jesú Krist á þessum dögum. Öll sem frá þeim fóru voru með fullan maga af góðmeti og þakkarorð í eyra og blessun fyrir daga og vegi lífsins. Öll fundu til þess sem fóru úr Betaníu að þau höfðu gert mikið gott með komu sinni. Öll afrekuðu eitthvað fyrir Guð. Á þessum kaffidögum í Betaníu lærði ég að í hinu smáa er mannlegt framlag til guðsríkisins. Kaffiundrið í Betaníu lifir í minningunni. Safnað var til kristniboðs í Eþíópu og sú kirkja er einhver mesta hraðvaxtarkirkja í heimi. Undrið heldur áfram. Starf Betaníukvenna bar árangur og ber enn ávöxt. Fólk í Afríku og Asíu fær menntun, nýtur heilsugæslu og fær að heyra þær góðu fréttir að Guð elskar. Þannig er kristniboð.

(Meðfylgjandi myndir eru annars vegar af Brautarhólssystrum og allar voru þær í Kristniboðsfélagi kvenna. Þær eru Lilja Sólveig, Filippía (sem notaði skáldanafnið Hugrún) og Svanfríður Guðný allar dætur Kristjáns Tryggva og Kristínar Sigfúsínu á Brautarhóli í Svarfaðardal. Hin myndin er af vinkonum í Kristniboðsfélaginu á sumarferð. Þar eru þær systur líka.)