Greinasafn fyrir merki: verkalýðssendinefnd

Sóvetríkin og Bjarmalandsferð pabba

Veistu um heimildir um ferð verkalýðshóps til Sóvét árið 1952? Gerðu svo vel að hafa samband. Tilefni spurningarinnar er að Þórður, faðir mínn, fór sína Bjarmalandsferð í apríl og maí 1952. Hópurinn sem hann var með flaug til Kaupmannahafnar, síðan til Stokkhólms og þaðan var farið til Helsinki. Síðan hófst hin eiginlega Sóvétferð – lestarferð til Leningrad og síðan til Moskvu. Flogið var þar á eftir í blíðuna í Kiev og síðan farið til Krímskaga, skoðaðar verksmiðjur, víngerðir og hafnarborgin Sevastopol sem komið hefur mjög við sögu í árásarstríði Rússa í Úkraínu.

Pabbi skrifaði mjög ítarlega dagbók um ferðina, móttökur og ævintýri. Þessa bók erum við Jón Kristján, sonur minn, að pikka á tölvuna og vinnum síðan ítarefni um alla þá staði sem lýst er í dabókinni. Þegar Pútin verður farinn til hinna eilífu stríðslanda förum við í fótspor pabba, en við munum væntanlega ekki fljúga frá Moskvu til Kiev eins og hann – alla vega ekki á næstu mánuðum.

Nýi tíminn fjallaði um ferðina og ferðalangana í grein 29. maí 1952. Þjóðviljinn sagði frá ferðinni 27. apríl, daginn eftir að hópurinn flaug af stað með Gullfaxa. Þar er tilgreint hverjir voru með í för: „Þórður Halldórsson múrari frá Sveinasambandi byggingamanna, Ragnar Þorsteinsson ritari Verkalýðs- og sjómannafélags Ólafsfjarðar, Ólafur Jónsson formaður Hlífar Hafnarfirði, Björn Jónsson formaður verkamannafélags Akureyrarkaupstaðar, Árni Guðmundsson bílstjóri frá Dagsbrún, Guðríður Guðmundsdóttir formaður verkakvennafélagsins Snót í Vestmannaetyjum, Sigurður Guðnason formaður Dagsbrúnar, Þuríður Friðriksdóttir formaður Freyju og Guðlaug Vilhjálmsdóttir Iðju. Fararstjóri Þorvaldur Þórarinsson, lögfræðingur.“

Ef þú veist um heimildir væru upplýsingar vel þegnar. Pabbi varðveitti mikið af skemmtilegum gögnum um ferðina og m.a. er þessi mynd frá verksmiðju í Moskvu. Pabbi er þessi hávaxni með gleraugun og fylgist grannt með. Björn Jónsson er fremst á myndinni.

Tíu rúblu seðill sem var í minjaumslagi pabba – hann hefur ekki náð að eyða þeim – sem var jafngildi 7 mánaða húsaleigu í Moskvu á þeim tíma!