Ferðasögur og Saga

Hvað gerir þér gott? Hvernig getur frí orðið þér til góðs á þessu sumri? Hvað verður þér til heilsu og eflingar? Hvað verður þér brauð lífs? Ef þú ert í leyfi eða ræður algerlega þínum tíma – já hvað gerir þú? Og hvað gerir þú þessa mestu fríhelgi sumarsins?

Sumaráform fólks eru með ýmsu móti. Til er dugnaðarfólk, sem ætlar sér mikil afrek í sumarleyfinu, að byggja sumarbústað, mála alla íbúðina og skoða líka Austfirði! Við erum komin af vertíðarfólki, heyannafólki og tarnafólki og vinnusemi hefur löngum verið talin dygð á Íslandi. En að vinna hamslaust í sumarleyfi er hvorki ákjósanleg eða óumflýjanleg örlög. Að vinna er ekki tilgangur sumarleyfis. 

Frí er fyrir fólk en fólk ekki fyrir frí. Að “gera” eitthvað í leyfi er stundum nauðsyn, en að “vera” er mikilvægast. Besta markmið leyfis er reynsla sem nær til dýpta. Frí ætti að þjóna hvíld, hleðslu, ástvinum, andríki og uppbyggingu. Þá verður frí þjónn hamingju.

Ferðasögur
Við, sem eigum vini á facebook, sjáum sumarleyfamyndirnar á vefnum. Ekki aðeins á facebook heldur líka á Instagram, Flickr eða öðrum síðum. Svo eru ferðasögurnar. Og það er við þær, sem mig langar til að staldra við í dag. Það merkilega er, að þegar fólk segir sögur af ferðum sínum er það oft að tala um sjálft sig og líðan sína. Frásögurnar eru með margvíslegu móti og sumar hrífandi eða rosalegar. Þegar þú segir ferðasögu þína hverju ertu þá að lýsa? Getur verið að þegar þú segir ferðasögur þínar sértu að lýsa hver þú ert? 

Sum segja töfrandi undrasögur, sem fylla eyrun af músík, nefið af lykt, heilann af myndum og hugann af fögnuði. Ímyndunaraflið fer á flug og við upplifum undur og stórmerki og fáum jafnvel nýja sýn á lífið.

Aðrir segja harmþrungnar ferðasögur: „Gistingin var léleg, bílaleigubíllinn bilaði, kortinu var stolið, ferðaskrifstofan sveik margt, seinkun var á fluginu, það ringdi allan tímann, frumstætt þjóðfélag og þjónustustigið lágt, ferðafélagarnir leiðinlegir, drykkfelldir og hávaðasamir, sumir fengu matareitrun. Og það er gott að vera kominn heim!“ 

Svona sögur eru erfiðar og afar dapurlegar. Segja þær eitthvað um ferðalanginn?

En hrífandi sögur hafa allt önnur áhrif. Hver megnar að segja svo frá ferðum sínum að þær lifni og maður lifni við? Það er fólkið, sem hrífst og vill miðla, fólkið sem leyfir sér að upplifa til að verða snortið og gefur síðan af örlæti sínu. 

Ég hef komist að þeirri niðurstöðu, að ferðasögur fólks segi meira um einstaklingana en ferðirnar sjálfar. Segðu mér ferðasöguna – því hún segir hver þú ert. 

Ferðasögur fólks eru ekki aðeins um Finnland, Korfú eða gönguför yfir Fimmvörðuháls, heldur fremur frásögur þess um eigið líf. Fólk, sem segir frá skemmtilegum ferðum og getur jafnvel séð í óveðri tilefni til tjáningar á dýpri veruleika, það er fólkið sem er tilbúið til að upplifa lífið á dýptina, tilbúið til að sjá margbreytileika eigin lífs. Þetta fólk er auðvitað ekki fullkomið frekar en við hin. Það lendir í djúpum sorgum í lífinu eins og aðrir. Það verður fyrir sjúkdómum og missir líka. En það hefur í sér þessa aukavídd, þennan bónus að geta upplifað perlur á sorgarhafsbotni, ljósbrot í myrkri, augnablikshamingju í hremmingum, séð hið hlálega í grafalvarlegum aðstæðum – numið hið dýrlega í veröldinni. Þetta fólk fer kannski í svipaðar ferðir og hin sem sjá ekkert nema neikvætt. En þau nema þó hið merkilega af því þau hafa í sér vilja og getu til að hrífast og eru tengd hinu stórkostlega. Þau hafa gluggann opinn inn í undur heims og jafnvel undur himins. Þau, sem segja bara sorglega ferðasögu, tjá stundum fremur depurð eigin lífs fremur en ferðar sem það fór.

Hvaða sögu segir þú af ferðum þínum? Staldraðu við og spyrðu þig um ástæður og samhengi. Sorglegar sögur þarf að segja og depurð þarf að tjá. En það er ekki heppileg leið til að leysa sálarháska að segja sorglega ferðasögu! Ferðasaga þín er sannleiksspegill. Ferðasaga fólks er eins og minningargrein um eigið líf!

Ferðasaga Guðs

Já, ferðasögur eru harla merkilegar. Mannasögur eru margs konar. En Guð hefur líka sagt sögu um sig. Sú saga byrjar með því að Guð elskar – elskar þig – vill ganga með þér á þinni för. Guð gisti í mennskum móðurlíkama konu, óx í mannheimi, hefur reynslu af þér og mér, þekkir mannkyn í gæsku og grimmd, gleði og sorg. Allar ferðasögur mannanna komu svo saman í krossi á hæð og tómri gröf. Ferðasaga Guðs er ekki saga um lélegt hótel Jörð, töpuð kort og leiðinlega ferðafélaga, heldur um að lífið er gott, vonbjart og mikilfenglegt. Það er ferðasaga Guðs, sem allar smásögur okkar manna ganga upp í. Ferðasaga Guðs er saga um gleði lífsins, að lífið er sterkara en dauðinn. 

Ferðasaga Guðs er jákvæð, kraftmikil og um ríkidæmi lífsins. „Ég er brauð lífsins…“ segir í texta dagsins. Á ferð með Guði njótum við fæðu, gæða, brautargengis – brauð lífsins er fyrir líf og nægir okkur. Allt sem er í þessar veröld eru gjafir sem Guð gefur, brauð lífsins er koma Guðssonarins og öll gæði sem Guð hefur mönnum, lífi, náttúru til gæfu. Brauð lífsins merkir að allt sem við reynum og lifum eru gjafir Guðs og til blessunar. Guð lætur sig þig varða, gefur þér og er með þér í öllum málum lífs. Er sjálfur kominn til að umvefja þig, efla, næra og blessa. Og fer aldrei fráþér. Guð er alltaf á veginum með þér.

Hver ert þú? Hver er ferðasagan þín? Varpaðu henni upp á spegil hugans, segðu fólkinu þínu hver þú ert og hvað þú upplifir, og berðu svo söguna þína fram fyrir hinn mikla ferðafrömuð sem hefur tjáð þér sína sögu í fyllingu lífs – dauða og síðan lífs.

Segðu mér ferðasögu þína og þá er ljóst hver þú ert.

Guð segir þér ferðasögu sína til að þú vitir hver Guð er. Og þú mátt ganga fram í messunni og njóta brauðs og víns. Það er ferð, sem Guð býður til og þar er tilefni reisu lífsins. Mynd af þeirri ferð verður ekki smellt á facebook, heldur er sagan undrasaga um faðmlag tíma og eilífðar, lífgun sálar. Sú saga verður endursögð í gleðisölum eilífðar. Saga þín verður saga Guðs.

Amen

A few words on the the theme of today. This happens to be the most active weekend for travelling in Iceland. The entire nation is on the move. And those of you coming from abroad are travelling too. I did talk about accounts or stories people tell about the travelling. What stories do people tell. Some tell awful stories and others tell stories of wonder and adventure, colorful and enticing stories. I have noticed that some people tell rather negative stories and others more or less tell stories of positive experiences. So my conclusion is that when people tell about their travelling they more or less tell stories about themselves. People who have negative stories about food, hotels and trips are telling more about themselves than the actual turn of events. And the people who tell about wonders and miracles are talking about their positive approach. So tell me about your trip – and I know something about who you are.

God has told us who God is. God has told about God´s trip in the world. That is an account about human bodies, human joy, hopes, wonders, miracles, and also about cruelty but finally that life is more powerful than death, hope is more powerful than despair, the good endures that which is evil.

All our accounts, all human experience and events are part of the primary story of God. All our short stories are parts og pieces of the divine story.

So, turn inside and think obout your story and turn to the world, and become engulfed by the wonder of the world, time, eternity and heaven. You are a pilgrim on the divine road.  

Hugleiðing í Hallgrímskirkju 4.8. 2019.

Sjöundi sunnudagur eftir þrenningarhátíð og verslunarmannahelgi. B-textaröð.

Hvar áttu heima?

Fyrir nokkrum dögum síðan talaði ég við skemmtilegan mann í Gautaborg. Hann vakti athygli þar sem hann fór því hann var kátur en líka einstakur vegna áberandi brunasára og fingralausra handa. Andlitið var flekkótt, útlimirnir voru skellóttir og augun höfðu skaddast. Við fórum að tala saman og maðurinn sagði mér, að hann hefði fæðst í Íran en flust til Svíþjóðar þegar hann var barn. Svo hafði hann lent í hræðilegum og alræmdum bruna í Gautaborg, en hafði lifað af, reyndar mjög illa farinn. „Þess vegna er ég svona“ sagði hann. Þegar hann var búinn að segja mér sögu sína spurði ég. „En hvar áttu heima? Hvar er tilfinningalegt heimili þitt? Er það í Íran, Gautaborg eða annars staðar?“ Maðurinn horfði á mig með öðru auganu og hitt leitaði eitthvað annað og sagði: „Mitt heimili er jörðin. Ég á ekki heima í Íran eða Svíþjóð eða neinum einum stað. Ég er jarðarbúi.“ Þetta stóra svar mannsins hefur lifað með mér síðan. Hvar er heima og hvað merkir það?

Gothia 2019

Ég fór til Gautaborgar með drengjum mínum og stórum KR-hópi á Gothia Cup – sem er vikulöng fótboltaveisla. Með í för voru þrír þjálfarar, fararstjórar, foreldrar sem sáu um að unglingarnir fengju svefn, næringu og öryggi. Og þeir voru með töfra í tám og fótum og spiluðu góðan fótbolta. En það voru ekki aðeins lið úr Vesturbænum sem voru í borginni þessa daga heldur 32 íslensk lið auk hinna erlendu, bæði karlalið en líka kvennalið. 1686 lið tóku þátt í mótinu og frá 177 þjóðlöndum.

Ég ætlaði varla að nenna á setningarhátíðina, sem átti að halda á Nyja Ullevi-leikvanginum í miðborg Gautaborgar. En við fórum samt og ég sá ekki eftir að fara því hátíðin var áhrifarík. Mannhaf fyllti leikvanginn. Fjörið var mikið, fánar heimsins brostu í kvöldsólinni og það dagaði á mig undir dillandi tónlist, stórbrotnum danssýningum og söng, sem tugir þúsunda tóku þátt í, að þessi knattspyrnuveisla væri heimsbikar unglinganna í knattspyrnu. Allir voru komnir til að gera sitt besta, gleðjast, tengjast, segja sögur, hlægja og spila fótbolta. Lífið alls konar og fjölbreytilegt. Stóri heimurinn skrapp saman og hið nálæga varð stórt. Sú tilfinning helltist yfir mig, að þessi litríki hópur væri ein hjörð. Þetta væri einn heimur, sem við byggjum í. Litarháttur fólksins var mismunandi en gleðin var lík, söngurinn sameinaði og boltagleðin kallaði fram samsemd. Og því var niðurstaða viðmælanda míns svo áhrifarík: „Mitt heimili er jörðin. Ég er jarðarbúi.“

Gildi, djúptengsl – heima

Hvar áttu heima? Og staldraðu við – hvar er festa þín? Hvað skiptir þig máli og hvar ertu sönn eða sannur? Við mennirnir erum ekki eins, en þurfum þó að vera eitt. Við eigum þessa jörð sameiginlega. Við erum afkomendur jarðarinnar og berum ábyrgð á henni. Á minningardögum sem eru haldnir þessa dagana um tunglferðir hafa verið dregnar fram myndir úr ferðunum. Og áhrifaríkastar eru jarðarmyndirnar, af bláu, dásamlega fallegu kúlunni. Hún er heimili okkar. Ef höfin mengast meira og hiti hækkar enn frekar þá förum við ekki eitthvað annað, á hitt heimili okkar. Við getum ekki flúið burt. Við erum heima, á jörðinni. Það er ekkert plan B.

Lífið

Textar dagsins fjalla um líf. Lexían dregur upp stórkostlega mynd af listrænum skapara, sem býr til flotta veröld og dregur upp tjöld himins. Svo er í pistlinum fjallað um hið góða líf, sem okkur er boðið að lifa, heimsskipan sem tengir allt og alla og skapar lífgefandi jafnvægi. Og svo er guðspjallð úr frægustu ræðu heimsins, fjallræðu Jesú í Matteusarguðspjalli. Þar setur Jesús veröld, himinn og jörð í samhengi. Og þar er ekki uppgjöf, mengun, dauði, hræðsla, heldur þvert á móti von, lífsgæði og dásamleg skipan alls sem er. Af því Guð er og elskar er ekki bara sorg og líf til dauða. Lífið lifir. Lífið er sterkara en allt sem ógnar. Lífið er meira en efnislífið því Guð er og elskar.

Vonleysi eða von

En svo er allt hið neikvæða. Miðlar heimsins hafa tekið að sér að boða vond tíðindi og alls konar dómsdaga. Boðskapur illfara og dauða, mengunar, stríða og ógna dynja á okkur alla daga. Svo eru allt of margir stjórnmálamenn sem magna ófrið, bera fram kreddur sínar um aðskilnað hópa og þjóða. Það eru þeir, sem vilja loka löndum gegn þeim sem eru á flótta. Við eigum að staldra við og horfa með gagnrýni. Ríki hluti heimsins horfist ekki í augu við, að það erum við sem lifum umfram efni og getu veraldar til að fæða og næra. Neysluspor okkar eru langt umfram hið eðlilega. Í stað þess að bregðast við með auðmýkt, mannúð og kærleika er alið á ótta, andstöðu, aðgreiningum. Stjórnmál Bandaríkjanna eru að rotna innan frá með ótta- ógnar- og hatursboðskap. Traustið rofnar. Í menningu Evrópu og Bandaríkjanna takast á grunngildi mannúðar og kærleika annars vegar og sérhyggju og andúðar hins vegar. Og útgönguhasar Bretlands úr Evrópusambandinu magnar líka hópa-aðgreiningar og tortryggni.

Aðgreiningarhyggjan, sem myndar veggi og múra, fjandskapast við dansandi fólk á fótboltamóti í Gautaborg. Hatursboðskapur er í andstöðu við kristna réttlætis-friðar- og siðferðishefð. Hrætt fólk leggur áherslu á aukna aðgreiningu en ekki aukna samvinnu. Hvar áttu heima? Og ekki spurt hvort þú eigir heima í Reykjavík, Garðabæ eða einhverju öðru sveitarfélagi hér á landi eða erlendis. Spurningin varðar hver gildi þín eru, heildindi og hagsmunir. Áttu heima jörðinni, ertu jarðlingur – eða sérréttindasinni? Áttu heima í sérstækum forréttindakima?

Guð hefur áhuga á lífi fólks og velferð heimsins

Skiptir aðgreiningarhyggjan og menningarleg átakamál kristindóminn máli? Já, hlutverk kirkju Krists er alltaf að standa með lífi, réttlæti, friði og kærleika. Jesús Kristur er ekki pólitískur leiðtogi heldur frelsari heimsins, sem frelsar fólk frá synd fangelsum illra tilfinninga og óréttlæti. Við fulltrúar hans í heiminum erum ekki flokkspólitísk fyrst og fremst – heldur pólitísk vegna trúar okkar. Málflutningur okkar er hinn guðlega elska sem alltaf er í þágu lífins. Því spyrjum við okkur sjálf, fólkið okkar, samfélag okkar og stofnanir, stjórnmálamenn og uppalendur um gildi, hvaða gildi liggi til grundvallar. Þegar stjórnmálaflokkar reyna að tryggja hag hóps fólks á kostnað annarra ber að bregðast við. Þau sem eiga sér ekki málsvara eiga hann alltaf í Jesú Kristi.

Kristinn siður og siðferði

Hinn kristni siður hefur trosnað í vef þjóðfélaga hins ríka hluta heimsins. Þar með hefur bilað mikilvæg kjölfesta menningarinnar. Það er gott, að forréttindi kirkjustofnana eru að hverfa, en það er hins vegar stórkostlega alvarlegt að siðferðileg festa riðlast, siðvitið veiklast og flestir hugsa aðeins um eigin hag. Það er háskalegt þegar fólk gleymir, að við erum öll meðlimir hins stóra samfélags mannkyns. Þurrkar í Afríku eða stríð í Asíu eru ekki aðeins vandamál í Afríku eða Asíu. Það eru okkar mál líka. Þegar stórviðburðir verða flýr fólk voðann og flæðir yfir löndin. Við erum ein stórfjölskylda á sameiginlegu heimili. Við erum öll ábyrg og kölluð til að vera eitt í þessum heimi. Við eigum að vera ábyrg í pólitík okkar, neyslu, matarnotkun og tengslum. Og við eigum að fara vel með jörðina okkar og gæta hennar. Það er köllun, sem Guð hefur úthlutað.

Það er búið að flauta. Leikurinn er hafinn, boltinn rúllar og allir menn eru með. Líka hin brenndu. Hinum sjálfhverfu eiginhagsmunaseggjum er boðið að vera með því við eigum að vera jarðarbúar. Hvernig viltu að heimili þitt sé? Guð hefur mjög sterkar skoðanir á því máli, hefur bæði slökkt elda og læknað sár og vill að við gerum hið sama.

Velkomin heim.

Amen.  

Hugleiðing 28. Júlí, 2019. Hallgrímskirkja. 6. sunnudagur eftir þrenningarhátíð. Myndirnar: Broskarlinn var við fætur okkar samtalsaðilanna, er á skólalóð Lerlycke-skólans i Hisingen, Gautaborg. Hin myndin er lánuð frá Sony Bravia. 

I did tell about my encounter with a man in Gothenburg some days ago. I was there as a father of two soccer-boys who – among thousands of young footballers – were feasting for a week. I met the man where the Icelandic teams were sleeping. He told me he was Iranian by birth but he had lived in Sweden since his childhood. And I asked him about his emtional home. Are you at home in Iran or Sweden? He watched me and told me: „I am at home on Earth. I am an Earthling but not Swedish or Iranian. A passport does not define you.“ We then had a fruitful and thoughtful conversation on the ethics of that approach. Then I went to the inauguration ceremony of the Gothia Cup. Flags of 177 nations were flying high. People of all colors were feasting, singing and dancing. And the ceremony brought again back to me that we are one humanity, one family in a single home – the Earth.

The biblical texts for this day single out that God has created life and our habitat. We are God‘s people. Jesus Christ has come to save the world. And that entails that we – as followers of Jesus Christ – are called to serve life, serve people and serve nature. Jesus Christ – as the savior of the world – is not specializing in „out of the world issues,“ but issues of politics, „down to earth issues,“ and real issues of struggle of human beings. One world, one family One Lord. How many of you are non-Icelandic in church today? Welcome home. You are an Earthling with the role of working for the common good of all of humanity and Nature. Welcome home.

 

Gothia Cup 2019

Við feðgarnir, Ísak og Jón Kristján, fórum á fótboltamót í Gautaborg 14.-21 júlí. Svo skaust mamman, Elín Sigrún Jónsdóttir, til okkar í þrjá daga. 39 strákar frá KR, fæddir 2005 og 2006 tóku þátt í knattspyrnuveislunni. KR-liðin voru þrjú og ég var meðábyrgur fyrir einum hóp. Og það voru ekki aðeins lið frá Svíþjóð og Íslandi sem tóku þátt heldur 1686 lið frá 75 þjóðlöndum! Leiknir voru á fimmta þúsund leikir áður en yfir lauk. Þetta var eins og heimsbikar unglinganna í knattspyrnu. Alvöru dæmi.

Félagsleg veisla

Já, þetta var fótboltaferð en var svo meira en bara hlaup á eftir bolta og öskur við hliðarlínu. Gothia er félagslegur viðburður fyrir lífið. Liðsfélagar sváfu saman í skólastofu í Lerlycke-skólanum í einni hverfismiðjunni í Hisingen. Mötuneytið í Tolered-skólanum þar nærri og var matstaðurinn. Hverfisskipulagið minnti á Haga og Mela, með leikskólla, kirkju og grunnskóla í miðjunni, eins og við Hagatorgið. Við yfirtókum forskólann. Í öllum skólabyggingunum voru lið hingað og þaðan að úr veröldinni. Og af því veðrið laðaði út á skólalóð hittust krakkarnir úti, töluðu saman, spiluðu fótbolta, körfu eða pókó. Norræn og alþjóðleg og félagsleg samskipti og öll á góðu nótunum. Karlalið og kvennalið spiluðu og ég saknaði að engin kvennalið fóru frá KR. En ég sá mörg kvennalið spila og heillaðist af einu Breiðabliksliðinu og uppgötvaði svo í lok leiks þeirra, að ég hafði skírt Sylvíu Eik, eina stúlkuna í liðinu. Lið Stjörnunnar vann fimmtán ára aldursflokk, sem er stóafrek því liðin voru 222 í þeim flokki. 

Allir sem einn

KR-liðin stóðu sig frábærlega í fótboltanum, unnu góða sigra, gerðu baráttujafntefli en töpuðu líka. Gaman að sigra, stundum eftir viðsnúning, en sárt að tapa, en þó aldrei nema eftir gríðarlega baráttu. Merkilegt að aldrei gáfust jaxlarnir upp og fögnuðu sameiginlega góðum árangri. Strákarnir studdu hvern annan, voru jákvæðir og eflandi og fóru á leiki hinna KR-liðanna ef þeir gátu. Mér kom á óvart að það voru engir raunverulegir hælbítar í hópnum, engir nöldrarar sem drógu niður. Það var líka áhugavert hve andinn í liðunum var jákvæður. Þessir ungu spilarar hafa lært að liðsandi er afar mikilvægur í fótbolta. Engin lið lifa af ef ekki er unnið með hið andlega og félagslega. Andlega víddin, félagsvíddin, sálarnæring eru að verða mikilvægir aðalþættir í árangri nútímafótbolta. Töfrar í tánum er ekki nóg heldur ekki síður töfrar í samskiptum og liðsfærni. Fótboltiðkun verður þjálfun í lífsleikni.

 

 

 

 

Eldra settið

Síðan var þáttur eldra fólksins sem þjónaði ungliðunum á Gothia. Rósa Hrönn Árnadóttiur var búin að leggja í mikla vinnu að undirbúa ferðina, panta ferðir, bregðast við breytingum í flugrekstri þjóðarinnar og svara með skilningi og elskulegri færni nær endalausum fyrirspurnum okkar foreldra um ólíklegustu mál. Svo voru þær Helga Ösp Jóhannsdóttir að merkja alla boli rétt fyrir ferð. Rósa fylgdi svo öllu eftir, vaktaði mismunandi þarfir drengjanna, heilsufarsþætti og hver væri að fara hvert eftir mót. Flott teymi Rósa og Helga – takk fyrir alla vinnuna.

Þjálfaraþrennan

Það verður ekkert vit í svona ferðum ef ekki væru þjálfarar. Garðar Ingi Leifsson, Auðunn Örn Gylfason og Anton Leifsson undirbjuggu leiki, settu upp leikskipulag, lögðu upp ferlið og stýrðu liðum sínum af festu, færni og öryggi. Og þeir áttu í viðbót við fótboltavitið hlýju og næmni til að efla og styrkja þegar þurfti og ákveðni þegar sækja þurfti. Lof sé þeim.

Pabbar og mömmur

Fjöldi foreldra kom svo til Gautaborgar og kom á leiki drengjanna sinna. Það er mikilvægt að þeir hafi sitt fólk innan seilingar, í gleði og sorg. Andlega, félagslega víddin er rótfest í lífi fjölskyldnanna. En svo var hópur foreldra sem tók að sér hópstjórn og þjónustu við liðin. Þetta er stór hópur og þetta fólk hefur lagt af tíma sínum, umhyggju, elskusemi marga daga og flestir 24 tíma þjónustu í heila viku í þágu drengjanna. Og það var í mörg horn að líta. Sinna þurfti hagnýtum málum eins og teipa legghlífar, hreinsa sár, lána hleðslutæki, sjá til þess að allir fengju svefn, næringu og hvíld, allir væru vel stemmdir og sáttir við sjálfa sig, skipulagið og liðsfélaga. Svo þurfti að tryggja að frítíminn væri gefandi og jafnvel hvetja stóran hóp að synda yfir, þvera, sænskt stöðuvatn! Og við sem tókum með okkur bækur af því að það yrði svo góður tími milli verkefna komumst að því að tíminn var fylltur, engar tómar stundir. Ég notaði því ferðir í lestum og flugi til að lesa – og skrifa þennan pistil.

Þetta eru hetjurnar sem við foreldrar megum þakka auk fararstjóra og þjálfara: Þorbjörn Geir Ólafsson, Þröstur Hallgrímsson, Agnar Þór Guðmundsson, Sigrún Elva Einarsdóttir, Ragnar Ragnarsson, Ari P. Wendel og Ágúst Freyr Takacs Ingason. Svo voru Styrmir Óskarsson, Þórólfur Jónsson, Oddsteinn Gíslason, Bjarni Jónsson, Ingvi Snær Einarsson og fleiri sem studdu vel og smituðu gleði í hópana.

Göteborg er bäst og KR líka

Ég hef komið til Gautaborgar áður en heillaðist af borginni nú. Hún er fjölbreytileg og ferðirnar um hverfin gáfu okkur innsýn og yfirsýn. Almenningssamgöngurnar eru frábærar. Aðstæður eru góðar fyrir svona alþjóðlegt mót og svo er Liseberg alltaf öruggur staður fyrir adrenalínflæði.

Tómas Magnus, Hjörleifur, Jón Bersi og Jón Kristján

Mér kom á óvart hve strákarnir sóttu í mollin til að versla og þeir reiknuðu út hvernig fjármál þeirr væru og svo var hringt í pabba eða mömmu þegar fjárþurrð varð. Ég var farinn að svara: „Íslandsbanki góðan dag.“ Þá kom hlátur hinum megin. Miðborg Gautaborgar er svo miklu meira en bara Umferðarmiðstöðin – Centralstasjon. En vegaframkvæmdirnar í miðborginni voru okkur bílkeyrandi nokkur amaauki því leiðsögukerfin þekktu ekki götulokanir og götubreytingar.

Gothia var frábært mót, KR-drengirnir stóðu sig vel, þjálfararnir eiga virðingu mína og  foreldrahópurinn er á heimsklassa. Mæli með Gothia 20 og áfram – og svo verður Gautaborg 400 ára eftir tvö ár. Og þá verður örugglega ofurhátíð. Takk fyrir mig – heyr mína bæn – allir sem einn. Áfram KR.

+ Guðrún Reynisdóttir +

Þegar Guðrún og Halldór fóru í bílferðir var gaman hjá þeim. En þegar sól var lágt á lofti kom fyrir, að sólargeislarnir gerðu bílstjóranum erfitt fyrir og nánast blinduðu hann. Halldóri, sem sat við stýrið, var ekki skemmt, en áður en hann gæti kvartað stórlega var kona hans snögg til og sagði:

Blessuð sólin elskar allt,
allt með kossi vekur,
haginn grænn og hjarnið kalt
hennar ástum tekur.

Og bílstjórinn með sól í augun mat jákvæðni konu sinnar. Hann gerði sér grein fyrir, að geislarnir elska og kyssa. Og í túlkun Guðrúnar urðu geislarnir ástarkossar. Og Guðrúnu lánaðist að gera allt betra. Hennar háttur var að varpa ljósi á lífið, benda til alls þess sem gott er. Jafnvel blindandi geislar voru ástarkossar. Þannig lífsafstaða eflir og bætir og rímar við lífsgleði kristninnar. „Ég er ljós heimsins“ sagði Jesús. Kristnin er átrúnaður lífsmáttarins, sem brýtur á neiðkvæðni, lýsir upp myrkur og leysir fjötra. „Dauðinn dó en lífið lifir“ segir vel í gömlum sálmi. Guðrún var fulltrúi ljóssins og málsvari þess í heiminum. Hún benti bónda sínum til birtunnar og varpaði birtu á líf okkar allra sem kynntust henni. Hún iðkaði kristindóm og er okkur öllum skínandi fyrirmynd. Hún var sínu fólki ásjóna hins guðlega og himneska.

Upphaf og fjölskylda

Guðrún fæddist inn í sumarið. Hún fæddist í Hafnarfirði fimmtudaginn 28. júní árið 1934. Foreldrar hennar voru Reynir Guðmundsson og Margrét Skúladóttir. Hann var Vestfirðingur, fæddist á Geirseyri við Patreksfjörð. En Margrét var frá Ytra-Vatni í Lýtingsstaðahreppi í Skagafirði. Þau eignuðust þrjú börn. Svanhvít var elst. Hún fæddist árið 1930. Sverrir var næstur og fæddist 1932. Þær Svanhvít og Guðrún voru nánar. Svanna lést árið 2016, en Sverrir lést af slysförum árið 1955. Það var reglufesta í barnsfæðingum foreldra Guðrúnar, tvö ár á milli barna og Guðrún var yngst þeirra systkina og fæddist tveimur árum á eftir bróður sínum.

Fjölskyldan bjó við Brekkugötu í Hafnarfirði og þar ólst Guðrún upp. Hún sótti skóla í Firðinum og lauk gagnfræðaprófi frá Flensborg. Guðrún tók þátt í íþróttum og spilaði handbolta. Um tíma vann Guðrún í Kaupfélaginu og seldi meðal annars skó. Hið merka tímarit Samvinnan birti forsíðumynd af Guðrúnu við skósöluna. Guðrún vann svo um tíma á fræðslumálaskrifstofu Hafnarfjarðar eins og eldri systir hennar. Þessi Hafnarfjarðarár voru ekki bara ljúf draumaár í lífi fjölskyldunnar. Guðrún var aðeins 15 ára þegar móðir hennar lést. Guðrún vissi síðan að lífið er ekki sjálfsagt og við eigum ekki kröfu á tíma og gæði. Hún axlaði aukna ábyrgð og skilaði alltaf sínu og umvafði fólkið sitt öryggi. Og nokkrum árum eftir móðurmissinn lést svo bróðir hennar af slysförum og skörðin voru stór í lífi fjölskyldu Guðrúnar.

Ástin og fjölskyldan

Og svo var það Halldór Júlíusson. Guðrún fór á ball í Sjallann við Austurvöll í Reykjavík. Þar var Halldór og hafði augun á hinni syngjandi fegurðardís. Hann fékk svo síðasta dansinn. Og þar á eftir gengu þau saman út nóttina. Guðrún var á leiðinni í Landleiðarútuna til að fara suður í Hafnarfjörð. Halldór gekk með henni að stoppustöðinni. Og hann man enn, öllum þessum árum síðar, að þegar Guðrún settist í rútunni fór hann að glugganum þar sem hún sat, horði á hana og hún gaut augum á hann. Þarna stóð hann svo þar til rútan fór af stað. Hún ók af stað inn í nóttina. Hann stóð eftir með mynd hennar í huga og bæði sáu birtu framtíðar. Svo tóku við hans eigin ferðir suður í Hafnarfjörð. Og þau urðu par og voru síðan samrýmd allt lífið. Þau voru svo samstillt í lífsdansinum að þau áttu meira að segja sama afmælisdag, 28. júní. Þau gengu í hjónaband 18. júní 1955. Halldór starfaði í bankaheiminum. Hann vann hjá Sparisjóði verslunarmanna og varð síðan starfsmaður Verslunarbankans, sem var stofnaður um þennan stærsta lífeyrissjóð síns tíma. Halldór var útibússtjóri hjá bankanum.

Fyrsta heimili þeirra Guðrúnar og Halldórs var á Ægisíðu 101, í skjóli og nábýli við foreldra hans. Margrét fæddist árið 1956. Hennar maður er Árni Guðmundsson. Börn þeirra eru Halldór, Elín og Guðmundur Örn. Og til að búa fjölskyldunni góðar aðstæður keytu þau Guðrún og Halldór íbúð á Lynghaga 24. Þangað fluttu þau og Ingibjörg kom í heiminn árið 1959. Börn hennar og Sveins Ásgeirssonar eru tvíburarnir Ásgeir Arnar og María Rún. Og svo fæddist Reynir árið 1963. Dóttir hans og Önnu Sigríðar Guðmundsdóttur er Guðrún Edda. 

Barnalánið kallaði á stærra húsnæði. Þau Guðrún og Halldór keyptu íbúð á Hjarðarhaga 44. Þar var rúmbýlt og þau voru hátt uppi, á efstu hæð og nutu frábærs útsýnis. Allir fjölskyldumeðlimirnir urðu liprir á fæti og úthaldsgóðir við öll stigahlaupin. Guðrún var alla tíð létt á sér og mér þótti alltaf gaman að hve kvik og snör í snúningum hún var á efri árum – sem unglingur væri.

Og hún var besta mamma í heimi, sagði sonur hennar, natin, ákveðin, lagin í samskiptum og lagði börnum sínum til lífssýn og lífsleikni. Guðrún helgaði manni sínum, börnum, ástvinum og afkomendum krafta sína og hæfileika. Hún hafði snemma gert sér grein fyrir mikilvægi öryggis, heimilisgæða og samheldni og lagði allan sinn mátt, hæfni og gæði til eflingar sínu fólki. Og börnin hennar og barnabörnin vitna um ómælda umhyggju og natni. Og þau Halldór og Guðrún voru samstiga í lífinu og Guðrún sá alltaf björtu hliðarnar. Blessuð sólin elskar allt – líka hjúskap og heimilislíf þeirra hjóna, barna og afkomenda þeirra. Í nokkur ár bjuggu þau Halldór í Garðabæ og svo undir lokin í Mörk þar sem þau eignuðust fallegt heimili.

Söngurinn

Guðrún ólst upp við tónlist og hún söng. Hún var afar músíkölsk og hafði fallega rödd. Hún söng í uppvextinum í Hafnarfirði. Hún var í kvintett og tróð upp opinberlega með vinkonum sínum og tók einnig þátt í leiksýningum leikfélagsins. Þegar Guðrún flutti í Vesturbæinn söng hún í kirkjukór Neskirkju og þjónaði þessari kirkju og söfnuði í áratugi. Hún lærði söng hjá Guðmundi Jónssyni, óperusöngvara. Síðustu söngárin var hún svo í Hljómi, kór eldri borgara hér í Neskirkju. Meðal stjórnenda þess kórs var Inga J. Backman, sem hefur beðið fyrir kveðjur til ykkar allra. Hún harmar að geta ekki verið við þessa útfararathöfn en biður fyrir þakkir fyrir öll söngárin með Guðrúnu, sjarma hennar og vinsemd. Það var elskulegt að hlusta á Ingu lýsa hve góður félagi og umhyggjusöm Guðrún var alla tíð, öflugur söngvari og traustur vinur. Guðrún var líka um árabil í söngsveitinni Fílharmóníu sem var frábær kór sem hækkaði standard íslenskrar söngmenntar. Guðrún var með í þeirri tónaför og menningarauka. Tónlist og gæði voru hennar mál.

Hlýjan – umhyggjan

Við, sem vorum svo lánsöm að kynnast Guðrúnu, mátum mikils hlýjuna og vinsemdina, sem hún auðsýndi okkur. Birtan í augum varpaði ljóma á umhverfið og alltaf bætti Guðrún félagsandann. Guðrún var afar umtalsfróm og færði allt til betri vegar. Hún var fagurkeri sem vildi hafa allt fallegt á heimili og í samfélagi.

Guðrún fór yfirleitt í sund á morgnana ef hún gat. Hún synti ekki aðeins metrana sína heldur var hún umhyggjusöm amma öllum stúlkunum í baðklefanum, stillti hitann á öllum sturtunum og gætti að því að litlir kroppar brynnu hvorki né kulnuðu. Svo þegar hún var búin að gera þessi góðverk hjólaði hún heim til að tryggja að bóndi hennar og börn, eða barnabörn, fengju örugglega nóg og gott að borða.

Það var eftirminnilegt að verða vitni, að barnagleði Guðrúnar og afstöðu hennar til barna. Ég minnist hve lifnaði yfir henni þegar hún sá ungabörn og á mínar minningar um hve hún fagnaði mínum sonum ungum. Engu breytti þó minni hennar væri byrjað að fara inn í himininn. Ungabörn glöddu hana hjartanlega. Hún var barngóð og umhyggjusöm og þegar barnabörn hennar komu í jólagraut sá hún jafnvel til að mandla væri í öllum diskum og allir fengju gjöf líka! Ekki gert upp á milli, allir skyldu gleðjast og vinna.

Skilin og birtan

En nú eru orðin skil. Hin umhyggjusama og elskuríka Guðrún Reynisdóttir er horfin inn í birtu himsins. Hún stendur aldrei framar við gluggann og veifar þar til þú ert komin/n í hvarf. Hún á ekki framar paprikustjörnusnakk og nammi með til að gleðja ungviðið. Hún syngur ekki framar sálma, hlustar ekki á tenóra og sóprana þenja sig, gleðst ekki yfir kirkjulegum kórverkum eða laumar að þér grænum forstpinna. Hún tekur ekki framar upp barnaefni á spólur til að sýna ungviðinu. Og hún hlær ekki framar að barnabörnum sem komust í fataskápinn hennar eða skartgripaskrín hennar. Hún dregur ekki framar upp úr tösku sinni blátt ópal eða mentos til að gleðja vini sína. Hún er hinum megin við tímaglerið. Og Halldór veifar, við líka og þökkum fyrir lífssöngva og dansa kærleikans.

Guðrún hlakkaði til að hitta sitt fólk á himnum, mömmu, bróður og ástvini. Það er gott þegar tími og eilífð kyssast og jörð og himinn faðmast. Í Guðrúnu urðum við vitni að þeirri dásemd. Hún er í söng eilífðar og ljósin. Já, blessuð sólin elskar allt, en seinna erindið í ljóði Hannesar Hafstein tjáir líf Guðrúnar Reynisdóttur.

Geislar hennar út um allt,
eitt og sama skrifa,
á hagan grænan, hjarnið kalt:
Himneskt er að lifa!

Já, það er himneskt að lifa á jörðinni og hin jarðneska dásemd er upphafin í birtu eilífðar. Guð geymi Guðrúnu og varðveiti hana í birtunni. Guð blessi þig.

Amen.

Kistulagning 11. júlí, útförí Neskirkju 12. júlí kl. 13. Bálför. Erfidrykkja í Neskirkju. Jarðsett í Sóllandi. Myndin hér að neðan er af Guðrúnu og Halldóri í safnaðarferð að Fitjum í Skorradal 18. september,  2013. 

 

Er þessi pabbi í lagi?

Hvernig hefur fjölskylda þín mótað þig? Ekki aðeins erfðavísarnir heldur samskipti, uppeldi og áföll. Við erum öll hluti fjölskyldu og fjölskyldusögur eru alls konar. Við mótumst af fjölskyldu okkar og sögu hennar. Í Biblíunni er fjöldi fjölskyldusagna, sem eru erkisögur, lærdómssögur og viðmið en líka víti til varnaðar. Jesús var meðvitaður um gildi, vegsemd og vanda fjölskyldna. Hann sagði litríkar sögur um fjölskyldur. Íhugunarefni dagsins er ein af þeim merkilegu sögum.

Saga guðspjallsins er um ungan mann í útrás og viðbrögð fjölskyldu hans. Þessi saga um týnda soninn, eyðslusegginn, er í guðspjallinu síðasta sagan um missi og endurheimt. Og ungi maðurinn sem drífur áfram framvindu sögunnar var með huga við peninga. Hann kreisti út arf sinn fyrirfram, sóaði öllu með miklum látum og klúðraði fjármálum sínum herfilega. Hann eignaðist að sjálfsögðu viðhlægjendur meðan hann átti aur. En svo var auðurinn búinn og hryllilegur raunveruleikinn blasti við. Þegar maðurinn var meðal svínanna varð hann að horfast í augu við stöðu sína. Hann hafði náð botninum og viðurkenndi þá, að hann hafði verið týndur. Þá byrjaði hann að sjá að sér, iðrast, – koma til sjálfs sín eins og sagt er svo fallega.

Þrír karlar

Heima var týnda syninum fagnað með grillveislu og dansi. Eldri bróðirinn hafði aldrei verið til vandræða. Hann bara var heima og kom svo einn daginn úr vinnunni og horfði forviða á rjóðar, dansandi konur, syngjandi sveina og viðbjóðslegan bróður, sem hafði komið í tötrum en hafði verið færður í glansandi veisluklæði. Þegar sukkarinn kom var dekrað við hann.

Því lengur sem ég íhuga þessa sögu vex samúð mín með eldri bróðurnum. Var þessi veisla fyrir ruglukollinn nokkuð annað en meðvirkni? Í flestum fjölskyldum heimsins eru til sukkarar, sem týnast af einhverjum ástæðum. Og það er alltaf átakanlegt. Svo eru hin, sem eru ábyrg og standa við sitt og sinna sínum hlutverku en geta þó átt í miklum vanda. Eldri sonurinn í líkingasögu Jesú var ekki fullkominn. Hann var ekki týndur í útlöndum en var þó týndur heima, dugnaðarmaður en tepptur hið innra. Hann var sjálfmiðaður í gæðasókn sinni en hafði tapað tengslum við ástvini sína. Fólkið í fjölskyldu karlanna var týnt hverju öðru og úr varð misskilningur. Allir rugluðust – allir voru týndir?

Meginstefið og yfirdrifnar sögur Jesú

Þekkir þú svona fjölskyldulíf? Til hvers sagði Jesús þessa sögu? Var það til að benda á að brotnar fjölskyldur ættu að halda partí hvenær sem fíkillinn kæmi úr meðferð – hvenær sem einhver flakkarinn kæmi heim frá útlöndum? Nei.

Hver er aðalpersóna sögunnar? Er það sukkarinn eða kannski heimalningurinn, bróðir hans? Eða getur verið að hvorugur sé lykilpersónan?

Sögur Jesú Krists eru merkilegar. Hann var slyngur sögumaður, kunáttusamur um byggingu, flækju og merkingarburð sögu. Sögur Jesú eru gjarnan með andstæðupari og í þessari sögu eru bræðurnir pólarnir. En svo sprengir Jesús venjulegar aðstæður og almenna úrvinnslu í mannheimum með óvæntri framvindu og furðulegum úrslitum. Sögur hans enda oftast með yfirdrifnum viðbrögðum og óvæntum niðurstöðum. Af hverju?

Jesús reyndi með sögum sínum að kalla tilheyrendur sína til vits. Faðirinn, viðbrögð hans og örlæti eru á skjön við það, sem við myndum gera og andstæð því sem fólk í öllum heimshornum myndi gera í hliðstæðum aðstæðum þegar barnið kemur loks heim. Flest viljum við taka á móti iðrandi börnum okkar en þó ekki að umbuna fyrir vitleysuna.

Já, bræðurnir eru mikilvægar persónur í dramanu en miðjan í sögunni er þó faðirinn, viðbrögð hans og verk. En föðurmyndin sem Jesús dregur upp sprengir alla ramma hins venjulega fjölskyldulíf, sprengir allt faðerni og móðerni þessar veraldar. Það er ekki faðir af þessum heimi, sem sprettur fram í sögunni heldur hinn himneski FAÐIR. Afstaða þess föður einkennist af yfirfljótandi og markalausri ást, sem umvefur allt og alla.

Iðrun og sátt.

Jesús sagði þessa líkingasögu til að vekja tilheyrendur til íhugunar um guðsafstöðu. Tveir synir. Var annar týndur en hinn bara vís heima? Eða báðir í ruglinu? Týndi sonurinn – hver er hann? Jesús segir okkur sögu um alla, líka okkur, bendir á að við séum öll eins, týnd í einum eða öðrum skilningi. Vinna, eignir og athæfi greina okkur bara að í hinu ytra. Hið innra eru við að leita, reynum að tengja og gleðjast. Hvað skiptir mestu máli í lífinu? Þegar þú ert búinn að tæma alla gleðibikara lífsins getur þú komið til sjálfs þín og séð að allt voru þetta mistök. En Guð sér þig á veginum til lífs og tekur á móti þér. Ekki af því að þú sért búinn að vinna þér inn höfuðstól, heldur af því að Guð elskar þrátt fyrir vitleysur þínar. Guð opnar líka fyrir hinum sem alltaf voru heima – ekki vegna þess hver þú ert, hvað þú átt eða hefur gert, heldur af því að þannig er flóð eða hömluleysi guðlegrar ástar.

Heim

Allir þrá hamingju og að lifa vel, falla í fang elskunnar. En bræður, systur, systkin og fjölskyldur klúðra lífi sínu. En þá er komið að undri hins guðlega. Lífið er ekki búið heldur sprettur líf fram úr dauða. Boðskapur Jesú er fagnaðarerindi og það merkir að nýir möguleikar opnast, öllum er boðið til veislu himins. Guð er ekki lítill, smár, reiður og refsandi dómari heldur elskulind, sem veitir nýtt upphaf. Þegar við erum búin að týna öllu og erum komin á botninn megum við halda heim. Nýr möguleiki. Það er einkenni elskunets Guðs að við þér er tekið. Guð sér þig, finnur þig þegar þú heldur heim til sjálfs þín. „En nú varð að halda hátíð og fagna, því hann bróðir þinn, sem var dauður, er lifnaður aftur, hann var týndur og er fundinn.“

Í Jesú nafni – amen

2019 3sdeftirþrenn B 7. júlí

Myndin sem fylgir þessari íhugun er eftir Oleg Korolev. 

A few words on the text of the day. It is Jesus‘ story about the lost son, the prodigal son. He tricked out his inheritance and went abroad for an expensive life ending in absolute disaster. So when – without money or food – the man realized and admited his awful situation. He decided to return. But he knew that he had lost his former status. The father welcomed him with a feast. But the older son was astonished that the scoundrel, who had been such a pain in the family, was rewarded and redeemed. So what to do with the story? All families have a prodigal son or a daughter, father or mother. All families struggle with how to cope with some loss og disaster. Jesus marvellous story relates to all families of the world. The two guys, the brothers, are important in the drama. The yonger son was a misfit but he decided to depart from his wrongdoing. The older son, with a completely different view, was a lost son too. While just doing right he forgot seeing the possibilites and richness of life. And of cource he is the representative of legalistic way of living, that was the political-cultural message of Jesus. But the message – the sense – of his story concerns the abundance excemplified by the Father. He is greater than all fatherhood in the world. The father in the story is an icon, image of the divine, excuberant, more loving than the sons deserve. Applied to you: However, you spend your wealth or how you have lived your life there is a possibility, an openness. However you have disrespected the depth in your soul, or that which is divine, you are welcome nevertheless. God is not a resenting, grumpy old guy – but overflowing love. When you are lost you are nevertheless seen and cherished.

Lexía: Slm 145.8-13
Náðugur og miskunnsamur er Drottinn,
þolinmóður og mjög gæskuríkur.
Drottinn er öllum góður
og miskunn hans hvílir yfir allri sköpun hans.
Öll verk þín lofa þig, Drottinn,
og dýrkendur þínir vegsama þig.
Þeir segja frá dýrð ríkis þíns
og tala um mátt þinn
til að boða mönnum veldi þitt,
hina dýrlegu hátign konungdæmis þíns.
Konungdæmi þitt varir um allar aldir
og vald þitt stendur frá kyni til kyns.

Pistill: 1Tím 1.15-17
Það orð er satt, og í alla staði þess vert að við því sé tekið, að Kristur Jesús kom í heiminn til að frelsa synduga menn og er ég þar fremstur í flokki. En Guð miskunnaði mér til þess að ég yrði fyrstur þeirra sem Kristur Jesús sýnir allt sitt mikla langlyndi og þar með yrði ég dæmi handa þeim sem á hann munu trúa til eilífs lífs. Konungi eilífðar, ódauðlegum, ósýnilegum, einum Guði sé heiður og dýrð um aldir alda. Amen.

Guðspjall: Lúk 15.11-32
Enn sagði Jesús: „Maður nokkur átti tvo sonu. Sá yngri þeirra sagði við föður sinn: Faðir, lát mig fá þann hluta eignanna sem mér ber. Og faðirinn skipti með þeim eigum sínum. Fáum dögum síðar kom yngri sonurinn eigum sínum í verð og fór burt í fjarlægt land. Þar sóaði hann fé sínu í óhófsömum lifnaði. En er hann hafði öllu eytt varð mikið hungur í því landi og hann tók að líða skort. Fór hann þá og settist upp hjá manni einum í því landi. Sá sendi hann út á lendur sínar að gæta svína og hefði hann feginn viljað seðja sig á drafinu er svínin átu en enginn gaf honum. En nú kom hann til sjálfs sín og sagði: Hve margir eru daglaunamenn föður míns og hafa gnægð matar en ég ferst hér úr hungri! Nú tek ég mig upp, fer til föður míns og segi við hann: Faðir, ég hef syndgað móti himninum og gegn þér. Ég er ekki framar verður að heita sonur þinn. Lát mig vera sem einn af daglaunamönnum þínum. Og hann tók sig upp og fór til föður síns. En er hann var enn langt í burtu sá faðir hans hann og kenndi í brjósti um hann, hljóp og féll um háls honum og kyssti hann. En sonurinn sagði við hann: Faðir, ég hef syndgað móti himninum og gegn þér. Ég er ekki framar verður að heita sonur þinn. Þá sagði faðir hans við þjóna sína: Komið fljótt með hina bestu skikkju og færið hann í, dragið hring á hönd hans og skó á fætur honum. Sækið og alikálfinn og slátrið, við skulum eta og gera okkur glaðan dag. Því að þessi sonur minn var dauður og er lifnaður aftur. Hann var týndur og er fundinn. Tóku menn nú að gera sér glaðan dag. En eldri sonur hans var á akri. Þegar hann kom og nálgaðist húsið heyrði hann hljóðfæraslátt og dans. Hann kallaði á einn piltanna og spurði hvað um væri að vera. Hann svaraði: Bróðir þinn er kominn og faðir þinn hefur slátrað alikálfinum af því að hann heimti hann heilan heim. Þá reiddist eldri bróðirinn og vildi ekki fara inn. En faðir hans fór út og bað hann koma. En hann svaraði föður sínum: Nú er ég búinn að þjóna þér öll þessi ár og hef aldrei breytt út af boðum þínum og mér hefur þú aldrei gefið kiðling að ég gæti glatt mig með vinum mínum. En þegar hann kemur, þessi sonur þinn sem hefur sóað eigum þínum með skækjum, þá slátrar þú alikálfinum fyrir hann. Faðirinn sagði þá við hann: Barnið mitt, þú ert alltaf hjá mér og allt mitt er þitt. En nú varð að halda hátíð og fagna því að hann bróðir þinn, sem var dauður, er lifnaður aftur, hann var týndur og er fundinn.“