Greinasafn fyrir merki: Halldór Júlíusson

+ Guðrún Reynisdóttir +

Þegar Guðrún og Halldór fóru í bílferðir var gaman hjá þeim. En þegar sól var lágt á lofti kom fyrir, að sólargeislarnir gerðu bílstjóranum erfitt fyrir og nánast blinduðu hann. Halldóri, sem sat við stýrið, var ekki skemmt, en áður en hann gæti kvartað stórlega var kona hans snögg til og sagði:

Blessuð sólin elskar allt,
allt með kossi vekur,
haginn grænn og hjarnið kalt
hennar ástum tekur.

Og bílstjórinn með sól í augun mat jákvæðni konu sinnar. Hann gerði sér grein fyrir, að geislarnir elska og kyssa. Og í túlkun Guðrúnar urðu geislarnir ástarkossar. Og Guðrúnu lánaðist að gera allt betra. Hennar háttur var að varpa ljósi á lífið, benda til alls þess sem gott er. Jafnvel blindandi geislar voru ástarkossar. Þannig lífsafstaða eflir og bætir og rímar við lífsgleði kristninnar. „Ég er ljós heimsins“ sagði Jesús. Kristnin er átrúnaður lífsmáttarins, sem brýtur á neiðkvæðni, lýsir upp myrkur og leysir fjötra. „Dauðinn dó en lífið lifir“ segir vel í gömlum sálmi. Guðrún var fulltrúi ljóssins og málsvari þess í heiminum. Hún benti bónda sínum til birtunnar og varpaði birtu á líf okkar allra sem kynntust henni. Hún iðkaði kristindóm og er okkur öllum skínandi fyrirmynd. Hún var sínu fólki ásjóna hins guðlega og himneska.

Upphaf og fjölskylda

Guðrún fæddist inn í sumarið. Hún fæddist í Hafnarfirði fimmtudaginn 28. júní árið 1934. Foreldrar hennar voru Reynir Guðmundsson og Margrét Skúladóttir. Hann var Vestfirðingur, fæddist á Geirseyri við Patreksfjörð. En Margrét var frá Ytra-Vatni í Lýtingsstaðahreppi í Skagafirði. Þau eignuðust þrjú börn. Svanhvít var elst. Hún fæddist árið 1930. Sverrir var næstur og fæddist 1932. Þær Svanhvít og Guðrún voru nánar. Svanna lést árið 2016, en Sverrir lést af slysförum árið 1955. Það var reglufesta í barnsfæðingum foreldra Guðrúnar, tvö ár á milli barna og Guðrún var yngst þeirra systkina og fæddist tveimur árum á eftir bróður sínum.

Fjölskyldan bjó við Brekkugötu í Hafnarfirði og þar ólst Guðrún upp. Hún sótti skóla í Firðinum og lauk gagnfræðaprófi frá Flensborg. Guðrún tók þátt í íþróttum og spilaði handbolta. Um tíma vann Guðrún í Kaupfélaginu og seldi meðal annars skó. Hið merka tímarit Samvinnan birti forsíðumynd af Guðrúnu við skósöluna. Guðrún vann svo um tíma á fræðslumálaskrifstofu Hafnarfjarðar eins og eldri systir hennar. Þessi Hafnarfjarðarár voru ekki bara ljúf draumaár í lífi fjölskyldunnar. Guðrún var aðeins 15 ára þegar móðir hennar lést. Guðrún vissi síðan að lífið er ekki sjálfsagt og við eigum ekki kröfu á tíma og gæði. Hún axlaði aukna ábyrgð og skilaði alltaf sínu og umvafði fólkið sitt öryggi. Og nokkrum árum eftir móðurmissinn lést svo bróðir hennar af slysförum og skörðin voru stór í lífi fjölskyldu Guðrúnar.

Ástin og fjölskyldan

Og svo var það Halldór Júlíusson. Guðrún fór á ball í Sjallann við Austurvöll í Reykjavík. Þar var Halldór og hafði augun á hinni syngjandi fegurðardís. Hann fékk svo síðasta dansinn. Og þar á eftir gengu þau saman út nóttina. Guðrún var á leiðinni í Landleiðarútuna til að fara suður í Hafnarfjörð. Halldór gekk með henni að stoppustöðinni. Og hann man enn, öllum þessum árum síðar, að þegar Guðrún settist í rútunni fór hann að glugganum þar sem hún sat, horði á hana og hún gaut augum á hann. Þarna stóð hann svo þar til rútan fór af stað. Hún ók af stað inn í nóttina. Hann stóð eftir með mynd hennar í huga og bæði sáu birtu framtíðar. Svo tóku við hans eigin ferðir suður í Hafnarfjörð. Og þau urðu par og voru síðan samrýmd allt lífið. Þau voru svo samstillt í lífsdansinum að þau áttu meira að segja sama afmælisdag, 28. júní. Þau gengu í hjónaband 18. júní 1955. Halldór starfaði í bankaheiminum. Hann vann hjá Sparisjóði verslunarmanna og varð síðan starfsmaður Verslunarbankans, sem var stofnaður um þennan stærsta lífeyrissjóð síns tíma. Halldór var útibússtjóri hjá bankanum.

Fyrsta heimili þeirra Guðrúnar og Halldórs var á Ægisíðu 101, í skjóli og nábýli við foreldra hans. Margrét fæddist árið 1956. Hennar maður er Árni Guðmundsson. Börn þeirra eru Halldór, Elín og Guðmundur Örn. Og til að búa fjölskyldunni góðar aðstæður keytu þau Guðrún og Halldór íbúð á Lynghaga 24. Þangað fluttu þau og Ingibjörg kom í heiminn árið 1959. Börn hennar og Sveins Ásgeirssonar eru tvíburarnir Ásgeir Arnar og María Rún. Og svo fæddist Reynir árið 1963. Dóttir hans og Önnu Sigríðar Guðmundsdóttur er Guðrún Edda. 

Barnalánið kallaði á stærra húsnæði. Þau Guðrún og Halldór keyptu íbúð á Hjarðarhaga 44. Þar var rúmbýlt og þau voru hátt uppi, á efstu hæð og nutu frábærs útsýnis. Allir fjölskyldumeðlimirnir urðu liprir á fæti og úthaldsgóðir við öll stigahlaupin. Guðrún var alla tíð létt á sér og mér þótti alltaf gaman að hve kvik og snör í snúningum hún var á efri árum – sem unglingur væri.

Og hún var besta mamma í heimi, sagði sonur hennar, natin, ákveðin, lagin í samskiptum og lagði börnum sínum til lífssýn og lífsleikni. Guðrún helgaði manni sínum, börnum, ástvinum og afkomendum krafta sína og hæfileika. Hún hafði snemma gert sér grein fyrir mikilvægi öryggis, heimilisgæða og samheldni og lagði allan sinn mátt, hæfni og gæði til eflingar sínu fólki. Og börnin hennar og barnabörnin vitna um ómælda umhyggju og natni. Og þau Halldór og Guðrún voru samstiga í lífinu og Guðrún sá alltaf björtu hliðarnar. Blessuð sólin elskar allt – líka hjúskap og heimilislíf þeirra hjóna, barna og afkomenda þeirra. Í nokkur ár bjuggu þau Halldór í Garðabæ og svo undir lokin í Mörk þar sem þau eignuðust fallegt heimili.

Söngurinn

Guðrún ólst upp við tónlist og hún söng. Hún var afar músíkölsk og hafði fallega rödd. Hún söng í uppvextinum í Hafnarfirði. Hún var í kvintett og tróð upp opinberlega með vinkonum sínum og tók einnig þátt í leiksýningum leikfélagsins. Þegar Guðrún flutti í Vesturbæinn söng hún í kirkjukór Neskirkju og þjónaði þessari kirkju og söfnuði í áratugi. Hún lærði söng hjá Guðmundi Jónssyni, óperusöngvara. Síðustu söngárin var hún svo í Hljómi, kór eldri borgara hér í Neskirkju. Meðal stjórnenda þess kórs var Inga J. Backman, sem hefur beðið fyrir kveðjur til ykkar allra. Hún harmar að geta ekki verið við þessa útfararathöfn en biður fyrir þakkir fyrir öll söngárin með Guðrúnu, sjarma hennar og vinsemd. Það var elskulegt að hlusta á Ingu lýsa hve góður félagi og umhyggjusöm Guðrún var alla tíð, öflugur söngvari og traustur vinur. Guðrún var líka um árabil í söngsveitinni Fílharmóníu sem var frábær kór sem hækkaði standard íslenskrar söngmenntar. Guðrún var með í þeirri tónaför og menningarauka. Tónlist og gæði voru hennar mál.

Hlýjan – umhyggjan

Við, sem vorum svo lánsöm að kynnast Guðrúnu, mátum mikils hlýjuna og vinsemdina, sem hún auðsýndi okkur. Birtan í augum varpaði ljóma á umhverfið og alltaf bætti Guðrún félagsandann. Guðrún var afar umtalsfróm og færði allt til betri vegar. Hún var fagurkeri sem vildi hafa allt fallegt á heimili og í samfélagi.

Guðrún fór yfirleitt í sund á morgnana ef hún gat. Hún synti ekki aðeins metrana sína heldur var hún umhyggjusöm amma öllum stúlkunum í baðklefanum, stillti hitann á öllum sturtunum og gætti að því að litlir kroppar brynnu hvorki né kulnuðu. Svo þegar hún var búin að gera þessi góðverk hjólaði hún heim til að tryggja að bóndi hennar og börn, eða barnabörn, fengju örugglega nóg og gott að borða.

Það var eftirminnilegt að verða vitni, að barnagleði Guðrúnar og afstöðu hennar til barna. Ég minnist hve lifnaði yfir henni þegar hún sá ungabörn og á mínar minningar um hve hún fagnaði mínum sonum ungum. Engu breytti þó minni hennar væri byrjað að fara inn í himininn. Ungabörn glöddu hana hjartanlega. Hún var barngóð og umhyggjusöm og þegar barnabörn hennar komu í jólagraut sá hún jafnvel til að mandla væri í öllum diskum og allir fengju gjöf líka! Ekki gert upp á milli, allir skyldu gleðjast og vinna.

Skilin og birtan

En nú eru orðin skil. Hin umhyggjusama og elskuríka Guðrún Reynisdóttir er horfin inn í birtu himsins. Hún stendur aldrei framar við gluggann og veifar þar til þú ert komin/n í hvarf. Hún á ekki framar paprikustjörnusnakk og nammi með til að gleðja ungviðið. Hún syngur ekki framar sálma, hlustar ekki á tenóra og sóprana þenja sig, gleðst ekki yfir kirkjulegum kórverkum eða laumar að þér grænum forstpinna. Hún tekur ekki framar upp barnaefni á spólur til að sýna ungviðinu. Og hún hlær ekki framar að barnabörnum sem komust í fataskápinn hennar eða skartgripaskrín hennar. Hún dregur ekki framar upp úr tösku sinni blátt ópal eða mentos til að gleðja vini sína. Hún er hinum megin við tímaglerið. Og Halldór veifar, við líka og þökkum fyrir lífssöngva og dansa kærleikans.

Guðrún hlakkaði til að hitta sitt fólk á himnum, mömmu, bróður og ástvini. Það er gott þegar tími og eilífð kyssast og jörð og himinn faðmast. Í Guðrúnu urðum við vitni að þeirri dásemd. Hún er í söng eilífðar og ljósin. Já, blessuð sólin elskar allt, en seinna erindið í ljóði Hannesar Hafstein tjáir líf Guðrúnar Reynisdóttur.

Geislar hennar út um allt,
eitt og sama skrifa,
á hagan grænan, hjarnið kalt:
Himneskt er að lifa!

Já, það er himneskt að lifa á jörðinni og hin jarðneska dásemd er upphafin í birtu eilífðar. Guð geymi Guðrúnu og varðveiti hana í birtunni. Guð blessi þig.

Amen.

Kistulagning 11. júlí, útförí Neskirkju 12. júlí kl. 13. Bálför. Erfidrykkja í Neskirkju. Jarðsett í Sóllandi. Myndin hér að neðan er af Guðrúnu og Halldóri í safnaðarferð að Fitjum í Skorradal 18. september,  2013.