Kjötbollur

Kjötbollur eiga að vera góðar! Á bolludegi gerði ég þessar kúnstugu kjötbollur, sem ættaðar eru frá fundvísum og uppátækjasömum kokki sem er Lilja Gísladóttir. Bollurnar vöktu gleði sem eru laun kokksins. Þær eru afar einfaldar í gerðinni og fljótunnar. Góð sósa er mikilvæg og tvær útgáfur nefndar hér að neðan. Ljómandi að hafa með gott salat og hrísgrjón. Matseld tekur um 45 mínútur.

Liljukjötbollur:

  • 1 kg. gott nautahakk
  • Ritzkexpakki !
  • Toro púrrulaukssúpa

Ritzkexið er sett í matvinnsluvél og malað. Allt hráefnið hrært vel saman og síðan mótaðar litlar kúlur. Þær eru síðan steiktar á pönnu þar til þær eru brúnaðar. Settar síðan í ofnfast fat og steiktar á 180°C í um það bil hálftíma.

kjötbollur_2

 

Chili-ribs sósu er líka hægt að nota og er afar einföld í gerðinni

  • 300 ml. Heinz chili sósa.
  • 400 ml. ribssulta / eða 200 ribssulta + 200 sólberjasulta.

Þessum blandað saman og sósan smökkuð til og hlutföllum hagrætt þar til jafnvægi er náð.

Salat með og hrísgrjón með. Verði ykkur að góðu.

Bæn

Þökkum Drottni því að hann er góður því miskunn hans varir að eilífu. Amen.

Segðu það með blómum Halldóru

IMG_3251Halldóra Kristinsdóttir var mikil hannyrðakona og gaf fólki í Neskirkju sem hafði gaman af hannyrðum vettlinga og blóm. Hún prjónaði rauð blóm handa konunum í Litlakórnum og síðar Hljómi og rauða skartklúta handa körlunum. Við vorum mörg í Neskirkju á föstudag með Halldórublóm á barmi eða klút frá Halldóru í vasa.

Útför hennar var gerð frá Neskirkju föstudaginn 8. febrúar og minningarorðin eru hér á þessum vef og að baki þessari smellu. Eftir útförin tók ég mynd með símanum mínum af blóminu mínu – setti það á hempuna. Þegar ég sé þetta fallega blóm, snerti það léttilega – þá kemur myndin af yndislegri, glaðsinna og umhyggjusamri konu fram í hugann. Blessuð veri minning Halldóru Kristinsdóttur.

Halldóruklútur

Ofbeldi í borginni

Ofbeldi í borginni hljóðskrá
DSC03022Má bjóða þér til Parísar? Má bjóða þér til London? Viltu koma til Rómar? Ég er meðlimur í alþjóðlegum húsaskiptasamtökum og allt frá jólum hefur rignt inn tilboðum um skipti á húsakynnum. Í gærkvöldi kom tilboð um lán á húsi á Bretagne og annað um lán á íbúð í Barcelona. Ég hef fengið tilboð um að fara til Namibíu og búa þar í höll. Margir Danir vilja líka gjarnan koma til Íslands, fá húsið okkar lánað og bílinn líka og bjóða eigið hús og bíl á móti. Svisslendingar, Frakkar, Þjóðverjar, Spánverjar hafa í löngum bunum sent húsaskiptabeiðnir – einnig Bandaríkjamenn og Kanadamenn. Svo eru líka mörg tilboð frá ýmsum stöðum í Ísarel. Við – fjölskylda mín – spyrjum okkur hvort við ættum að fara eitthvað þetta árið? Langar mig eitthvað út í heim?

Og þá að þér – ætlar þú eitthvað? Ætlar þú kannski í stórborgarferð? Ferðaskrifstofurnar eru farnar að auglýsa og vekja athygli á ýmsum möguleikunum og tilboðum. Til hvers að fara? Kannski höfum við enga löngun til að fara til útlanda. En líf okkar er samt ferðalag og sú reisa – og fólksins okkar – skiptir okkur mestu máli.

Fastan er ferðalag        

Í dag er ferðadagur. Kirkjutextarnir sem lesnir eru í messum þjóðkirkjunnar beina huga okkar að ferðalagi. Það er raunar borgarferð, en samt koma ekki við sögu neinar þotur, hótel eða skip. Ferðin sem er að hejfast er föstuferð Jesú til höfuðborgarinnar Jerúsalem.

Til að marka upphaf þessarar ferðar eru haldnar veislur um hinn vestræna heim og þann hluta sem er undir áhrifum af kristnu tímatali. Við föstuupphaf skemmtir fólk sér víða þessa helgi, með áti, drykkju, karnivalgöngum og sprelli. Á Íslandi byrjar föstuundirbúningurinn með messuhaldi þessa sunnudags sem er í föstuinngangi, svo kemur bolludagurinn og sprengidagurinn sem tengjast föstuupphafinu. Á öskudeginum gengur svo sjö vikna fastan í garð og börnin klæðast alls konar furðubúningum. Við megum gjarnan nota tækifæri og kynna börnunum af hverju allur þessi viðbúnaður við upphaf föstutímans og föstuferðarinnar.

Upp til Jerúsalem

Á öskudeginum hefst Jesúferðin og ganga kirkju hans til Jerúsalem. Sú ferð hefur verið túlkuð, lifuð og endursögð með fjölbreytilegu móti um aldir.

Margar passíur eru til og Passíusálmarnir eru ein útgáfan. „Upp, upp mín sál“ er meginstef þeirra sálma. Og Jesús segir í texta dagsins að nú sé ferðinni heitið upp – upp hvert? Jú, til Jerúsalem sem er hátt uppi – í um 800 metra hæð. Til að fá tilfinningu fyrir þeirri hæð er ágætt að muna að það er nærri hæð Esjunnar. Og til að undirbúa fjallaferðina heldur Jesús fararstjóri fund með tólf vinum. Og litla Jesúklúbbnum þykir ferðaplanið spennandi.

En frásögn af fundinum er bæði undarleg og skelfileg. Fararstjórinn gefur mjög nákvæmar upplýsingar um hvernig ferðin muni þróast en það er eins og ferðarfélagarnir skilji ekkert eða séu í bullandi afneitun. Þeir eru með hugann við annað en það, sem Jesús segir þeim. Einhverjir töldu, að Jesús myndi verða hinn pólitíski frelsari Gyðinga og þessi ferð yrði fyrsta alvöru atlagan gegn Rómverjum. Þeir hafa haft blinda trú á að þessi stórkostlegi ræðusnillingur, spekingur og kraftaverkamaður myndi snúa sig – og þá líka – út úr öllum hugsanlegum klípum. Og því virðast þeir ekki hlusta. Þeir tóku ekki eftir þessum rosalega texta sem Jesús vísaði til, skildu ekki að í borginni yrði Jesús fyrir skipulögðu einelti og einbeittum manndrápsvilja. Náðu ekki að Jesús var sér meðvitaður um hættuna en lét ekki eigin hag ganga fyrir heldur sá hlutverk sitt í stærsta mögulega samhengi.

Alger hörmung

Fararstjórinn er alveg skýr og lýsir með ákveðnu móti: Hann verði fangelsaður og misþyrmt, hann verði niðurlægður og síðan tekinn af lífi. En um viðbrögð ferðafélaganna segir: “Þeir skildu ekkert af þessu, orð þessi voru þeim hulin, og þeir skynjuðu ekki það sem sagt var.” Fólk á erfitt með ofbeldi.

Ef ég hefði heyrt svona kynningu hjá fararstjóra ferðaklúbbs hefði ég þverneitað að fara með. Myndir þú fara í ferð, ef stjórnandinn spáði hinu versta, að hann yrði limlestaður, hæddur og síðan líflátinn? Einelti er hræðilegt, hvers konar ofbeldi er andstyggilegt. Stöldrum við.

Tími íhugunar en ekki sjálfspíslar

Krossinn var borinn inn í messuupphafi. Krossburðurinn minnir á hvað kirkjan er og hver ferðaáætlun kristins lýðs er. Krossinn er ferðarlýsing og tákn og blasir við okkur alla messun og túlkar líf. Svo byrjar fastan hjá okkur og við förum í þessa ferð um föstutímann, með Jesú.

Á fyrri tíð föstuðu menn til að skerpa íhugun, ganga á vit hinum dýpri trúarlega veruleika. Á fyrri tíð var tilgangur föstunnar ekki að pína sjálfan sig með því að halda við sig í fæðu, heldur til að skerpa hina andlegu sjón.

Á föstutímanum förum við í fjallgöngu með Jesú. Það er tími ferðalags með Jesú. Hann var ekki handtekinn fyrr en að kvöldi skírdags. Vafalaust hefur Jesús verið angistarfullur einhvern tíma á ferðinni, en pínan hefst ekki fyrr en í kyrruviku, á skírdegi fyrir páska. Leyfum depurðinni að bíða þess tíma.

Meinlæti af hörkutaginu hefur engan trúarlegan tilgang og kristnin er ekki og á ekki að vera píslarsækinn. Kristnin er fremur veislutrú og leggur áherslu á lífið og gleðina. Fastan er ekki og á ekki að vera skuggalegur tími depurðar og sorgar yfir vonsku mannanna, illsku eða gæskuskorti. Á föstunni megum við staldra við kraftaverk lífsins. Fastan er fremur tími til að skoða starf, stöðu, gerðir, boðskap og sögu Jesú og spegla eigið líf í spegli hans, sögu hans. Sú saga er um að lífið er dramatísk ferð, sem endar ekki dauða heldur lífi.

Hver Guð er
Hvernig er hægt að nota þennan föstutíma framundan? Hann er ferðatími fyrir hinn innri mann og endurnýjun mennsku og menningar. Vissulega er hægt að minnka mat og drykk. Við hefðum flest gott af! Og sumir leggja það á sig sem erfitt er – opna ekki netið, tölvupóstinn eða facebook og halda sér frá netinu í heilan sólarhring! Það getur verið ein tegund föstu ef aðgerðin varðar að fara ofurlítinn spotta á uppleið föstunnar.

Borgartilboðið Jerúsalem 2013 er fyrir alla. Við erum ekki kölluð til að fara hættuför til dauða heldur leyfa föstusögu að verða stórsögu sem við tengjust. Jesúsagan er ekki bara um hóp ferðafólks á afmörkuðum stað eða tíma, heldur saga um heiminn, mannkyn og Guð. Föstusagan er einn kafli í stórsögu, sem Guð hefur sagt um sig, ferðasögu, sem á sér upphaf í elsku til okkar manna og vilja til að ganga með okkur á öllum vegum okkar. Það er saga um makalausa guðsför um mennskan móðurlíkama konu, uppvöxt í mannheimi, mannkyni í gleði og sorg, gæsku og grimmd, reynslu af þér og mér. Allar smásögur okkar koma síðan saman í krossi á hæð, angist og dauða. Þeirri sögu lauk ekki á Golgatahæð heldur hélt hún áfram í grafhýsi og páskasögu. Það er um að lífið er þrátt fyrir allt gott, litríkt, ástríkt, vonbjart, skemmtilegt og mikilfenglegt.

Það er ferðasaga Guðs, sem smásögur okkar eru hluti af. Á föstu er sögð ofursagan um samspil lífs og dauða, Guðs og heims. Sú erkisaga skiptir öllu máli. Ferðatilboðin eru fjölmörg. Borgarreisur eru í boði. Húsaskipti líka. En merkilegasta ferðin er ferðin upp og mega ferðast með besta mögulega ferðafélaganum sem völ er á ? Fastan er að hefjast – ferðin er að byrja. Hvert ætlar þú?

Amen

Prédikun í Neskirkju á sunnudegi í föstuinngangi, 10. febrúar, 2013.

Textaröð: B

Lexía: Jes 50.4–11


Drottinn Guð hefur gefið mér lærisveinatungu
svo að ég lærði að styrkja hinn þreytta með orðum.
Á hverjum morgni vekur hann eyra mitt
svo að ég hlusti eins og lærisveinn.
Drottinn Guð opnaði eyra mitt
og ég streittist ekki á móti,
færðist ekki undan.
Ég bauð bak mitt þeim sem börðu mig
og vanga mína þeim sem reyttu skegg mitt,
huldi ekki andlit mitt fyrir háðung og hrákum.
En Drottinn Guð hjálpar mér,
þess vegna verð ég ekki niðurlægður.
Því gerði ég andlit mitt hart sem tinnu
og veit að ég verð ekki til skammar.
Nærri er sá er sýknar mig,
hver getur deilt við mig?
Við skulum báðir ganga fram.
Hver ákærir mig?
Komi hann til mín.
Drottinn, Guð minn, hjálpar mér,
hver getur sakfellt mig?
Sjá, þeir detta allir sundur eins og klæði,
mölur étur þá upp.
Hver er sá yðar á meðal sem óttast Drottin
og hlýðir á boðskap þjóns hans?
Sá sem gengur í myrkri
og enga skímu sér,
hann treysti á nafn Drottins
og reiði sig á Guð sinn.
En þér, sem kveikið eld
og vopnist logandi örvum,
gangið sjálfir inn í eigið bál
og eldinn sem þér kveiktuð með örvunum.
Úr minni hendi kemur þetta yfir yður,
þér munuð liggja í kvölum.

Pistill: 1Kor 1.18-25


Því að orð krossins er heimska þeim er stefna í glötun en okkur sem hólpin verðum er það kraftur Guðs. Ritað er:
Ég mun eyða speki spekinganna
og hyggindi hyggindamannanna mun ég að engu gera.
Hvar er vitringur? Hvar fræðimaður, orðkappi þessa heims? Er ekki það sem heimurinn telur speki heimska í augum Guðs?
Enda þótt speki Guðs sé í heiminum gátu mennirnir ekki þekkt Guð með sinni speki. Þess vegna ákvað Guð að boða það sem er heimska í augum manna og frelsa þá sem trúa.

Guðspjall: Lúk 18.31-34

Jesús tók þá tólf til sín og sagði við þá: „Nú förum við upp til Jerúsalem og mun allt það koma fram sem spámennirnir hafa skrifað um Mannssoninn. Hann verður framseldur heiðingjum. Þeir munu hæða hann, misþyrma honum og hrækja á hann. Þeir munu húðstrýkja hann og lífláta en á þriðja degi mun hann upp rísa.“
En þeir skildu ekkert af þessu, orð þessi voru þeim hulin og þeir skynjuðu ekki það sem sagt var.

Halldóra Kristinsdóttir

Halldóra KristinsdóttirÞað var á aðventunni 2006 og fallegt veður úti. Halldóra fór í yfirhöfn. Hún var á leið í ævintýraferð og eftirvænting kitlaði. Hún tók barnavettlinga sem hún hafði prjónað, kom þeim fyrir í poka og svo kvaddi hún bónda sinn, fór út og gekk upp Neshagann. Þegar hún kom upp á hornið á Hjarðarhaganum kom kona með barnavagn á móti henni. Og það var alveg ljóst að Halldóra átti erindi við konuna sem var með tvíbura í vagninum. „Mig langar til að gefa börnunum vettlinga“ sagði Halldóra. Og svo dró hún upp úr pússi sínu fallega vettlinga og lagði á vagninn. Mamman, sem var á leið í Melabúðina, gladdist yfir þessu undri á gönguför – og varð síðan vinur Halldóru, dáðist að henni og handverki hennar. Svo kom í ljós að þetta var ekki einstakur atburður heldur fór Halldóra út á hverjum vetri – nærri jólum – og gaf fyrstu ungabörnunum sem hún mætti vettlinga. Þetta var eitt af jólaævintýrunum sem Halldóra kallaði fram. Puttar þarfnast hlýju, ungviði þarfnast umhyggju, mæður – og reyndar feður líka – þarfnast stuðnings. Og Halldóra prjónaði ekki aðeins vettlinga heldur varðveitti í sér gleði gjafarans og djörfung til að fara á flakk í vesturbænum og gefa fólki framtíðar gjafir. Og hún hafði gaman af.

Gerningur lífsins

Orðið “póesía” er í mörgum vestrænum tungumálum notað um ljóð. En að baki er hið fallega gríska orð poiesis, ποίησις. Það er ekki aðeins snoturt á blaði, heldur þrungið fallegri merkingu. Það táknar ekki aðeins það að stafla orðum í ljóð, heldur líka að búa til með höndum, vinna, kalla fram líf og hlúa að því. Að ljóða er að skapa og framkvæma.

Meðal Grikkja og Hebrea var póesía ekki aðeins huglægt verk, heldur náði til fóta, handa, starfa, sköpunar, raunveruleika og lífsbaráttu fólks. Þessi speki er hagnýt. Handverk í eldhúsi, við bleyjuskipti, trjáplöntun, prjónaskap og öðrum lífsgerningum á sér andlega hlið. Hin dýpsta speki getur aldrei lifað nema hún eigi sér hagnýta skírskotun. Halldóra kunni að þjóna fólki með höndum sínum og svo var hún líka handgenginn ljóðlistinni og samdi fjölda ljóða (og orðið hannyrðir getur vísað bæði til handa og orða). Hún endurspeglaði í lífi sínu ástarverðandi Guðs.

Ætt og uppvöxtur

Halldóra Sigríður Kristinsdóttir fæddist í Helguhvammi á Vatnsnesi 9. janúar á Alþingishátíðarárinu 1930. Foreldrar hennar voru Kristinn Jónsson og Halldóra Sigríður Bjarnadóttir, sem lést níu dögum eftir að dóttir hennar fæddist og Halldóra fékk því nafn móður sinnar. Halldóra yngri fæddist á heimili Jóhannesar Guðmundssonar og Þorbjargar Mörtu Baldvinsdóttur[i] sem áttu ekki börn þegar hér var komið sögu. Sorgbitinn ekkill og faðir Halldóru sá ekkert ráð betra en að fela þeim Jóhannesi og Þorbjörgu Mörtu að fóstra barnið. Þau tóku Halldóru í fangið sem eigin dóttur, veittu henni hinar bestu uppvaxaraðstæður og gáfu henni síðan bræður, þá Valdimar,  Guðmund og Eggert.

Halldóra bjó uppvaxtarárin í Helguhvammi, naut ástúðar og umhyggju og fékk gott veganesti. Hún lærði að vinna, draga til stafs, læra og skapa – líka með höndum. Fólkið í Helguhvammi var dugfólk og varð Halldóru fyrirmynd um að standa sig. Hún tamdi sér og sínum að dugnaður væri dyggð sem vert væri að rækta.

Halldóra sótti skóla í heimabyggð á Vatnsnesi. Hún sá snemma gildi félagslífs og góðs mannlífs. Hún fór með fósturmóður sinni á æfingar kirkjukórsins og lærði að meta tónlist til lífsgæða. Svo var Kristinn, blóðfaðir hennar, einnig organisti í Tjarnarkirkju, og í kirkjuferðum gat Halldóra einnig hitt hann. Milli þeirra var eðlilegur samgangur.

Söngur varð Halldóru eiginlegur. Hún sagði börnum sínum að á leið í skólann á næsta bæ hefði hún stoppað á hverjum hól og sungið. Þá var Halldóra orðinn heimssöngvari, söng af innlifun og einlægni fyrir allan heiminn – kannski geiminn og alla vega Guð á himnum. Og það er mikil músík í sköpunarverkinu og dásamlegt þegar hún verður líka að lífssöng smástúlku á Vatnsnesi lífsins.

Þó norðlensk sumur séu björt og oft mjúkfingruð mat Halldóra þó haust og vetur jafnvel enn meira. Þá var hægt að setjast við hannyrðir! Fósturmóðir hennar samnýtti stundirnar. Hún vann og fól samtímis fósturdóttur sinni að skrifa fyrir sig bréf sem hún las fyrir. Og því varð Halldóra snemma vel skrifandi, hafði fagra rithönd og lærði að semja.

Í Helguhvammi var svo hlustað á útvarp og unnið með höndum og þeirra stunda naut Halldóra. Um tíma var Halldóra við störf í Reykjavík. Og svo fór hún þegar hún hafði aldur til í Kvennaskólann á Blöndósi. Þar var hún veturinn 1947 – 48 og þar var byggt ofan á það sem hún þegar kunni úr heimahúsum. Í skóla eignaðist Halldóra vinkonur, sem hún hélt sambandi við alla tíð.

Ólafur og börnin

Þau Ólafur Þórður Þórhallsson vissu af hvoru öðru frá barnæsku, sáu hvort annað „og leist vel á“ sagði Ólafur. Svo fóru þau að leiðast og eftir skólaveru Halldóru á Blöndósi dýpkaði samband þeirra og svo fóru þau að tala um hvar þau ættu að vera og búa. Niðurstaðan var að þau yrðu á Syðri-Ánastöðum og bjuggu þar í tvíbýli við foreldra Ólafs til ársins 1983. Tvo vetur störfuðu þau við skólann á Laugabakka í Miðfirði. Ólafur kenndi, Halldóra sá um næringu barnanna og eiginlega sérkennsluna líka því hún sinnti þeim sem þurftu séraðstoð eða áttu bágt. Hún naut lagni sinnar í samskiptum og börnin nutu mannelsku hennar og natni.

Halldora_og_Olafur

Þau Halldóra og Ólafur fóru svo að búa á Ánastöðum. Þau gengu í hjónaband – ætluðu að hafa vígsluna 1. janúar 1951. Presturinn var á leiðinni til að skíra barn og sjálfsagt að nota ferðina. En þá skall á versta veður svo athöfnin frestaðist til 2. janúar – en þá var klerkur kominn og svaramenn einnig. Þau sögðu bæði já við spurningum og svo áttu þau hvort annað og elskuðu allt til hinstu stundar.

Halldóra og Ólafur eignuðust fimm börn.

Þorbjörg Jóhanna fæddist 1950. Hún er ljósmóðir að mennt. Maður hennar er Jón M. Benediktsson. Þau eiga þrjú börn; Þórólf, Ragnheiði og Þórhildi.

Ólöf Þórhildur fæddist árið 1953. Hún er yfirmaður deildar mennta- og æskulýðsmála hjá Evrópuráðinu í Strassbourg. Maður hennar er Necmi Ergün og þeirra dóttir er Özden Dóra.

Halldór Kristinn var þriðji í röðinni. Hann fæddist árið 1956 og starfaði sem vélstjóri. Kona hans var Gunnhildur Hlöðversdóttir og þau eignuðust Bergrúnu og Halldóru. Kristinn lést árið 1985, aðeins 28 ára að aldri.

Bergur Helgi var fjórði, fæddist 1960. Hann varð flogaveikur þegar sem barn og þau Halldóra og Ólafur brugðu búi til að flytjast suður til að geta sinnt honum sem best og tryggt honum sem besta læknisaðstoð. Bergur lést árið 1988 og var 28 ára þegar hann dó, eins og Kristinn, bróðir hans.

Júlíus Heimir er yngstur þeirra systkina og fæddist  árið 1965. Hann starfar sem kennari í Melaskóla. Kona hans er Vigdís Guðmundsdóttir. Dætur þeirra eru Jóhanna og Matthea. Sonur Júlíusar og Guðlaugar Elísabetar Ólafsdóttur er Ólafur.

Allt þetta fólk umvafði Halldóra með elsku sinni, naut samfélags við þau, tengdabörnin, barnabörn sín og afkomendur. Hún bar hag þeirra mjög fyrir brjósti og fagnaði þeim þegar þau komu í heimsókn. Hún setti þau ekki fyrir framan sjónvarpið heldur hvatti til leikja sem hún tók sjálf þátt í. Það var hrífandi að sjá ungviðið í fjölskyldunni í gær heima á Neshaga. Þau fóru strax að leika sér enda kom margt upp úr gullakassanum hennar Halldóru.

Fráfall bræranna var Halldóru – eins og ástvinum öðrum – mikil raun. En börnin og síðan fjöldi ástvina og afkomenda varð henni hvati til lífs. Hún fagnaði börnunum þegar þau fæddust og þau áttu tryggan aðdáanda og vin í Halldóru, sem vildi hafa fólkið sitt nálægt sér. Af þeim Ólafi og Halldóru eru 25 afkomendur svo lán hennar og þeirra er margvíslegt.

Á kveðjudegi hafa nokkur beðið fyrir kveðjur til ástvina og þessa safnaðar. Þau eru Sveinbjörn J. Tryggvason, Anna Þóra Þórhallsdóttir og Halldór Halldórsson og fjölskylda hans í Noregi.

Og Ólafur og fjölskylda vilja þakka íbúum á Neshaga 14 góða samfylgd allt frá 1983. Góðir grannar eru lífslán.

Eigindir

Halldóra Kristinsdóttir var gefandi í samskiptum. Hún gaf ekki aðeins ástvinum og samferðafólki prjónuð blóm (eins og við berum mörg hér í þessari athöfn í dag), fallega vettlinga eða annað handverk. Hún var gefandi í félagsefnum einnig. Hún tók snemma þátt í félagsstarfi á Vatnsnesinu og hélt áfram alla tíð að vera félagslega virk.

Þegar hún kom suður hafði hún um tíma atvinnu af heimahlynningu og margir nutu natni og þjónustulipurðar hennar. Halldóra naut svo félagsstarfsins í Neskirkju og sótti ekki aðeins athafnir og viðburði í kirkjunni heldur lagði sjálf til. Hún hafði alla tíð áhuga á tónlistinni og gekk í kór eldri borgara sem hét Litli kórinn. Hún söng í þeim kór í mörg ár og var okkur sem störfum í kirkjunni ekki aðeins gleðigjafi þegar hún kom á æfingar heldur samverkamaður í athöfnum og líka í athöfnum á ýmsum stofnunum sem prestur og kór vitjuðu – ekki síst á aðventunni. Og fyrir þjónustu hennar vil ég þakka fyrir hönd Neskirkju.

Allir sem þekktu Halldóru muna handverk hennar. Hún saumaði af snilld, prjónaði af kunnáttu, prufaði postulínsmálun og var alltaf til í skoða með hvaða hætti hún gæti þróað og gert nýtt. Einn handverkskennarinn skrifaði á einn muninn að hann ætti „konan sem færi sínar eigin leiðir.“ Það er hnittið og rétt að Halldóra var óhrædd að prufa nýtt, skoða fleiri hliðar en flestir og þróa áfram það sem hreif hana. Í henni var sköpunargeta. Hún þorði að gera hluti úr því sem aðrir hefðu hent. Þau eru mörg bútasaumsteppinn, sem Halldóra gerði úr afgöngum og gaf síðan börnum til að leika á og umvefja ef þeim var kalt.

Margt af því sem hún gerði vakti athygli og bréfbátar hennar með áhöfn og verkfærum voru fengnir til Safnasafnsins á Svalbarðsströnd í Eyjafirði og hafa vakið verðskuldaða athygli.

Sonarsonur hennar var eitt sumarið í heimsókn í hundlausum bænum fyrir norðan og kvartaði yfir hvuttaskorti. Halldóra brá við og náði í rekaviðarkupp, festi band í og gaf drengnum. Strákur var síðan sæll með sinn hund, dró hann með sér um víðan völl og hundurinn hlýddi! Í Halldóru var spunahæfni og geta til að leysa vandamál með farsælum endi.

Halldóra átti í sér bjarta sýn á fólk og umhverfi. Hún lagði gott til og hafði trú á fólki.

Halldóra og Ólafur seldu ekki frá sér sinn hlut Ánastaða þótt þau flyttu suður. Þau voru fyrir norðan flest sumur, nutu landsins, nýttu sjávarfang, tóku á móti stórfjölskyldunni opnum örmum og tengdu ungviði við upphaf þeirra og sögusamhengi. Svo hóf Halldóra á síðari árum nýtt landnám með skógrækt og nú eru trén hennar að teygja fingur til himins og skógurinn veitir skjól. Verka Halldóru mun fjölskyldan njóta um framtíðarár.

Inn í himin Guðs

Og nú er komið að skilum. Í öllum bókum Biblíunnar er minnt á, að Guð er ekki fjarlæg, upphafin vera, heldur ástríðupersóna, sem elskar, grætur, faðmar, gleðst og syrgir. Samkvæmt kristninni er Guð svo tengdur, að þegar allt var brotið í mannheimi sat Guð ekki hjá heldur kom til að þurrka tár, lækna mein og skapa grundvöll lífsins. Guð skapar fólk til frelsis og yfirgefur okkur aldrei þrátt fyrir bresti manna. Guð er stórskáldið, sem yrkir heiminn, prjónar og yrkir mennina og líf. Erindi kristninnar, svonefnt fagnaðarerindi er að lífið er góður gerningur. Þegar lífi lýkur er ljóðmögur mættur, opnar fangið og leyfir öllu fólki, já allri sköpun sinni inn í himininn.

Halldóra gefur ekki fleiri vettlinga, teppi eða prjónuð blóm. Hún opnar ekki lengur faðm mót ástvinum sínum og umvefur með brosi sínu. En hún er komin inn í himininn.

Í fallegu jólaljóði Halldóru sem er sungið í þessari athöfn segir:

Kveiki ég á kerti mínu,

kem með það að rúmi þínu.

Lýsi á litla kollinn minn,

ljúft ég strýk um þína kinn.

Hugsa um löngu liðna daga

lífið, það er önnur saga.

 

Upp til himins augum renni,

eina stjörnu þar ég kenni.

Horfir hún af himni niður,

henni fylgir ró og friður….

Halldóra kveikir ekki á fleiri kertum – eða strýkur kinn þína. Guð mætti henni þar sem mætast líf og dauði með sína værðarvoð og vettlinga til að gefa henni. Halldóra Kristinsdóttir er farin til ástvina, inn í hið heilaga Vatnsnes eilífðar. Söngur hennar hljómar á hólum himins.

Guð geymi Halldóru um alla eilífð.

Guð varðveiti þig.

Í Jesú nafni, Amen.

Minningarorð í útför Halldóru Kristinsdóttur, sem gerð var frá Neskirkju, 8. febrúar, 2013.

Æviágrip

Halldóra Sigríður Kristinsdóttir f. í Helguhvammi á Vatnsnesi 9. janúar 1930. Hún lést á Landspítalanum í Fossvogi fimmtudaginn 31. janúar.  Foreldrar hennar voru Kristinn Jónsson, f. 1. febrúar 1908, d. 30. mars 1998 og Halldóra Sigríður Bjarnadóttir, f. 29. ágúst 1903, d. 18. janúar 1930. Fósturforeldrar Halldóru voru Jóhannes Guðmundsson, f. 30. september 1904, d. 23. maí 1982 og Þorbjörg Marta Baldvinsdóttir, f. 10. nóvember 1897, d. 31. júlí 1980. Fósturbræður Halldóru eru Valdimar, f. 1933, d. 1997, Guðmundur, f. 1934 og Eggert, f. 1939.

Hinn 2. janúar 1951 giftist Halldóra Ólafi Þórði Þórhallssyni, f. 2. júní 1924. Foreldrar hans voru Þórhallur Jakobsson, f. 1896, d. 1984 og Ólöf Ingibjörg Ólafsdóttir, f. 1903, d. 1997. Halldóra og Ólafur eignuðust fimm börn, en börn og afkomendur þeirra eru: 1) Þorbjörg Jóhanna, f. 1950, gift Jóni M. Benediktssyni, f. 1951, börn þeirra eru a) Þórólfur, f. 1974, í sambúð með Nönnu Viðarsdóttur, synir  þeirra eru Jón Ívar og Logi, dóttir Þórólfs og Brynhildar Ólafsdóttur er Þorgerður, dóttir Nönnu er Edda Eik Vignisdóttir, b) Ragnheiður, f. 1979, í sambúð með Anders Dolve, c) Þórhildur, f. 1979, gift Jóni Hákoni Hjaltalín, börn þeirra eru Styrmir og Þorbjörg Sara, 2) Ólöf Þórhildur, f. 1953, gift Necmi Ergün, f. 1950, dóttir þeirra er Özden Dóra, f. 1977, gift Alex Clow, sonur þeirra er Edgar Tristan, 3) Halldór Kristinn, f. 1956, d. 1985, sambýliskona hans var Gunnhildur Hlöðversdóttir, f. 1959, dætur þeirra eru a) Bergrún, f. 1980, í sambúð með Birni Ólafssyni, sonur þeirra er Kristinn Hrafn, b) Halldóra, f. 1983, í sambúð með Sveinbirni J. Tryggvasyni, sonur þeirra er Tryggvi Kristinn; dóttir Gunnhildar er Þorbjörg Ómarsdóttir, f. 1993, 4) Bergur Helgi, f. 1960, d. 1988, 5) Júlíus Heimir, f. 1965, kvæntur Vigdísi Guðmundsdóttur, dætur þeirra eru a) Jóhanna, f. 2005, b) Matthea, f. 2006, sonur Júlíusar og Guðlaugar Elísabetar Ólafsdóttur er Ólafur, f. 1993, í sambúð með Melkorku Eddu Sigurgrímsdóttur.


[i] Mörtunafnið kom reyndar frá þeim mæta Marteini Lúther. Á heimilinu var stór mynd af siðbótarmanninum og nafnberinn íslenski kunnur fyrir trúrækt.