Greinasafn fyrir merki: ferð

Óskaganga á Helgafell

IMG_5111Skammt frá Stykkishólmi er hið forna höfuðbýli Helgafell. Sveitin umhverfis fær nafn af staðnum. Í Helgafelli var klaustur af Ágústínareglu frá árinu 1184, sömu reglu og Marteinn Lúther tilheyrði. Norðan bæjar og kirkju er fagurlega mótað Helgafellið, sem rís þokkafullt upp úr flatlendinu umhverfis og er líka fagurt að sjá frá sjó.

Á tvo vegu er fellið bratt en auðvelt að klífa það frá vestri og suðri. Norðan við kirkjuna er afgirt og greinilegt leiði Guðrúnar Ósvífursdóttur, kunnustu skvísu Laxdælasögu. Þaðan er auðvelt að ganga upp á fellið og að svonefndri kapellu. Sagan segir að hún sé rúst helgistaðar – væntanlega munkanna í klaustrinu. En byggingin gæti allt eins hafa verið skýli varðmanna sem fylgdust með umferð manna en kannski líka búpenings.

Göfgun og gönguhvati

Menn hafa löngum gefið ferðum sínum tilgang og reynt að göfga verk og daglegt atferli og séð í lífinu dýpri merkingu. Svo hefur verið gert við leiðina frá Helgafellskirkju og leiði Guðrúnar og upp á fellið. Hún varð að óskaferð, eins konar pílagrímsferð eða leið fyrir persónulega kyrrðargöngu.

Sagan segir að ef rétt sé farið að megi óska sér þrenns í þessari ferð. Til að vænta megi uppfyllingar óska eru skilyrðin að signt sé yfir leiði Guðrúnar, síðan verði gengið í algerri þögn upp stuttan stíg á fellið, ekki sé litið aftur á leiðinni og förumaðurinn snúi síðan í austur þegar upp er komið og beri fram óskir sínar með góðum huga.

Óskaganga

Fyrr í þessari viku fór ég í þessa pílagrímsgöngu með konu minni og yngri drengjum. Það var gaman að útskýra fyrir strákunum hvers konar ganga þetta væri, gera grein fyrir kröfunum sem gerðar væru fyrir göngumenn, hvers eðlis óskirnar gætu verið, hvað maður þyrti að gera á leiðinni og hvað maður mætti ekki gera. Ekki væri leyfilegt að tala, kvarta, spyrja, masa, hlægja eða gráta – ekki mætti horfa á annað en leiðina, hugsa um óskirnar með góðum huga, reyna að hreinsa þær þannig að þær væru raunverulega mikilvægar og maður gæti sjálfur unnið að því eða hjálpað til að þær rættust.

IMG_5080Síðan var hægt að tala um helgistaðinn, bænastaðinn, kirkjustaðinn, bænaiðju munka – sem synir mínir kölluðu nunnukalla á síðasta ári – en hlægja nú að því orði. Þeir og kona mín voru sammála um skilmála, aðferð og tilgang. Svo krossuðum við yfir leiðið, gengum í þögn og með hæfilegu millibili í góðviðri, með fuglasöng í eyrum, ilm jurta og sjávar í nösum og fundum fyrir örum hjartslætti í brjósti. Við orðuðum óskirnar í kyrru hugans og stóðum svo í kapellunni efra, horfðum í austur og bænir flugu í nafni Föður, Sonar og heilags Anda. Svo var þögnin rofin.

Merking óskagöngu

Hvað merkir svona ferð? Hvers eðlis er bera fram óskirnar? „Er þetta satt pabbi?“ spurðu drengirnir og ég skýrði út fyrir þeim eðli þjóðsagna, hlutverk þeirra, merkingu og hvað væri hvað? Er Helgafell töfrastaður, er þar styttra í svarstöð himins en annars staðar? Ef maður klúðrar einhverju rætast þá ekki óskirnar og snúast jafnvel í andhverfu sína? Ef maður lítur óvart aftur eða gleymir að signa yfir leiðið er þá ferðin til einskis eða jafnvel ills? Svona spurningar eru þarfar og mikilvægt að ræða. Einu gildir á hvaða aldri maður er. Svona spurningar eru mennskar og mikilvægar.

Saga gefur

Hvert er eðli og tilgangur þjóðsögu? Í þessari sögu er hægt að merkja að atferli leiðir til íhugunar og hreinsunar, að bænir eiga sér ytra form, að göngur hafa fengið dýpri skýringu, endurtúlkun og göfgun, að frátekin staður og guðsmenn hafa kallað á vitund um hið heilaga og skýringaþykkni. Og svo lifir saga um dásemd, möguleika, mikilvægi, merkingu og tilgang. Þjóðsögur eru ekki aðeins skemmtisögur heldur má fara inn í þær og skilja erindi þeirra á dýptina og hlusta eftir boðskap þeirra. Svona sögur á ekki að taka bókstaflega heldur vinsamlega – leyfa þeim að tjá gildi, dýpri mál, hlutverk og möguleika sem geta haft svo mikil áhrif að líf okkar breytist. Saga gefur, veitir fyrirmyndir, miðlar visku og styður því líf.

Guð kallar

Ytri skilyrðin voru okkur hinum fullorðnu ekki aðalatriði eða forsenda að óskir rættust. Ég rölti með mínu fólki upp á Helgafell í fullri vissu um að ég þyrfti ekki að lúta þrældómi aðferðar heldur væri annað mikilvægt. Aðferðirnar væru tæki til að opna djúp. Göngu og atferli væri ætlað að opna fyrir möguleika, kalla fram nýjar hugsanir, við mættum hlusta eftir djúpröddum hjartans sem er tjáning Guðsandans. Allt sem skiptir máli í lífinu krefst einhverrar fyrirhafnar. Guð er ekki utan við veröldina heldur talar í gegnum raunveruleika lífsins, hvort sem það er nú í golu í hríslum og blábergjalyngi, fuglasöng eða samskiptum við fólk. Guð kallar til lífs og vaxtar.

Pílagrímaganga – samfylgd Guðs og manns

Helgafell er vissulega áhrifaríkur sögustaður, vermireitur bókmennta og minnir á átakanlega ástarsögu Laxdælu. Helgafell er kirkjustaður, samkomustaður safnaðar til að biðja og syngja Guði lof. En svo gerir göngusagan Helgafell einnig að vettvangi pílagrímagöngu. Það er því hægt að nota staðinn til að gera upp mistök og sorgarefni og stafla þeim í grjótvegg kapellunnar efra og skilja þar eftir það sem miður fer og má hverfa í lífi fólks. En í staðinn koma gjafir Guðs til góðs.

Og til hvers eru pílagrímagöngur, eingöngur, kyrrðargöngur? Þær eru til að vinna með merkingu mannlífs, lífs okkar mannanna. Þær eru til að skilja við það sem dregur úr fólki gleði og lífskraft – allt sem splundrar okkur og sundrar sambandi við sjálf okkur og Guð. En þær eru líka til að kalla okkur til sjálfra okkar, leyfa þrá okkar að koma fram, dýpstu löngun okkar að hrópa til sjálfra okkar, leyfa óskum okkar að fljóta upp í vitundina og taka flugið til hæða. Pílagrímagöngur verða gjarnan til að við vöknum til að Guð fái talað við okkur. Þegar svo verður fyllumst við krafti til endurnýjunar. Þá fara bænirnar að rætast og við lifnum og eflumst.

Textar dagsins eru ferðatextar fyrir lífið. Og hverjum mætum við þegar við verðum fyrir mikilli reynslu á leið okkar? Guði. Það var vitnisburður ferðamannsins Páls sem lenti á sínu Helgafelli. Það var reynsla vina Jesú sem urðu vitni að því að veröldin er mikið Helgafell sem Guð á og gefur okkur til búsetu og líflistar.

Tilgangsferðir og trú

Á leiðinni ofan af fjallinu hjöluðu drengirnir mínir. Þeir höfðu beðið bænir sínar og tjáð óskir sínar og við hin eldri einnig. Þjóðsaga og helgisaga höfðu orðið okkur til góðs. Við höfðum fundið til helgi lífsins á Helgafelli. Sumarferðirnar eru ekki aðeins ferðir út í buskann heldur ferðir með ríkulegum tilgangi. Ég hafði ekki skipulagt pílagrímagöngu þennan dag, hún kallaði okkur til sín, kom okkur á óvart. Og við nutum hennar og hún hafði áhrif á okkur öll. Lífið er dásamlegt og þegar við leyfum ævintýri dýptanna að vitja okkar verður lífið skemmtilegra og eiginlega marglaga undur og óvæntir viðburðir til að gleðja og kalla til dýpta. Og það besta er að óskirnar rætast. Sumarferðir og kannski allar lífsleiðirnar mega verða okkur Helgafellsgöngur. Við megum bera fram óskir í góðum huga og þá göngum við inn í ósk Guðs, sem ann okkur mest og er okkur bestur.

Amen

Íhugun í Neskirkju 30 júní 2013

Ofbeldi í borginni

Ofbeldi í borginni hljóðskrá
DSC03022Má bjóða þér til Parísar? Má bjóða þér til London? Viltu koma til Rómar? Ég er meðlimur í alþjóðlegum húsaskiptasamtökum og allt frá jólum hefur rignt inn tilboðum um skipti á húsakynnum. Í gærkvöldi kom tilboð um lán á húsi á Bretagne og annað um lán á íbúð í Barcelona. Ég hef fengið tilboð um að fara til Namibíu og búa þar í höll. Margir Danir vilja líka gjarnan koma til Íslands, fá húsið okkar lánað og bílinn líka og bjóða eigið hús og bíl á móti. Svisslendingar, Frakkar, Þjóðverjar, Spánverjar hafa í löngum bunum sent húsaskiptabeiðnir – einnig Bandaríkjamenn og Kanadamenn. Svo eru líka mörg tilboð frá ýmsum stöðum í Ísarel. Við – fjölskylda mín – spyrjum okkur hvort við ættum að fara eitthvað þetta árið? Langar mig eitthvað út í heim?

Og þá að þér – ætlar þú eitthvað? Ætlar þú kannski í stórborgarferð? Ferðaskrifstofurnar eru farnar að auglýsa og vekja athygli á ýmsum möguleikunum og tilboðum. Til hvers að fara? Kannski höfum við enga löngun til að fara til útlanda. En líf okkar er samt ferðalag og sú reisa – og fólksins okkar – skiptir okkur mestu máli.

Fastan er ferðalag        

Í dag er ferðadagur. Kirkjutextarnir sem lesnir eru í messum þjóðkirkjunnar beina huga okkar að ferðalagi. Það er raunar borgarferð, en samt koma ekki við sögu neinar þotur, hótel eða skip. Ferðin sem er að hejfast er föstuferð Jesú til höfuðborgarinnar Jerúsalem.

Til að marka upphaf þessarar ferðar eru haldnar veislur um hinn vestræna heim og þann hluta sem er undir áhrifum af kristnu tímatali. Við föstuupphaf skemmtir fólk sér víða þessa helgi, með áti, drykkju, karnivalgöngum og sprelli. Á Íslandi byrjar föstuundirbúningurinn með messuhaldi þessa sunnudags sem er í föstuinngangi, svo kemur bolludagurinn og sprengidagurinn sem tengjast föstuupphafinu. Á öskudeginum gengur svo sjö vikna fastan í garð og börnin klæðast alls konar furðubúningum. Við megum gjarnan nota tækifæri og kynna börnunum af hverju allur þessi viðbúnaður við upphaf föstutímans og föstuferðarinnar.

Upp til Jerúsalem

Á öskudeginum hefst Jesúferðin og ganga kirkju hans til Jerúsalem. Sú ferð hefur verið túlkuð, lifuð og endursögð með fjölbreytilegu móti um aldir.

Margar passíur eru til og Passíusálmarnir eru ein útgáfan. „Upp, upp mín sál“ er meginstef þeirra sálma. Og Jesús segir í texta dagsins að nú sé ferðinni heitið upp – upp hvert? Jú, til Jerúsalem sem er hátt uppi – í um 800 metra hæð. Til að fá tilfinningu fyrir þeirri hæð er ágætt að muna að það er nærri hæð Esjunnar. Og til að undirbúa fjallaferðina heldur Jesús fararstjóri fund með tólf vinum. Og litla Jesúklúbbnum þykir ferðaplanið spennandi.

En frásögn af fundinum er bæði undarleg og skelfileg. Fararstjórinn gefur mjög nákvæmar upplýsingar um hvernig ferðin muni þróast en það er eins og ferðarfélagarnir skilji ekkert eða séu í bullandi afneitun. Þeir eru með hugann við annað en það, sem Jesús segir þeim. Einhverjir töldu, að Jesús myndi verða hinn pólitíski frelsari Gyðinga og þessi ferð yrði fyrsta alvöru atlagan gegn Rómverjum. Þeir hafa haft blinda trú á að þessi stórkostlegi ræðusnillingur, spekingur og kraftaverkamaður myndi snúa sig – og þá líka – út úr öllum hugsanlegum klípum. Og því virðast þeir ekki hlusta. Þeir tóku ekki eftir þessum rosalega texta sem Jesús vísaði til, skildu ekki að í borginni yrði Jesús fyrir skipulögðu einelti og einbeittum manndrápsvilja. Náðu ekki að Jesús var sér meðvitaður um hættuna en lét ekki eigin hag ganga fyrir heldur sá hlutverk sitt í stærsta mögulega samhengi.

Alger hörmung

Fararstjórinn er alveg skýr og lýsir með ákveðnu móti: Hann verði fangelsaður og misþyrmt, hann verði niðurlægður og síðan tekinn af lífi. En um viðbrögð ferðafélaganna segir: “Þeir skildu ekkert af þessu, orð þessi voru þeim hulin, og þeir skynjuðu ekki það sem sagt var.” Fólk á erfitt með ofbeldi.

Ef ég hefði heyrt svona kynningu hjá fararstjóra ferðaklúbbs hefði ég þverneitað að fara með. Myndir þú fara í ferð, ef stjórnandinn spáði hinu versta, að hann yrði limlestaður, hæddur og síðan líflátinn? Einelti er hræðilegt, hvers konar ofbeldi er andstyggilegt. Stöldrum við.

Tími íhugunar en ekki sjálfspíslar

Krossinn var borinn inn í messuupphafi. Krossburðurinn minnir á hvað kirkjan er og hver ferðaáætlun kristins lýðs er. Krossinn er ferðarlýsing og tákn og blasir við okkur alla messun og túlkar líf. Svo byrjar fastan hjá okkur og við förum í þessa ferð um föstutímann, með Jesú.

Á fyrri tíð föstuðu menn til að skerpa íhugun, ganga á vit hinum dýpri trúarlega veruleika. Á fyrri tíð var tilgangur föstunnar ekki að pína sjálfan sig með því að halda við sig í fæðu, heldur til að skerpa hina andlegu sjón.

Á föstutímanum förum við í fjallgöngu með Jesú. Það er tími ferðalags með Jesú. Hann var ekki handtekinn fyrr en að kvöldi skírdags. Vafalaust hefur Jesús verið angistarfullur einhvern tíma á ferðinni, en pínan hefst ekki fyrr en í kyrruviku, á skírdegi fyrir páska. Leyfum depurðinni að bíða þess tíma.

Meinlæti af hörkutaginu hefur engan trúarlegan tilgang og kristnin er ekki og á ekki að vera píslarsækinn. Kristnin er fremur veislutrú og leggur áherslu á lífið og gleðina. Fastan er ekki og á ekki að vera skuggalegur tími depurðar og sorgar yfir vonsku mannanna, illsku eða gæskuskorti. Á föstunni megum við staldra við kraftaverk lífsins. Fastan er fremur tími til að skoða starf, stöðu, gerðir, boðskap og sögu Jesú og spegla eigið líf í spegli hans, sögu hans. Sú saga er um að lífið er dramatísk ferð, sem endar ekki dauða heldur lífi.

Hver Guð er
Hvernig er hægt að nota þennan föstutíma framundan? Hann er ferðatími fyrir hinn innri mann og endurnýjun mennsku og menningar. Vissulega er hægt að minnka mat og drykk. Við hefðum flest gott af! Og sumir leggja það á sig sem erfitt er – opna ekki netið, tölvupóstinn eða facebook og halda sér frá netinu í heilan sólarhring! Það getur verið ein tegund föstu ef aðgerðin varðar að fara ofurlítinn spotta á uppleið föstunnar.

Borgartilboðið Jerúsalem 2013 er fyrir alla. Við erum ekki kölluð til að fara hættuför til dauða heldur leyfa föstusögu að verða stórsögu sem við tengjust. Jesúsagan er ekki bara um hóp ferðafólks á afmörkuðum stað eða tíma, heldur saga um heiminn, mannkyn og Guð. Föstusagan er einn kafli í stórsögu, sem Guð hefur sagt um sig, ferðasögu, sem á sér upphaf í elsku til okkar manna og vilja til að ganga með okkur á öllum vegum okkar. Það er saga um makalausa guðsför um mennskan móðurlíkama konu, uppvöxt í mannheimi, mannkyni í gleði og sorg, gæsku og grimmd, reynslu af þér og mér. Allar smásögur okkar koma síðan saman í krossi á hæð, angist og dauða. Þeirri sögu lauk ekki á Golgatahæð heldur hélt hún áfram í grafhýsi og páskasögu. Það er um að lífið er þrátt fyrir allt gott, litríkt, ástríkt, vonbjart, skemmtilegt og mikilfenglegt.

Það er ferðasaga Guðs, sem smásögur okkar eru hluti af. Á föstu er sögð ofursagan um samspil lífs og dauða, Guðs og heims. Sú erkisaga skiptir öllu máli. Ferðatilboðin eru fjölmörg. Borgarreisur eru í boði. Húsaskipti líka. En merkilegasta ferðin er ferðin upp og mega ferðast með besta mögulega ferðafélaganum sem völ er á ? Fastan er að hefjast – ferðin er að byrja. Hvert ætlar þú?

Amen

Prédikun í Neskirkju á sunnudegi í föstuinngangi, 10. febrúar, 2013.

Textaröð: B

Lexía: Jes 50.4–11


Drottinn Guð hefur gefið mér lærisveinatungu
svo að ég lærði að styrkja hinn þreytta með orðum.
Á hverjum morgni vekur hann eyra mitt
svo að ég hlusti eins og lærisveinn.
Drottinn Guð opnaði eyra mitt
og ég streittist ekki á móti,
færðist ekki undan.
Ég bauð bak mitt þeim sem börðu mig
og vanga mína þeim sem reyttu skegg mitt,
huldi ekki andlit mitt fyrir háðung og hrákum.
En Drottinn Guð hjálpar mér,
þess vegna verð ég ekki niðurlægður.
Því gerði ég andlit mitt hart sem tinnu
og veit að ég verð ekki til skammar.
Nærri er sá er sýknar mig,
hver getur deilt við mig?
Við skulum báðir ganga fram.
Hver ákærir mig?
Komi hann til mín.
Drottinn, Guð minn, hjálpar mér,
hver getur sakfellt mig?
Sjá, þeir detta allir sundur eins og klæði,
mölur étur þá upp.
Hver er sá yðar á meðal sem óttast Drottin
og hlýðir á boðskap þjóns hans?
Sá sem gengur í myrkri
og enga skímu sér,
hann treysti á nafn Drottins
og reiði sig á Guð sinn.
En þér, sem kveikið eld
og vopnist logandi örvum,
gangið sjálfir inn í eigið bál
og eldinn sem þér kveiktuð með örvunum.
Úr minni hendi kemur þetta yfir yður,
þér munuð liggja í kvölum.

Pistill: 1Kor 1.18-25


Því að orð krossins er heimska þeim er stefna í glötun en okkur sem hólpin verðum er það kraftur Guðs. Ritað er:
Ég mun eyða speki spekinganna
og hyggindi hyggindamannanna mun ég að engu gera.
Hvar er vitringur? Hvar fræðimaður, orðkappi þessa heims? Er ekki það sem heimurinn telur speki heimska í augum Guðs?
Enda þótt speki Guðs sé í heiminum gátu mennirnir ekki þekkt Guð með sinni speki. Þess vegna ákvað Guð að boða það sem er heimska í augum manna og frelsa þá sem trúa.

Guðspjall: Lúk 18.31-34

Jesús tók þá tólf til sín og sagði við þá: „Nú förum við upp til Jerúsalem og mun allt það koma fram sem spámennirnir hafa skrifað um Mannssoninn. Hann verður framseldur heiðingjum. Þeir munu hæða hann, misþyrma honum og hrækja á hann. Þeir munu húðstrýkja hann og lífláta en á þriðja degi mun hann upp rísa.“
En þeir skildu ekkert af þessu, orð þessi voru þeim hulin og þeir skynjuðu ekki það sem sagt var.