Greinasafn fyrir merki: Litli kórinn

Halldóra Kristinsdóttir

Það var á aðventunni 2006 og fallegt veður úti. Halldóra fór í yfirhöfn. Hún var á leið í ævintýraferð og eftirvænting kitlaði. Hún tók barnavettlinga sem hún hafði prjónað, kom þeim fyrir í poka og svo kvaddi hún bónda sinn, fór út og gekk upp Neshagann. Þegar hún kom upp á hornið á Hjarðarhaganum kom kona með barnavagn á móti henni. Og það var alveg ljóst að Halldóra átti erindi við konuna sem var með tvíbura í vagninum. „Mig langar til að gefa börnunum vettlinga“ sagði Halldóra. Og svo dró hún upp úr pússi sínu fallega vettlinga og lagði á vagninn. Mamman, sem var á leið í Melabúðina, gladdist yfir þessu undri á gönguför – og varð síðan vinur Halldóru, dáðist að henni og handverki hennar. Svo kom í ljós að þetta var ekki einstakur atburður heldur fór Halldóra út á hverjum vetri – nærri jólum – og gaf fyrstu ungabörnunum sem hún mætti vettlinga. Þetta var eitt af jólaævintýrunum sem Halldóra kallaði fram. Puttar þarfnast hlýju, ungviði þarfnast umhyggju, mæður – og reyndar feður líka – þarfnast stuðnings. Og Halldóra prjónaði ekki aðeins vettlinga heldur varðveitti í sér gleði gjafarans og djörfung til að fara á flakk í vesturbænum og gefa fólki framtíðar gjafir. Og hún hafði gaman af.

Gerningur lífsins

Orðið “póesía” er í mörgum vestrænum tungumálum notað um ljóð. En að baki er hið fallega gríska orð poiesis, ποίησις. Það er ekki aðeins snoturt á blaði, heldur þrungið fallegri merkingu. Það táknar ekki aðeins það að stafla orðum í ljóð, heldur líka að búa til með höndum, vinna, kalla fram líf og hlúa að því. Að ljóða er að skapa og framkvæma.

Meðal Grikkja og Hebrea var póesía ekki aðeins huglægt verk, heldur náði til fóta, handa, starfa, sköpunar, raunveruleika og lífsbaráttu fólks. Þessi speki er hagnýt. Handverk í eldhúsi, við bleyjuskipti, trjáplöntun, prjónaskap og öðrum lífsgerningum á sér andlega hlið. Hin dýpsta speki getur aldrei lifað nema hún eigi sér hagnýta skírskotun. Halldóra kunni að þjóna fólki með höndum sínum og svo var hún líka handgenginn ljóðlistinni og samdi fjölda ljóða (og orðið hannyrðir getur vísað bæði til handa og orða). Hún endurspeglaði í lífi sínu ástarverðandi Guðs.

Ætt og uppvöxtur

Halldóra Sigríður Kristinsdóttir fæddist í Helguhvammi á Vatnsnesi 9. janúar á Alþingishátíðarárinu 1930. Foreldrar hennar voru Kristinn Jónsson og Halldóra Sigríður Bjarnadóttir, sem lést níu dögum eftir að dóttir hennar fæddist og Halldóra fékk því nafn móður sinnar. Halldóra yngri fæddist á heimili Jóhannesar Guðmundssonar og Þorbjargar Mörtu Baldvinsdóttur[i] sem áttu ekki börn þegar hér var komið sögu. Sorgbitinn ekkill og faðir Halldóru sá ekkert ráð betra en að fela þeim Jóhannesi og Þorbjörgu Mörtu að fóstra barnið. Þau tóku Halldóru í fangið sem eigin dóttur, veittu henni hinar bestu uppvaxaraðstæður og gáfu henni síðan bræður, þá Valdimar,  Guðmund og Eggert.

Halldóra bjó uppvaxtarárin í Helguhvammi, naut ástúðar og umhyggju og fékk gott veganesti. Hún lærði að vinna, draga til stafs, læra og skapa – líka með höndum. Fólkið í Helguhvammi var dugfólk og varð Halldóru fyrirmynd um að standa sig. Hún tamdi sér og sínum að dugnaður væri dyggð sem vert væri að rækta.

Halldóra sótti skóla í heimabyggð á Vatnsnesi. Hún sá snemma gildi félagslífs og góðs mannlífs. Hún fór með fósturmóður sinni á æfingar kirkjukórsins og lærði að meta tónlist til lífsgæða. Svo var Kristinn, blóðfaðir hennar, einnig organisti í Tjarnarkirkju, og í kirkjuferðum gat Halldóra einnig hitt hann. Milli þeirra var eðlilegur samgangur.

Söngur varð Halldóru eiginlegur. Hún sagði börnum sínum að á leið í skólann á næsta bæ hefði hún stoppað á hverjum hól og sungið. Þá var Halldóra orðinn heimssöngvari, söng af innlifun og einlægni fyrir allan heiminn – kannski geiminn og alla vega Guð á himnum. Og það er mikil músík í sköpunarverkinu og dásamlegt þegar hún verður líka að lífssöng smástúlku á Vatnsnesi lífsins.

Þó norðlensk sumur séu björt og oft mjúkfingruð mat Halldóra þó haust og vetur jafnvel enn meira. Þá var hægt að setjast við hannyrðir! Fósturmóðir hennar samnýtti stundirnar. Hún vann og fól samtímis fósturdóttur sinni að skrifa fyrir sig bréf sem hún las fyrir. Og því varð Halldóra snemma vel skrifandi, hafði fagra rithönd og lærði að semja.

Í Helguhvammi var svo hlustað á útvarp og unnið með höndum og þeirra stunda naut Halldóra. Um tíma var Halldóra við störf í Reykjavík. Og svo fór hún þegar hún hafði aldur til í Kvennaskólann á Blöndósi. Þar var hún veturinn 1947 – 48 og þar var byggt ofan á það sem hún þegar kunni úr heimahúsum. Í skóla eignaðist Halldóra vinkonur, sem hún hélt sambandi við alla tíð.

Ólafur og börnin

Þau Ólafur Þórður Þórhallsson vissu af hvoru öðru frá barnæsku, sáu hvort annað „og leist vel á“ sagði Ólafur. Svo fóru þau að leiðast og eftir skólaveru Halldóru á Blöndósi dýpkaði samband þeirra og svo fóru þau að tala um hvar þau ættu að vera og búa. Niðurstaðan var að þau yrðu á Syðri-Ánastöðum og bjuggu þar í tvíbýli við foreldra Ólafs til ársins 1983. Tvo vetur störfuðu þau við skólann á Laugabakka í Miðfirði. Ólafur kenndi, Halldóra sá um næringu barnanna og eiginlega sérkennsluna líka því hún sinnti þeim sem þurftu séraðstoð eða áttu bágt. Hún naut lagni sinnar í samskiptum og börnin nutu mannelsku hennar og natni.

Halldora_og_Olafur

Þau Halldóra og Ólafur fóru svo að búa á Ánastöðum. Þau gengu í hjónaband – ætluðu að hafa vígsluna 1. janúar 1951. Presturinn var á leiðinni til að skíra barn og sjálfsagt að nota ferðina. En þá skall á versta veður svo athöfnin frestaðist til 2. janúar – en þá var klerkur kominn og svaramenn einnig. Þau sögðu bæði já við spurningum og svo áttu þau hvort annað og elskuðu allt til hinstu stundar.

Halldóra og Ólafur eignuðust fimm börn.

Þorbjörg Jóhanna fæddist 1950. Hún er ljósmóðir að mennt. Maður hennar er Jón M. Benediktsson. Þau eiga þrjú börn; Þórólf, Ragnheiði og Þórhildi.

Ólöf Þórhildur fæddist árið 1953. Hún er yfirmaður deildar mennta- og æskulýðsmála hjá Evrópuráðinu í Strassbourg. Maður hennar er Necmi Ergün og þeirra dóttir er Özden Dóra.

Halldór Kristinn var þriðji í röðinni. Hann fæddist árið 1956 og starfaði sem vélstjóri. Kona hans var Gunnhildur Hlöðversdóttir og þau eignuðust Bergrúnu og Halldóru. Kristinn lést árið 1985, aðeins 28 ára að aldri.

Bergur Helgi var fjórði, fæddist 1960. Hann varð flogaveikur þegar sem barn og þau Halldóra og Ólafur brugðu búi til að flytjast suður til að geta sinnt honum sem best og tryggt honum sem besta læknisaðstoð. Bergur lést árið 1988 og var 28 ára þegar hann dó, eins og Kristinn, bróðir hans.

Júlíus Heimir er yngstur þeirra systkina og fæddist  árið 1965. Hann starfar sem kennari í Melaskóla. Kona hans er Vigdís Guðmundsdóttir. Dætur þeirra eru Jóhanna og Matthea. Sonur Júlíusar og Guðlaugar Elísabetar Ólafsdóttur er Ólafur.

Allt þetta fólk umvafði Halldóra með elsku sinni, naut samfélags við þau, tengdabörnin, barnabörn sín og afkomendur. Hún bar hag þeirra mjög fyrir brjósti og fagnaði þeim þegar þau komu í heimsókn. Hún setti þau ekki fyrir framan sjónvarpið heldur hvatti til leikja sem hún tók sjálf þátt í. Það var hrífandi að sjá ungviðið í fjölskyldunni í gær heima á Neshaga. Þau fóru strax að leika sér enda kom margt upp úr gullakassanum hennar Halldóru.

Fráfall bræranna var Halldóru – eins og ástvinum öðrum – mikil raun. En börnin og síðan fjöldi ástvina og afkomenda varð henni hvati til lífs. Hún fagnaði börnunum þegar þau fæddust og þau áttu tryggan aðdáanda og vin í Halldóru, sem vildi hafa fólkið sitt nálægt sér. Af þeim Ólafi og Halldóru eru 25 afkomendur svo lán hennar og þeirra er margvíslegt.

Á kveðjudegi hafa nokkur beðið fyrir kveðjur til ástvina og þessa safnaðar. Þau eru Sveinbjörn J. Tryggvason, Anna Þóra Þórhallsdóttir og Halldór Halldórsson og fjölskylda hans í Noregi.

Og Ólafur og fjölskylda vilja þakka íbúum á Neshaga 14 góða samfylgd allt frá 1983. Góðir grannar eru lífslán.

Eigindir

Halldóra Kristinsdóttir var gefandi í samskiptum. Hún gaf ekki aðeins ástvinum og samferðafólki prjónuð blóm (eins og við berum mörg hér í þessari athöfn í dag), fallega vettlinga eða annað handverk. Hún var gefandi í félagsefnum einnig. Hún tók snemma þátt í félagsstarfi á Vatnsnesinu og hélt áfram alla tíð að vera félagslega virk.

Þegar hún kom suður hafði hún um tíma atvinnu af heimahlynningu og margir nutu natni og þjónustulipurðar hennar. Halldóra naut svo félagsstarfsins í Neskirkju og sótti ekki aðeins athafnir og viðburði í kirkjunni heldur lagði sjálf til. Hún hafði alla tíð áhuga á tónlistinni og gekk í kór eldri borgara sem hét Litli kórinn. Hún söng í þeim kór í mörg ár og var okkur sem störfum í kirkjunni ekki aðeins gleðigjafi þegar hún kom á æfingar heldur samverkamaður í athöfnum og líka í athöfnum á ýmsum stofnunum sem prestur og kór vitjuðu – ekki síst á aðventunni. Og fyrir þjónustu hennar vil ég þakka fyrir hönd Neskirkju.

Allir sem þekktu Halldóru muna handverk hennar. Hún saumaði af snilld, prjónaði af kunnáttu, prufaði postulínsmálun og var alltaf til í skoða með hvaða hætti hún gæti þróað og gert nýtt. Einn handverkskennarinn skrifaði á einn muninn að hann ætti „konan sem færi sínar eigin leiðir.“ Það er hnittið og rétt að Halldóra var óhrædd að prufa nýtt, skoða fleiri hliðar en flestir og þróa áfram það sem hreif hana. Í henni var sköpunargeta. Hún þorði að gera hluti úr því sem aðrir hefðu hent. Þau eru mörg bútasaumsteppinn, sem Halldóra gerði úr afgöngum og gaf síðan börnum til að leika á og umvefja ef þeim var kalt.

Margt af því sem hún gerði vakti athygli og bréfbátar hennar með áhöfn og verkfærum voru fengnir til Safnasafnsins á Svalbarðsströnd í Eyjafirði og hafa vakið verðskuldaða athygli.

Sonarsonur hennar var eitt sumarið í heimsókn í hundlausum bænum fyrir norðan og kvartaði yfir hvuttaskorti. Halldóra brá við og náði í rekaviðarkupp, festi band í og gaf drengnum. Strákur var síðan sæll með sinn hund, dró hann með sér um víðan völl og hundurinn hlýddi! Í Halldóru var spunahæfni og geta til að leysa vandamál með farsælum endi.

Halldóra átti í sér bjarta sýn á fólk og umhverfi. Hún lagði gott til og hafði trú á fólki.

Halldóra og Ólafur seldu ekki frá sér sinn hlut Ánastaða þótt þau flyttu suður. Þau voru fyrir norðan flest sumur, nutu landsins, nýttu sjávarfang, tóku á móti stórfjölskyldunni opnum örmum og tengdu ungviði við upphaf þeirra og sögusamhengi. Svo hóf Halldóra á síðari árum nýtt landnám með skógrækt og nú eru trén hennar að teygja fingur til himins og skógurinn veitir skjól. Verka Halldóru mun fjölskyldan njóta um framtíðarár.

Inn í himin Guðs

Og nú er komið að skilum. Í öllum bókum Biblíunnar er minnt á, að Guð er ekki fjarlæg, upphafin vera, heldur ástríðupersóna, sem elskar, grætur, faðmar, gleðst og syrgir. Samkvæmt kristninni er Guð svo tengdur, að þegar allt var brotið í mannheimi sat Guð ekki hjá heldur kom til að þurrka tár, lækna mein og skapa grundvöll lífsins. Guð skapar fólk til frelsis og yfirgefur okkur aldrei þrátt fyrir bresti manna. Guð er stórskáldið, sem yrkir heiminn, prjónar og yrkir mennina og líf. Erindi kristninnar, svonefnt fagnaðarerindi er að lífið er góður gerningur. Þegar lífi lýkur er ljóðmögur mættur, opnar fangið og leyfir öllu fólki, já allri sköpun sinni inn í himininn.

Halldóra gefur ekki fleiri vettlinga, teppi eða prjónuð blóm. Hún opnar ekki lengur faðm mót ástvinum sínum og umvefur með brosi sínu. En hún er komin inn í himininn.

Í fallegu jólaljóði Halldóru sem er sungið í þessari athöfn segir:

Kveiki ég á kerti mínu,

kem með það að rúmi þínu.

Lýsi á litla kollinn minn,

ljúft ég strýk um þína kinn.

Hugsa um löngu liðna daga

lífið, það er önnur saga.

 

Upp til himins augum renni,

eina stjörnu þar ég kenni.

Horfir hún af himni niður,

henni fylgir ró og friður….

Halldóra kveikir ekki á fleiri kertum – eða strýkur kinn þína. Guð mætti henni þar sem mætast líf og dauði með sína værðarvoð og vettlinga til að gefa henni. Halldóra Kristinsdóttir er farin til ástvina, inn í hið heilaga Vatnsnes eilífðar. Söngur hennar hljómar á hólum himins.

Guð geymi Halldóru um alla eilífð.

Guð varðveiti þig.

Í Jesú nafni, Amen.

Minningarorð í útför Halldóru Kristinsdóttur, sem gerð var frá Neskirkju, 8. febrúar, 2013.

Æviágrip

Halldóra Sigríður Kristinsdóttir f. í Helguhvammi á Vatnsnesi 9. janúar 1930. Hún lést á Landspítalanum í Fossvogi fimmtudaginn 31. janúar.  Foreldrar hennar voru Kristinn Jónsson, f. 1. febrúar 1908, d. 30. mars 1998 og Halldóra Sigríður Bjarnadóttir, f. 29. ágúst 1903, d. 18. janúar 1930. Fósturforeldrar Halldóru voru Jóhannes Guðmundsson, f. 30. september 1904, d. 23. maí 1982 og Þorbjörg Marta Baldvinsdóttir, f. 10. nóvember 1897, d. 31. júlí 1980. Fósturbræður Halldóru eru Valdimar, f. 1933, d. 1997, Guðmundur, f. 1934 og Eggert, f. 1939.

Hinn 2. janúar 1951 giftist Halldóra Ólafi Þórði Þórhallssyni, f. 2. júní 1924. Foreldrar hans voru Þórhallur Jakobsson, f. 1896, d. 1984 og Ólöf Ingibjörg Ólafsdóttir, f. 1903, d. 1997. Halldóra og Ólafur eignuðust fimm börn, en börn og afkomendur þeirra eru: 1) Þorbjörg Jóhanna, f. 1950, gift Jóni M. Benediktssyni, f. 1951, börn þeirra eru a) Þórólfur, f. 1974, í sambúð með Nönnu Viðarsdóttur, synir  þeirra eru Jón Ívar og Logi, dóttir Þórólfs og Brynhildar Ólafsdóttur er Þorgerður, dóttir Nönnu er Edda Eik Vignisdóttir, b) Ragnheiður, f. 1979, í sambúð með Anders Dolve, c) Þórhildur, f. 1979, gift Jóni Hákoni Hjaltalín, börn þeirra eru Styrmir og Þorbjörg Sara, 2) Ólöf Þórhildur, f. 1953, gift Necmi Ergün, f. 1950, dóttir þeirra er Özden Dóra, f. 1977, gift Alex Clow, sonur þeirra er Edgar Tristan, 3) Halldór Kristinn, f. 1956, d. 1985, sambýliskona hans var Gunnhildur Hlöðversdóttir, f. 1959, dætur þeirra eru a) Bergrún, f. 1980, í sambúð með Birni Ólafssyni, sonur þeirra er Kristinn Hrafn, b) Halldóra, f. 1983, í sambúð með Sveinbirni J. Tryggvasyni, sonur þeirra er Tryggvi Kristinn; dóttir Gunnhildar er Þorbjörg Ómarsdóttir, f. 1993, 4) Bergur Helgi, f. 1960, d. 1988, 5) Júlíus Heimir, f. 1965, kvæntur Vigdísi Guðmundsdóttur, dætur þeirra eru a) Jóhanna, f. 2005, b) Matthea, f. 2006, sonur Júlíusar og Guðlaugar Elísabetar Ólafsdóttur er Ólafur, f. 1993, í sambúð með Melkorku Eddu Sigurgrímsdóttur.


[i] Mörtunafnið kom reyndar frá þeim mæta Marteini Lúther. Á heimilinu var stór mynd af siðbótarmanninum og nafnberinn íslenski kunnur fyrir trúrækt.