Greinasafn fyrir flokkinn: Greinar og pistlar

113 pistlar SÁÞ eru inn á tru.is og aðgengilegt á slóðinni trú.is.

Guð tjáir sig í kartöflum og eplum

Hvernig tekur þú við gjöfum? Hvaða merkingu hafa gjafir og hvernig bregstu við þeim?

Ég var í Tallinn í Eistlandi liðna helgi. Borgin er heillandi og hefur fríkkað og braggast eftir sjúkdómstíma kommúnismans. Þetta get ég sagt því ég sótti hana heim á sovéttímanum árið 1990 – og þrisvarsíðan. Það er gaman að ganga um gamla bæinn og sjá hvernig húsum hefur verið gert gott til, sótið hefur verið þvegið, gömul málning skafin af og allt endurmálað. Nýjar þakrennur eru á húsunum, göturnar eru viðgerðar og mannífið ríkulegt í gömlu miðaldaborginni. Eins og álagaham hafi verið lyft, allt fengið lit, líf og fegurð að nýju. Kirkjurnar sem voru laskaðar, vanhelgaðar, eru nú viðgerðar. Það er heillandi fara inn í þessa söguríku, miklu helgidóma. Í öllum eru auðvitað ölturu og prédikunarstólar og orgel allt þetta sem búast má við í kirkjum. En það sem kom á óvart var að í öllum kirkjunum var mikið af grænmeti og ávöxtum. Við kórtröppurnar voru kartöflur, kálhausar, grasker, epli, gulrætur, laukur, tómatar, ber og perur. Það var fagurt, að sjá þessar náttúrugjafir í kirkjunum. En af hverju var búið að koma þessu fyrir? Var þetta skreyting, eitthvað til að fegra og í staðinn fyrir blóm eða listmuni? Eða selja fólki? Var búið að breyta kirkjum í markað? Nei. Ástæðan var önnur. Hver var hún?

Ávextir jarðar hafa verið bornir í helgidómana á haustin um aldir. Hinir fornu hebrear höfðu liðið sáran matarskort á langferð til fyrirheitna landsins og pílagrímagöngu tímans. Þegar hinir umreikandi Aramear höfðu fengið land til ræktunar og frið til að yrkja jörðina spratt fram þakklæti. Þetta fólk gerði sér grein fyrir að matur er ekki mannréttindi heldur þakkarverðar lífsgjafir. Og svo varð til helgigjörningar til að marka tengsl mannaþakka og guðsgjafa. Í 26. kafla 5. Mósebókar segir frá að setja eigi þessar jarðargjafir í samhengi gæsku Guðs og bera sumt af þeim í helgidóminn. Það voru ekki gjafir til að gefa guðunum að borða, heldur var gjörningurinn til að staðfesta samhengi lífsins. Svo hefur verið um allan heim. Þegar landnemar í Bandaríkjunum höfðu uppskorið héldu þeir þakkargerðarhátíð.

Að vera maður Guðs í heiminum er andstætt lífi frekjunnar. Allan sóvéttímann, í baráttu og matarskorti bar fólk í Eistlandi kartöflur og aðra jarðarávexti í kirkjurnar á haustin. Það var gerningur gleði og þakkar, afstaða sem alltaf er sterkari en dólgshátturinn. Eftir dauða kemur líf. Jesúboðskapur, Jesúiðkun – djúpur hjartsláttur þess heims sem Guð hefur gert. Grænmeti og ávextir í kórum kirkna heimsins vekur djúpar spurningar. Hvernig lifi ég? Hvernig lifir þú? Tekur þú bara til þín í markaleysi og frekju eða ræktar þú með þér gjafmildi. Það er merkilegt að lesa ábendingar um meðferð jarðagæðanna meðal hebreanna, að sérstaklega er tekið fram að fólk skuli halda hátíð en líka gefa aðkomufólki með sér. Við börn heims og himinsins erum öll í sömu þörf fyrir gjafir lífs. Í okkur öllum býr þrá til hamingju, öryggis, friðar, matar og sáttar við sjálf, samfélag og lífgjarann sjálfan. Og kartöflur, kál og epli í kirkjum eru tákn um ást, sem skapar okkur öll, já – spannar okkur öll, alla náttúru. Okkar er að tryggja að allir njóti. Þannig er ástarsaga himins. Guð tjáir sig í kartöflum og eplum.

Amen.

Guð sem skapar, Guð sem leysir, Guð sem helgar.

Þökk sé þér fyrir ástargjafir þínar, grænmetið, alla ávexti jarðar, mannfólk, litríki veraldar, tónlist heimsins.

Þökk fyrir að þú vilt að veröldin sé ríkulegt veisluhús mettaðs og þakkandi fólks.

Allt líf kallar þú fram, allt líf nærir þú og allt líf helgar þú.

Kyrrðarstund í Hallgrímskirkju 18. október 2018

 

Syngjandi saga – Tallinn

Ég var svo lánssamur að heimsækja Eistland meðan þjóð og land var hluti Sovét. Söngbyltingin hófst árið 1987 og þegar ég kom árið 1990 stóð hún enn yfir. Eistar sungu sig til frelsis. Engar byssur, hnífar eða sprengjur. Raddir fólks með frelsið í hjarta – besta byltingaraðferð heimsins. Og það var hrífandi að kynnast söngmætti Eista og mikilli tónlistarvisku. Og Arvoo Pärt er uppáhalds.

Á þessum slita- eða lokatíma kommúnismans var hin forna borg Tallinn svört, skítug, lemstruð, í sárum. Hún var flekkótt vegna brútalískra sovéthrúgalda sem byggð höfðu verið til að hýsa nútíma Eistlands. Í þessari fyrstu heimsókn minni bjó ég á Olympíuhótelinu sem var byggt norðan við borgina. Sú bygging var með þeim skári. Leigubílstjórarnir keyrðu Lödurnar hratt inn í borgina. Það var bræla í gömlum bílunum og okkur, útlendingunum, leið illa á ofsahraða sem var umfram getu bílanna. Ég var á guðfræðiþingi sem Lútherska heimssambandið hélt, kynntist þá kraftmiklum ungprestum Eista og norrænum guðfræðingum og háskólakennurum. Mörg þeirra hef síðan hitt á kirkjufundum. Og nú er ég enn með þeim dásamlega Matin Lind, sem dansaði glaður og dreifði óhikað húmor og kraftmikilli guðfræði í kjötlausu Eistlandi sóvéttímans. Hann kenndi sænskum guðfræðinemum og varð svo með merkustu biskupum sænsku kirkjunnar á tuttugustu öld. Nú er hann, á áttræðisaldri biskup lútherana á Bretlandseyjum, alltaf nálægur, líflegur, skapandi guðfræðingur, enda Bonhoeffermaður.

Það var merkilegt að tala við fólk í Eistlandi á þessum breytingatímum. Átök voru í kirkjunni um hversu hratt ætti að fara í frelsissókninni og þar með átökum við Rússa. Eiginlega tókust á reiðir, ungir menn við hrædda, reynslumikla eldri menn (þekkir þú hliðstæðuna ?). Út í sveit, suður af Tallinn, kynntist ég kirkjulífinu sem átti rætur í þykkni aldanna og bar svip lífsreynslunnar. Þar var Jüri Bärg, merkilegur prestur, frægt ljóðskáld, hippi, sem hafði yfirgefið menningarelítuna í Tallinn til að fara út í sveit til að þjóna fólki. Það var hrífandi að sjá hlý samskipti hans við sóknarfólkið – heilagleiki sem maður ímyndaði sér að aðeins væri til í rómantískum biblíumyndum. En svo var þetta raunverulega fólk, sveitasamfélag og alvöru prestsþjónusta. Skáldið Jüri Bärg var dýrlingur. Hann minnti mig á tengsl Sigurbjörns Einarssonar við fólk – en þó þeir væru ólíkir í útliti voru þeir báðir hárprúðir. Kannski hippar Guðs.

Niður við strönd Eystrasalts var okkur, fundarfólki, kynnt hvernig kirkjan hafði verið meðhöndluð af tröllum tuttugustu aldar. Í strandbæ hafði kirkjunni verið breytt í liðsforingjaklúbb en söfnuðinum hafði tekist að forða altaristöflunni áður en tröllin áttuðu sig. En svo þegar fókið fékk kirkjuna sína að nýju kom altaristaflann úr geymslu háalofts í bænum. Og viti menn, þar var ein af mörgum kópíum af mynd Tégners sem er m.a. í dómkirkjunni í Reykjavík. Samsláttur tíma og staða, alda og safnaða. Vegir Guðs eru alls konar.

Gengi Rússaunglinga fór um götur Tallinn árið 1990, eyrði engu og réðust m.a. á okkur útlendinga. Fara varð með einn úr okkar hópi, Englending, á sjúkrahús. Svo illa var hann leikinn af bullum götunnar. Merkilegt þótti mér að verða vitni að því þegar þjóð var mikil af sjálfri sér og magnaðist til sjálfstæðis. Þessi reynsla gaf mér vitund um tilfinningar sem afar mínir og ömmur á Íslandi höfðu borið í brjósti einni öld fyrr. Um haustið prédikaði ég heima, við þingsetningu í dómkirkjunni, út af þessum átökum í Tallinn. Margir þingmenn komu til mín á eftir og vildu heyra meira um Eistland, árásir á götunum og viðhorf heimafólksins.

Árið 1998, átta árum síðar, kom ég svo til Tallinn að nýju. Þá var ég í fríðum hópi Mótettukórs Hallgrímskirkju. Kórinn var í söngferð um Norðurlönd í sumarbyrjun 2008. Við sungum í Noregi, Svíþjóð, Finnlandi og Eistlandi. Meðal þess sem var á efnisskrá voru Óttusöngvar á vori, hið magnaða verk snillinganna Matthíasar Johannesen og Jóns Nordal. Kórinn hélt flotta tónleika 8. júní. Forseti Íslands var í opinberri heimsókn til Eistlands. Því var þjóðsöngurinn fluttur, en upphafið þó oftar en heildin – þ.e. tvisvar. Fyrstu tónarnir voru ómstríðir og Hörður Áskelsson, stjórnandinn, sló af. Svo var byrjað hreint og aldrei hefur lofsöngurinn verið sunginn af meiri innlifun og ákefð en í Karlskirkjunni þennan dag. Þannig var og er aginn og andinn í Mótettukórnum, mistök magna snilld. Hvort er mikilvægara að muna upphafið, eða heildarupplifunina eða hvort tveggja? En ég man dásemdina vegna hins óvænta og skelfandi upphafs. Framhaldið var skemmtilegt í þjóðarbókhlöðunni eftir tónleikana. Forseti Eistlands var hlýr í garð okkar Íslendinga. Baltnesku þjóðirnar gleyma ekki frumkvæði Íslendinga í frelsisbaráttunni. 

Árið 2002 kom ég svo á fund Porvoo-kirknasambandsins í Tallinn. Það var þriðja ferðin til borgarinnar. Anglikanar og Lútheranar eiga með sér samtök og á þessum árum og svo á síðari árum hef ég verið fulltrúi þjóðkirkjunnar í samtökunum. Síðan er fundur sömu samtaka í Tallinn í október 2018. Og aftur gisti ég á sama hóteli og fyrir 16 árum, rétt við gömlu Tallinn, sem er réttilega á menningar- og minjaskrá Unesco.

Borgin hefur breyst mikið á þessum 28 árum síðan ég kom fyrst. Nú er hún hrein, sótið er horfið. Búið er að laga flestar byggingar eftir húsakreppusótt kommúnismans. Meira segja kirkjurnar eru pússaðar og fallegar. Kirkjurnar í miðborginni voru í hræðilegu ástandi árið 1990. Tiit Päddam, arkitekt, var ungur biskupssveinn á þeim tíma og gekk í verkin ásamt vaskri ungsveit kirkjufólks í Eistlandi. Allir sem komu til Eistlands á þessum tíma gerðu sér grein fyrir að þörf var á stuðningi og norrænu kirkjurnar skáru ekki við nögl. Þökk sé þeim. Nú eru flest bráðaverkin unnin, en orgelin eru þó í þörf fyrir stillingu og viðhald. Sum þeirra eru með skerandi bænahljóm. Klukkurnar í turnunum eru sumar skringilegar í hljómi. Þær hafa þörf fyrir athygli og kunnáttuhendur. En það tekur tíma að byggja upp allt það sem illa hafði farið á löngum krepputíma.

Tallinn á sér mikla sögu. Danir komu hér að ströndum og stjórn á þrettándu öld og jafnvel hugsanlegt að Tallinn merki einfaldlega borg Dana – á latínuninni var hún Castrum Danorum. Í Njálssögu er borgin nefnd Rafala, sem er í samræmi við lík heiti borgarinnar á mörgum málum. Reveli hét hún gjarnan á fyrri öldum.  

Tallinn er eftir tæplega þrjátíu ára frelsi orðin alþjóðleg borg. Það er mikill kraftur í atvinnulífinu. Eistar hafa verið dugmiklir í stofnun fyrirtækja. Brautryðjendaandinn lifir. Tölvutækninni var tekið fagnandi og sagt er að Skype eigi sér eistneskt upphaf.

Það er gaman að rölta um gömlu borgina, skoða handverksmuni, fara í kirkjurnar og horfa upp í himininn og skoða alla kirkjuturnana. Já Hallgrímskirkjuturn er flottur en við lok 16. aldar var helmingi hærri turn við Ólafskirkjuna í Tallinn! Hann varð nú reyndar eldi að bráð en er nú 123 metrar sem er fimmtíu metrum hærri en okkar heima. Það er hægt að hlaupa upp allar tröppurnar í þann turn, sem eru á þriðja hundrað ef farið er alla leið. Það er talsvert. Mér er til efs að þéttleiki kirkna sé nokkurs staðar meiri en í miðborg Tallinn. Takk fyrir mig og takk fyrir margra alda og dásamlegu Tallinn.

(Svo mæli ég með hinu frábæru veitingastöðum sem eru í borginni. Ekki fara á þá ódýrustu. Fáið ráð hjá Tripadvisor, Michelin og öðrum góðum ráðgjöfum. Lítið dýrara en mörgum sinnum betri veitingastaðir – sumir stórkostlegar mathallir.)

 

 

Verði ljós

 

 

Í Hallgrímskirkju er ljósberi með sætum fyrir bænakerti. Þangað leitar fólk og kveikir á kertum, vitjar ástvina í huganum og biður bænir. Á hnattlaga ljósberanum eru sæti fyrir 61 bænakerti. Í honum miðjum er stórt kerti sem er tákn fyrir heimsljós Guðs, Jesú Krist.

Hallgrímskirkja er ekki aðeins mest myndaða hús og fjölsóttasti ferðamannastaður landsins, heldur helgistaður alls heimsins. The Guardian útnefndi Hallgrímskirkju sem eitt af tíu mikilvægustu íhugunar- og bænahúsum veraldar. Alla daga situr fólk í kyrru kirkjunnar og íhugar og biður. Bænahnötturinn í kirkjunni laðar að og fljótlega eftir opnun kirkjunnar að morgni loga ljós í öll sætum ljósberans. Þá hefur fólk tyllt kertum sínum á aðra hluta ljósberans. Vegna fjöldans, sem reynir að koma ljósum fyrir, hafa kerti fallið niður á gólf. Það er fólki sárt að sjá bænaljósin sín hrynja. Og það er líka mikil vinna fyrir starfsfólk kirkjunnar að þrífa gólf og stjaka. Spurningarnar hafa oft leitað á starfsfólkið. Var bænahnötturinn orðinn of lítill?

Velgerðarfólk Hallgrímskirkju gaf kirkjunni ljósberann í ársbyrjun 1996. Hönnuður var Gunnsteinn Gíslason, myndlistarmaður og Þuríður Steinþórsdóttir, járnsmiður, vann stjakann. Í gjafabréfi segir: „Víða höfum við ferðast og ávallt á feðrum okkar leitum við til kirkju og hlýðum messu eða sitjum í kyrrð og þökkum þá miklu gleði sem börnin okkar þrjú hafa veitt okkur. Á þessum stundum höfum við kveikt á litlum kertum og látið á bænastjaka sem þar hafa verið. Við hjónin höfum margt að þakka. Því gleður það okkur mikið að ljósberinn fái að standa í Hallgrímskirkju sem þakklætisvottur okkar fyrir þá miklu gæfu sem börn okkar hafa fært okkur. Við biðjum þess jafnframt að margir finni sér stund til að tendra ljós á stikum hans og að þessi litlu ljós megi veita birtu í sál á tímum sorgar og hlýju þakklætis á tímum gleði.“

Ljósberar eru víða til í kirkjum og fólk staldrar við og hugsar um líf sitt og sinna og biður fyrir fólki. Hnattlaga ljóshnettir þjóna sama hlutverki og ljósberi Hallgrímskirkju.

Ljósberinn er Hallgrímskirkjufólki kær og enginn hefur viljað breyta honum þótt aðsókn og hreingerningavinnan væri mikil. Til að þurfa ekki að láta gera stærri ljóshnött smíðaði Járnsmiðja Óðins járnbaug undir stjakann. Hlaðbær Colas gaf marga poka af ljósum mulningi sem var hellt í bakkann. Flestum kom á óvart hve ljósberinn naut þessa nýja samhengis, eiginlega lyftist í rýminu. Sandmulningsbaugurinn rímaði vel við fótstykki Kristsstyttu Einars Jónssonar.

Hvernig brást fólk svo við sem kom í kirkjuna? Það var spennandi að fylgjast með hvernig ljósafólkið færi að. Þegar flest kertasætin voru fullnýtt var enginn sem tyllti aukaljósum á ljósberann eins og áður var. Kertunum var komið fyrir í sandinum. Sumir mynduðu handarfar og komu ljósinu sínu þar fyrir. Aðrir teiknuðu hjarta í sandinn sem varð eins og amen við bænirnar. Hin nýja undirstaða ljóshnattarins kemur til móts við þarfir ljóssækins bænafólks. Fleiri ljós, fleiri bænir, aukið þakklæti og meiri birta. Velkomin í Hallgrímskirkju. Verði ljós.

 

 

 

 

 

+ Helgi Valdimarsson +

Helgi var fjallamaður. Hann naut áreynslunnar við að klífa fjöll, finna leiðir, gleðjast yfir undrum náttúrunnar og komast á toppinn. Og syngja svo að kvöldi í hópi glaðsinna göngufólks. Í þannig aðstæðum kynntist ég Helga. Hann hafði reyndar alltaf verið til í vitund minni, því við vorum systrasynir og hann var sautján árum eldri. Móðir mín og móðursystir elskuðu hann og hossuðu honum ungum og alla tíð síðan. Ég vissi því af honum, en við kynntumst þó ekki fyrr en fyrir tuttugu árum. Þá réð Ferðafélag Íslands Helga til að stýra gönguferðum um svarfdælsk fjöll. Ég var sá lukkuhrólfur að vera í hópi Helga og naut þess í mörg ár síðan. Hann var afburða leiðsögumaður. Ég hef ekki notið annars betri. Þar sem við frændur deildum herbergi í fyrstu ferðinni varð ég vitni að hve margra vídda Helgi var. Hann m.a. gerði námstilraunir með sjálfan sig. Hann sofnaði með lestur Íslendingasagna í eyrum og nýtti því svefntímann til að læra. En hann var slakur gagnvart því að draumar hans hafi yfirtekið námið og ekki alltaf ljóst hvað væri úr Laxdælu eða Eglu og hvað frá honum sjálfum. Þessi eftirminnilega gönguvika tengdi þátttakendur og ég naut þeirrar blessunar að kynnast konu minni undir vökulum augum fararstjórans.

Helgi var afar eftirminnilegur maður. Honum var mikið gefið og var fjölgáfaður. Atorku- maður við vinnu, hvort sem það var í sveitavinnu bernskunnar eða í fræðum fullorðinsáranna. Hann hafði þörf fyrir einveru og sökkti sér í það, sem hann sinnti hverju sinni, hvort sem það var á rannsóknarstofunni eða við skáktölvuna sína.

Hann sótti í söng og gleði og var allra manna skemmtilegastur í samkvæmum. Hann var alvörumaður en líka syngjandi gleðikólfur, íþróttagarpur en líka fíngerður tilfinningamaður, háskólamaður en einnig bóndi, stórborgamaður en sótti í fásinnið, þekkingarsækinn og framfarasinnaður, en mat einnig mikils klassík og festu menningarinnar.

Ég þekkti foreldra Helga og fannst hann flétta gæði beggja í eigin lífi. En ólíkur var hann þeim þó og fór sínar eigin leiðir.

Nú er Helgi farinn upp á Rima eilífðar og við hinir pílagrímar lífsins þökkum samfylgdina. Þökk sé Guðrúnu Agnarsdóttur, konu Helga, fyrir alúð hennar við ættfólk hans. Hún gekk hiklaus með manni sínum í heimum manna og fjalla, þjónaði fólkinu hans og annaðist hann síðan stórkostlega síðustu veikindaárin. Við leiðarlok vil ég tjá þakklæti mitt fyrir ræktarsemi þeirra Helga í garð móður minnar, móðursystur og fjölskyldu. Guð gangi kindagötur eilífðar með Helga Þresti Valdimarssyni og geymi ástvini hans.

Minningargrein mín um Helga í Morgunblaðinu 17. ágúst 2018. Meðfylgjandi mynd tók ég af Helga á Hvarfshnjúk í Svarfaðardal. 

Liðsheildin á HM í Rússlandi

Þátttaka Íslands á HM 2018 var hrífandi. Liðið tryggði þátttökuna með glæsibrag. Það var ekkert gefið í undankeppninni og enginn veitti smáþjóðinni afslátt. Mörg okkar fylgdumst með undirbúningnum og svo hófst keppnin í Rússlandi. Jafnteflið við Argentínu í fyrsta leiknum var stórkostlegur árangur. Eftir tapið á móti spræku liði Nígeríu var allt lagt undir í lokaleiknum gegn Krótaíu. Leikur Íslendingana var í raun sigur. Liðið spilaði glæsilegan fótbolta og var óheppið að sigra ekki þann leik. Það vantaði aðeins herslumuninn að komast upp úr riðlinum. En það er ekki hægt að kvarta. Íslendingar eru í góðum hóp, sem er á heimleið, með Pólverjum og heimsmeisturum Þjóðverja ofl. Þetta heimsmeistaramót sýnir breiddina og dýptina á heimsfótboltanum. Engar þjóðir eiga neitt öruggt lengur. Fótboltinn hefur þróast svo að engar þjóðir eiga áskrift að árangri, sætum eða bikurum. Flestir leikir eru orðnir eru eins og úrslitaleikir, slík eru gæðin. Öll lið á HM eru frábær, líka okkar. Nútímafótbolti bestu liðanna er skapandi listgjörningur, eiginlega listsýningar.

Ég vek athygli á að það er fleira dásamlegt á þessu móti en töfrar í tám leikmanna. Það sem hefur hrifið mig mest við íslenska liðið er samheldni, virðingin í hópnum og samvinna. Stjörnustælarnir eru ekki sýnilegir í liðinu. Allir virðast vinna saman. Leikmennirnir vita, að þeir eru kannski ekki mestu listamenn fótboltans, en þeir eru hins vegar sannfærðir um að þeir geta flest, ef ekki allt, sem hópur. Samvinna, hópvinnan, hefur komið þeim á heimsmeistaramót sem milljónaþjóðum hefur ekki lánast. Þeir tala fallega hver um annan, rækta gleðina, grínast, hlægja, rækta félagsskapinn, tala liðið upp en ekki niður. Þeir brjóta ekki á liðsstjórninni heldur styðja ákvarðanir sem vissulega má deila um (sbr. leikskipulag Nígeríuleiksins).

Snilld íslenska fótboltalandsliðins er liðsheildin. Hún er til fyrirmyndar og eftir er tekið. Leikmennirnir hafa þegar unnið með efasemdir, tilfinningalega þröskulda og stefnumál. Þeir efast ekki um að þeir geti á góðum dögum unnið alla leiki. Þeir ætla sér alltaf langt. Enginn í liðinu ætlar sér eða reynir að lyfta sjálfum sér á kostnað annarra. Þeir gera þetta saman. Og ef hallað er á einhvern í liðinu er öllu liðinu að mæta. Enginn er gerður að blórabögli. Þeir eru samábyrgir.

Við getum lært margt af íslenska landsliðinu. Ekki aðeins fótbolta heldur hvernig má ná árangri. Vinnustaðir, félög, samfélög, söfnuðir, skólar, íslenskt samfélag – já heimsbyggðin – getur lært mikið af okkar landsliðum í fótbolota. Liðsheild verður ekki sterkari en veikasti hlekkurinn. En lið geta orðið ógnarsterk ef unnið er með veikleikana, ef allir eru með og styrkleikar allra nýtast. Áfram Ísland og takk.