Greinasafn fyrir flokkinn: Greinar og pistlar

113 pistlar SÁÞ eru inn á tru.is og aðgengilegt á slóðinni trú.is.

+ Sigurður Bjarnason +

Á Lúthersdögum kveðjum við einn af öldungum Hallgrímssafnaðar. Sigurður Bjarnason kom í kirkju hvenær sem hann gat og sótti flesta viðburði. Útför Sigurðar er gerð frá kirkjunni á hátíðartíma þegar minnst er vígslu hannar, einnig 343. ártíðar Hallgríms Péturssonar og 500 ára afmælis siðbótarinnar. Sigurður Bjarnason var maður siðbótar, Lúthers og Hallgríms. Þökk og lof sé honum fyrir líf og störf. Minningargrein sem birtist í Morgunblaðinu á útfarardegi er hér að neðan:

Kirkja er ekki aðeins hús heldur fremur fólk. Kirkja er lifandi söfnuður einstaklinga, sem eiga samfélag um trú, helgihald, mikilvæg gildi og opna framtíð. Sigurður Bjarnason, húsasmiður, var í þeirri miklu fylkingu gleðinæmrar Guðstrúar. Hallgrímskirkja var honum sem heimili í marga áratugi. Hann átti sitt fasta sæti í kirkjunni, en kom ekki aðeins í kirkju á sunnudögum heldur oft í viku og til ólíkra athafna, tónleika og funda. Og hann var einn af stórum hópi sjálfboðaliða. Oft stóð hann í eldhúsinu í suðurvæng helgidómsins, þvoði upp eða gekk frá eftir samverur og veislur. Hann ók fólki til og frá kirkju. Þá lagði hann Hjálparstarfi kirkjunnar öflugt lið. Ása Guðjónsdóttur, kona Sigurðar, hefur lengi verið í forystu kvenfélags kirkjunnar og hann studdi starf hennar og félagsins með margvíslegum hætti. Alla tíð voru þau sem eitt og byggðu upp söfnuð. Sigurður naut trúnaðar samferðafólks og var valinn til setu í sóknarnefnd Hallgrímskirkju. Þegar hann lést hafði hann verið í stjórn kirkjunnar í nær þrjátíu ár. Sigurður Bjarnason lagði alltaf gott til, var yfirvegaður og hlýr og því mikils metinn. Starfsfólk Hallgrímskirkju hefur notið samstöðu og umhyggju hans í áratugi. Við sjáum á bak traustum samverkamanni, sem við þökkum. Guð geymi Sigurð Bjarnason í eilífð sinni og blessi ástvini hans.

F.h. sóknarnefndar og starfsfólks Hallgrímskirkju, Irma Sjöfn Óskarsdóttir og Sigurður Árni Þórðarson

Útför Sigurðar Bjarnasonar í Hallgrímskirkju 30. október, 2017, kl. 11. 

Myndin hér að ofan er af Sigurði Bjarnasyni og Ásu Guðjónsdóttur, konu hans. Myndina tók ég í Suðursal Hallgrímskirkju og við prófastsinnsetningu sr. Birgis Ásgeirssonar, 22. september 2011. Greina má sr. Jakob Ágúst Hjálmarsson að baki þeim hjónum. 

Lúthersdagar í Hallgrímskirkju

Síðustu dagarnir í október eru hátíðadagar í Hallgrímskirkju. Kirkjudagurinn, vígsludagur kirkjunnar, er 26. október. 27. október er dánardagur skáldsins og prestsins sem kirkjan er kennd við og afmæli byltingar Lúthers er svo haldið hátíðlegt síðasta dag mánaðarins. Að þessu sinni er haldið 500 ára afmæli. Af þessu merka og margfalda tilefni verða Lúthersdagar haldnir í kirkjunni 26. – 31. október. Frammi fyrir Guði eru gjafir og kall tímans íhuguð. Sálmar Sigurðar Flosasonar og Aðasteins Ásbergs Sigurðssonar verða fluttir. Myndlistarsýning Guðrúnar Kristjánsdóttur og Ólafar Nordal verður opnuð og iðkuð af eldri og yngri. Á sunnudeginum verður hátíðarmessa árdegis og kantötuguðsþjónusta síðdegis. Sr. Kristján Valur Ingólfsson, vígslubiskup í Skálholti, mun prédika við síðari athöfnina. Tónleikhús um siðbótarkonur verður á mánudeginum. Og á siðbótardeginum verða tesur Lúthers lesnar í kirkju í heyranda hljóði í fyrsta sinn í kirkju. Afmælisveisla siðbótarinnar verður svo um köldið – að lútherskum hætti. Dagskrá Lúthersdaga má sjá á heimasíðu Hallgrímskirkju.

Nesti

Hvað ætlar þú að taka með þér inn í haustið, veturinn, kuldann og myrkrið? Kaldar vindlúkur fóru um borgina í nótt. Haustið sækir að og inn í okkur. Veturinn liggur í leyni og til að umlykja okkur. Hvað tekur þú með þér inn í þann veruleika?

Til er hollensk barnasaga sem er kennslusaga. Lítil músafjölskylda bjó í hlöðnum steinvegg. Henni leið vel. Pabbinn og mammann voru iðin við safna vetrarforða og þau kenndu litlu börnum sínum að draga björg í bú. Allir skoppuðu út í móa að morgni og náðu jarðarávexti og komu í búrið í steinveggnum góða. Allir nema Jóhannes mús. Einn daginn sat hann út á steini þegar systkinin voru að vinnu. Þau kölluðu til hans: Hvað ertu að gera – ertu ekki að vinna? Og Jói svaraði: „Jú, jú ég er að safna hljóðum til vetrarins.“ Systkinin skildu ekki alveg þá söfnunarvinnu en létu gott heita. Daginn eftir var Jói enn út á steini og systkinin kölluðu að nýju: En nú var Jói að safna orðum til vetrarins. Hvernig fór hann að því? Þriðja daginn voru músasystkinin þreytt og kölluðu pirruð í rigningunni: Hvað ertu nú að gera? Þá var Jói var að safna lykt hrísmóa og engis fyrir langan og lyktarlítinn vetur. Svona hélt hann áfram alla daga, var sniðgenginn og litinn hornauga eins og hver annar ónytjungur. Hann safnaði litum himins og jarðar, sögum, söngvum, myndum og öllu því sem sumarið gaf skynjandi smáveru á steini. Til hvers?

Svo kom veturinn og fjölskyldan undi glöð við sitt í öryggi, skjóli og með mikla matarkistu. En svo kom þorri og góa, með kulda og vosbúð. Og að lokum var allt búið í búrinu og myrkrið læddist inn í sálina og hungrið svarf ógurlega að. Þá mundu þau allt í einu eftir söfnunarstarfinu sérstæða. „Jói hvar er nú allt sem þú safnaðir?“ – spurðu þau hæðnislega. Og Jói ræskti sig og sagði: „Lokið nú augunum.“ Og svo sagði hann fjölskyldu sinni frá hinum undursamlegu litum sumarins, hljómhviðum vindsins og seitli lækjarins, orðunum sem stráin hvísluðu, sögunum sem fuglarnir sögðu með flugi sínu. Og lítlir heilar fylltust af birtu, belgurinn hlýnaði og öngin hvarf. Og svo sagði hann frá þeim sem væri á himni og byggi allt þetta til svo lífið yrði ekki bara gott, heldur stórkostlegt. Og þetta varð þeim til bjargar. Jóasafnið varð til lífs.

Hver er auður þinn? Hvað ætlar þú að taka með þér úr sumrinu inn í hraglanda haustsins og myrkur vetrar? Áttu þér matarbúr og örugga innistæðu fyrir brauði? En hefur þú safnað þér hljóðum, tónum, ljóðum, sögum, myndum fyrir veturinn – allt það, sem sumarið gefur, til að ylja sér við og nærast af þegar kólnar og dimmir. Til þess er puð daganna, að við eigum nóg af öllu, ekki aðeins mat fyrir líkamann heldur mat fyrir sálina.

Hvað æltar þú að taka með þér til vetrarins? Er farið að hausta í ævi þinni? Enn er nógur tími ef þú staldrar við. Í því er viska daga og árstíða fólgin, að við söfnum kunnáttusamlega, að við söfnum ekki aðeins hinu efnislega heldur auð sem dugar þegar áföllinn verða, þrekið hverfur, sorgin nístir og allt er tekið. Hvað er það þá, og kanski er það fremur – hver er það þá sem stendur þér nærri?

Jóarnir í mannheimum fara þá leið. Til er afskaplega fallegt grískt orð sem kirkjufeðurnir gældu við, hugsuðu um sér til lífs. Það er orðið pleroma, sem er vegna stafagerðar grískunnar ótrúlega fallegt á blaði. En það er þó enn fegurra efnislega, því það var tengd orðræðu og lofsöng hinna skarpt hugsandi kirkufeðra um Guð. Guð í þeirra vitund var Guð, sem elskar fjölbreytni, vill hafa sem mest ríkidæmi á öllum sviðum, sem mest af litum, flest hljóð, mest af sögum og hljómhviðum. Guð er guð ríkulegs lífs, kemur sjálfur, hvíslar í eyra þér, er sjálft lífsaflið, titrandi hrifning þegar kyrra sumarkvöldsins bifar tilfinningastreng, þétt hönd og tryggur faðmur þegar reiðarslög dynja yfir. Viltu eiga þennan að þegar rignir sem mest? Hvað tekur þú með þér inn í haustið? Jesús sagði: Komið til mín.

Dögurður fyrir góða helgi

Eldaði eggjafritatta fyrir fólkið mitt á laugardegi í sveitinni. Úr varð þessi fíni dögurður í hádeginu. Svo þegar við vorum búin að nærast fórum við í góðan göngutúr.

8 egg

½ l rjómi

1 poki ferskt spínat

1 bréf beikon

½ poki rifinn ostur

2 msk smjör

3 rif hvítlaukur fyrir þau sem þola hvítlauk

krydd (t.d. miðjarðarhafskrydd – og hamborgarakrydd gengur ágætlega), salt og pipar.

Ofninn hitaður í 180°

Beikonið steikt í 1 msk smjöri þar til það er orðið stökkt. Þá er spínatinu bætt út í.

Rjómi og egg þeytt saman smástund og hellt í eldfast mót.

Beikoni og spínati bætt út í, kryddað og rifinn ostur yfir. Bakað í 25-30 mínútur.

Gott meðlæti er ferskt salat. Við notuðum mangó með en það má vera þroskuð pera og fetaostur. Svolítið balsamik bætir oftast.

Þökkum Drottni, því að hann er góður. Miskunn hans varir að eilífu. Amen og verði ykkur að góðu.

 

139

Byrjum á vitund þinni? Ertu hér? Fylgja þér einhverjar hugsanir úr lifun morgunsins sem hindra að þú komir? Lentir þú í einhverju sem þú ert enn að vinna úr? Sagði einhver eitthvað við þig sem þú ert enn að greina og skilja?

Ertu hér eða ertu þar? Margir rýna í símann í messu eða á kyrrðarstundum. Horfðu í kringum þig, fjöldi er að taka myndir og senda. Í sumum dönskum kirkjum kíkir meira en helmingur kirkjufólksins í símann í hverri messu. Fyrir skömmu síðan sá ég konu vafra í miðri prédikun. Á að banna síma í kirkju og láta alla setja símana í kassa við innganginn eins og í dönskum barnaskóla? Nei. Símnotkun vex alls staðar og kirkjurýmið er næðisrými sem hentar vafrinu. Og þar sem síminn er á lofti er víða farið að nota hann sem skjá fyrir sálmabók og biblíutexta. Þau sem koma í messu í Hallgrímskirkju geta flett á hallgrimskirkja.is í messunum til að veiða sálmanúmer, sálma og bilíutexta.

En hver er nálægð þín? Hvað fangar hug þinn? Er það netið, at morgunsins, reynsla daganna eða nærðu að vera í núinu? Hvað er næst þér? Viltu dýpra í þér? Alla leið?

Marteinn Lúther sagði að Davíðssálmarnir næðu að tjá allar tilfinningar manna. Allt sem menn reyndu í lífinu væri orðfært í þessum sálmunum. Það er rétt. Í sálmi 139 segir:

Drottinn, þú rannsakar og þekkir mig,
hvort sem ég sit eða stend, þá veist þú það,
þú skynjar hugrenningar mínar álengdar.
Hvort sem ég geng eða ligg, þá athugar þú það
og alla vegu mína gjörþekkir þú.
Eigi er það orð á tungu minni 
að þú, Drottinn, þekkir það eigi til fulls.
Þú umlykur mig á bak og brjóst 
og hönd þína hefur þú lagt á mig…

Hvað er innst í þér? Hvað um guðlega alnánd? Guð er svo nærri þér að ekkert fer fram hjá þeirri vitund. Engar hugsanir eru Guði óþekktar. Þú segir ekkert sem elskunæmni Guðs nemur ekki. Þú gerir ekkert svo kvika Guðs verði þess ekki áskynja. Nándin er alger. Guð er þér nær en kvíði daganna. Þó þú lyftir þér á vængi netsins eða morgunroðans er Guð þar. Þegar þú forðast kirkjur, guðshús og heilaga staði heimsins er samt guðlegur meðhlaupari nærri. Og ef þú rásar burt frá þínu persónulega altari – er Guð þar – nær en sjálf þitt.

Hvert get ég farið frá anda þínum, 
hvert flúið frá augliti þínu?
Þótt ég stigi upp í himininn, þá ertu þar,
þótt ég gerði undirheima að hvílu minni, þá ertu einnig þar.
Þótt ég lyfti mér á vængjum morgunroðans
og settist við hið ysta haf,
einnig þar mundi hönd þín leiða mig 
og hægri hönd þín halda mér…“

Guð er þér nærri – alls staðar – alltaf – hér og líka í þér.

Íhugun í kyrrðarstund 5. október, 2017.