Greinasafn fyrir merki: gönguferð

Ertu á leið í langa göngu?

Hvernig á maður að undirbúa göngu á Jakobsveginum, Laugavegsgöngu, suðurgöngu til Rómar eða Santíagó-göngu frá Portúgal? Jú, með því að ganga sig upp, þjálfa skrokkinn, taka til lágmarksfarangur og afla hagnýtra upplýsinga. En er eitthvað fleira sem vert er að gera? Hvað með fararblessun?

Fyrir nokkrum vikum komu hjón í Hallgrímskirkju. Þau voru á leið til útlanda í mjög langa göngferð og fannst mikilvægt að tengja alveg inn í himinn og báðu því um fararblessun. Ég las fyrir þau pílagrímatextann í 121. Davíðssálmi. Svo krupu þau við altarið og ég bað fyrir þeim og blessaði þau. Þau fóru létt í spori út úr kirkjunni. Þau gerðu afar góða ferð og gengu nærri tvær og hálfa milljón skrefa. Skömmu síðar kom svo maður í messu í kirkjunni og hann bað um fararblessun líka. Hann var líka á leið í ofurgöngu. Hann var blessaður á bak og brjóst. Þegar hann fór út úr Hallgrímskirkju sagði hann: „Nú er ferðin byrjuð.“ Nú gengur hann langa leið í suður-Evrópu.

Bílferðir eru góðar, hjólaferðir skemmtilegri en löngu gönguferðirnar bestar. Ég hef farið margar Íslandsgöngur og oft gengið Laugaveginn. Og mér þótti skemmtilegast þegar við hjónin fórum með tvíburum okkar þegar þeir voru sex ára. Ég hef líka gengið hluta Jakobsvegarins og nú langar mig að ganga meira í Evrópu og jafnvel líka í Ísrael. Göngur eru ekki bara líkamlegar áreynsluferðir, heldur fremur reisur andans. Margir ganga langt til að vinna úr lífsreynslu, áföllum og sjúkdómum. Önnur marka skil á ævigöngunni og leita að merkingu handan hins yfirborðslega.

Stækkandi hluti þjóðarinnar leggur því upp í pílagrímareisur. Prestar og djáknar þjóðarinnar taka á móti fólki, sem vill fara í kirkjuna sína og þiggja blessun til ferðar. Við Hallgrímskirkjuprestar skírum við æviupphaf og blessum líka fólk þegar það finnur til þarfar, þegar það stendur á krossgötum eða byrjar nýja reisu í lífinu. Ertu að fara af stað? Blessun er í boði. Ferðabæn Hallgríms Péturssonar er líka dásamleg:

Ég byrja reisu mín,

Jesú í nafni þín.

Höndin þín helg mig leiði.

Úr hættu allri greiði.

Jesú mér fylg í friði,

með fögru englaliði.