Greinasafn fyrir merki: brauð heimsins

Brauð og brauðberar

Hver er miðjan í öllum kirkjum heimsins? Eru það kirkjubekkirnir, prédikunarstóllinn eða altaristaflan? Nei það er borðið, altarið. Og það er ekki skenkur fyrir kerti, blómavasa og bækur. Altarið er borð  fyrir veislu.  Jesús notaði öll tækifæri til veisluhalda. Hann braut brauð og veitti vel.

Í palestínsku samhengi var hveitirækt mál lífsins og brauð tákn um lífsgæði. Þegar kornuppsprettan brást var vá fyrir dyrum og allir sultu. En þegar kornakrar náðu þroska var víst, að allir myndu njóta næringar og lífið lifði. Því var gestrisni metin mikils. Jesús reisti sér ekki minnisvarða af grjóti eða með hernaðarsigrum, heldur vildi að fólkið hans nyti matar – og gæfi öðrum með sér. Ölturu í kirkjum minna á, að allir þarfnast næringar, ekki aðeins andlegrar heldur líkamlegrar einnig, venjulegrar fæðu, t.d. brauðs og matar og drykks, sem gerir fólki gott. Að allir njóti gæða er hinn kristni boðskapur. Það eru mannréttindi að allir fái notið fæðu. Og það merkir líka að allir eigi að njóta friðar, öryggis, gæsku og lands. Svo róttækur er boðskapur kristninnar og svo árangurstengt er það líf sem okkur er boðið að lifa. 

Hvað gerir þér gott? Fjölbreytilegt fæði og í hæfilegum skömmtum. Svo er það hin fæðan, t.d. tengsl við fólk, tilfinninganæring, líkamleg hreyfing, gæfa í tengslum og vinnu, að einhver sjái þig og meti, brosi við þér og segi þér að þú sért mikils virði.

Hvað gerir þér gott? Máttu leyfa þér að breytast? Getur þú breyst til góðs? Er eitthvað sem þú mátt hætta og úskrifa úr þínu lífi? Sorg, harmur, glötuð tengsl, horfin ást, samband, efni, vinna, hlutir, upplifanir – eitthvað sem þú dregur á eftir þér og verður þér lífshemill? Hvað geir verður þér til næringar?

Svo er hin víddin, hin hlið sama máls. Hvað getur þú gert til að aðrir njóti lífsins? Getur þú sagt eitthvað jákvætt og nærandi við samferðafólk þitt og ástvini? Getur þú bakað brauð og fært einhverjum syrgjandi, einmana eða þurfandi? Getur þú umlukið einhver með kærleiksríkum bænum? Öll getum við fært öðrum eitthvað sem verður þeim til góðs, næringar og hlýju. Ég er brauð lífsins sagði Jesús. Í því er veröld okkar og lífsgæði skilgreind. Við erum brauðberar Guðs, friðflytjendur, málsvarar réttlætis og góðs lífs.