Greinasafn fyrir flokkinn: Greinar og pistlar

113 pistlar SÁÞ eru inn á tru.is og aðgengilegt á slóðinni trú.is. Þá var talsvert af pistlum einnig á sigurdurarni.annall.is Sá vefur er nú lokaður.

Fyrirgefðu

IMG_3763_8970363903_lHverjum á að fyrirgefa og hverjum á ekki að fyrirgefa? Það getur reynst mikil þraut að sætta okkur við það sem okkur hefur verið gert illt. Spurningin verður oft ekki: Á ég að fyrirgefa heldur: Get ég fyrirgefið? Get ég fyrirgefið þeim sem hefur farið illa með mig?

Strákur í Eyjum

Það var einu sinni strákur í Vestmannaeyjum, sem svindlaði á prófi. Mamman komst að glæpnum. Strákur varð skömmustulegur og sagði við hana. „Ég ætla að biðja Guð fyrirgefningar.” „Já, það er ljómandi,” sagði mamma. „En það er ekki nóg. Þú verður líka að fara í skólann og biðja kennarann fyrirgefningar!” Það fannst strák verra en lærði þá lexíu, að það er ekki nóg að tala. Iðrunin verður að hríslast út í lífið og lífshættina.

Við kennum börnum okkar að biðjast afsökunar á brotum af einhverju tagi, t.d. þegar þau meiða, taka það sem þeim er bannað eða brjóta eitthvað sem þeim er óheimilt. Ákveðin viðmið eru grundvallandi og brotin eru frávik frá viðmiðinu. Við kennum síðan fólki að horfast í augu við brot og biðjast afsökunar á þeim.

Mínir strákar

Ég á stráka á níunda ári og hef fylgst grannt með mótun siðvits. Þegar þeir voru á fjórða ári var ljóst að jafnvel svo snemma á æfinni var prettavit þeirra orðið mikið og líka færnin til að greina hvað mátt og hvað ekki. Þeir lærðu þá að ljúka málum með fyrirgefðu. En stundum kreistu þeir jafnvel upp “fyrirgefðu” til að losna við frekari vandræði.

Fyrirgefningarbeiðni er oftast beiðni einstaklings gagvart öðrum eintaklingi. Á milli þeirra er vefur merkingar sem stýrir og leiðbeinir þeim um hvað má og hvað má ekki, hvað er gilt og hvað ógilt, hvað er rétt og hvað rangt. Til að fyrirgefningarferlið gangi upp verður þetta kerfi að virka sem á milli er. Hvað á svo að gera með þá fyrirgefningu þegar menn vilja ekki biðjast fyrirgefningar, sjá ekki að þeir hafi gert rangt?

Iðrun – hvað er það?

Í gamla daga var talað um iðrun, það að úthverfa iðrunum – þessu sem er innan í okkur. Við getum talað um viðsnúning og sá getur verið samfélagslegur þegar samfélagið allt fer að skoða gildi og meginmál. Viðsnúningur verður líka í lífi okkar flestra með einu eða öðru móti. Þegar við erum vanheil þurfum við að ná heilsu og iðka heilindi til að viðsnúningur sé góður og gjöfull. Fyrirgefning er mikilvægt atriði í viðsnúningi – varðar ákveðna þætti lífsins og ekiki síst hið himneska – guðlega samhengi.

Við gerum öll eitthvað rangt, eitthvað sem meiðir og hefur slæmar afleiðingar. Við segjum eitthvað ógætilegt sem særir og jafnvel grætir. Við flissum stundum á óheppilegum tíma, hittum viðkvæmt hjarta eða segjum eitthvað óvart, sem veldur misskilningi og jafnvel vinslitum.

Á að biðjast fyrirgefningar á slíku? Já, en hvað um þau, sem gera rangt en iðrast ekki. Er hægt að fyrirgefa þeim án þess að þau viðurkenni brotið. Eða er það forsenda fyrirgefningar að viðkomandi fari á hnén og iðrist?

Bergmann og heiftin
Fyrir nokkrum árum sá ég margar kvikmyndir sænska leikstjórans Ingmar Bergman. Á einum DVD-disknum var ítarefni, og þar á meðal viðtal við Bergman. Hann sagði frá samskiptum sínum við kvikmyndagagnrýnanda, sem hafði farið ómjúklega með verk hans mörgum áratugum áður. Bergman hafði greinilega þörf fyrir að ræða samskiptin og sagði frá með mikilli ástríðu, sagði hversu illa gagnrýnandinn hefði farið með hann, hvernig honum hefði liðið og hversu illa fjölskyldan varð fyrir barðinu á illgjörnum dómum.

Bergmann lýsti manninum sem vondum manni. En maðurinn sem gagnrýndur var hafði enga möguleika til varnar því hann var dáinn. Mér brá og varð illt af að heyra Bergman tala svona um látinn mann. Til að ekkert færi milli mála sagði kvikmyndajöfurinn ískalt, að það skipti hann engu máli þótt hann væri dáinn: “Ég vona að hann rotni í helvíti!” sagði Bergman.

Svipaðar tilfinningar hrærast gagnvart svikurum. Eg hef hitt fólk í mínu starfi sem er ekki bara reitt heldur fullt af hatri, illsku vegna einhvers missis sem það persónugerir.

Illgerðarmenn

Sum illvirki fremur fólk með ráðnum huga og einbeittum brotavilja. Aðrir valda miklum skaða vegna einhverra aðstæðna og mistaka. Fólk gerir veigamikil mistök og brýtur af sér í umferðinni. Fólk fer illa með aðra í skóla, tekur þátt í stríði og einelti. Skólastofnanir sem ekki eru þroskaðar vinna ekki með vanda og standa ekki með líðendum. Á vinnustöðum er víða ofbeldi sem fólk verður samdauna og tekur þátt í, ef ekki með rænuleysi þá í meðvirkni og ótta við þau sem valdið hafa.

Valdamiklir aðilar hafa tækifæri til að auðgast eða auka völd sín og áhrif sem notuð eru og geta valdið spjöllum. Þau sem ullu bankahruninu hafa valdið tugþúsundum íslendinga miklu tjóni og vanlíðan. Þau voru kannski ekki vondar manneskjur en ollu mikilli þjáningu. Mistök verða í stjórnum og ráðum þjóðarinnar, í fyrirækjum og félögum. Hver er ábyrgð stofnana og þar með sök ef stofnanir sem eiga að sinna ráðgjafar- eða eftirlits-hlutverki en bregðast? Eru þau kreppudólgar, sem tóku þátt í þöggun þeirra sem gagnrýndu og bentu á hættur? Eru þeir stjórnmálamenn sekir, sem tóku þátt í reisa valta fjármálarkerfi og vörðu síðan þegar gagnrýnar spurningar voru settar fram? Og svo eru öll mistökin sem gerð hafa verið og gerð eru í heilbrigðiskerfinu, þegar ekki er greint rétt, þegar mistök eru gerð í aðgerðum og fólk verður fyrir heilsufarstjóni og missir ástvini eða ástvinir missa svo mikið og stórlega að margir líða. Á að fyrirgefa þessu fólki?

Hvað er fyrirgefning?

O þá er komið að fyrirgefningunni: Fyrir hvern er fyrigefningin? Er hún fyrir þann sem hefur unnið eitthvað illt verk – hefur gert manni mein. Léttir hún sök af viðkomandi? Eða er fyrirgefning kannski jafnvel fremur fyrir mann sjálfan. Er mikilvægt að forsenda fyrirgefningar sé iðrun – eða er kanski iðrunin eitthvað sem er ekki alltaf nauðsynlegt forsenda?

Við kennum börnunum okkar að iðrast og læra af mistökum og reynslu og biðjast fyrirgefningar þegar þau hafa brotið gegn öðrum. Það er fullgilt og mikilvægt. En iðrun og andleg heilsurækt er eitt en fyrigefning annað – og við ættum kannski ekki að blanda þeim þáttum saman þegar við reynum að vinna með fyrirgefninu og þau andlegu átök sem fyrirgefningu fylgja oft. Ég tel að iðrunar sé ekki þörf til að fyrirgefa. Fyrirgefing er ekki bara vegna þeirra sem hafa brotið af sér – fyrirgefningin er ekki síst vegna manns sjálfs. Að fyrirgefa er að losna undan fjötrum þess sem gert hefur manni illt, losna úr álögum hins illa og þess sem meitt hefur mann. Fyrirgefning er fyrir mann sjálfan.

Að fyrirgefa er að losna úr fangelsi sem aðrir hafa skapað manni. En það erum við sjálf sem erum fangaverðir okkar. Aðrir byggja fangelsið, steypa okkur í dyflissu, hefta okkur og kefla. En það erum við sem ákveðum hvort við viljum dvelja þar lengi, hvort við ætlum að losna. Lykill þess er fyrirgefningin. Og illgerðarmennirnir kunna kannski ekki að iðrast, en við getum losað þá og við getum losað okkur. Illgerðirnar eiga ekki að vera síðasta orðið.

Klassískur skilningur

Hvað er fyrirgefning? Við túlkum hana gjarnan í samhengi einstaklingsins. En ég vek athygli á að í klassísku trúarsamhengi var fyrirgefning ekki skilin sem sjálfhverft tilfinningamál – eins og oft hefur verið í seinni tíð – heldur samfélagsmál.

Að vera fyrirgefið í “biblíulegu” samhengi var ekki eðeins spurning um hug heldur aðgerð – að lagfæra og endurbæta stöðu – að viðkomandi endurheimti stöðu sína, æru og helgi. Í hinu kristna trúarsamhengi er fyrirgefning Guðs þá ekki fólgin í að Guð hætti að vera særður eða fúll yfir brotum manna – heldur að Guð veiti manninum uppreisn æru, veiti manninum stöðu sem guðsbarn að nýju, taki við honum eða henni í guðsríkið þrátt fyrir að viðkomandi hafi brotið af sér og sé því sekur.

Og slík fyrirgefning er alltaf að valdameiri aðili fyrigefur hinum valdaminni. En ekki öfugt. Sá sem brotið var á er ekki beðinn um að fyrirgefa því sá sem er valdaminni getur ekki sett hlutina í rétt samhengi. Fyrirgefning í slíku samhengi er ekki eitthvað huglægt mál heldur verklegt – framkvæmdarmál – og varðar endurheimt stöðu og gildis.

Í hinu trúarlega samhengi er fyrirgefning ekki þröngt fyrirbæri heldur varðar samfélagsgerð og þroska þjóðfélagsins. Fyrirgefningarmál er ferli sem varðar ekki aðeins hið innra og einstaklingstilfinningar heldur einnig – hið ytra, hvernig breyta á öllu – líka félagskerfinu og forsendum menningar – svo menn séu teknir í sátt og mál gerð upp með viðunandi hætti, orðspor sé lagað og menning styrkt. Margir munu ekki vilja gera upp sín mál – en samfélaginu ber skylda til að gera málin upp hvort sem menn vilja eða ekki.

Fyrirgefning eða sátt?

Einstaklingar í samfélaginu geta tekið ákvörðun um að fyrirgefa öðrum einstaklingum, sem hafa gert rangt eða talið er að hafi drýgt eitthvað vont. Hópar geta t.d. eftir umræður tekið ákvörðun að fyrirgefa einstaklingum eða jafnvel stofnunum. En dugar þetta til að vinna með kerfisbrot, hvort sem er í heilbrigðiskerfinu eða bankakerfinu?

Það er vissulega mikilvægt að einstaklingar vinni með sinn innri mann, þ.m.t. reiði sína. Það er okkur persónulega mikilvægt að fyrirgefa. Ef við fyrirgefum ekki sem einstaklingar verður til skrímslagarður innan í okkur. Það er áhersla margra hinna miklu leiðtoga t.d. Martin Luther King og Nelson Mandela að vinna að fyrirgefningu hið innra til að geta beitt sér í hinu ytra. Þetta er vel en er það nóg?

Mér sýnist að sökudólgar í samfélagi okkar séu ekki aðeins einstaklingar heldur líka stofnanir, menningarþættir og jafnvel veigamiklir þættir menningar okkar. Því eigi fyrirgefningarferlið ekki við nema hluta uppgjörsins. Þegar mistök verða þarf leiðréttingarferlið sem hefst í kjölfarið fremur að vera sáttaferli en fyrirgefningarferli.

Fyrirgefningarhugtakið er of þröngt til að passa við samfélagslegar og heildrænar kreppuaðstæður. Fyrirgefning er ekki andstæða sáttar. Þvert á móti getur fyrirgefning verið markmið sáttaferlis en þarf ekki að vera það.

Sáttahugtakið væri hagkvæmara að því leyti að það tjáir betur ferlið sem við værum í. Sem einstaklingar þyrftum við að vinna með aðstæður okkar, viðhorf, tilfinningar, fjármál, vinnuhlutverk, pólitískar skoðanir okkar og leita sáttar hið innra og vinna úr málum okkar í samræmi við það.

En það er hugsanlega ófyrirgefanlegt ef við hlaupum undan ábyrgð og leggjum ekki okkar til sáttaferlis samfélagsins. Við gætum orðið verstu dólgarnir ef við göngumst ekki við köllun okkar.

Ófyrirgefanlegt?

Ég vil bæta við að krafan um iðrun sem forsendu fyrirgefningar er óraunhæf nema í einstökum málum. Margt verður og fellur utan við alla mannlega fyrirgefningu, engin beiðni berst og enginn getur fyrirgefið. Dæmi um þetta eru svonefndir “glæpir gegn mannkyni” sem enginn getur fyrirgefið algerlega. Þjóðir og hópar geta fyrirgefið, en glæpinn er ekki hægt að gera upp. Þegar milljónir voru að berjast við að gera upp hrylling seinni heimsstyrjaldar gerðu hinir marxísku spekingar Frankfurtarskólans sér grein fyrir hinni eilífu sekt. Horkheimir og Adorno, minntu á að Guð væri “nauðsynlegur”eins og þeir orðuðu það, til að vinna úr og upphefja glæpi nasismans.

Guð – sem fyrirgefur

Það er nokkuð til í, að þegar samskipti manna eru gerð upp stendur ávallt út af hið illa, hið ógurlega sem aðeins Guð getur tekið á. Og þar erum við komin að kviku trúar og kristni.

Jesús umbreytti allri lagahyggju hins gyðinglega átrúnaðar, bar elsku til fólks, var elskan holdi klædd í samskiptum og benti í öllu og ávallt á þann sem elskar. Og okkar mál er að innlifast þeim veruleika í lífi, samskiptum og siðferði. Kristnin er framar öðru átrúnaður fyrirgefningar af því að guðsmynd Jesú er hin lífgefandi þvert á kalt réttlæti og endurgjaldshyggju.

Sigurður Árni Þórðarson, s@neskirkja.is – GSM: 8622312.

(Þessi pistill varð til sem ávarp í félagsskap sem bað um innlegg um fyrirgefningu – ég hlustaði svo á merkilega umræðu sem spratt af innlögninni)

Myndir úr lífi Þórhöllu Gunnlaugsdóttur

ThorhallaGunnlaugsdottir-1 copyHér að neðan eru minningarorð í útför Þórhöllu Gunnlaugsdóttur 7. október, 2013. Hljóðskrá upptöku ræðunnar er að baki þessari smellu

Þórhalla vann fram á sjötugasta og fyrsta aldursár. Þá safnaðist starfsfólkið á Landspítalanum saman til að kveðja hana. Læknarnir héldu ræður og kaka var á borði. Þórhalla, sem aldrei hikaði við að segja skoðun sína, var hrókur alls fagnaðar, naut virðingar – og samstarfsfólkið vissi að þegar hún sagði skoðun sína var eins gott að hlusta því hún var frjáls, óháð og skörp.

Í viðbót við spítalamyndina eru allar hinar myndirnar. Þegar hún var læra að ganga austur á Bakkafirði. Svo þegar hún valhoppaði á Munkaþverárstræti á Akureyri eða sat hjá mömmu við orgelið og söng. Svo stóð hún við sjúkrabeð pabbans þegar hann lá banaleguna og hún var á barnsaldri. Kvennaskólastúlkan fyrir sunnan, félagslega kunnáttusöm þar sem fólk kom saman. Svo bráðung með barn á armi og mann við hlið. Örfáum árum síðar ekkja með þrjú börn.

Lífsmyndir Þórhöllu eru áleitnar. Og svo er myndin af stórfjölskyldunni, sumar helgimyndir, ættboginn – hópur af vænu og þroskuðu fólki sem gat, vildi og megnaði að opna fangið og vernda þau sem þurftu. Ættmóðirin Oktavía blessaði allt sem hún mátti og gat, Þórhalla speglaði og naut, og börnin hennar áttu alltaf bæði nærumhverfi og athvarf, sem varð þeim til góðs og eflingar. Að ala upp börn er aldrei eins manns verk heldur samfélagsverkefni.

Ætt og upphaf

Þórhalla Gunnlaugsdóttir fæddist austur á Bakkafirði – á bænum Höfn – þann 17. nóvember árið 1928. Foreldrar hennar voru hjónin Gunnlaugur Andreas Jónsson og Oktavía Stefanía Jóhannesdóttir. Þau áttu fimm börn og var Þórhalla yngst þeirra. Guðrún var elst, síðan kom Jón, þá Karl og Ottó var næstyngstur. Nú eru þau öll farin „upp til englanna.“

Gunnlaugur hafði mikið umleikis, stundaði verslun og innkoman var góð. Hann var ekki aðeins maður hins efnislega heldur opnaði huga mót menningu heimsins. Hann meira að segja talaði frönsku. Og Oktavía hafði notið þeirrar blessunar að fara suður á unga aldri og nam orgelleik hjá dómorganistanum í Reykjavík um tveggja ára skeið. Hún varð organisti fyrir austan og spilaði og söng alla tíð síðan. Þau hjón voru hinar bestu aðveituæðar menningar og mennta. En svo missti Gunnlaugur heilsu, hjónin brugðu búi og fluttu til Akureyrar þegar Þórhalla var fjögurra ára. Einu ári síðar, árið 1933, var Gunnlaugur allur, Oktavía ekkja með fimm börn á framfæri. Í nær áratug bjuggu þau nyrðra, hún kom börnum sínum til náms, vinnu, þroska og manns.

Þórhalla sótti grunnskóla á Akureyri. Og þegar hún – sú yngsta í barnahópnum – var fermd, kastaði Oktavía tengingum sínum, seldi húsið nyrðra og flutti suður. Þórhalla fór svo í Kennó eins og Gunna systir og fór síðan að vinna, leggja til heimilis og einnig grunn að eigin sjálfstæði. Hún vann um tíma í Reykjavíkurapóteki. Svo stundaði hún handbolta, naut lífsins og eignaðist vini. Meðal þeirra er Inga sem býr í Washington, lifir vinkonu sína og biður fyrir kveðjur til þessa safnaðar.

Fjölskylda og börn

Svo kom Guðmundur Þórir Elíasson inn á sjónsvið Þórhöllu. Hann hefur eflaust tekið eftir hve skemmtileg Þórhalla var. Hún sá líka hve glæsilegur hann var og hefur vafalaust fregnað um ógnarstyrk hans enda var hann kallaður Tarzan. Þau Þórhalla gengu í hjónaband árið 1923 og fóru að búa upp á Akranesi og nutu fjölskyldu Guðmundar á Skaganum. Svo komu börnin þrjú í heiminn. Guðmundur var netagerðarmaður og hafði líka atvinnu af að vera vélstjóri. Svo fór hann í afleysingaferð með togaranum Júlí frá Hafnarfirði en skipið sökk við Nýfundnaland í febrúar 1959. Áhöfnin hvarf í hafið og 39 börn urðu föðurlaus. Börnin hans voru þá 7, 4 og 2 ára.

Þau Þórhalla og Guðmundur eignuðust þrjú börn:

1. Elst er Oktavía, fædd í september árið 1951. Hún er félagsráðgjafi. Eiginmaður hennar er Ólafur Torfason. Synir hennar og Kristins Karl Guðmundssonar eru Davíð Guðmundur og Gunnar Andreas. Sonur hennar og Ólafs er Torfi Karl.

2. Gunnlaugur Guðmundsson fæddist í apríl árið 1954. Hann er stjörnuspekingur og rithöfundur. Eiginkona hans er Svanborg Marta Óskarsdóttir og uppeldisdóttir Birgitta Ósk.

3) Yngstur er Elías Þórður, júnídrengur sem fæddist árið 1957. Hann er atvinnubílstjóri. Kona hans er Hafdís Ólafsdóttir. Börn hans eru, Eva Björk Naji, Rakel og Bjartur.

Lífið og störfin

Hvað gerir 29 ára gömul ekkja með þrjú börn? Kostir í þeirri stöðu eru líklega aðeins tveir, að bjarga sér eða bíða ósigur gagnvart aðstæðum. Og Þórhalla valdi betri kostinn og naut tilstyrks sinna. Hún fór að vinna á slökkvistöðinni á Keflavíkurflugvelli og börnin nutu skjóls hjá ömmum og afa. Elías og Oktavía voru fyrst um sinn á Skaganum í skjóli Ólínu ömmu og afans Elíasar, en Gunnlaugur fékk að fara í fjölskylduhúsið á Lynghaga til Oktavíu ömmu, Gunnu, Karls og Ottós. Oktavía vildi gjarnan í bæinn líka og eftir ítrekuð strok af Skaganum fékk hún vilja sínum framgengt og fór á Lyngahagann og byrjaði í Melaskóla þar sem Gunnlaugur var fyrir.

Þórhalla var þá orðin búsett á Lynghaga og þar voru eldri systkinin en Elías ílentist á Skaganum en kom síðar suður í mömmuskjólið.

Þegar Þórhalla hætti vinnu í Keflavík fór hún að vinna í Laugavegsapóteki og síðar á Ríkisspítölum. Hún kom sér vel, var glögg, fljót að skilja og snögg til verka. Og hún naut félagsfærni sinnar þar sem hún fór og þar sem hún vann. Ein lífsmyndin af Þórhöllu að vélrita miða á meðalaglös og afhenda lyfin yfir skenkinn. Svo önnur þar sem hún var á Landspítalanum að tala skýrt við spítalalækni sem vissi að Þórhalla stóð með fólki, kunni til verka og vissi hvenær læknir misskildi. Hún var fljót, talaði ekki mikið um tilfinningar en átti ekki í neinum erfiðleikum að tala skiljanlega þegar þörf var á.

Um tíma bjó Þórhalla á Ægisíðu með börn sín. Svo flutti hún upp í Breiðholt og var á Teigaseli. Þegar hún lét af störfum var hún vel á sig komin en langaði ekki að hætta að vinna. Svo þegar heilsan brást fór hún á Landakot og síðan á Droplaugarstaði. Þar lést hún þann 26. september síðastliðinn. Þeim er þakkað sem þjónuðu henni fyrr og síðar og hjúkruðu.

Eigindir

Myndirnar úr lífsgöngu Þórhöllu eru merkilegar. Og svo hafið þið, ástvinir, minningar í huga, myndir úr lífssögu hennar og af tengslum við hana. Hvernig var hún, hvernig manstu hana?

Manstu augnsvipinn? Tilsvörin kannski? Manstu hversu öguð Þórhalla var? Hún kvartaði ekki, ekki út af peningum, fólki, heilsu eða öðru. Hún bað aldrei um neitt. Hún tók ekki lán og skuldaði því engum neitt. Hún var stolt, sjálfstæð og vammlaus.

Þórhalla gat verið ein og var sjálfri sér nóg og engum háð. Hún hafði húmor og skemmti sér við ef einhver toppaði hennar eigin. Hún var fróðleiksfús og gefin til bókar – og hafði áhuga á gagnverki lífsins og sálarferlum fólks sem m.a. kom fram í að hún hafði gaman af og las bækur um fólk og flækjur mannssálarinnar, krimmar meðtaldir. Og hún átti jafnvel til að lesa ekki aðeins íslensku útgáfu bóka Arnaldar Indriðasonar heldur þá ensku líka. Geri aðrir betur.

Hún var heiðarleg og hreinskilin og pakkaði skoðun sinni ekki í óþarfa umbúðir og klisjur voru henni fjarri skapi. Hún sagði óhikað sannleika eða skoðun við viðmælendur sína og svo smitaði þögn hennar hljóðlátum kærleika. Þórhalla kom eins fram við alla og ávann sér virðingu fólks sem mátu manngildi og jöfnuð mikils. Hún hafði sterka nærveru og var flestum eftirminnileg í samskiptum. Hún bjó að smitandi kærleika fjölskyldu sinnar og vandamanna og ræktaði með sér þakklæti til þeirra sem sneru góðu að henni, studdu hana og börn hennar fyrr og síðar.

Vegabréfið

Myndir úr lífinu – margvíslegar og litríkar. Þegar Þórhalla Gunnlaugsdóttir flutti frá Akureyri, fjórtán ára gömul, suður til Reykjavíkur fékk hún vegabréf. Hún þurfti vegabréf í eigin landi enda landið hernumið. Þetta vegabréf er enn til og hægt að skoða það í safnaðarheimilinu í erfidrykkjunni á eftir.

Og nú eru orðin skil – hún fer úr ríki tímans inn í ríki eilífðar. Vegabréf hennar í eilífðarförinni er í fullu gildi – í fjölskyldu hennar hefur trú aldrei verið launungarmál og traust til Guðs verið jafn sjálfsagt og að anda og vera. Nú er hún farin inn í himininn, ríki gleðinnar, þar sem allt er gott.

Myndir úr lífinu – áhrifaríkar Þórhöllumyndir. Hún var færð úr fæðingarsveit bernskunnar og í nýtt byggðarlag. Hún missti föður í æsku, síðan uppeldisreit fyrir norðan, svo mann úr fangi og frá ungum börnum. Hún varð að beita öllu sínu til að sjá sér og sínum farborða – en aldrei brotnaði hún – vann sín verk, beitti kunnáttu og var til fyrir börnin sín.

Nú verða engar myndir lengur til af Þórhöllu – þær eru allar innan í þér, í ástvinum og samferðafólki. Og mynd hennar er varðveitt – hún sjálf – í faðmi Guðs, sem ekki lætur sér nægja eftirgerð heldur aðeins frumgerð, elskar og sættir sig ekki við nema það besta. Þar má hún vera, þar má hún búa og þú mátt treysta að þar ríkir listrænn gleði Bakkafjarðar-Akureyrar-Lynghaga-fjölskyldunnar. Þar á hún heima – eftir æviferð hefur hún náð höfn eilífðar.

Guð geymi Þórhöllu að eilífu – og Guð geymi þig.

Amen

Þórhalla Gunnlaugsdóttir. Fædd í Höfn í Bakkafirði, N-Múl. 17. nóvember 1928.

Andaðist í Reykjavík 26. september 2013.

Maki:

Guðmundur Þórir Elíasson

Fæddur í Hafnarfirði 27. júlí 1928

Vélvirki, netagerðameistari, sjómaður

Látinn 8. febrúar 1959. Fórst með togaranum Júlí frá Hafnarfirði, við Nýfundnaland.

Börn:

Oktavía Guðmundsdóttir

Fædd í Reykjavík 9. september 1951

Fyrrum eiginmaður:

Kristinn Karl Guðmundsson 1951

Davíð Guðmundur Kristinsson 1971

Gunnar Andreas Kristinsson 1976
Núverandi eiginmaður:

Ólafur Torfason 1951

Torfi Karl Ólafsson 1992

Gunnlaugur Guðmundsson

Fæddur í Njarðvík 28. apríl 1954

Eiginkona:

Svanborg Marta Óskarsdóttir 1953

Birgitta Ósk Anderson 1974 (uppeldisdóttir)

Elías Þórður Guðmundsson

Fæddur á Akranesi 9. júní 1957

Núverandi eiginkona:

Hafdís Ólafsdóttir

Halla Ólöf Kristmundsdóttir 1957 Barnsmóðir

Eva Björk Naji Elíasdóttir 1978

Ásta Jóna Guðjónsdóttir 1961 Barnsmóðir

Rakel Elíasdóttir 1981

Kristín Valgerður Gísladóttir 1960

Foreldrar

Gunnlaugur Andreas Jónsson

Fæddur í Höfn, Skeggjastaðahreppi, N.-Múlasýslu. 23. október 1876

Látinn á Akureyri 13. maí 1933

Verslunarstjóri í Kaupmannshúsi, Bakkafirði. Bóndi í Höfn og Dalhúsum í Bakkafirði og Vopnafirði.

Oktavía Stefanía Jóhannesdóttir

Fædd í Dalhúsum, N.Múlasýslu 21. desember 1889

Látin í Reykjavík 2. ágúst 1969

Systkini: 

Guðrún Gunnlaugsdóttir 14. febrúar 1913 – 20. febrúar 1977.

verslunarmaður

Jón Gunnlaugsson 08. maí 1914 – 14. apríl 1997

læknir á Reykhólum, Selfoss og Reykjavík.

Karl Gunnlaugsson 17. desember 1915 – 10. apríl 1989.

klæðskeri og bókavörður

Ottó Gunnlaugsson 24. júní 1922 – 20. maí 1991

myndlistamaður

Haustfasta í Neskirkju

kvöldmáltíðarmynd barna 450Viltu breyta mataræði og líðan? Efnt verður til haustföstu í Neskirkju 7. – 17. október. Fastan er ekki erfið en þó endurnýjandi. Matur á borðum föstufólks verður grænmeti, ávexti, heilkorn (glúteinlaust) og hnetur í þessa 10 daga sem fastan varir. Og fólk fær margvíslegan stuðning til að námskeiðið nýtist sem best.

Matur hefur mikil áhrif á líðan og heilbrigði – og sömuleiðis skiptir miklu máli hvernig fólk stuðlar að andlegri hreinsun og endurnýjun.

Margrét Leifsdóttir, heilsumarkþjálfi IIN og arkitekt, og hjónin Elín Sigrún Jónsdóttir lögfræðingur og ACC markþjálfi og dr. Sigurður Árni Þórðarson, Neskirkjuprestur, halda námskeið í safnaðarheimili Neskirkju um mat, hreinsun, föstu og heilsurækt.

Námskeiðsfundir eru þrír; matreiðslunámskeið, upphafs- og lokafundur.

Innifalið:

Matreiðslunámskeið fimmtudaginn 3. okt. 18:30-21:30

Upphafsfundur föstu kl. 20:00 – 21:30, mánudaginn 7. okt. og lokafundur fimmtudaginn 17. okt. kl. 20:00 – 21:30, bæklingur um hreinsunina ásamt uppskriftum, daglegir tölvupóstar og pepp. Allir þátttakendur fá einn frían tíma í markþjálfun

Matreiðslunámskeið verð 5.200.- Föstunámskeið 12.500- (hjón greiða aðeins eitt gjald f. föstunámskeið).

Sendið þátttökutilkynningu til s@neskirkja.is eða skráið í s. 5111560, fyrir mánudaginn 30. september.

Takmarkaður fjöldi þátttakenda.

Kökur af himnum

photoÍ lok messunnar í Neskirkju 21. júlí hvatti ég söfnuðinn að venju að staldra við á Torginu eftir messu. Ég lét þess einnig getið að kosturinn yrði horandi því kirkjuvörðurinn, Valdimar Tómasson, hafði sagt mér að hann hefði ekkert annað en saltstangir til að setja fram með kaffinu! Svo fóru flestir úr kirkju í messukaffið. En sjá, kökukraftaverkið mikla varð.

 

 

Lesa áfram Kökur af himnum

Póesía lífsins – Baldur Óskarsson +

Baldur ÓskarssonBókmenntaunnendur þekkja orðið “póesía” – orð sem er í mörgum útgáfum í vestrænum tungumálum. Að baki öllum póetískum ljóðnefnum og ljóðafleggjurum er hið fallega gríska orð poiesis, ποίησις. Það er ekki aðeins snoturt á blaði, heldur þrungið merkingu. Það táknar ekki aðeins það, að stafla orðum í ljóð, heldur líka hið hagnýta, að vinna, búa til með höndum, kalla fram líf og hlúa að því. Að ljóða er að gera – að skapa. Að ljóða er líka það að tengja himin og heim.

Meðal Grikkja og Hebrea var póesía ekki aðeins huglægt verk, heldur náði til fóta, handa, starfa, sköpunar, já raunveruleika og lífsbaráttu fólks. Samkvæmt þessum skilningi var handverk aldrei sálarlaus iðja heldur átti sér líka andlegar víddir. Þessi speki er hagnýt. Handverk við ritvél eða tölvu, í eldhúsi, garði, námi, við bleyjuskipti, já öllu ati lífsins á sér andlega hlið. Hin dýpsta speki, sem við kunnum að hugsa getur á hinn bóginn heldur aldrei lifað nema hún eigi sér hagnýta skírskotun í pólitík, í listum og í deiglu samfélagsins. Lífið er eitt og fólk fornaldar vissi, að lífið á sér framvindu, bæði andlega og efnislega. Allt er tengt og allt er á hreyfingu. Lífið var og er gjörningur, samfelld póesía.

Og Baldur var maður póesíunnar, altengdur hræringu lífs, músík náttúrunnar, hann sniðlaði texta og vann þar með lífinu. Skáldskapur hans var djúpfundinn, myndmálið kraftmikið en þó einnig torrætt, litríkið mikið í málverki orðanna. Innri rými mannsandans urðu Baldri rannsóknarefni, menningarsagan kitlaði og málverk hrifu og gerningurinn varð í skáldinu, poiesis.

Tíu ára drengur austur í Rangarvallasýslu gat skynjað djúpt, lifað stórt og tengt upplifun við orð. Og í skáldinu -sem túlkaði bernskureynsluna – bjó líka kímni sem gat horft til baka til fólksins sem hann þekkti í uppeldi sem hafði líka gleði af uppátækjum barnsins. Í ljóðinu

Hvert ertú að fara gamli maður? segir skáldið Baldur um sjálfan sig og hina gjafmildu og kímnu Guddu í austurbænum:

Ég var tíu ára

Gamla konan í austurbænum

færði mér gullpening spegilfagran

 

Ég furðaði mig á því

að gömul fátæk kona

skyldi gefa mér slíkan fjársjóð

 

Það var um það leyti

sem ég tók uppá því

að ganga álútur

 

Hvert ertú að fara?

sagði hún stundum

og hermdi eftir mér

Hvert ertú að fara gamli maður?

 

Gudda, ég veit það ekki

 

Kannski upp á veg

Vonandi held ég höfði

þökk sé þér

 

Ég er að fara

 

Ætt og uppruni

Baldur Óskarsson fæddist í Hafnarfirði 28. mars 1932. Hann var gefinn nýfæddur. Hann ólst ekki upp hjá blóðforeldrum sínum Óskari Eyjólfssyni og Ingigerði Þorsteinsdóttur heldur var settur í fang móðurbróður sínum og konu hans. Þau urðu fósturforeldrar hans, hjónin Sigríður Ólafsdóttir frá Austvaðsholti í Landssveit og Þorsteinn Þorsteinsson frá Berustöðum. Þau bjuggu á Ásmundarstöðum í Holtum.

Þegar í frumbernsku var Baldri hliðrað til. Kannski var hann í hliðrun alla tíð síðan? Hann þekkti foreldra sína og var aldrei leyndur uppruna sínum og bjó við ríkulega elskusemi fósturforeldranna sem hann mat og þakkaði. Hann naut tveggja heima sýnar í foreldramálum og varð síðan maður margra heima í lífinu. Hann megnaði að vera eitt en sjá til annars, rækja köllun sína en sinna skyldustörfum einnig.

“Leit inn í heiminn lifandi barn.” Og Baldur var vissulega þegar í bernsku alnæm kvika og teygaði í sig orð aldanna sem hljómuðu í sveitinni, þjálfaði fásinnisminni sem aldrei brást honum síðan, lærði að skynja tónlist í veðri, mosa og fólki, lærði að nema speki íslenskra sagna, gleðjast yfir litríki ljóða og sjúga í sig lífmagn bókmennta.

Á Ásmundarstaðaheimilinu naut Baldur klassísk-íslenskrar menntunar og mótunar. Og einn þáttur þess var að lesa Biblíuna. Fólkið hans Baldurs tók líka á móti öllum gagnrýnum straumum samtímans (Þorsteinn Erlingsson et.al). Baldur lærði því við fóstru – og fóstrakné list hinnar gagnrýnu samstöðu sem dugði honum vel í lífinu. Svo hafði fólkið á Ásmundarstöðum líka tíma til að tala, ræða málin og einnig kenna flókin fræði með einföldum og skýrum hætti.

Í einu ljóðinu segir Baldur frá að hann horfði á fóstru sína stinga prjóni í gegnum bandhnykil sem hún hallaði síðan. Með hjálp þessra einföldu kennslutækja skýrði hún fyrir drengnum möndulhalla og hringekju jarðar og gang pláneta. Og drengurinn lærði ekki aðeins stjörnufræði heldur naut að auki lífsspeki fóstru sinnar – og tók eftir dagsbirtunni í augum hennar þegar hún fræddi hann. Stóru himinvíddirnar og geimmál fylltu hann geig en síðar kom gleði. Hnykill og prjónn urðu tilefni póetísks gernings. Í þess konar hliðrun stækkar vitund, orð raðast saman, hinu efnislega er stefnt til hins óefnislega og ný merking verður til. Við lærum frá hinu þekkta og fikrum okkur til hins óþekkta. Það er póesía náms og menntunar.

Baldur lærði að vinna en uppgötvaði einnig snemma að hann þurfti tíma með sjálfum sér til að sinna eigin innri manni. Hann samdi meira að segja við sitt fólk um að hann fengi einkatíma hluta dags til eigin iðju. Slitsterk menning og viska Íslands seitlaði inn í drenginn, náttúran varð honum ofurfang móður sem hann átti trygga alla tíð.

Og hann var tilbúinn að fara að heiman og fara raunar langt í tíma, rúmi og menningu.

Baldur fór í Skógaskóla, síðar í lýðháskóla í Svíþjóð. Svo heillaðist hann af Barcelona og spænskri menningu, lærði listasögu í Katalóníu, naut lífsins þar syðra, heillaðist af fegurðinni, hljómum málsins og þýddi spænsk skáld.

Baldur var allur í orðum en lifibrauðið hafði hann af einkum af blaðamennsku. Hann var blaðamaður á Tímanum 1957-64, skólastjóri Myndlistarskóla Reykjavíkur 1965-73 og starfaði í áratugi sem fréttamaður og við dagskrárgerð hjá Ríkisútvarpinu.

Hjúskapur og börn

Kona Baldurs var Gunnhildur Kristjánsdóttir og þau nutu barnaláns. Börn þeirra eru þrjú:

 

Sigrún er elst og hennar maður er Gunnbjörn Marinósson. Þau eiga Baldur og Björk og tvö barnabörn.

Árni Þormar er í miðið. Hans kona er Valgerður Fjóla Baldursdóttir. Þau eiga dæturnar Valgerði Erlu og Gunnhildu Erlu og eitt barnabarn.

Magnús er yngstur og hans kona er Áslaug Arna Stefánsdóttir. Þau eiga dæturnar Kolku og Tíbrá.

Af Baldri eru því á lífi tólf afkomendur.

Fjölskyldulífið var fjölbreytilegt. Foreldrarnir reru frekar á djúpmið í menningarefnum en á grunnsævið. Listræn kvikmynd var eftirsóknarverðari en teiknuð afþreyingarmynd. Baldur vildi að börnin hans nytu geimupplifunar of fór með þau ung á Stanley Kubrick-myndina 2001 Space Odyssey með þrumandi Also sprach Zarathustra.

Og þor og frelsi náði líka til kosts og matar. Fjölskyldan fór gjarnan í gúrmetískar reisur í Hvalfjörð til tína kræklinga og efna til veislu.

Og heima sagði Baldur sögur, fór með börnin sín og barnabörn í langferðir ævintýra, ljóðheima og furðuheima lífsins. Ljúflyndi og hæglátt ástríki hans smitaði og skilaði. Það hefur hrifið mig mjög þessa síðustu daga að fylgjast með hve góð börnin hans og fólkið hans Baldurs eru hvert við annað – eins ólík og þau eru – þau hafa í sér dýpt virðingar, kímni og elskusemi sem Baldur miðlaði, heimilislífið einkenndist af og þau endurspegla síðan áfram í lífi og starfi.

Bókamaðurinn

Ritferill Baldurs spannar hálfa öld. Ritstörfin voru honum ástríðumál alla tíð og þó hann yrði að fara snemma á fætur til daglaunavinnu sat hann oft við ritstörf fram á nótt. Fyrsta verk hans var smásagnasafnið Hitabylgja sem kom út árið 1960. Þremur árum síðar kom út eftir hann skáldsagan Dagblað. Fyrsta ljóðabókin Svefneyjar kom út árið 1966. Baldur gaf út samtals fjórtán ljóðabækur og sú síðasta kom út árið 2010, Langt frá öðrum grjótum. Enn eru til óútgefin ljóð. Baldur var alltaf að – til hinsta dags.

Baldur var alla tíð á tali við fyrirrennara sína í heimi menningar og opnaði veru sína fyrir snilldinni, leyfði lífsmættinum inn í sig. Ljóðlist hans er myndrík því hann skoðaði myndlist alla tíð og hafði mikinn áhuga á henni. Mörg torræð ljóð opnast þegar myndlistartengslin verða ljós. Baldur var maður lita í ljóðum, hann hafði agað formskyn og vandaði frágang og vann verk sín til enda á blaði. Málfar Baldurs var agað og við sem áttum orðastað við Baldur vitum hve orðaforði hans var ríkulegur sem skilaði sér í ljóðlistinni. Viðfangsefni hans eru fjölbreytileg, náttúra, rök tilverunnar, tíminn, eðli reynslunnar, bernskan og myndmál.

Og kímni Baldurs kemur víða fram og oft sem mjúk stroka elskuseminnar. Og sem guðfræðingur hef ég haft gaman af kíminni hlýju í meðferð Baldurs á hinum trúarlegu stefjum.

Auk eigin ljóðagerðar fékkst Baldur við ljóðaþýðingar og þmt á verkum Federico Garcia Lorca. Baldur hafði löngum mikil samskipti við myndlistarmenn og hafði áhuga á myndlist. Hann skrifaði líka um myndlist í bækur og tímarit.

Baldur Óskarsson hefur í marga áratugi notið virðingar íslenskra orðavina. Þrátt fyrir torræðni póesíu hans hefur hann hefur verið metin og óumdeildur jöfur í íslenskri ljóðlist. Og það var vel og var honum sjálfum gleðiefni er hann hlaut verðlaun úr rithöfundasjóði Ríkisútvarpsins árið 2011.

Frammi í safnaðarheimilinu eru nokkrar af bókum Baldurs sem þið getið skoðað. Ég veit að talsvert er óútgefið af ljóðum Baldurs og ástæða til að koma út. En ég held einnig að komið sé að því að gefa út safn ljóða hans og koma þeim á einn stað – og líka á vefinn. Baldur Óskarsson er án nokkurs efa einn af hinum stóru í íslenskri ljóðlist tuttugustu aldar.

Baldur ákvað snemma að búa ekki við fé eða skepnur í lífinu heldur við orð. Alla ævi bar hann saman orð og þjónaði orðlistinni. Og hann stóð sig frábærlega í þeim búskap. Æviverk hans er ríkulegt og fjölbreytilegt og við ævilok vil ég þakka hið framlag hans til íslenskrar listar og menningar.

Við skil hef ég verið beðin að bera þessum söfnuði kveðjur frá Baldri og Vallý og einnig afastúlkunni Björk Gunnbjörnsdóttur.

Hinn póetíski Guð

Verðandi veraldar er hrífandi. Í öllum bókum Biblíunnar er minnt á, að Guð er ekki fjarlæg, upphafin vera, heldur ástríðupersóna, sem elskar, grætur, faðmar, gleðst og syrgir. Samkvæmt kristninni er Guð svo tengdur, að þegar allt var brotið í mannheimi sat Guð ekki hjá heldur kom til að þurrka tár, lækna mein og skapa grundvöll lífsins. Guð skapar fólk til frelsis og yfirgefur aldrei þrátt fyrir mannabresti. Já, að skilningi trúarinnar er Guð stórskáldið, sem yrkir heiminn, yrkir mennina, nýtur lífsins, er sjálfur hin mikla póesía lífsins, líka þegar allt er þrotið, búið, týnt og brotið.

Fagnaðarerindið er að lífið er góður gerningur, póesía elskunnar. Þegar lífi lýkur og hvíti vegurinn – eins og Baldur kallaði hann – er framundan mætir ljóðmögurinn besti, opnar fangið og leyfir öllu fólki, já allri sköpun sinni inn í himininn. Þar má Baldur búa og hrífast, njóta linda hins lifandi vatns. Veröld Guðs er mögnuð og Guð er hrífandi. Baldur var á heimleið alla ævi – og nú er hann kominn heim.

Guð geymi Baldur um alla eilífð. Guð varðveiti þig.

Amen.

Vegna bálfarar verður ekki jarðsett í dag. Við lok þessarar útfararathafnar verður fallega kistan hans Baldurs borin út og að henni geta allir gengið að til að kveðja. Síðan verður erfidrykkja í safnaðarheimilinu strax. Baldur skrifaði á einum stað um að honum hefði líkað erfidrykkja í safnaðarheimili Neskirkju þar sem áfengur drykkur var í boði – og þannig verður það og í samræmi við vilja hans!

Til laugar gengur þú einn skrifaði Baldur í ljóðinu Hóllinn

Hóllinn minn veðraði –

gamalt sker

 

Þar sem brimaldan söng

heyrist mófuglatíst

 

Tönn er

úr manni

í sandinum svarta

Hægt

líður tíminn

og hægt

eyðist hollinn

 

Holurt í renningi –

rökkvar í hjarta

 

…Holurt í renningi…

rennur upp sólin

Þú yfirgefur hið liðna hægt

og hægt tognar á strengnum sem bindur þig –

blóður ertu

 

Til laugar gengur þú einn

Minningarorð um Baldur Óskarsson í Neskirkju 24. apríl, 2013.

Bálför og jarðsett verður í Fossvogsskirkjugarði.