Greinasafn fyrir merki: Þórður Sigurðarson

Þórður Sigurðarson – organistinn og presturinn

Okkur prestum eru organistarnir nánir samstarfsmenn. Það er ekki aðeins mikilvægt að organistarnir séu góðir tónlistarmenn, heldur er alltaf betra ef þeir eru skemmtilegir, kátir og hvetjandi. Og ég er lukkuhrólfur því þannig hafa organistarnir verið sem ég hef unnið með. Guðni í Bakkakoti var dásamlegur originall, Andrés í Hruna líka. Friðrik Jónsson var heillandi músíkalskur og tónskáld (Við gengum tvö) og Inga Hauksdóttir náttúrutalent. Hilmar Agnarsson, ja hvílíkur snilli. Steingrímur Þórhallsson fjölgáfaður og svo eru Hörður Áskelsson og Björn Steinar Sólbergsson risar í músíklífi heimsins.

Alltaf þykir mér skemmtilegt að hitta nýja organista og ég upplýsi hér með að ég hef aldrei hitt organista sem er leiðinlegur. En vissulega eru þeir misjafnir að áherslum, allir hafa þeir sinn eigin tón, spilastíl, geðslag, mismunandi nálgun og eigin hátt í undirbúningi athafna og helgihalds.

Vinur minn hringdi fyrir skömmu og bað mig að þjóna við útför föður hans. Þar sem fólkið var mér kunnugt sagði ég já. Spurði svo hverjir kæmu að undirbúningi. Hann sagði mér hver kórinn væri, hver væri útfararstjóri – og svo væri organistinn úr sveitinni. Og þar sem útförin átti að verða í Mosfellskirkju í Mosfellsdal spurði ég áfram hver hann væri. „Hann er fínn, þetta er nýr organisti, nýkominn, flottur tónlistarmaður.“ Og ég spurði: „Getur verið að hann heiti Þórður“? „Já.“ Mér þótti skemmtilegt að segja vini mínum að þetta væri sonur minn. Honum þótti það merkilegt og bar fölskyldunni tíðindin.

Svo þegar ég var búin að hitta ástvini og heyra óskirnar undirbjuggum við Þórður tónlistarþáttinn og fórum m.a.s. á Rokið, þann skemmtilega veitingastað á Skólavörðuholti, til að ræða um flæði og form. Fjölskyldan var með hugmyndir sem rímuðu ágætlega og við settum svo saman tillögu að athöfn sem allir urðu sammála um. Gott flæði og vel mótuð athöfn – það skiptir líka máli.

Svo kom að kistulagningu og útför sem fóru fram sama dag í Mosfelli. Organistinn var mættur snemma, hjó klakann frá kirkjudyrum svo hægt væri að komast inn, kveikti ljósin í kirkjunni og hitaði upp hendur og hljóðfæri. Svo dreif að fjölskyldufólkið á köldum og hvítfögrum degi. Vindurinn var sterkur og hvein í húsinu þegar við lásum, báðum, krossuðum og blessuðum.

Svo lék organistinn af fingrum fram. Ég beið í skrúðhúsinu fyrir útför og hugsaði um þessa fingur sem löðuðu fram tóna sem fylltu kirkjuna. Hugurinn leitaði aftur. Ég mundi eftir drengnum þegar hann byrjaði að spila, þessu bullandi músikaliteti sem kom fram þegar í bernsku og fágætri heyrn og tónvísi. Ég mundi líka eftir harmoníkuleikaranum Þórði. Svo þegar hann var í lausagangi vegna verkfalls kennara tók hann sig til og spilaði á píanó samfellt í nokkrar vikur og tók risaskref í músíkinni. Hann fékk góða kennslu, fór svo í gegnum Tónskóla þjóðkirkjunnar og á stjúpu sinni, Elínu Sigrúnu, mikið að þakka að hann kláraði. Hún tók aldrei í mál að hann hætti í tónskólanum og hann kláraði því. Svo tók við nám í New York, organistastörf á Þórshöfn og Neskaupstað. Hann lærði mikið og í tengslum við margt fólk. Og svo hljómaði spunagetan hans dásamlega í Mosfellskirkjunni við útförina. Hann fylgdi Karlakór Kjalnesinga þétt. „Þetta er heilmikill músíkant“ sagði einn kórkarlinn og nikkaði viðurkennandi. Sálmarnir hljómuðu, og „Við gengum tvö“ (lagið hans Friðriks Jónssonar, Fikka) var fagurt og Heimkoma var vel sungin. Þórður laumaði gullþráðum í undirspilið – sem liðuðust svo heillandi vel í tónaflóðið, slíkar línur hafði ég aldrei upplifað áður. Ég er kominn heim – sungu karlarnir og margir í söfnuðinum með – veðurgnýrinn var horfinn og sólin fyllti helgidóminn. Það fór straumur um okkur öll – og öll skildum við að heimkoman var hin himneska. Það er gott þegar allt er stillt svo vel saman og innri líðan hvílir vel í faðmi umhverfis og athafnar. Helgidómurinn var raunverulegt hlið himins. 

Ég naut þess að hlusta á Þórð organista spila. Þetta var fyrsta útfararathöfnin sem við unnum saman að. Pabbinn gladdist, presturinn í mér var sáttur og fjölskyldunni var vel þjónað á erfiðri kveðjustund. Svo fórum við saman í erfidrykkjuna og flæddum milli hlutverka feðga og kirkjulegra samstarfsmanna. Samstarfsfólk organistans (sem sagðist eiga hann og ég sagðist eiga hann líka) taldi að það yrði að taka mynd – þetta væri sögulegt. Við feðgar unnum vel saman og höfum skoðanir á störfum hins. Takk Þórður Sigurðarson.

Ferming Svansí ömmu

Svanfríður Kristjánsdóttir fæddist á Brautarhóli í Svarfaðardal 22. mars 1910.  Í dag er því 107 ár frá fæðingu hennar. Þórður, sonarsonur hennar, tók þetta viðtal við hana árið 2003 þegar leið að fermingu hans. Og þau sátu saman, hún á tíræðisaldri og hann á leið inn í manndómsárin. Það var heillandi sýn. Í aðdraganda fermingar er merkilegt að strekkja tímann og sjá allt í stóra samhenginu. 

Svanfríður fermd á Völlum

Ég fermdist þegar ég var fjórtán ára.  Það voru nú allir fermdir á þeim aldri þá. Ég fæddist 1910 svo þetta hefur verið 1924. Ég var fermd á hvítasunnu. Ég hafði gengið til prestsins á Völlum fyrir ferminguna. Pretsturinn, sr. Stefán Kristinsson, spurði okkur út úr í kirkju og hlýddi okkur yfir. Ég kunni nú marga sálma, milli fjörutíu og fimmtíu sálma. En sumir krakkarnir kunnu fáa sálma. Flestir fermingarkrakkarnir höfðu metnað og vildu kunna sem flesta, því presturinn vildi það nú líka.

Fermingarmessurnar voru alltaf fjölmennar. En á þessum hvítasunnudegi var hríðarveður. Það var nú troðfull kirkja samt og þurfti að setja inn aukastóla. Börnin voru miklu fleiri í sveitinni þá en nú er orðið. Systkinin voru mörg á öllum bæjum.

Ég var í hvítum kjól og mér var kalt. Kjóllinn var svo þunnur og fínn. Ég átti ekki kjólinn og hann var fenginn að láni. Fermingarkjólarnir voru hvítir og ónothæfir fyrir aðra daga og voru því lánsföt. En ég fékk svo sparikjól fyrir önnur tilefni. Og þetta var áður en kyrtlarnir komu. Ég var í dönskum skóm, sem kallaðir voru. Þeir voru svartir og ágætir. Við fórum út að Völlum þar sem presturinn bjó og svo skiptum við stelpurnar um föt inn á kontór prestsins. Vinkona mín var með kyrtil og í skautbúning.

Þegar við vorum búin að fara í fermingarfötin gengum við út í kirkju með fjölskyldum okkar. En við fengum sérstakt sæti í messunni. Þegar stólræðan var búin var sunginn fermingarsálmur: “Lát þennan dag, ó Drottinn, nú.” Þá færðum við okkur upp að altarinu og settumst þar. Presturinn hélt ræðu númer tvö, fermingarræðuna, og talaði beint til okkar allra. Svo vorum við fermd. Við þurftum ekki að svara prestinum með öðru en jáyrði því yfirheyrslur voru búnar í spurningum. Svo tók presturinn í hönd okkar um leið og hann var búinn að ferma. Það var engin altarisganga í guðsþjónustunni, en svo var í vikunni á eftir gengið til altaris.

Þetta var eftirminnilegur dagur og ég tók ferminguna mjög alvarlega. Við vinkonurnar – og ég held allir krakkar á þessum tíma – tóku fermingarheitið alvarlega. Við vildum tilheyra Guði og vera hans. Það var engin veisla. En börnunum, sem fermdust, og foreldrum þeirra var boðið inn á prestssetrið. Svo þegar við vorum komin heim skipti ég um föt. Það var nú sauðburður á þeim tíma svo allir voru að sinna skepnunum. Ég fór að ná saman kindunum sem voru úti. Það var ekki vonskuveður en nauðsynlegt að koma skepnunum inn.

Það var ekki til siðs að gefa margar gjafir á þessum tíma. En ég fékk fermingarkort og Gísli bróðir hafði keypt notað úr, sem hann gaf mér. Pabbi og mamma gáfu mér kind. 

Já, hver er nú óskin til Þórðar? Jú ég vil að fermingardrengurinn haldi það sem hann lofar, haldi sér við Guð og verði góður og nýtur maður. Það er mest hamingjan að gera það.

Þórður Sigurðarson tók þetta viðtal við Svansí ömmu, 5. apríl, 2003, daginn fyrir fermingu hans. Hún var fermd á Völlum í Svarfaðardal og hann í Neskirkju í Reykjavík. Viðtalið var birt í minningabók um Svanfríði Kristjánsdóttur. Myndin af Þórði hér að ofan var tekin á gönguferð á  Rima, en amma hans hafði oft farið áður upp á þetta mikla fjall. Brosmyndin af mömmu er tekin sumarið 1953. Kristín, systir mín, stendur hjá móður sinni óléttri og fagnandi við Litlabæjarhlöðuna við hlið húss okkar við Tómasarhaga. Yfirlitsmyndin við upphaf greinar er af Rimum. Þar má sjá bæina sem tengjast fjölskyldu og sögu Svanfríðar, Brautarhól þar sem hún er fædd, Gröf, Skriðu, kirkjustaðinn Velli, næst utan við Brautarhól, Uppsali, Hánefsstaði og síðan aðra bæi utar í dalnum. Hinum megin ár glittir í Húsabakka og kirkjustaðinn Tjörn.