Greinasafn fyrir flokkinn: Prédikanir

Nálgast má eldri prédikanir mínar á tru.is Þar eru 267 prédikanir. Slóðin er þessi: https://kirkjan.is/kirkjan/tru.is/$PreachesListAdvanced/Index/?types=pistlarogpostillur&authorid=916cc6c9-cdbe-4136-a5c0-c57c836eb8fe&query=

Páskafólk

Konur á leið út úr borginni og í ómögulegum erindagerðum. Þær voru vonsviknar og sorgbitnar. Þær höfðu ekki aðeins misst náin vin í blóma lífsins, heldur líka málstað, sem hafði virst svo gæfulegur en hafði tapað, já með því róttæka móti að leiðtogin var aflífaður. Konurnar, sem gengu út til garðs og grafar á páskamorgni voru á leið að lokaðri gröf, sem þær gætu alls ekki opnað.

Þessar konur eru fulltrúar fólks, sem verður fyrir áföllum, verður fyrir sjúkdómum, óttast um ástvini sína, missir vinnu, tapar fé, lendir í ógöngum, verður fyrir skakkaföllum. Þessar konur höfðu upplifað langan föstudag. Þær voru föstudagskonur.

Í lífi allra manna verða áföll. Við erum öll föstudagsfólk, við eigum öll okkar löngu föstudaga í lífinu, verðum fyrir þungum raunum sem fylla okkur depurð og eru okkur raun. En miklu skiptir hvernig úr áföllum er unnið. Öllu varðar að reyna að læsast ekki inni. Það sem einkennir föstudagsfólkið er lokun, hefting og bæling. Föstudagsfólkinu er starsýnt á vandkvæði, vesen, sjúkdóma og vond tíðindi. Heimur þeirra hefur tilhneigingu til að fara versnandi og hin góðu mál fara fram hjá þeim. Föstudagsfólkinu er tamt, að sjá bara það sem næst er og túlka með ótta eða neikvæðni í huga. Í stað þess að sjá möguleika, nýjung og opnun í þróun og jafnvel áföllum hættir föstudagsfólkinu til að ræða um erfiðleika, ógnir og fyrirstöður. Í stað þess að hrífast af undrum lífsins, litbrigðum jarðar, bruminu á trjánum hér utan kirkju eða þungum nið tíma og geims sér föstudagsfólkið bara lokuð kerfi og afþakkar eða afneitar öllum frekari dýptum og víddum.

Jú, áföllin eiga sinn tíma – allir þarfnast næðis eftir að lífið hefur krossað þá. Allir verða ringlaðir á löngum föstudögum lífsins. En er náttúran bara ljót? Er tilveran bara neikvæð, sjúk, dapurleg og til dauða? Föstudagsfólkið hneigist til þeirrar afstöðu, ef ekki í lífsskoðun þá í praxis.

Páskalíf

Og þá er mál páskamorguns. Nýr dagur, dauðinn dó en lífið lifir. Kristur er upprisinn – Kristur er sannarlega upprisinn. Yfirvöld höfðu sett verði við gröfina til að varna grafarráni og hindra að líki Jesú yrði stolið. En verðirnir urðu fyrir mikilli reynslu, og það hefur væntanlega verið einhvers konar ljósvitrun. Það sem þeir urðu vitni að var svo rosalegt að þeir lögðu á flótta, sem varðmenn gerði ekki nema í ítrustu neyð því hlaup frá varðmennskunni var grafalvarlegt brot.

Þegar harmþrungnar föstudagskonurnar komu út í garðinn var steinninn frá, gröfin tóm og lík hins látna Jesú Krists horfið. Konurnar urðu líka fyrir reynslu, sem síðan var höfð í minnum, sögð og endursögð margsinnis og íhuguð. Þá lenti föstudagsfólkið í sunnudagsfréttunum. Konurnar urðu að bregðast við viðburðinum, nýjum aðstæðum og nýrri túlkun. Já, tilveran breyttist vissulega þegar leiðtoginn féll frá við krosspyntingarnar. En svo breyttist allt að nýju með boðskap páskadags.

Innri ákörðun

Hvað viltu með þessa frásögn þessa lífsdags? Hvað gerir þú með gleðifréttina að dauðinn dó og lífið lifir? Hvernig ertu hið innra? Ertu föstudagsmaður eða sunnudagsmaður? Er glasið þitt hálffullt eða hálftómt? Hvernig ferðu með allt, sem er þér mótdrægt og andsnúið?

Ég veit um konu, sem sagði gjarnan: “Ég er svo heppin.” En alla ævi bjó hún þó við kröpp kjör, mikla fátækt og missti mikið. Hún hafði lært að sjá í erfiðum aðstæðum ljós og möguleika. Hún var – þrátt fyrir áföllin – hamingjusöm og lánsöm því hún tamdi sér jákvæðni. Hún sá ekki bara ógnir heldur tækifæri, gleði í stað sorga, líf í stað dauða.

En lífið er ekki bara spurning um jákvæðni eða neikvæðni, að vera í stuði eða í mínus, föstudagsgeðslag eða sunnudagsstemmingu. Þegar föstudagurinn langi var að kvöldi komin var öllu lokið. Guð og maður á krossi! Þá var illt í efni. Verra verður það ekki. En síðan er seinni hluti sögunnar sá, að dauðanum var snúið í andhverfu sína, sagan endaði vel þrátt fyrir dauða söguhetjunnar. Gröfin sleppti feng sínum, lífið lifnaði og tilveran er góð. Það eru þær fréttir, sem breyta öllu í lífi kristins manns. Það eru þær fréttirnar sem eru kallaðar fagnaðarerindi. Slíkar fréttir eru gleðifréttir, frábærar fréttir.

Ef við temjum okkur jákvæðni í lífinu höfum við lært lífsleikni, sem hjálpar í þrautum og þegar eitthvað verður okkur mótdrægt. Við verðum þar með sunnudagsfólk. En þegar við heyrum páskaboðskapinn og tökum hann til okkar verðum við að auki páskafólk. Og páskaboðskapurinn verður sem kraftaverk í lífi sunnudagsjákvæðninnar, þegar geisli sólar sem fer í gegnum okkur og umbreytir okkur. Lífið er ekki bara af sjálfu sér heldur líf í sólarsamhengi Guðs.

Lífsfrásögn páskanna umbreytti veröldinni. Þegar við heyrum páskaboðskapinn megum við leyfa honum að umbylta lífi okkar. Veröldin er ekki lengur lokað kerfi dapurlegra ferla. Heimurinn er ekki bara til dauða, heldur er opið kerfi og jafnvel lögmál lífs og dauða eru brotin. Ekkert er svo slæmt í þínu lífi, ekkert er svo dapurlegt, engin áföll eru svo stór, að Guð geti ekki, megni ekki, nái ekki og megi ekki koma þar að með hjálp sína og gleði.

En engillinn mælti við konurnar: „Þið skuluð eigi óttast. Ég veit að þið leitið að Jesú hinum krossfesta. Hann er ekki hér. Hann er upp risinn … Hann er upp risinn frá dauðum …“

Strípað altari og Guð

Notre Dame, Frúarkirkjan í París brann. Eldöldurnar flæddu um helgidóminn og eyddu öllu sem fyrir varð. Þegar eldurinn hafði umbreytt öllu, syngjandi helgimyndum og bænmettuðum þakbitum í öskusvartan geim – blasti  undrið við slökkviliðsmönnum. Upp úr sóthrúgunum við altarið reis tákn hins heilaga, krossinn. Eyðingin vinnur ekki sigur, tákn himinsins tjáir líf í sortanum.

Í lok þessarar skírdagsmessu verða bikar og brauðhús borin út. Líka ljósastjakar, dúkar, þerrur og allt, sem á altarinu er. Veisluborð kirkjunnar verður strípað öllu því, sem á því er í messunni. Allt burt af altarinu. Af hverju? Tákn hins heilaga eru tekin burtu þegar föstudagurinn langi sækir að.

Þetta er undarlegur gjörningur, sem er líka tjáning lífsafstöðu og trúarjátning. Þegar við játum hið góða og trú til Guðs er hið næsta að horfast í augu við, að líf í þessum heimi hefur skuggahliðar, sekt, misgerðir, ofbeldi og dauða – þetta sem við viljum ekki en er samt.  Þegar við berum allt af altarinu tjáum við líka, að í okkur búi líka möguleikar hins illa. Og við þörfnumst hjálpar. Að vera mennskur er ekki aðeins að gera gott heldur líka að gera mistök og fremja afbrot. Þegar við berum út af altarinu táknum við fyrir sjálfum okkur, að við erum ekki aðeins vinir Jesú, heldur líka andstæðingar hins góða.

Píslarsaga Jesú í Biblíunni er ekki aðeins saga um vonda menn, sem voru illir í garð eins manns. Hún er sagan um okkur öll, möguleika allra manna til að snúa baki við því, sem við þó erum. Við erum ekki aðeins með lærisveinum Jesú við borð skírdagsins, heldur líka meðal hermannanna, sem veittust að honum. Við erum líka prestarnir, sem ekki vildu horfast í augu við að Guð talaði. Við erum öll Gyðingar, öll Rómverjar, öll fjandmenn Guðs – en er samt líka boðið að borði Jesú.

Á máli kirkju og trúar er Guð heilagur af því Guð gefur líf og allt hið góða. Guð er ljós- og lífvaki heimsins. Það er mál páskanna, þegar dauðinn deyr og lífið lifir. En svo er allt hitt raunverulegt, það sem veiklar og drepur lífið, allt þetta sem æpir á okkur á dögum dymbilviku. Stóru skuggamál manna og heims. Óréttlæti er óvinur lífsins, hernaður gegn náttúrunni er af hinu illa. Mannréttindabrot eru verk óhelgi, mismunun fólks vegna kynferðis, litarháttar og trúar sömuleiðis. Þegar nafn hins heilaga er notað í þágu óttans og til að vanhelga og niðurlægja fólk er líf vanhelgað. Þegar málstaður trúar og hins heilaga er misnotaður er borð veislunnar nakið og engum til lífs og gleði. Ranglæti og lífsspilling hvers konar er nakið altari, stípað borð. Guð minn, Guð minn hví hefur þú yfirgefið mig? Við berum áhöld og tákn hins heilaga burt úr helgidóminum á eftir til tákns um hvað við erum öll, hver veröldin er og til áminningar um hvað er heilagt.

Hvar varstu?

Í nokkur ár átti ég samleið með þýska rithöfundinum Heinrich Böll. Ég laðaðist að dýpt og sagnagáfu þessa merka Nóbelhöfundar og þess vegna urðu mér bækur hans ákjósanlegar til þýskuæfinga. Ein af bókum Böll, sem ég las, var Wo warst du, Adam?(Hvar varstu, Adam?).Þetta er bók um mannlíf í stríði, hvernig mennska þverr í drápsaðstæðum – en þá sjást englarnir. Hvers er ábyrgðin? Hvar er mennskan og manndómurinn þegar stríð geisa? Hvar erum við þegar góð skipan samfélags er rofin, þegar elskusemi er gerð útlæg, lægstu hvatir ráða, vondir menn stjórna og ofsi er óhaminn? Hvar varstu? Það er spurning Guðs til Adams. Hvar varstu og hvar ertu þegar brot eru unnin? Hin guðlega spurning er sístæð, sívirk – hún hvílir alltaf á þér. Ertu ljósvera eða myrkravera?

Böll segir frá kristinni stúlku af gyðingaættum, en hafði gengið í kaþólskan klausturskóla. Hún hafði notið góðrar söngmenntunar og líka tekið kristna trú. Hún frétti af útrýmingarherferð og að fjölskylda hennar væri í hættu. Þvert á ráðleggingar vina hélt hún til síns heima. Þar fann hún systur sína, sem var í svipuðum erindagerðum og hún sjálf. Fólkið þeirra hafði verið flutt á brott og þær voru gómaðar og sendar í fangabúðir. Þar stjórnaði SS-foringi, sem elskaði tónlist en hataði trú. Og hann dæmdi fólk til lífs eða dauða í samræmi við eigin músíkviðmið. Eina lífsvon fanga í búðunum var að þeir gætu spilað á hljóðfæri eða sungið. Hinum ómúsíkölsku var fargað sem óþörfum skepnum. Hinum söngvinu og hljóðfæraleikurum var þyrmt og til varð vel spilandi hljómsveit og öflugur kór í búðunum, sem söng og spilaði sig frá dauðanum.

Lofsöngur engilsins

Fólk var stöðugt flutt í þessa eyðingarstöð. Foringinn settist í skrifstofu sína og dæmdi til lífs eða dauða allt eftir tónlistargetu fanganna. Þegar kom að kaþólska gyðingnum skipaði hann þessari grönnu stúlku að syngja fyrir sig. Hún lauk upp munni sínum og þvert á væntingar hljómaði mikil og fögur sópranrödd hennar og fyllti veröld tilheyrenda. Söngundrið barst út um opinn skrifstofugluggan og út í veröld þjáningarinnar. Íbúar búðanna hljóðnuðu. Menn hættu störfum og færðu sig nær til að hlusta. Nazistaforinginn hlustaði stjarfur á dásemdina. Hann vissi, að stúlkan söng af snilli og kunnáttu. En hann vissi líka jafnvel hvað hún söng af slíkri innlifun, að allir hlustuðu – sanctus– lofgerðaróð hinnar kristnu messu – heilagur, heilagur, heilagur. Ástin til fegurðar og tónlistar bullaði annars vegar í manninum sem hlustaði – og andúðin kraumaði líka gegn hinu trúarlega. Hatrið réði fingrum mannsins. Með dásamlegan sanctusí eyrum þreif hann skambyssu sína. Þegar lofsöngurinn hljómaði skaut hann: „Heilagur, heilagur, heilagur ert þú Drottinn…“ Hann sem hafði aldrei fyrr drepið með eigin hendi skaut nú þennan engil lofsöngsins, boðbera hinnar hreinu fegurðar. Hún féll og hann hélt áfram að skjóta og gata grannan stúlkulíkamann meðan síðustu hljómar hennar dóu út í kyrrð búðanna og í bland við skothvellina.

Hvað er heilagt? Hvar varstu Adam? Hver er heilagur – maður – flokkur – manngert smælki eða Guð?

Í þágu lífs

Jesús kallaði vini sína til kvöldverðar á skírdegi. Við borðið skilgreindi Jesús lífið með ákveðnum hætti. Leiðtoginn laut til þjónustu. Hann þvoði fætur vina sinna. Og alla tíð síðan hafa vinir Jesú komið saman við borð. Lífið í ríki hins heilaga – guðsríkinu – varðar þjónustu, samfélag, umhyggju, fórnfýsi, viðsnúning gilda, að smátt og stórt sé sett í samhengi. Að lífið verði gert heilagt, virt sem slíkt og iðja manna sé helguð því sanna.

Hver er miðjan í þessari kirkju, miðjan í Notre Dame, já kirkjubyggingum heimsins? Það er borðið. Kristnin er borðátrúnaður, helgaður gestrisni, þjónustu, velvilja og umhyggju. Þau orð, sem presturinn hefur yfir við upphaf altarisgöngunnar, eru orð Jesú og það sem Páll postuli skrifaði. Kirkjan hefur síðan endurtekið, íhugað og tekið sér til hjarta. Þetta er líkami minn … þetta er blóð mitt. Í þessum orðum er heilagleikinn tjáður. Hvað er heilagt?

Í veislu himins er samkvæmt kristinni túlkun veröldin sætt við sjálfa sig og Guð. Allt er dregið út úr dimmri vonsku og inn í veröld ljósrar gæsku, helgað Guði. Hið heilaga hefur alltaf verið frátekið til ákveðins samhengis í gyðing-kristnum átrúnaði. Hið heilaga er það, sem er Guðs – og Guð einn er heilagur. Þegar menn játa þann sannleika, taka sér stöðu í því samhengi – og taka afleiðingum þess í lífi sínu og iðju – er rétt lifað og veröldin er helguð. Orðin hljóma í þeim anda, söngurinn verður með ákveðnu sniði og móti: „Heilagur, heilagur, heilagur er Drottinn… Þetta er líkami minn, þetta er blóð mitt.“ Það merkir að þú, stúlka, drengur, karl, kona, já þú ert heilagur og heilög – þú ert undursamlega sköpuð, þú ert stórkostlegur. Þú ert mennsk vera, þú ert líka guðleg vera. Þú ert engill Guðs, sendiboði hins heilaga, söngvari eilífðar.

Á altarinu eru tákn um lífið og að það er heilagt. En í messulok, þegar öll táknin hafa verið borin burt, verða fimm rósir lagðar á nakið borðið. Föstudagurinn verður þeim langur og til fjörtjóns. Blómin munu slúta fram yfir brún og verða æpandi tákn fram á páskamorgun. Rósir á altari eru mál elskunnar. Þær eru tákn síðusárs og meina heims og manna. Gróa sárin – verða páskar? Kemur lausnin heims og þín?

Guð geymi þig á göngu þessara bænadaga, varðveiti þig í nótt, veiti þér styrk til að mæta þér og Guði í atburðum komandi daga.

Hver er heilagur? Söngurinn hljómar, syngdu hann með lífi þínu, í huga þínum, með verkum þínum og orðum.

Heilagur, heilagur, heilagur er Drottinn Guð allsherjar.

Skírdagur, 18. apríl 2019, kl. 20.

Nr 7 Þú skalt ekki stela

Föstudaginn 15. mars dreif að ungt fólk úr öllum áttum og allir stefndu að Hallgrímskirkju. Unglingar í 8.-10. bekk og fjöldi úr framhaldsskólunum og nokkur eldri líka. Þau komu með mótmælaspjöld, litrík spjöld með hvatningarorðum um aðgerðir í náttúruverndarmálum: „Ekki stela framtíðinni.“„Það er engin pláneta B.“ „Framtíð okkar er í húfi.“ Þau voru komin til að mótmæla loftslagsmengun og hvöttu til aðgerða. „Gerið eitthvað áður en það er of seint“ stóð á mörgum spjöldum. Sum mótmælenda fóru að föstutré Hallgrímskirku, sem hafði verið flutt úr kórnum og út á Hallgrímstorg. Unga fólkið batt bænabönd á tréð og mislit böndin táknuðu mismunandi bænir. Föstutréð er birkitré og er að bruma og grænkar smátt og smátt. Svo gengu þúsund mótmælendur af stað undir söng kirkjuklukknanna niður Skólavörðustíginn og niður á Austurvöll.

Stela framtíð?

Í huga mér hljómaði setning Gretu Thunberg til heimsbyggðarinnar og skilaboðin voru á spjöldum líka: „Þið stelið framtíð okkar.“ Þeirri ákæru er beint til valdhafa og forréttindafólks heimsins, sem keyra áfram neyslukapphlaupið. Unga fólkið vekur athygli á stóru málunum og vill ekki að neinn steli framtíðinni. Þau berjast gegn stuldi lífsins. Ég stóð svo við Leifsstyttuna og horfði á eftir framtíðarfólkinu, sem vill góða framtíð en ekki mengaða veröld. Ég og mín kynslóð getum ekki annað en viðurkennt, að við höfum brugðist því hafið er að fyllast af plasti, hitastig lofthjúps jarðar er að hitna vegna okkar neyslu. Hreint vatn, sem er öllu lífi nauðsyn og raunar bæði náttúruréttindi og mannréttindi, er dýrmæti sem aðeins minnihluti mannkyns nýtur. Stelum við? Ætla ég að vera þjófur? En þú? Að menga er að stela heilbrigði annarra. Að stela framtíðinni er stórkostlegt afbrot – dauðasynd.

Sjöunda orðið

Þessar vikurnar ræðum við Hallgrímskirkjuprestar um boðorðin. Við vissum vel, að boðorðin eru merkileg. En við höfum líka enduruppgötvað hve andi þeirra er nútímalegur þegar búið er að skræla frá umbúðir fortíðarsamfélags. Boðorðin eru lífsviska, áttavitar fólks, sem vissi hvað þrælabúðir voru og hvað þrældómur spillts valds gat verið hræðilegur. Boðorðafólkið vildi ekki búa við helsi heldur frelsi. Og heilbrigt samfélag verður ekki til nema að fólk njóti mannréttinda og samfélagið hafi góðar reglur sem hemja ofbeldi. Fólk er ekki og má aldrei vera bara hjól í vél, tæki í þágu valdahópa. Gott samfélag verður til þegar fólk fær að vera það sjálft og fullveðja. Inntak boðorðanna er virðing fyrir Guði en líka djúp, ástrík virðing fyrir mönnum. Boðorðin tjá manngildi og mikilvægi mennskunnar.

Að stela fólki

Í dag beinum við sjónum að sjöunda boðorðinu. Hvernig er það? Jú, þetta sem bannar að stela. Þegar ég fór að skoða uppruna þess brá mér. Sumir fræðimenn sem sé telja, að þetta boðorð hafi upprunalega ekki verið vörn fyrir eignarrétt, heldur hafi fremur átt við fólk. Boðorðið hafi eiginlega verið bann við að stela fólki, gera fólk að þrælum, kaupa og selja þræla. Í hefðum Gyðinga hefur um aldir verið lögð áhersla á, að boðið varði mannrán. Þetta breytti sýn minni og skilningi á boðinu og opnaði það. Allt í einu varð boðorðið ágengara en sjálfsögð sannindi um efnislega hluti. Boðorðið er þá ekki bara almennt um fjármálagjörninga, viðskipti, kaup og sölu eða vernd eignarréttar, sem vissulega er mikilvægt í siðuðu samfélagi. Boðið varðar fremur fólk en eigur þess. Ef við manntengjum boðorðið verður betur skiljanlegt, að Jesús túlkaði siðfræði og lagahefð þjóðar sinnar fremur í þágu fólks en peninga. Við vitum, að Jesús var alltaf með hugann við velferð einstaklinga. Hann talaði um manngildi óháð lit, kyni og stöðu fólks. Hórseka konan var honum jafn mikils virði og musterispresturinn. Útlendingurinn var í huga hans jafngildur Gyðingum. Þorparinn var jafn mikilvægur og landstjórinn. Það var ekkert við og þið, yfirstéttin og undirsátar, betri og verri. Jesús felldi saman öll boðorðin og siðvit hebrea og Gyðinga og sagði, að aðalmálið væri, að við elskuðum Guð og náungann eins og okkur sjálf. Gullna reglan og tvíþætta kærleiksboðið? Það eru boðorðaprédikanir Jesú.

Manngildið og mennskan

Í ljósi þessarar manngildisáherslu las ég í liðinni viku greinar, blöð og fréttir með nýjum hætti. Boðið gegn því að stela getur átt við eða gilt fyrir öll þau tilvik þegar einhverjir brjóta á öðru fólki, ræna tíma og rétti, æru og vinnu, frelsi og lífsgleði. Það eru þjófar skv. boðorðinu, sem gera lítið úr skólafélögum og einelta aðra. Þeir pabbar eða mömmur, sem fara illa með börn sín og ástvini, svifta þau bernskunni eru þjófar. Það eru margir þjófar í hjónaböndum, sem fara illa með maka sína. Þeir stela raunverulega. Þjófarnir eru víða. Ertu þjófur? Stelur þú? Kannski ekki peningum, en stelur þú lífsgleði annarra, hamingju eða möguleikum? Og stelur þú framtíðinni?

Stela bernskunni

Sævar Þór Jónsson, lögmaður, sagði frá í nístandi blaðaviðtali í Morgunblaðinu, að þegar hann var átta ára þegar hann var misnotaður. Þrír ofbeldismenn níddust á honum og rændu hann bernsku og lífshamingju. Ofbeldi af því tagi er brot á mörgum boðum – slíkir menn eru bófar, þeir eru þjófar og ræningjar mennskunnar. Og það hefur verið verkefni Sævars Þórs að vinna úr þessu ofbeldi síðan. Og nú hefur Sævar Þór lagt draugana til hvílu – vonandi hinnar hinstu. Í haust, 2. október, mun hann segja frá – hér í Hallgrímskirkju – hvernig hann lifði af þetta bernskurán og brást við. Það er merkileg og rosaleg saga, sem hann hefur að segja, en líka saga um upprisu og hvernig fólk getur brugðist við missi, brotinu á sjöunda boðorðinu – og brotum á anda boðorðanna.

Eltihrellar stela

Ásta Ragnarsdóttir, hjá Bakkastofu á Eyrarbaka og fyrrum námsráðgjafi í Háskóla Íslands, sagði frá því fyrir skömmu, að hún hefði orðið fyrir barðinu á eltihrelli, sem sendi henni hræðilega hótunarpósta. Ástu var hótað líkamsmeiðingum, íkveikju og fleiri skelfingarefnum. Börn Ástu og Valgeirs Guðjónssonar, manns hennar, læstust inn í svartholi þessarar aðsóknar. Að lokum bognaði Ásta gagnvart hryllingnum, sagði sig frá vinnu sinni til að reyna að slíta sig frá ofsóknarfólkinu. Eltihrellar valda skaða, stela friði heimilis og fjölda fólks, meiða sálir og valda andlegum og félagslegum hörmungum. Eltihrellar eru þjófar og í sumum tilvikum morðingjar líka. Þeirra glæpur er rosalegur. En það var mikilvægt og hetjulegt, að Ásta sagði þessa sögu.

Rán á heimilum

Mörg okkar munum eftir bókinni Myndin af pabba,sem er saga Thelmu Ásdísardóttur. Í bókinni er sagt frá ofbeldi, sem faðir Thelmu beitti hana, systur hennar og fjölskyldu. Gerður Kristný, rithöfundur og skáld, skráði söguna og bókin stuðlaði að viðhorfsbreytingu Íslendinga (og endurskoðunar samfélagsins og þar með dómstóla) varðandi kynferðisofbeldi. Gerður Kristný hefur skrifað fleira um þetta þungbæra efni og m.a. áleitna og nístandi ljóðabók Sálumessu, sem var gefin út á síðasta ári – 2018, sem kallast á við efni Thelmubókarinnar. „Það sem aldrei er rætt virðist ekki vera til,“ segir Thelma (s. 215) í frásögn sinni af kynferðisofbeldi bernskunnar. Myndin, sem Thelma dró upp af föðurnum, er skelfileg, en sýnir einnig að hann var ekki bara djöfull í mannsmynd, heldur persóna sem átti líka góðar hliðar. Saga Thelmu er lýsing á hvernig hún, sem þolandi ofbeldis, gat snúið sér til lífs, birtu og frelsis. Thelma varð fyrir því, að faðir rændi hana og systur hennar bernskunni og fjölskylduna hamingjunni. Þessi pabbi var þjófur. Og þannig er það í mörgum fjölskyldum og mörgum hjónaböndum. Margir makar eru þjófar í samskiptum. Býrðu við stuld í þínum tengslum? Viltu að stolið sé af þér?

Að segja sögurnar er mikilvægur eflingargjörningur og heilsuátak hversu erfitt sem það nú er fólki. Sævar Þór,  Ásta og Thelma eru hetjur. „Sannleikurinn mun gera yður frjálsa,“ sagði Jesús Kristur. Þau orð eru sönn. Sú speki, er líka skráð í hornsteini Alþingishúss okkar Íslendinga og varðar okkur öll.  

Endurskoðun og framtíðin

Þegar við endurskoðum boðorðið um stuld – og tengjum við fólk en ekki bara fé – opnast ýmsar gáttir. Þú skalt ekki stela. Já, við eigum ekki að stela peningum og við eigum að vernda eignarréttinn. Og ég uppgötvaði, að við ættum helst að hugsa um þetta boð í tengslum við fólk. Allt fólk er dýrmætt, djásn í augum Guðs. Fólk, sem er notað, er rænt og af því stolið. Virðum fólk og stelum engu af lífsgæðum þess, frelsi, tíma og sjálfsvirðingu. Við erum öll jafngild, óendanlega dýrmæt. Jesús mat einstaklinga og eilíft gildi þeirra. Þannig megum við einnig vera. „Þið stelið framtíð okkar“ segir framtíðarfólkið. Nei, við viljum ekki stela. Við viljum lifa með ábyrgð í nánum samskiptum, í samfélagi okkar, í uppeldi, vernd gilda og náttúru. Og andi boðorðanna er að elska Guð, virða fólk og vernda líf.

Hallgrímskirkja 24. mars 2019. 

Lexía: 2. Mós 20.2-3,15

Ég er Drottinn, Guð þinn, sem leiddi þig út af Egyptalandi, út úr þrælahúsinu. Þú skalt ekki hafa aðra guði en mig. … Þú skalt ekki stela.

Pistill: Róm. 13.8-10

Skuldið ekki neinum neitt nema það eitt að elska hvert annað því að sá sem elskar náunga sinn hefur uppfyllt lögmálið. Boðorðin: „Þú skalt ekki drýgja hór, þú skalt ekki morð fremja, þú skalt ekki stela, þú skalt ekki girnast,“ og hvert annað boðorð er innifalið í þessari grein: „Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.“ Kærleikurinn gerir ekki náunganum mein. Þess vegna er kærleikurinn uppfylling lögmálsins.

Guðspjall: Matt. 6.19-24

Safnið yður ekki fjársjóðum á jörðu þar sem mölur og ryð eyðir og þjófar brjótast inn og stela. Safnið yður heldur fjársjóðum á himni þar sem hvorki eyðir mölur né ryð og þjófar brjótast ekki inn og stela. Því hvar sem fjársjóður þinn er þar mun og hjarta þitt vera. Augað er lampi líkamans. Sé auga þitt heilt mun allur líkami þinn bjartur. En sé auga þitt spillt verður allur líkami þinn dimmur. Ef nú ljósið í þér er myrkur, hvílíkt verður þá myrkrið. Enginn getur þjónað tveimur herrum. Annaðhvort hatar hann annan og elskar hinn eða þýðist annan og afrækir hinn. Þér getið ekki þjónað Guði og mammón.

Þú skalt ekki morð fremja!

Fimmta boðorðið er til skoðunar í dag. Hvernig var það nú aftur? Já, það er bannið við að drepa. Þú skalt ekki morð fremja. Boðið er gott en hvar liggja mörkin? Hvenær verður eyðing lífs morð og hvenær ekki? Er bara átt við menn eða getur verið, að endurtúlkun Jesú á boðorðunum þenji regluna út? Varðar boðið jafnvel meira en karla og konur, börn og gamalmenni? Getur verið að náttúran sé systir, bróðir og náungi okkar? Varðar þetta boð umhverfissóða?

Í Íslandsklukkunni er Jón Hreggviðsson alls ekki viss um hvenær menn deyða. Hann svaraði Arnas Arnæus: „Hef ég drepið mann eða hef ég ekki drepið mann?… …Hvenær drepur maður mann og hvenær drepur maður ekki mann?” Fimmta boðorðið leynir á sér og á raunar meira erindi við okkur en að banna líkamleg voðaverk.

Í dag verður fjallað um þrennt: Fyrst ástæður boðsins til til forna. Síðan andlega dýpkun Jesú, sem stækkaði umfang boðsins og bætti við innhverfingu þess. Þar á eftir klofum við í guðfræðisögunni alla leið til Lúthers, sem kenndi, að fimmta boðorðið er ekki neikvætt heldur jákvætt og virkjandi. Lúther taldi að við ættum ekki að halda aftur af okkur heldur væru það jákvæðar samfélagsskyldur allra að efla hag allra. Í lokin íhugum við gildi fimmta boðorðins fyrir fólk í samtíðinni. Boð, sem virðist ekki vera sérlega mikilvægt fyrir okkur, sem erum ekki í drápshug, verður allt í einu ágengt og mál dagsins.

Lífsvernd

Lífið er alltaf dýrmætt og á öllum öldum. Þegar blóð hafði flætt, sorgin níst og ástvinir voru grafnir var og verður alltaf niðurstaða hugsandi fólks að nauðsynlegt væri að hefta drápin. Fimmta boðorðið var og er regla um lífsrétt sem var sett gegn hrárri villimennsku, yfirgangi, ofbeldi, vörn gegn hefndum og blóðugri samkeppni, já skikkan gegn hrottaskap. Líf einstaklinga var ekki og mátti ekki vera eitthvað, sem annar gat tekið si svona eða af því svírinn lægi svo vel við höggi eins og sagt er frá í Fóstbræðrasögu og var réttlæting Þorgeirs á mannsmorði. Dráp má aldrei vera geðþóttamál, hrottaleikur og hvatvís hugdetta.

Hið forna samfélag hebreanna bannaði ekki að losa sig við illvirkja. Hagsýni allra tíma hefur reiknað út, að öxin og jörðin geymdu slíka best. Síðan hafa alltaf verið til rök – misgóð – um fælingarmátt dauðarefsinga. Lífsvernd er þó meira en bara einföld hagsýni. Líf mannsins er grundvallað heilagri réttsýni, ákvörðun Guðs. Fimmta boðorðið er stefna Guðs. Lífið er gott – ekki bara vegna þess að það sé svo gaman að lifa og það sé stundum gaman hjá okkur – heldur vegna þess að Guð hefur ákveðið að manneskjan hafi gildi, maðurinn sé kallaður til samvinnu í guðsverkinu. Efnislega er manneskjan ekki mikils virði – tæplega 60 lítrar af vatni, 2 kg af fitu og 1,2 kg af kalki og einhver grömm af ýmsum efnum. Það er ekki hráefnið sem býr til manngildi. Trúmenn fyrr og síðar hafa ekki álitið lífið heilagt vegna útreiknings á einhverjum stærðum og víddum, heldur af því Guð hefur ákveðið það. Guð var trygging manngildis. Manngildisafstaða trúarinnar hefur síðan alið af sér mannhelgi siðakerfa Vesturlanda, löggjöf þjóða og félaga og mannréttindasáttmála Sameinuðu Þjóðanna. Trúmenn eiga því að styðja alla viðleitni manna til að tryggja velferð fólks og réttindi. Sá réttur er óháður trú þó trúmenn sjái í þeim rétti guðlega visku.

Jesús og boðorðið

Jesús vissi vel um reglur samfélagsins. Hann beitti sér ekki gegn siðakerfum og hefðum, sem þjónuðu góðu mannlífi. En hann beitti sér alltaf þegar menn vildu hangýta sér lög og reglur í eigin þágu eða einhverrar þrönghyggju, sem væri á kostnað elsku og umhyggju.

Hópur af mönnum, sem vildu klekkja á Jesú færðu t.d. til hans konu, sem var brotleg í siðferðisefnum og svo mjög að skv. reglunum mátti drepa hana með því að henda í hana grjóti. Dólgarnir ætluðu að koma Jesú í bobba. En hann stóð með lífinu í þetta sinn sem endranær þó hann afsakaði ekki gerning konunnar. Viska Jesú var til að eyðileggja prettavit hópsins. Hann sagði að þeir sem væru syndlausir ættu að kasta steinunum (Jóh. 8.7). Við það hurfu kastararnir. Freka karlinum er alltaf illa við að sjónum er beint að honum.

Í Fjallræðunni kemur fram, að Jesús er sammála boðinu, en hann gaf því þó nýja og dýpri merkingu. Hann túlkaði stórt og vítt. Menn megi ekki deyða aðra heldur sé boðið líka andlegt. Við deyðum ekki aðeins fólk með því að meiða líkamlega, heldur með ýmsu móti, t.d. með því að reiðast einhverjum. Jesús stækkar eða víkkar því merkingarsvið boðsins, lætur sér ekki nægja hið ytra heldur færir það inn í fólk, í afstöðu, tilfinningar þess og innræti.

Af hverju þessi stækkun, breikkun og dýpkun Jesú? Það er vegna afstöðu hans til fólks. Jesús leit svo á, að maðurinn væri óendanlega mikils virði og ætti að hegða sér í samræmi við þær notkunarleiðbeiningar, sem Guð setur fyrir gott mannlíf.

Lúther úthverfði

Þá tökum við langt guðfræðiskref og til siðbótartímans. Margir verða hissa á boðorðaafstöðu Marteins Lúthers, en hrífast þegar skýringarnar hans eru skoðaðar. Lúther þekkti vel sögu siðfræðinnar og að Jesús túlkaði alltaf mannræktandi. Í skýringu Lúthers á fimmta boðorðinu er ekki talað um einangrað ofbeldisverk, heldur er ramminn stór og jákvæður: “Við eigum að óttast og elska Guð, svo við ekki meiðum náunga okkar, né vinnum honum nokkurt mein á líkama hans, heldur björgum honum og hjálpum í allri líkamlegri neyð.”

Í viðbót við innhverfingu Jesú varðandi boðorðin úthverfir Lúther og í samræmi við anda Jesú. Boðorðið hefur samfélagsvídd. Samkvæmt Lúther er ekki aðeins bannað að skadda aðra, heldur er hlutverk okkar að efla aðra og bæta hag þeirra. Hlutverk okkar er að tryggja velferð annarra, beita okkur í samfélaginu svo við eflum lífsgæði, ekki aðeins okkar eigin, heldur samfélagsins alls. Við hlýðum fimmta boðorðinu þegar við erum tilfinningalega og samfélagslega heilbrigð og ábyrg og samfélagið virkar vel og til hags fyrir heildina. Bannið við morðum, fimmta boðorðið, varðar stjórnmál okkar, umhverfismál, samskipti við aðra. Líf okkar er, samkvæmt guðlegri ákvörðun, heilagt. Við eigum að hegða okkur í samræmi við þá skilgreindu stöðu okkar með því að rækta umhyggju og gera öðrum gott.

Boðorð fyrir okkur

Já, hvenær drepur maður mann? Við deyðum þegar við stingum, skjótum, lemjum eða keyrum á einstaklinga svo þeir láta lífið. Það er óheimilt trúarlega og líka lögbrot. Samfélagið hefur reglur um slíkt og refsar fyrir. En svo er allt hitt að auki. Við getum deytt þegar tilfinningar okkar leiða okkur í gönur, þegar við leyfum heift að sá sér hið innra, spíra þar og vaxa. Þá verður til dauðaferli. Reiði, hatur, vondar hugsanir og ljótleiki eyða og deyða. Ofsi hið innra er eitur, sem lífið þolir illa eða ekki. Þegar slíkt lifnar í þér og vex er dauðinn að grípa þig og kæfa. Þú byrjar að deyja.

Við deyðum þegar við tökum þátt í eða leyfum að varnarlitlir séu beittir harðræði, einelti, rangsleitni, ofbeldi, baktali og öðru álíka. Við erum samsek þegar við leyfum kerfum að viðhaldast, sem niðurlægja fólk, réttlæta kynjamismunun, þjóðamismunun, kynþáttamismunun eða aðra óeðlilega og ómannlega aðgreiningu hinna betri og hinna verri, hinna æðri eða óæðri. Maður drepur mann ef við gætum ekki hagsmuna fólks og reynum að efla hag og velferð annarra. Boðið er róttækt og lífið er heilagt. Mannlíf fólks er eitthvað, sem okkur ber að virða og engan afslátt veita. Og svo er náttúran systir okkar sem við höfum ekki heimild til að deyða.

Guð vill að lífið sé virt, þitt eigið líf, líf þeirra sem þú elskar, en líka líf hinna sem þér er í nöp við eða eru þér jafnvel kvalræði, líf allra, kvenna og karla, allra manna, allrar veraldar. Við eigum ekki aðeins að beita okkur í mannvernd, náttúruvernd og samfélagsvernd vegna þess að það sé hagkvæmt og tryggi okkur sjálf, heldur vegna þess að Guð vill það. Í því verður siðsemin róttæk og boðið djúpt og altækt. Og boðið á við þig og mig.

Amen

Hallgrímskirkja, 10 mars 2019. Í röð boðorðaprédikana í janúar – apríl, 2019.

Lexían

Þú skalt ekki morð fremja.

  1. Mósebók 20,13

Pistillinn

Skuldið ekki neinum neitt nema það eitt að elska hvert annað því að sá sem elskar náunga sinn hefur uppfyllt lögmálið. Boðorðin: „Þú skalt ekki drýgja hór, þú skalt ekki morð fremja, þú skalt ekki stela, þú skalt ekki girnast,“ og hvert annað boðorð er innifalið í þessari grein: „Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.“ Kærleikurinn gerir ekki náunganum mein. Þess vegna er kærleikurinn uppfylling lögmálsins.

Rómverjabréfið 13,8-10

Guðspjallið

Þér hafið heyrt að sagt var við forfeðurna: Þú skalt ekki morð fremja. Sá sem morð fremur skal svara til saka fyrir dómi. En ég segi yður: Hver sem reiðist[ bróður sínum skal svara til saka fyrir dómi. Sá sem hrakyrðir bróður sinn skal svara til saka fyrir ráðinu og hver sem svívirðir hann hefur unnið til eldsvítis. Sértu því að færa fórn þína á altarið og minnist þess þar að bróðir þinn hefur eitthvað á móti þér þá skaltu skilja gjöf þína eftir fyrir framan altarið, fara fyrst og sættast við bróður þinn, koma síðan og færa fórn þína. Vertu skjótur til sátta við andstæðing þinn meðan þú ert enn á vegi með honum.

Matt. 5, 21-25

 

Nr. 1 fyrsta boðorðið

Ef einhver brýtur af sér eða verður fyrir stórkostlegu áfalli – hvað er þá hægt að gera? Hvernig á að bregðast við ef allt fer í rugl á heimilum? Hvað er hægt að gera þegar hrun verður í þjóðfélagi? Hvað er vænlegast ef kreppur trylla stórar hreyfingar eða félög? Hvað gerir þú þegar eitthvað mikið gerist í lífi þínu? Þá þarf að stoppa, bregðast við af raunsæi og finna bestu útleiðina. Stundum þarf að taka u-beygju, viðurkenna vandann, iðrast og setja nýjar reglur.

Í stað þess að leggja út af guðspjalli dagsins munum við, prestar Hallgrímskirkju, íhuga boðorðin næstu vikurnar. Boðorðin eru einstök. Þau hafa verið milljörðum manna leiðbeiningar í þúsundir ára. Þau hafa verið kölluð umferðarreglur lífsins. Boðorðin eru dýrmæti – ekki aðeins trúmönnum, heldur eru þau líka þættir í siðfræði og siðferði heimsbyggðarinnar. Andi þeirra hefur mótað mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna og haft áhrif á löggjöf, mannskilning, hugmyndir um réttindi og réttlæti og hvernig við skiljum rétt og rangt. Boðorðin hafa verið eins konar vegprestar við lagagerð og samtal um hið réttláta þjóðfélag. En hvert er gildi þeirra nú? Hafa þau gildi í nútímasamfélagi?

Fleiri lög eða innræti?

Í miðju efnahagshruninu fyrir rúmum áratug urðu deilur um leiðir út úr vandanum. Margir töldu, að skerpa yrði löggjöf og gera nýja stjórnarskrá til að fyrirbyggja hörmungar í framtíð. Jón Sigurðsson, sem um tíma var formaður Framsóknarflokksins, sagði þá að endurskoðun laga væri ekki sjálfgefin lausn vandans, en það myndi hjálpa ef fólk færi bara eftir boðorðunum! Það er þörf ábending. Það er ekki nóg að setja góð lög ef fólk er ósammála anda þeirra og fer ekki eftir þeim.

Hvaða skoðun hefur þú á boðorðunum? Telur þú, að ef fólk lifir í anda boðorðanna megi vænta góðra mannasiða og blómstrandi þjóðfélags?

Manstu fimmta boðorðið og manstu kannski alla röðina? Fyrstu þrjú boðorðin varða afstöðu manna til hins guðlega, en sjö seinni orðin eru um mannheim. Boðorðin eru í heild á tveimur stöðum í Biblíunni, í annari Mósebók tuttugasta kafla og síðan í fimmtu Mósebók í fimmta kafla. Og kaflarnir eru ólíkir.

Boðorðin eru sett inn í söguframvindu eyðimerkurgöngunnar, en þau endurspegla lífshætti borgarsamfélags en ekki siðfræði og siðferði umreiknandi hirðingjaflokks. Boðin eru hluti af regluverki þjóðar og eins og við vitum þarf heilbrigt þjóðfélag samfélagssáttmála, leikreglur um samskipti og úrlausn mála. Þessi fáu boðorð eru aðeins nokkur af miklum reglubálki hebresku þjóðarinnar. Og reglurnar, sem þeir settu sér, eru raunar mörg þúsund. Það er ekki aðalatriði, að þú munir hvort bann við morðum sé á undan eða eftir banni við hjúskaparbrotum. Það er ekki aðalatriði að þú þekkir, munir eða skiljir þessi boð, heldur að andi þeirra móti til góðs og verði innræti þitt.

Kristnir menn hafa um aldir kennt, að boðorðin séu mikilvæg en þó ekki skuldbindandi reglur. Lög, boð og skyldur eru ekki miðja eða höfuðatriði kristins átrúnaðar heldur Guð. En gruflandi trúmaður spyr hins vegar um afleiður sambandsins við þennan Guð, sem alltaf er túlkaður sem guð réttlætis og umhyggju. Trú er tengsl við heimshönnuðin og því er eðlilegt að spurt sé hvernig kerfið, sem þessi Guð hefur skapað, virki best. Trú er aldrei tæki í þágu eigin dýrðar, heldur samband við Guð. Guð er ekki sjálfhverfur heldur tengslavera, sem elskar. Þar með er gefið, að trú mótar siðferði, trú hvetur til réttlætis og trú kallar á siðfræði. Trú varðar allt líf einstaklings, þjóðfélags og náttúru, stjórnmál, samskipti á heimili, uppeldi og skólamál. Trú er ekki sprikl í mórölskum möskvum, heldur afstaða sem elur af sér mannskilning, heimsskilning, náttúrusýn, friðarsýn og allt mögulegt annað varðandi tengsl við fólk og gildir einu hvaða trú eða kynhenigð það hefur eða hvernig það er á litinn. Auðvitað er atferli trúmanna með ýmsu móti og ekki allt gott. En trúin verður ekki dæmd af mistökum, frekar en góð löggjöf af glæpamönnum, eldur af brennuvörgum eða þjóðir af áföllum. Afstaða Jesú til boðorðanna er til fyrirmyndar.

Jesús Kristur hafði afslappaða frelsisafstöðu gagnvart reglum. Jesús benti á, að lífið þjónar ekki reglum heldur þjóna reglur lífinu. Þannig ætti að nálgast lög, form og kerfi manna, líka boðorðin. Jesús áleit, að aðalreglurnar væru um mannvirðingu og Guð. Hann bjó til tvöfalda kærleiksboðið, sem er eiginlega samþjöppun hans á öllum boðorðunum. Hvernig er það nú aftur? Tvöfalda kærleiksboðið fjallar um að elska Guð og elska fólk og það hljóðar svo: “Elska skalt þú, Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni, og öllum huga þínum. … og náunga þinn eins og sjálfan þig.”

Þetta er hin elskulega útgáfa og túlkun Jesú á boðorðunum. Annars vegar uppstefnan og hins vegar þverstefnan. Krossinn er tákn þessa boðs. Elska til Guðs er himinstefna og himintenging hins trúaða eins og langtréð eða uppstólpinn. En trúin er einskis virði nema að hún bæti líf og hamingju fólks, einstaklinga og samfélags. Það er þvertréð á krossinum. Og í samtíð okkar hefur komið í ljós að ef við erum ekki rótfest í heilnæmri náttúrutengingu förum við villur vega, mengum og deyðum. Trú, sem aðeins varðar stefnu inn í eilífð, er á villigötum. Trú, sem aðeins sér menn, hefur tapað áttum. Guð og fólk, Guð og veröld – allt í senn og samfléttað. Þegar þú sérð kross + máttu muna Guð, menn, nátttúru og að Guð elskar þig og alla veröldina. Og andsvar þitt við þeirri elsku er, að þú mátt elska Guð, veröldina og mennina þar með.

Guðselska eða I-god

Hvernig var aftur fyrsta boðorðið? Það hljóðar svo: Ég er Drottinn Guð þinn, sem leiddi þig út af Egyptalandi, út úr þrælahúsinu. Þú skalt ekki hafa aðra guði en mig.

Þetta hljómar einfalt, en er þó snúið. Letingjar veraldar forðast alltaf þetta boðorð. Ísraelar bjuggu til gullkálf og allir menn hafa tilhneigingu til að búa sér til sinn eigin smáguð, sitt eigið guðsríki. Sumir trúa blint á flokkinn sinn, aðrir lúta fíknarguðinum. Fæðufíkn, neyslufíkn nær tökum á mörgum. Margir óttast svo yfirmenn sína, flokksræðið og alls konar harðstjórnir, að menn tapa áttum, hugrekki og heilindum og litlir hjáguðir verða einræðisherrar. Síðan er sjálfsdýrkun í ótal útgáfum, sem er algengasta hjáguðadýrkun í okkar heimshluta.

Það er I-godeða ég-um-mig-frá mér-til-mín-afstaðan, sem á sér síðan ótal spilingarútgáfur. Þessi smáguðaafstaða er það, sem er drifkraftur spillingar í vestrænum samfélögum. Stærsta hrun síðustu ára Íslands er ekki fjármálahrun eða bankahrun heldur siðferðishrun. Það hrun er einstaklingum, félögum og samfélagi eins og illvígt innanmein, sem hefur búið um sig í leynum og lengi, menningarmein sem dregur til dauða ekki bara fólk heldur líka lífríki náttúrunnar.

Ef við, sem einstaklingar, komumst ekki út úr okkar eigin smáveröld verðum við sjálfsblekkingu að bráð og sérstaklega um eigið ágæti og eigin snilli. Og sjáum þá ekki að veröldin er stærri en mannheimur og við höfum stærra og merkilegra hlutverki að gegna en bara í okkar smáheimi. Hlutverk okkar er að þjóna, ekki bara að sjálfum okkur – heldur líka öðrum. Fyrsta boðorðið merkir, að ég verði ekki raunverulegt ég nema Guð sé þar, fái aðgang að sjálfinu og hjáguðirnir fari úr hásætinu. Viskan er: Ef litlu guðirnir fá of mikið vægi veiklast líf og lífsgæðin spillast. En ef Guð fær að vera miðja sjálfs og lífs þá getur sjálfið lifað vel, guðsflæðið virkað rétt og samfélag manna, þjóðfélagið, græðir stórlega. Guð og gildi fara saman.

Öll könnuðumst við að hafa ruglast á röð boðorðanna. Það er í góðu lagi því það er andi boðorðanna sem er aðalmálið. Takmarkið er, að þau verði okkur töm, að við temjum okkur inntak þeirra, þau verði innræti okkar, mynstur sálarinnar, sem stýrir viðbrögðum okkar í lífinu.

Mannasiðir

Hvaða grunn þörfnumst við undir byggingu samfélags, menningar og samskipta? Hvers konar leikreglur þarf að setja? Hvaða gildi viljum við að stofnanir og skólar þjóðarinnar hafi? Þegar dýpst er skoðað – hvers konar gildi viljum við og hvers konar mannasiði? Fyrsta orðið er upp, þvert og niður. Nær til alls sem er í þessari veröld og er til góðs. „Ég er Drottinn Guð þinn … þú skalt ekki aðra Guði hafa.“  

(Myndina sem fylgir tók ég á Jakobsveginum – á leiðinni til Santiago de Compostella. Vegvísarnir eru margvíslegir. Þessi vegprestur var fagur og boðorðin eru fögur. )