Greinasafn fyrir flokkinn: Greinar og pistlar

113 pistlar SÁÞ eru inn á tru.is og aðgengilegt á slóðinni trú.is.

Möguleikarnir í plágunni

Ég á vinkonu sem slasaðist í bílslysi. Hún lamaðist neðan mittis og kemst ekki um nema í hjólastól. Eftir slysið hugsaði hún um hvernig lífið yrði eftir slys. Hún gerði sér grein fyrir að kostirnir væru tveir. Hún gæti valið að hafa hjólastólinn allaf fyrir framan sig og þar meða láta hann stöðugt hindra sig. En svo væri hinn kosturinn. Hún gæti tekið ákvörðun um að hafa stólinn tilfinningalega og vitsmunalega aftan við sig. Og hún valdi seinni kostinn. Hún hefur svo sannarlega lifað ríkulegu lífi, ferðast mikið alla æfi og lifað mikil æfintýri. Við erum í sömu stöðu og vinkona mín var. Hvort látum við vanda og erfiðleika fylla tilveru okkar eða lítum á hvert mál sem viðfangsefni til eflingar? Getum við brugðist við plágum og kreppum sem viðfangsefnum til að læra af og eflast? Vinkona mín brást við með skapandi hætti.

Covid-veiran fer um heiminn og kerfi mannanna brenglast. Nú hefur verið sett á vítækt samkomubann á Íslandi og mun hafa mikil áhrif á líf okkar. Tilgangurinn er skýr og góður. Reynt er að verja þau, sem eru með einhverja sjúkdóma sem veikla viðnám gegn veikindum. Við erum öll kölluð til ábyrgðar og að standa saman og þétta raðirnar í þessari merkilegu iðju að búa til net kærleika og umhyggju. Við endurskipuleggjum vinnu, heimilislíf og samfélag okkar og tökum tillit til ólíkra þarfa fólks. En á þessum aðkreppta tíma erum við líka hvött til að njóta sem mestra gæða í einkalífi okkar. Covid er ekki skemmtilegur ferðafélagi, en er þó á milli okkar og á ferðinni. En við viljum hann ekki, viljum hann út úr mannfélaginu, en til þess að svo verði þurfum við að standa saman. Hvað langar okkur til og hvernig líf viljum við?

Líðan?

Hvernig líður þér í þessum undarlegu aðstæðum þegar stjórnvöld banna okkur að halda stórar samkomur? Hvernig líður þér ef þú hefur skert þol gagnvart pestum og ef ónæmiskerfi þitt er veiklað? Hvernig líður þér, ef þú mátt ekki fara á fundina, sem þér þykir svo gaman að sækja? Hvað getur þú gert? Eru einhver tækifæri í stöðunni og í þessum aðstæðum? Getur þetta orðið inntaksríkur tími í stað þess að vera tími corona-kvíða?

Viðbrögð

Við ráðum ekki öllu því, sem gerist í lífi okkar. Áföll verða, en við getum hins vegar alltaf ákveðið hvernig við bregðumst við þeim. Við erum frjáls í viðbrögðum okkar. Við megum gjarnan temja okkur æðruleysi, núvitund og óttaleysi. En hvernig? Jesús sagði: „Frið læt ég yður eftir, minn frið gef ég yður. Ekki gef ég yður eins og heimurinn gefur. Hjarta yðar skelfist ekki né hræðist.“ Kjarni þessa er, að við þurfum ekki að óttast. Við getum verið hrædd við aðstæður, smitbera, einsemd og erfiðleika, en þó megum við gæta okkar að ala ekki óttann með okkur, fylla ekki sál okkar og vitund með skelfingu eða sannfæra okkur sjálf um að allt fari á versta veg.

Óttinn sem læðist og magnast

Á tímum plágunnar getum við gert svo margt. Það er þakkarvert að þessi tími, sem við lifum nú er allt öðru vísi en Hrunið fyrir 12 árum síðan. Þá bullaði samfélag okkar af reiði í garð fólks. En enginn er reiður vírusnum. Óttinn nærir ekki reiðina nú. Nú er tækifærið til að stoppa, hugsa, anda djúpt og spyrja sig mikilvægra spurninga um gildi, ást og gleðimál. Hvað skiptir þig mestu máli í lífinu? Hvað elskar þú? Hver elskar þú? Getur verið að þú eigir að minnka puðið og fara frekar að gera það sem þér þykir skemmtilegt? Forgangsraða að nýju? Hringja í frænda þinn eða gamla vinkonu, sem þú veist að er með undirliggjandi sjúkdóm og þarf einhvern til að tala við um ótta sinn. Eða kaupa inn fyrir þau? Það er margt fólk í kringum okkur sem bíður eftir að þú spyrjir þessara einföldu spurninga: Hvernig líður þér? Hefur þú áhyggjur?

Úr framtíðinni

Nú er tími að endurskoða. Við erum kölluð til að hugsa um líf okkar. Vissir þú, að Guð er ekki bara til í fortíð og nútíð? Sagan um Guð er ekki bara til í menningunni og í gömlum bókum. Guð er ekki bara á eftir þér. Guð kemur líka úr framtíð. Þegar aðstæður fortíðar og nútíðar vekja með okkur ugg eða ótta kemur Guð. Og þar sem Guð er verður líf til. Á tíma veirunnar er ekki aðeins skelfilegur kórónavírus á ferð heldur er andi Guðs löngu kominn. Guð kallar þig til að setja tilfinningar í samhengi. Ótti er eðlilegur öllu lífi en óttinn á ekki að verða húsbóndi nokkurs manns. Ótti hjálpar okkur í lífsbaráttunni en trú, von og kærleikur mega verða stjórnkerfi okkar. Hvaða möguleika hefur þú núna? Hvað langar þig að gera? Hvernig getur þessi kreppa opnað líf þitt til góðs? Nú er tækifærið.

Jesús sagði: „Frið læt ég yður eftir, minn frið gef ég yður. Ekki gef ég yður eins og heimurinn gefur. Hjarta yðar skelfist ekki né hræðist.“ Á tímum kórónaveirunnar – eins og allar aðrar stundir – er Guð nærri þér. Og heyrir bænir þínar, gengur við hlið þér og styður þig.

Dachau, útrýmingarbúðir og við

 

75 ár eru frá því útrýmingarherferð nasista lauk og fangar voru frelsaðir úr dauðabúðunum. Í Póllandi, Jerúsalem og Þýskalandi hafa verið haldnar minningarathafnir á þessum tímamótum. Í búðunum voru meira en sex milljónir myrtar. Gyðingar voru stærsti hópurinn, en líka þau sem voru talin óæskileg, samkynhneigðir, fólk með þroskahamlanir og pólitískir andstæðingar yfirvalda. Fólk var pyntað, kvalið, niðurlægt og myrt. Börnum var jafnvel hent lifandi inn í eldofnana og kvalaópin skáru í hlustir hinna fanganna, sem ekkert megnuðu í varnarleysi sínu annað en hlusta og æpa hljóðlausar bænir inn í eilífðina. Er nema von að fólk spyrði í kjölfar styrjaldarinnar hvort Guð væri ekki beinlínis nauðsynlegur til að gera upp sögu með þvílíkri hryllingsvídd.

Skammt utan við borgina München í Þýskalandi er Dachau, lítill staður með stóra sögu. Ég átti einu sinni leið til München og fór þá til Dachau. Ég vissi fyrirfram um staðinn og hafði kynnst fólki sem hafði misst ættingja sína í Dachau. Það er sálarslítandi að lesa helfararbækur en grípandi og nístandi að hugsa um mismunandi viðbrögð fólks í dauðabúðum. Þessar bækur halda að manni íhugun um merkingarleysi en líka lífsmöguleika. Meðal þess sem ég hafði lesið var viskubók Viktor Frankl Leitin að tilgangi lífsins, en Frankl var um tíma fangi í Dachau.

Yfir búðahliðinu var stóð: Arbeit macht frei – vinna til frelsis. En veruleikinn var annar og myrkari innan hliðs og girðingar. Þar voru óæskilegir vistaðir og þeim fargað, fólk sem var af ákveðnum kynþætti, þroskaheft eða með aðrar skoðanir en valdhafar. Meðal þeirra var hinn kunni prestur Martin Niemöller, sem benti á mannelsku Guðs sem ekki gerir greinarmun á fólki.

Skálarnir, húsin og minnismerki búðanna sögðu hljóðláta sögu sem var ávirk þeim sem höfðu næði til að hlusta á nið sögunnar og höfðu einhver tengsl við hana. Sláandi var minnismerki um kristna menn, sem höfðu dáið á þessum stað. Það var róða, magur og hrjáður Jesús Kristur hékk á krossinum. Þetta var kaghýddur og vannærður Jesús, kunnugur þjáningu, bróðir harmkvælamanna búðanna.

Gyðingaminnisvarðinn í Dachau er hús en í mynd stórs bjargs. Til að komast inn í þá byggingu varð að fara niður í jörðina og þegar inn var komið sást, að veggirnir voru bognir en komu saman á einum stað. Veggir og loft hækkuðu til þeirrar áttar, sem veggir komu saman. Þar var því hæst. Augu leituðu upp og hátt uppi var hringlaga op. Þar sást upp í himininn . Öll byggingin var myrk. Tilfinningin fyrir grjóti var sterk, þetta var eins og grafhvelfing og minnti mig á grafarhvelfingu Jesú. Ein ljósleið var þarna og það var leiðin upp í himininn. Sjónlínan, ljóslínan, var vonarlína.

Á leiðinni til Dachau voru nokkur ungmenni í sömu lest og ég sat í. Við töluðum saman á leiðinni og þau sögðu mér að þau væru á lestarferð, Interrail-reisu, í Evrópu. Þau fóru hraðar yfir en ég þegar inn í búðirnar var komið, voru snögg að skoða fábrotna svefnskálana og ég heyrði að þau sögðu hvert við annað: “Hér er ekkert að sjá.” Þau settust svo niður og fengu sér smók og fóru svo. Þau sáu aldrei neitt annað en nakta skála og nokkrar byggingar. Þau sáu aldrei hinn krossfesta Krist, sáu aldrei grafarminnismerkið um Gyðingana, þetta með ljósopinu til himins. Þau höfðu ekkert heyrt um þennan stað annað en að þetta hefðu verið fangabúðir. Þau voru snögg að sjá – að það var ekkert að sjá. Það var ekkert gert til að auka áhrifin. Áhrifin voru í huga þeirra sem komu.

75 ár frá því að Þýskalands nazismans var neytt til að hætta manndrápum. Hvað höfum við lært? Ef maður vill ekki sjá sér maður ekkert, fær sér bara sígó og fer svo. Ekkert er svo myrkt að himinbirtan megni ekki að upplýsa. 

Bæn

Guð minn, Guð minn, hví hefir þú yfirgefið mig? Ég hrópa, en hjálp mín er fjarlæg. Guð minn! hrópa ég um daga, en þú svarar ekki, og um nætur, en ég finn enga fró. Og samt ert þú Hinn heilagi. …  Til þín var mér varpað frá móðurskauti, frá móðurlífi ert þú Guð minn. Ver eigi fjarri mér, því að neyðin er nærri, og enginn hjálpar. … Endimörk jarðar munu minnast … og hverfa aftur til Drottins og allar ættir þjóðanna falla fram fyrir augliti hans.

Megi ljósið blessa þig. Megi birtan upplýsa myrkur þitt. Megi afturelding umvefja alla menn og allt líf og gefa réttlátan frið.

Byggjum svo á bjargi

Hallgríms helgu kirkju

í Herrans nafni reisum.

Verkið virðulega

vel af hendi leysum.

Látum kraft hins krýnda

Konungs hjörtun skíra.

Byggjum svo á bjargi

bænahúsið dýra.

Þetta er lokaerindið í ljóði Guðrúnar Jóhannsdóttur í Brautarholti sem hún orti þegar bygging Hallgrímskirkju var undirbúin. Ég rakst á þessa fallegu skrautrituðu útgáfu upp á vegg á skrifstofu Margrétar Bragadóttur í kirkjunni. 

Viðsnúningur – fyrirgefðu

Í gamla daga var talað um iðrun – og iðrun er það að úthverfa því sem er hið innra. Við getum notað ýmis orð um þetta ferli. Við getum talað um viðsnúning, sem verður í lífi okkar flestra með einu eða öðru móti, og við þurfum að ná heilsu og iðka heilindi til að viðsnúningur sé góður og gjöfull. Fyrirgefning er mikilvægt atriði í viðsnúningi – og varðar ákveðna þætti lífsins og ekki síst hið himneska – guðlega samhengi.

Strákurinn í Eyjum

Einu sinni svindlaði strákur á prófi. Mamman komst að glæpnum. Drengurinn varð skömmustulegur og sagði við hana. “Ég ætla að biðja Guð fyrirgefningar.” “Já, það er ljómandi,” sagði mamma. “En það er ekki nóg. Þú verður líka að fara í skólann og biðja kennarann fyrirgefningar!” Það fannst strák verra en lærði þá lexíu, að það er ekki nóg að tala. Iðrun er ekki alvöru nema hún hafi áhrif á atferli og samskipti. Iðrun er ekki privatmál heldur hefur samfélgsvídd. Iðrun er ekki einkamál.

Við gerum öll eitthvað rangt, sem hefur slæmar afleiðingar. Við segjum eitthvað, sem særir og jafnvel grætir. Við hittum fyrir viðkvæmt hjarta eða segjum eitthvað óvart, sem veldur misskilningi og jafnvel vinslitum.

Á að biðjast fyrirgefningar á slíku? Já, en hvað um þau, sem gera rangt en iðrast ekki? Er hægt að fyrirgefa þeim án þess að þau viðurkenni brotið?

Bergmann
Einu sinni horfði ég í beit á flestar kvikmyndir Ingmar Bergman og síðan á ítarefni og þar á meðal viðtal við hann. Bergmann sagði frá samskiptum sínum við kvikmyndagagnrýnanda, sem hafði gagnrýnt mjög verk hans mörgum áratugum áður. Bergman hafði greinilega þörf fyrir að ræða um þennan mann og hversu illa gagnrýnandinn hefði farið með sig, hvernig honum leið og hversu illa fjölskyldan varð fyrir barðinu. Gagnrýnandinnn var uppteiknaður sem vondur maður. En sá hafði enga möguleika til varnar því hann var löngu dáinn. Til að ekkert færi milli mála sagði kvikmyndajöfurinn ískalt, að það skipti hann engu máli þótt hann væri dáinn: “Ég vona að hann rotni í helvíti!” sagði Bergman. Sem sé fullkomið hatur. Þú hefur væntanlega hitt fólk sem hatar og getur alls ekki fyrirgefið. Hvað með það?

Svo eru þau sem eru siðblekkt eða siðblind og sjá engan skilsmun á góðu og illu – og tjá því enga iðrun. Og þessi hópur er líklega 1- 2% fólks. Áföll slíkra manna eru aðeins að fá ekki vilja sínum framgengt. En er hægt að fyrirgefa, þegar engin afsökunarbeiðni berst? Er hægt að fyrirgefa ef engin iðrun er að baki og ekkert hjartanlegt “fyrirgefðu.”

Iðrun og fyrirgefnin

Fyrirgefning varðar margt og er alls konar. Hvað átti  að gera við gamla komma austurblokkarinnar eftir fall kommúnismans? Þeir játuðu sumir brot sín með vörunum og töldu það nóg til að þeir fengju syndakvittun og möguleika til nýs pólitísks lífs. Í Suður Afríku komu margir fyrir Sáttanefndina sem þeir Mandela og Tutu stofnuðu til. Margir þráuðust við – iðruðust ekki. Oft er það svo að iðrun verður ekki fyrr en augu hinna seku eru glennt upp, eins og sjá má af iðrunarmynd Einars Jónssonar í Hnitbjörgum.

Ófyrirgefanlegt?

En svo eru tilvikin þegar krafan um iðrun sem forsendu fyrirgefningar er óraunhæf. Margt verður og fellur utan við mannlega fyrirgefningu; engin beiðni berst og enginn getur fyrirgefið. Dæmi um þetta eru svonefndir “glæpir gegn mannkyni” sem enginn getur fyrirgefið algerlega. Þjóðir og hópar geta fyrirgefið, en glæpinn er ekki hægt að gera upp. Þegar fólk var að gera upp hrylling seinni heimsstyrjaldar gerðu hinir marxísku spekingar Frankfurtarskólans sér grein fyrir að til er eilíf sekt. Horkheimir og Adorno sögðu að Guð væri “nauðsynlegur” eins og þeir orðuðu það, til að vinna úr glæpum nasismans. Þegar samskipti manna eru gerð upp stendur ávallt út af hið illa, hið ógurlega sem aðeins Guð getur tekið á. Og þar erum við komin að kviku trúar og kristni.

Afstaða Jesú – átrúnaður fyrirgefningar

Jesús umbreytti allri lagahyggju hins gyðinglega átrúnaðar, bar elsku til fólks, var elskan holdi klædd í samskiptum og benti í öllu og ávallt á þann sem elskar. Og okkar mál er að innlifast þeim veruleika í lífi, samskiptum og siðferði. Kristnin er framar öðru átrúnaður fyrirgefningar af því að guðsmynd Jesú er hin lífgefandi þvert á kalt réttlæti og endurgjaldshyggju.