Greinasafn fyrir flokkinn: Greinar og pistlar

113 pistlar SÁÞ eru inn á tru.is og aðgengilegt á slóðinni trú.is. Þá var talsvert af pistlum einnig á sigurdurarni.annall.is Sá vefur er nú lokaður.

Sorgin – skuggi ástarinnar

DSC01012Hefur þú misst einhvern sem var þér kær? Hefur einhver dáið sem þú hefur elskað? Ef svo er þekkir þú söknuð og sorg. Sorg er gjald kærleikans. Sorgin er skuggi ástarinnar. Þau syrgja aldrei sem aldrei hafa elskað.

Þessi vika er í kristninni notuð til að minnast ástvina sem eru farin á undan okkur inn í himin Guðs. Vikan er íhugunarvika hins heilaga, hinna heilögu, himinsins og þeirra sem þar syngja höfundi lífsins. Við megum gjarnan íhuga viðbrögð okkar við missi og hvernig við viljum heiðra minningu en líka lifa óttalaust og í fullri gnægð.

Viltu fara á mis við að elska? Fæst vilja afsala sér þeim glitrandi þætti hamingju og lífs. Ef við viljum losna við eða forðast að syrgja og sakna kaupum við þá sorgleysu afar dýru verði því þá megum við ekki elska neitt í þessum heimi.

Sorg er ekki sjúkdómur, hún er hluti af lífinu, tákn um heilbrigðar tilfinningar, ást sem hefur misst elskuna sína eða vin. Sorg er sársauki sem verður þegar við missum einhvern sem er okkur mikilvægur og við elskum.

Sorgarferli er vegferð. Enginn verður fullsáttur við missi en sorgarvinnan leiðir oftast til að fólk lærir að lifa við missinn. Syrgjandi kemst á það stig að geta líka notið gleði á ný þrátt fyrir að lífið sé breytt. Látinn ástvinur skilur alltaf eftir skarð sem þau sem eftir lifa reyna að fylla. Við fráfall verður flest með öðrum svip en áður. Hið yfirþyrmandi verkefni syrgjenda er að læra ný hlutverk og finna sér jafnvel nýjan tilgang.

Sorgarferlinu er gjarnan lýst sem mynstri, sem kallað er sorgarferli. Fyrsta skrefið er áfall. Hið annað er einhvers konar aðlögun að missinum. Þriðja skrefið varðar að taka þátt í lífinu að nýju sem fullveðja þátttakandi.

Þegar við missum verða flest dofin af högginu. Sum festast í afneitun í einhvern tíma. Í sumum tilvikum verður áfallið svo mikið að fólk fer í djúpan tilfinningadal og verður sem lamað af drunga áður en bataferlð hefst. Að syrgja og verða fyrir miklum tilfinningalegum sviftingum er ekki sjúklegt heldur oftast merki um að við erum heilbrigð, en bara á ókunnum tilfinningaslóðum.

Tilfinningadoði sem einkennir fyrstu daga og vikur missis er kæling eða frysting sálar. Stundum tekur þýðutíminn langan tíma. Vegna kælingardofans kemst fólk oft í gegnum útfarartíma án þess að bugast. Þegar kulda leysir svo – eins og í náttúrunni á vorin – verður flóð í sálinni. Það er tímabil mikils sársauka. Þá hellist yfir syrgjendur raunveruleiki missis og endanleika. Margir upplifa að vera illa áttað, einmana og skakkt í tilverunni – eiginlega utan við sjálft sig.

Söknuður er langlífur. Sterkar tilfinningarnar eru eðlileg viðbrögð heilbrigðs fólks í hræðilegum aðstæðum. Læknar tíminn sárin? Nei, tíminn læknar ekkert. Eins og líkamssárin þarfnast sálarsárin hreinsunar og ummönnunar.

Við megum gjarnan tala um látna ástvini okkar, skrifa niður minningar um þau, skoða myndir af þeim, minnast viðburða og líka skondinna, áhrif þeirra á okkur, rifja upp það sem þau kenndu okkur og gerðu fyrir okkur – eða það sem þau gerðu ekki fyrir okkur og er okkur sárt.

Hver hafði mest áhrif á þig til að gerði þig að þeirri manneskju sem þú ert? Var það móðir þín eða faðir, afi eða amma? Hvert þeirra sem býr í himninum varð þér til hjálpar? Var eitthvert þeirra kunnáttusamur kúnstner sem efldi þig? Hver varð þér vitringur? Var eitthvert þeirra sem kenndi þér að spenna greipar og tala við Guð eins og vin? Var eitthvert þeirra sem varð þér hlýr faðmur, skjól og hálsakot sem þú áttir víst í flóknum og köldum heimi? Var einhver sem bjargaði þér í aðkrepptum aðstæðum eða hjálpaði þér þegar þú þarfnaðist þess? Dragðu upp í huganum myndir og leyfðu þér að þakka fyrir þau. Og svo að þínu lífi nú. Dagur látinna er dagur lífs. Hver er lífsstefna þín?

Guð elskaði og himininn fylltist sorg yfir dauða sonarins á krossi. Guð lifir sig í sorg þína og skilur sársauka þinn. Dauðinn dó en lífið lifir. Því endar líf ástvina þinna ekki í tómi endanlegs dauða heldur í ástarríki eilífðar. Guð hefur opnað allar gáttir dauðans með lífsmætti sínum. Því máttu fela Guði ástvini þína, ást þína, sorg þína og tilfinningar. Svo máttu falla í fang Guðs í þínum dauða – og fæðast inn í ást eilífðar. Sorgin er skuggi ástarinnar en ljós Guðs lýsir upp alla skugga og nærir ástina.

Hugleiðing í Hallgrímskirkju, 3. nóvember, 2016

Afmæli og fyrsta guðsþjónustan

Á þessum degi, 14. október árið 1962, var haldin fyrsta guðsþjónustan í kirkjuskipi Hallgrímskirkju. Til þess tíma var messað í kór kirkjunnar. Á árinu 1962 hafði verið lokið að steypa upp veggi kirkjuskipsins til hálfs og undirstöður súlna í kirkjuskipinu. Þá hafði undirgólf kirkunnar verið steypt. Ákveðið var að marka þessi tímamót og lofsyngja Guði í framtíðarhelgirými Hallgrímskirkju þó ekkert væri þakið og svæðið væri ófrágengið byggingarsvæði.

Á messudeginum rigndi ákaflega og söfnuðurinn, um eitt hundrað manns, leitaði skjóls undir vinnupöllum sem stóðu við útveggina. Jakob Jónsson, sóknarprestur Hallgrímskirkju, messaði. Hann stóð í miðju kirkjuskipinu, þar sem kórtröppurnar eru nú, og naut blessunardagga himins.

Þar sem búið var að steypa upp megnið af veggjum kirkjuskipsins hófst undirbúningur að byggingu turns kirkjunnar. Að turnbyggingunni var unnið á næstu árum. Lokið var að steypa í topp í árslok 1968.

Það var meðvituð ákvörðun byggingar- og sóknarnefndar í hvaða röð hlutar stórkirkjunnar voru byggðir. Ef kirkjuskipið hefði verið fullklárað á sjöunda áratugnum hefði turnginn líklega aldrei orðið til og kirkjan hefði ekki orðið sú perla sem tíminn hefur slípað. Forsjálnin bar árangur.

Suðursalurinn í turnvængnum var vígður til helgihalds á 300 ára ártíð Hallgríms Péturssonar. Vígsludagurinn var 27. október árið 1974. Í tengslum við vígslu salarins og fyrir vígsluathöfnina var hornsteinn lagður að kirkjunni. Á skjalinu í hornsteininum segir m.a. „Drottni til dýrðar er kirkja þessi reist í minningu Hallgríms Péturssonar.“

Nú höldum við bráðum hátíð vegna 30 ára vígsluafmælis kirkjunnar. Kirkjan var vígð 26. Október 1986. Í ár eru því 30 ár liðin frá vígslu hennar. Hátíðamessan verður 30. október næskomandi. Við bjóðum öllum þeim sem unna starfi kirkjunnar að koma til messu og fagna með okkur.

Trump og menningarkrísa BNA

TrumpÉg horfði á kappræður forsetaframbjóðendanna í Bandaríkjunum í nótt. Sorg fyllti hjarta mitt svo dapurlegar voru þær. Mér þykir vænt um BNA og afar margt í bandarískri menningu. Ég stundaði á sínum tíma framhaldsnám í einni bestu guðfræðideild heims og í einum besta háskóla BNA. Þegar ég horfði á Donald Trump frussa úr sér hroðanum, rífa mótframbjóðandann niður í leirveltuna og að Hillary Clinton lyfti sér yfir lágkúruna fór ég að hugsa. Í þessum leðjuslag opinberaðist mér hinn djúpi vandi BNA, samfélagsgerðar og mannskemmandi óréttlæti. Að auðmaður sem höfðar til lágkúrulegustu hvata, ótta, reiði og haturs skuli ná svo langt er allri heimsbyggðinni tákn um að eitthvað er ruglað og rotið í grunni samfélagsgerðarinnar. Og í einföldustu mynd er það að auðmenn stjórna of miklu, stýra of mörgu í bandarísku samfélagi, kaupa áhrif og halda of stórum hópi lægri stéttanna niðri. Stórir hópar eru fastir í gildrum fátæktar og hafa hvorki hvata né möguleika til menntunar. Það er þessi kapítalíska gerð sem viðheldur eða eykur andstæðurnar í samfélaginu og leggur grunn að því að hatursmaður kvenréttinda, mennsku og menntunar gæti komist til valda. Í Donald Trump kristallast hrun hins bandaríska samfélags. Það verður að endurnýjast, minnka andstæðurnar, skera af öfga kapítalismans, sem ekki gengur upp, og er fólki vestra dýrkeypt og heimsbyggðinni hættulegt.

Kappræðurnar skiluðu ekki sigurvegara þó Hillary Clinton væri mun skárri en loddarinn. En þær fleyttu til mín vitund um að það er aðeins aukin menntun og bætt efnahagskerfi sem megna að mæta ótta, hatri, mannfjandskap og flatneskju sem Trump túlkar og höfðar til. Veilurnar eru opinberaðar og nú ættu vinir mínir vestra – með stuðningi og hvatningu okkar hinna – að hefja sókn til meiri samfélagsgæða. Og þar sem forsetavalið í BNA skiptir mannheim allan svo miklu máli legg ég til að heimsbyggðin fá neitunarrétt til að hafna vondu vali. Könum er ekki einum treystandi til að velja!

Hvenær byrjar dagurinn?

Einu sinni var sat gyðinglegur fræðari með nemahóp og spurði: „Á hvaða augnabliki endar nóttin og dagurinn byrjar?“

Einn neminn svaraði: „Það er þegar nógu bjart er til að hægt er að greina að hunda og kindur.“

Annar sagði: „Þegar það er nógu bjart til að sjá hvað er ólífutré og hvað fíkjutré.“

Meistarinn brást við og sagði: „Þetta eru góð svör en þó ekki hin réttu. Svarið er: „Þegar ókunnur maður kemur og við höldum að hann sé bróðir okkar og allar deilur hætta, þá er nákvæmlega stundin þegar nóttin endar og dagur byrjar.“

Og þar með lýkur þessari sögu. Hvernig líkar þér svarið? Sagan er alls ekki um skepnur eða tré, birtu eða myrkur, heldur varðar samskipti og mennsku. Að dagur byrji, þegar ókunnugur maður kemur og við sjáum í honum bróður, systur og vin og að deilur gufa upp og hverfa. Er þá endir nætur – afturelding?

Símon Peres er látinn. Hann lést í liðinni viku. Hann var einn áhrifaríkasti leiðtogi Ísraela og kom til Íslands árið 1993. Hann var eftirminnilegur, leiftrandi skarpur,  áhugasamur maður, opin kvika og ræðinn. Peres kom til Íslands í leyniferð um Norðurlönd til að afla fylgis friðaráætlun fyrir stríðandi þjóðir fyrir botni Miðjarðarhafs. Leyniförin bara árangur. Oslóarsamningurinn var undirritaður skömmu síðar. Nokkrum árum eftir þessa friðarför sagði Símon Peres viskusöguna um dagrenningu á leiðtogafundi í Davos. Hún á enn við.

Friður verður aldrei tryggður aðeins með undirritun og handsali. Þessa daga eru almennir borgar drepnir í Aleppo. Þegar dagur rís í þeirri borg vakna stríðsmenn en ekki systur og bræður. Um síðustu helgi féllu tæplega hundrað börn á aðeins tveimur dögum í Aleppo. Nóttin verður bara svartari. Hvenær dagar? Einstaklingar, hópar og þjóðir geta haldið áfram að stríða, deyða og eyða – en líka orðið fólk friðar, mennsku og elsku. Sýn trúar er að aðrir eru líka djásn og dýrmæti. Trúmenn eiga grunn í elsku og sköpunargerningi Guðs sem býr til veröld og fólk sem hefur gildi í sjálfu sér. Trúlaus sem trúandi megum við elska og virða í stað þess að óttast og hata. Dagur er á lofti þegar við virðum aðrar hefðir og óttinn minnkar. Hvenær byrjaði dagurinn? Það var þegar Guð horfði með vinaraugum á veröldina og vitjaði hennar. Amen.

Biðjum:

Guð dags og nætur, jarðar og himins, tíma og eilífaðar.

Hjálpa okkur að sjá bræður og systur hvern dag.

Gef okkur gleði himins í veröld jarðar, visku eilífðar í heimi tíma,

og dagssjón við næturlok. Amen

Kyrrðarstund í Hallgrímskirkju 6. október, 2014.

Meðfylgjandi mynd tók ég í Jerúsalem í dagrenningu í maí 2023.

Til lífs

img_3502Farðu með friði í ys og átökum heimsins.

Minnstu þeirrar kyrrðar sem er fólgin í þögninni.

Láttu þér semjast við fólk, án nokkurrar uppgerðar.

Segðu sannleikann greinilega en með stillingu.

Hlustaðu á aðra.

Allir hafa sögu að segja, sem þarfnast hlustandi huga.

Forðastu hégóma og mannjöfnuð.

Ávallt munu einhverjir verða þér óstyrkari eða ofjarlar.

Njóttu áforma þinna og árangurs í lífinu.

Sinntu starfi þínu vel, hvert sem það er.

Í því er blessun fólgin í brigðulli gæfu tímans.

Vertu varkár í viðskiptum, því veröldin er full af vélráðum.

Gættu að eigin samkvæmni.

Gerðu þér ekki upp ástúð og hlýju.

Láttu ekki kulda næða um ástina þína.

Ástin er eilífðarblómstur á akri tímans.

Öðlastu visku áranna með stillingu og án eftirsjár.

Gefðu frá þér með reisn það, er tilheyrir æskunni.

Hlúðu að andlegum styrk þínum, svo þú eigir festu í andstreymi.

Temdu þér sjálfstjórn, en einnig ljúfmennsku gagnvart eigin sjálfi.

Mundu að einmanaleiki og hræðsla eru gróðrarstía óttans.

Eins og gróður jarðar og stjörnur á himni ert þú barn alheimsins.

Þú breytist eins og hin mikla lífkeðja veraldar.

Lifðu í sátt við Guð, hver sem verk þín hafa verið

eða munu verða í sviftingum lífsins.

Mundu að þrátt fyrir sorgir og áföll er veröldin undurfögur.

Hafðu hamingjuna að stöðugu markmiði.

(Snörun sáþ á heilræðabálki. Heimildir greinir á um aldur og uppruna)