Greinasafn fyrir flokkinn: Greinar og pistlar

113 pistlar SÁÞ eru inn á tru.is og aðgengilegt á slóðinni trú.is. Þá var talsvert af pistlum einnig á sigurdurarni.annall.is Sá vefur er nú lokaður.

Sannleikur, vald og samviskan

Ég er með hugann við Grikkland. Þetta er Grikklandsárið mitt því ég ætlaði að fara til Aþenu eftir mánuð, út í eyjar, til Serifos, Rhodos og kannski líka til Delfí. En það verður engin Grikklandsferð, alla vega ekki þetta árið því við ferðumst innan húss og innan lands. En í stað ferðar fór ég í bókarreisu og rifjaði upp eina af Grikklandsbókum mínum. Þetta er bókin The Double Tongue. Hún er um algera breytingu, þegar heimur endaði og ný veröld varð til. Sagan er um mannlíf í Grikklandi fyrir meira en tvö þúsund árum og mannlífið var þá á fleygiferð rétt eins og á okkar tímum. Bókin fjallar um sannleika. Valdamenn vilja láta sannleikann þjóna sér en ekki öfugt. Sumir ljúga algerlega fyrirhafnarlaust og telja sannleika. Og þannig hefur það verið á öllum tímum. Þegar fólk vill umbreyta sannleikanum sér í hag verður til lygi og allt verður skælt.

Sannleikurinn vék fyrir valdinu

Þegar spekingurinn og Nóbelskáldið William Golding féll frá árið 1993 var hann að skrifa bók um völvu í Delfí. Bókin var svo gefin út þrátt fyrir, að hún væri ekki fullgerð frá hendi höfundar. Þetta er heillandi bók og segir sögu stúlku, sem varð völva, meðalgangari Guðs og manna, prestur sem flutti boðskap af hæðum. Stúlkan ólst upp á höfðingjasetri í Grikklandi. Golding lýsir vel hvernig valdabarátta og hrossakaup stýrðu, að hún en ekki einhver önnur stúlka var send til uppeldis og þjálfunar í helgisetrinu Delfí. Síðan er rekstri véfréttarinnar lýst, hvernig boðskapinn þurfti stöðugt að búa út svo hann hugnaðist valdhöfum, Rómverjum eða grískum höfðingjum. Öllu átti að hagræða til að tryggja rekstur véfréttarinnar. Allt varð að skilja pólitísku hyggjuviti og færa í trúarlegan búning og rétt orðfæri. Véfréttin var ekki lengur tengill himins og jarðar heldur PR-miðstöð, spunastofa stjórnmála og hagsmuna þess tíma. Veröldin reynir alltaf að toga himininn niður. 

Völvan unga varð að læra og horfast í augu við að heimurinn er harður, að hugsjónir, hrein trú og heilindi væru lúxus, sem aðeins glóparnir geta leyft sér. Um tíma varð hún að láta undan, en var þó stöðugt í baráttu við eigin samvisku annars vegar og forstjóra véfréttarinnar hins vegar. En dagar Delfí voru taldir, mæliglas þess tómt, guðleg návist horfin og boðskapurinn af hæðum enginn.

Er til vald sannleikans?

Hvernig reiðir anda Guðs af í framvindu lífsins? Trúariðnaður er óvinur guðlegs anda og valdapot eyðir lífi. Völvan sagði skilið við svikamylluna. Hún fór með ævilaun sín og eign og fór til Aþenu. Þar réð hún færustu listamenn til vinnu og lét gera altari. Hún hafði þekkingu á yfirborðslegum trúariðnaði og hafði enga löngun til að reisa Delfíguðum altari. En þrátt fyrir sögu sína hafði hún ekki misst trúna á, að guðlegur máttur væri til. Hún lét reisa altari og lét rita á það setninguna: „Hinum óþekkta Guði.“

Hið góða getur spillst

Þessi saga um trú og bisniss er gild fyrir alla tíma. Það sem er byggt upp af heilindum og trúmennsku getur rotnað með tímanum – og innan frá. Fyrirtæki sem verða til í krafti vits, gilda og gæða eru stundum eyðilögð vegna græðgi, valdapots, stjórnmála eða mannvonsku. Trúarhreyfingar og kirkjuhreyfingar vaxa fram en geta síðan rotnað þegar hugur stjórnenda er meira við jörð en himinn, efni en anda, vald en vit.

Breytingar dynja á heiminum og mönnunum og rugla okkur í ríminu. Kyrrstaða, íhaldsemi, er kannski það, sem við ættum að óttast mest því þá erum við mótstöðufólk hins skapandi Anda Guðs. Það eru fleiri öfl í þessum heimi en lífhvatar Guðs. Í mestu hamingju er dauðinn nærri, í gleði er fléttuð sorg, myrkrið er skuggi ljóssins. Með miklum hæfileikum er stutt í að gjafir Guðs séu notaðar til ills. Gáfur eru nýttar til fólskuverka í stað þess að veita velferð og gæsku til sem flestra.

Hinum ókunna Guði

Völvan í Delfí, fullþroska og búin að fá nóg af lygi og prettum trúariðnaðarins, fór til Aþenu og reisti óþekktum Guði altari. Samkvæmt 17 kafla Postulasögunnar í Nýja testamenntinu fór Páll um Aresarhæð og sá þar altari reist ókunnum Guði. Og lagði út af þessu altari í predikun sinni. Hinn ritsnjalli William Golding spann sögu sína um guðsdýrkun í Delfi, sem brást, að sögu kristninnar. Sagan opnast í mikilleik sínum á nýjan hátt, þegar lesandinn gerir sér grein fyrir hinu stóra samhengi. Völvan, sem vildi ekki eða gat ekki lengur spunnið blekkingarvef í Delfí, lagði kristnum dómi til altari og sögu um leit mannanna að því sem er satt. Saga hennar er brot okkar eigin sögu. Von hennar var fyrirboði um framtíð sem kom. Jesús kom í heiminn, hinn óþekkti Guð varð maður.

Á sannleikurinn að þjóna mönnum – eða öfugt?

Síðan hafa ölturu verið byggð um allan heim. Kristnin breytist í kirkjur, hreyfingar og stofnanir. Og þegar stjórnendur vilja láta sannleikann fremur þjóna sér en öfugt þá er saga Golding lýsing á vandanum. Öll musteri og kirkjur eru kölluð til að þjóna sannleika. Við eigum ekki að týna trúnni í rekstri, fjármálum, byggingum og skipulagi. Við megum aldrei láta trúariðnað – né nokkurn annan iðnað – yfirtaka líf kirkjunnar. Hvað er sannleikur og hver er sannleikans megin? Guð elskar og skapar líf.

Lilja frænka

Lilja Sólveig Kristjánsdóttir fæddist 11. maí 1923. Hún var móðursystir mín. Móðir mín og Lilja voru mjög nánar. Þegar ég fæddist starfaði Lilja í Noregi. Svo kom hún til landsins um nótt og gisti í stofunni á heimili mínu. Um morgunin fór móðir mín með systur mína í leikskólann og skildi mig eftir heima. Ég varð hræddur og hélt að ég væri aleinn heima því ég vissi ekki af þessari norsku Lilju sofandi inn í stofu. Þegar hún heyrði hljóðin í smásveininum kallaði hún til mín: „Siggi Árni minn – ég er hér.“ Og ég fór til hennar, horfði á þessa konu, skreið svo upp í hjá henni, hallaði mér aftur – og steinsofnaði. Eftir það vorum við Lilja vinir og afar náin alla tíð. 

Guð hefur stund, gleymir ei mér, Guð heyrir bænir allar. Tárum í bros, breytir hann hér, barnið sitt mig hann kallar.

Svona orti Lilja. Hún var alltaf fulltrúi Guðs, hafði allaf haft stund og breytti tárum í bros – ef ekki svefn.

Kirkjusvefn og sálmasöngur

Sálmar verða ekki til úr engu. Hymni verður til í lofsyngjandi sálu. Lilja var alla ævi opin fyrir ljónrænu himinsins og var músíkölsk. Sjálf söng hún sálma með fagurri sópranrödd og heima lék hún gjarnan undir á gítar. Til er skemmtileg saga af sálmasöng Lilju frá bernsku hennar. Hún og fjölskylda hennar voru í kirkju á Völlum í Svarfaðardal. Sú stutta kom sér fyrir á suðurbekk við hlið mömmu sinnar. Presturinn, sr. Stefán Kristinsson, steig í stólinn eftir guðspjallssálm og hóf predikun sína. Þriggja ára stelpuskottið fylgdist með flugum í gluggakistunni. Augnalokin þyngdust og kirkja, helgihald og fólk urðu eitt.

Kirkjusvefninn hefur löngum verið sætur. En draumur hennar leystist allt í einu þegar farið var að syngja sálminn „Á hendur fel þú honum…” Þá glaðvaknaði Lilja og spratt upp. Þennan sálm kunni hún og tók undir sem mest hún mátti…„ sem himna stýrir borg, það allt, er áttu’ í vonum, og allt, er veldur sorg.“ Þegar fyrsta erindinu lauk beið hún ekki eftir lokum sönghléi kórs eða kúnstpásu organistans, heldur rauk af stað í annað erindið. Mjó barnsröddin hljómaði um kirkjuna áður en nokkur annar kirkjugestur byrjaði sinn söng. “Ef vel þú vilt þér líði…” Hún gerði sér skynilega grein fyrir að hún söng ein og steinþagnaði, fylltist svo skelfinu og hélt að hún hefði eyðilagt messuna! Eftir athöfnina faldi hún sig í pilsi mömmunnar og hélt að fólkið, sem talaði um sönginn hennar, væri að stríða sér.

Sálmasöngvarinn Lilja Sólveig hætti þó ekki eftir þetta fyrsta vers í lífinu, heldur söng áfram og orti eigin ljóð um Guð og menn. Undir þau vers tóku margir síðar.

Blómin við ævigötuna

Að yrkja var Lilju dægradvöl og hugsvölun alla tíð. Lilja þýddi einnig mikinn fjölda sálma. Hvert tímabil ævinnar átti sér eigin stef og viðfang. Þótt Lilja færi leynt með gáfu sína varð æ fleirum ljóst að hún gat sett saman nothæfa sálma til söngs. Því leituðu margir til hennar með þýðingar. Lilja kunni illa að segja nei og þegar ég kom til hennar á unglingsárum voru gjarnan einhverjir erlendir sálmar á borðinu. Og þar sem kór eða söngvari beið eftir þýðingunni til flutnings eftir nokkra daga mátti Lilja því oft beisla skáldafákinn með hraði og þýða. Hún var því stundum undir nokkru álagi því skáld hafa aldrei verið sjálfsalar þó missnögg séu. Svo kvakaði Lilja lítillega, að það sem hún setti á blað hafi ekki verið nógu gott, sumt eiginlega ónothæft! En kröfurnar sem hún gerði voru alltaf miklar. 

Sum ljóðin hennar Lilju voru n.k. dagbókarskrif í bundnu máli. Hún ritaði gleðiefni sín, sorgarefni, vonir, drauma og skref daganna. Það er samhengi í öllu, sem hún skrifaði og Lilja veitti okkur innsýn í ljóðunum í sál sína og hugarheim.

Góði Jesú, gefðu mér, að geta sofnað rótt í þér, Meðan heilög höndin þín, heldur vörð og gætir mín.

Þessa kvöldbæn samdi Lilja, þegar hún var tíu ára. Bænin vísar með efni og tökum fram á þann veg sem Lilja fór. Sami boðskapur trausts og trúar blasir við í ljóðum hennar – um góðan og umhyggjusaman Guð sem ekki bregst. Með árunum og lífsreynslu dýpkuðu sálmar og ljóð og skuggarnir urðu jafnframt skarpari. Lilja fékk í arf tilbeiðslu Passíusálma og innlifaðist þeirri lífsafstöðu sem þar er boðuð. Fólkið hennar á Brautarhóli, þar sem hún fæddist og ólst upp, tengdist Guði persónulegum böndum. Trú þess var ekki ópersónulegur siður eða formlegur rammi, heldur náið og elskulegt samband við Guð. Hlýr heimilisbragur og elskurík tengsl foreldranna litaði og mótaði persónutengsl og guðstengsl barnanna. Lífsafstaða þessa fólks var jákvæð og traust, að öll veröldin sé Guðs og fyrir Guð. Hlutverk manna í heiminum væri að lifa í Guði og í því er einnig fólgið að tengjast öðrum með hlýrri mannvirðingu og laða aðra til Guðs.

Náttúran

Lilja samdi mikið af ljóðum með náttúrskírskotun. Þau ljóð eiga sér samsvörun og efnislegt innrím við sálmana. Náttúran í ljóðum Lilju er ekki aðeins falleg, stórkostleg og hrífandi heldur musteri Guðs, vitnisburður um skapara, sem gleðst yfir fjölbreytni, fegurð, árstíðum, smáblómi í klaka og lækjarbunu. Allt verður Lilju tilefni íhugunar og lærdóms. Sólargeislinn er í augum hennar geisli frá Guði – og skugginn í náttúru og mannlífi á sér einnig sama upphaf. Jafnvel frostrósir eru líking um líf manna og ljósið, sem bræðir frerann og rósir frostsins. Frostrósirnar eru listaverk frá Guði.

Oft notar Lilja jurtalíkingar til að ræða um manninn. Hún talar um rósir og græna sprota. En það vakti athygli mína þegar ég vann við útgáfu verka hennar að Lilja yrkir aldrei um liljur. Hún var of hógvær til að fara svo beina leið. Líkingar og myndir hennar úr jurtaheimi eru því almennt um fólk og hún er ein af mörgum í þeim stóra hópi, frammi fyrir Guði með opin eyru og tilbúin að tala um það sem hún upplifði.

Krossferill

Sum ljóð Lilju hefur sorgin meitlað eða mótað. Lilja orti sér til léttis. Ljóðin urðu henni farvegir fyrir tilfinningar og sum voru jafnvel sorgarlausnir. Af ljóðunum má skynja að Lilja átti erfitt með að sætta sig við að missa heilsuna á unga aldri og stara í sjó brostinna vona. Hún ætlaði að verða læknir en heilsuleysið bannaði að hún gæti stundað læknisstörf – eða svo var henni sagt. 

Ljóst er af því hvernig Lilja orkti um Jesú Krist að hún lifði sig í feril hans. Vegna langrar veikindasögu gerði hún sér kannski betur en margir grein fyrir þjáningardjúpi og einsemdarbaráttu Jesú. Hún fylgdi Jesú eftir á píslargöngunni. Þegar henni leið illa kom Jesús til hennar: „Þá kemur Jesús Kristur inn og kveikir ljósið bjart. Þá hverfur allur ótti minn og efamyrkrið svart.“ Í Jesú átti Lilja vin, sem aldrei sveik. Nokkur verndarkvæði um engla samdi Lilja einnig. Þau ljóð túlka návist Guðs og að við menn erum aldrei yfirgefnir í erfiðleikum okkar.

Vitund um mannlegan breiskleika, brot og kvíða koma víða fyrir í Liljuljóðum. Hún hefur í veikindum alla tíð verið sér meðvituð um að Guð leysir fjötra, styrkir vilja og réttir fólk við. Upprisuboðskapurinn – boðskapurinn um lífið – á erindi við sjúkt fólk. Lilja speglar vel að maðurinn er flekkaður. Og Lilja ljóðar óhikað um tilfinningar, friðleysi, ótta og öryggisleysi. Lilja sópar ekki yfir tilfinningarnar heldur gefur þeim túlkunarramma. Þá talar Lilja víða í ljóðum og sálmum um einstaka hluta líkamans til að ræða um Guðstengslin. Heilsubrestur Lilju hefur líklega vakið með henni skynjun um mikilvægi þess að allur líkaminn og allar sálargáfur séu tengdar. Hún var sér meðvituð um að allt getur þetta horfið manninum og því mikilvægt að allt sé Guði helgað?

Guð og barnslegt traust

Í ljóðum og sálmum Lilju er Guð vinur, góður og umhyggjusamur. Lilja var lánsöm að eiga öfluga og heillynda foreldra, sterka móður og hlýjan föður. Svo var Siguringi E. Hjörleifsson, eiginmaður Lilju, elskuríkur maður. Því er enga föðurkomplexa og karlabresti að finna í kveðskap Lilju. Guðsmyndin er heil og ósprungin föðurímynd og í samræmi við reynslu af umvefjandi móður og hlýjum föður. Áberandi í ljóðum Lilju er traust til að Guð geri gott úr vanda, leiði á betri veg, bæti úr, bræði hjarn mannlífsins og gefi gróanda í lífi hennar og annarra. Einu gildir frá hvaða æviskeiði ljóðin eru, ávallt hefur Lilja talað sem barn við Guð. Hvað erum við menn annað en þiggjendur allra gæða, börn hins himneska föður?

Lilja hefur alla tíð tjáð að heimurinn sé fagur og lífið stórkostlegt. En hún hefur líka átt sína vonarhöfn á himnum. Heima er ekki aðeins í húsi norður í Svarfaðardal eða við Sóleyjargötu í Reykjavík. Himinninn er ávallt hinn mikli faðmur sem allt leitar til, allt stefnir að.

„En kærust verður koma þín er kvöldar hinsta sinn. Þú leggur aftur augun mín og opnar himin þinn.“

Lilja notar gjarnan ljóslíkingar í tengslum við Guð. Í því nýtur hún skáldskaparhefðarinnar. Hún biður stundum til stjörnu á himni. Einhver myndi sjá í þeim ljóðum kaþólsk áhrif. En þegar Liljuljóðin eru skoðuð í heild kemur í ljós, að eðlilegast er að túlka stjörnuljóðin guðmiðlægt, þ.e. að stjarnan sé Guð fremur en María, dýrlingur, maður eða engill.

Liljurnar

Á miðaldamálverkum heldur Gabríel erkiengill gjarnan á lilju þegar hann boðar Maríu tíðindin um þunga hennar. Hlutverk Lilju Sólveigar var að boða gleðiboðskapinn og vera boðberi himins. Svo varð í lífi og starfi Lilju.  Hlutverk hennar var að lifa og miðla boðskap gleðinnar og opna himininn. Lilja miðlaði ljóðlist himinsins í heimi tímans. Það hlutverk er okkar allra líka. 

Lilja lést sumardaginn fyrsta 23. apríl 2015. Minningarorðin um Lilju eru að baki þessari smellu. Þar er einnig yfirlit um lífsferil hennar. 

 

Góður andi

Hvað er þessi andi sem Jesús talaði um? Jú, það er sannleiksandinn, huggarinn, sem er sendur. En andi Guðs var í stóru-sprengju, þegar vetrarbrautir mynduðust. Andi Guðs var líka að verki þegar gufur þéttust og hnettir voru mótaðir. Andi Guðs kristinna manna var að verki, í spurningaleik Sókratesar og einnig kitlaði íhugun Búddha. Kristnir menn hafa ekki smæðarlega og sértrúarlega afstöðu gagnvart sköpun Guðs og handleiðslu. Það er Guð, sem er að verki þegar móðir mylkir barni sínu, þegar ástin kviknar í öllum myndum, þegar gott verk er gert, þegar sjúkur er borinn til læknis og hungraður mettaður. Andi Guðs er að starfi í hinum mestu málum geims og líka umhyggju lóunnar gagnvart unga í hreiðri. Andinn kom við sögu þegar við vorum mótuð í móðurkviði. Án þess lífsanda hefði ekkert orðið. Og það er verk Andans, sem skapar fegurðina og veitir þér færni til finna til og hrífast. Kristinn trúmaður getur átt í sér þessa nálgun gagnvart alheimi, umhverfi og lífi og hvílt í trausti til hins mikla Guðs, sem barn í móðurfaðmi.

En þegar allt þetta er sagt er líka mikilvægt að minna á að Andi Guðs verður ekki höndlaður í fyllingu af smáum huga okkar manna. Jesús sagði, að hann sendi Andann, huggarann. Opinberun Guðs er ekki lokið. Trúarlærdómar falla, aðrir lifna og nýjar áherslur verða til. Breytingar dynja á heiminum og mönnunum og rugla okkur í ríminu. Kyrrstaða, íhaldsemi, er kannski það, sem við ættum að óttast mest því þá erum við mótstöðufólk hins skapandi Anda Guðs. En vissulega er ekki nóg að róta sem mest í lífinu, hamast sem ákafast. Það eru fleiri öfl í þessum heimi en Andi Guðs. Í mestu hamingju er dauðinn nærri, í gleði er fléttuð sorg, myrkrið er skuggi ljóssins. Með miklum hæfileikum er stutt í að gjafir Guðs séu notaðar til ills. Gáfur eru nýttar til fólskuverka í stað þess að veita velferð og gæsku til sem flestra.

Það er í þessu sértæka samhengi, sem Jesús talar um sannleiksandann sem verði sendur til að sannfæra menn um synd, réttlæti og dóm.

1. Í fyrsta lagi: Andinn opnar vitund um veruleika hins illa. Synd er ekki aðeins slæm verk, mistök og hliðarspor. Synd í Biblíunni er það að missa marks. Og markið er ávallt eitt og hið sama – Guð. Sannleiksandinn hríslast í þér til að spyrja þig um samband þitt við Guð, hvort og hvenær þú sért í líflegu sambandi við Guð og hvenær ekki.

2. Hið annað, sem andinn skapar, er réttlæti. Og réttlæti í samhengi Nýja testamenntisins tengist lífi og líkn Jesús. Það er réttlætisgerningur Guðs þegar þér er hjálpað, þér sem gast ekki fundið leiðina heim til Guðs, varst lánlaus.

3. Hið þriðja sem sannleiksandinn opinberar er dómur yfir öllu því, sem er slæmt og spillt í heimi. Boðskapur Jesú varðar myrkravöld. Upprisa Jesú er dómur yfir hinu illa afli, sem aflagar fólk og náttúru.

Sannleiksandinn er kominn og spyr um trú og traust. Viljum við heyra og skilja sannleikann um okkur? Jesús er sannleikur sem frelsar. Það gagnar ekki, að hafa skarpan heila ef þinn innri maður er haminn. Það stoðar ekki að eiga liðugan fót og lausa hönd, leiðir til allra átta ef hugurinn er blindur og augun haldin. Sannleikurinn er kominn.

Guðspjall: Jóh 16.5-15
[Jesús sagði:] En nú fer ég til hans sem sendi mig og enginn yðar spyr mig: Hvert fer þú? En hryggð hefur fyllt hjarta yðar af því að ég sagði yður þetta. En ég segi yður sannleikann: Það er yður til góðs að ég fari burt því ef ég fer ekki kemur hjálparinn ekki til yðar. En ef ég fer sendi ég hann til yðar. Þegar hann kemur mun hann sanna heiminum hvað er synd og réttlæti og dómur. Syndin er að þeir trúðu ekki á mig, réttlætið að ég fer til föðurins og þér sjáið mig ekki lengur og dómurinn að höfðingi þessa heims er dæmdur.
Enn hef ég margt að segja yður en þér getið ekki skilið það nú. En þegar andi sannleikans kemur mun hann leiða yður í allan sannleikann. Það sem hann segir yður hefur hann ekki frá sjálfum sér heldur mun hann segja yður það sem hann heyrir og kunngjöra yður það sem koma á. Hann mun gera mig dýrlegan því af mínu mun hann taka og kunngjöra yður. Allt sem faðirinn á er mitt. Því sagði ég að hann tæki af mínu og kunngjörði yður.

Meðfylgjandi mynd er af efsta hluta verks Leifs Breifjörð sem nefnist Dýrð, vald, virðing. Glugginn er yfir kirkjudyrum Hallgrímskirkju. 

Þorskur, harissa og kjúklingabaunir

F 4

800 gr þorskflök

6 msk ólífuolía

1,5 tsk malað kúmmín (cummin)

6 hvítlauksrif – þar af 3 rif kraminn og 3 fínt skorinn

2 gulir laukar – þokkalega fínt skornir

6 kardimommur – kramdar en ekki muldar

1 msk rósaharissa-þykkni (rose harissa)

1 1/2 msk tómatþykkni (paste) eða 300 gr pastasósa (t.d. Gestus)

1 dós ca 400 gr niðursoðnar kjúklingabaunir 

400 ml grænmetiskraftur

kóríander til skreytingar

Salt

Þverskerið þorskflökin í 2-3 cm bita. Blandið saman 4 msk ólífuolíu, kummin, krömdum hvítlauk og salti. Hellið yfir fiskinn og setjið til hliðar í 15 mínútur til marineringar.

Afgangurinn af olíunni á steikarpönnu. Þegar pannan er orðin heit er niðursaxaði laukurinn steiktur, hrært í þar til hann er orðinn meyr og gulllinn. Hitinn minnkaður og saxaði hvítlaukurinn út í og svo kardimommurnar, harissa, tómatþykkn/pastasósan, kjúklingabaunir og 1-2 tsk maldonsalt. Allt hrært saman og leyft að malla í eina mínútu og síðan er grænmetiskrafturinn settur út í og soðið í 3-4 mínútur.

Bæta fisknum ofan á – sullað ofurlítið af vökvanum yfir stykkin – og látið sjóða ca 2 mínútur og þá er fiskbitunum snúið og soðið áfram í nokkrar mínútur þar til fisklaufin falla í sundur. Kardimommurnar veiddar upp úr ef þær finnast! Færið á disk.

Borið fram með salati. Í þessu tilviki var vatnsmelónu-epla-salat haft með. Salatolían með: 1 msk olífuolía, 2 sítrónugrasstilkar, ytri trénuðu laufin kroppuð frá og síðan er afgangurinn fínsaxaður, 5 gr mintulauf, 10 kóríanderlauf, 1/2 tsk sinnepsfræ léttristuð, maldonsalt. 

Fyrir þau sem vilja má rista gott brauð og bera olíu á. Nota brauðið til að moka upp dásamlegu harrissasósunni.

Borðbænin: Þökkum Drottni, því að hann er góður og miskunn hans varir að eilífu.

Njótið og verði ykkur að góðu.

Uppskrift upprunalega í einni af bókum Ottolenghi en er breytt skv. eigin smekk og ábendingum heimilisfólksins míns. 

Vel gert – já takk fyrir

Þau þrjú, sem svo vel hafa stýrt íslenskum sóttvörnum liðinna vikna, hafa verið dugleg að hrósa. Það hefur verið hvetjandi að heyra jákvæðnina og hve fallega þau tala um fólk og það sem vel er gert. Hrósið fer hjá þeim á undan því erfiða og þungbæra. Þau hafa verið til fyrirmyndar og markað stefnu jákvæðni í niðurdrepandi aðstæðum. Vitið hefur stýrt en ekki vald, jákvæðni en ekki fúllyndi eða hræðsla. Vel gert, takk fyrir.

Fyrir nokkrum árum fórum við fjölskylda mín til Ameríku. Við lentum í Seattle og ég átti von á hefðbundinni stórflugvallafýlu starfsmanna, sem tækju út pirring sinn á okkur ferðalöngum. Nei, ónei. Elskulegt fólk mætti þreyttum útlendingum. Einn sagði með hlýju í augum “verið velkomin” og annar sagði “njótið verunnar í Bandaríkjunum.” Takk, þetta var óvænt móttaka. Börnin sem voru með í för fengu líka sinn skammt af elskulegum viðbrögðum: “Fínn hattur” og “falleg peysa.” Jákvæðnin var skýr og almenn.

Svo héldum við áfram og enduðum suður við landamæri Mexíkó og bleyttum tærnar í Kyrrahafinu. Herra Fúll og frú Fýla virtust gersamlega týnd. Var eitthvað að? Fólk hafði getu til að sjá, virða og hrósa. Jafnvel í atinu í Disneylandi og Legolandi tjáðu vandalausir ef eitthvað hreif. Svo vorum við boðin inn á heimili vina okkar og eflingarorðin flugu.

Þessi áberandi jákvæðni og hrós urðu mér íhugunarefni. Fúll og Fýla lauma sér ótrúlega oft og fljótt í umræðu fólks. En þó margt sé okkur mótdrægt er óþarfi að temja sér neikvæðni í tengslum við fólk. Börnin hafa þörf fyrir að við sjáum þau og við bregðumst við þegar þau gera vel og vinna sigra í smáu eða stóru. Nábíturinn má aldrei yfirtaka atvinnulíf, stofnanir, fjölmiðla og samfélag okkar, ekki heldur í aðkrepptum aðstæðum. Við megum og þurfum að tjá fólki, að það og verk þess veki hrifningu og gleði. Ástvinir okkar þarfnast að við sjáum þau. Fólk við búðarkassa tekur jafnan vel við þegar hlý orð falla í þess garð.

Hrós varðar ekki málæði og yfirborðstjáningu, heldur að temja sér ákveðna afstöðu til annarra og lífsins. Fólk er einstakt, dýrmæti. Allir þarfnast orða. Við lifum í krafti tengsla, höfum þörf fyrir að vera séð, að lífshættir, hæfileikar, eigindir og verk séu færð í tal með jákvæðum hætti. Öllum verður gott af því, sem hefur verið kallað H-vítamín – hrós. Það er trúverðug lífsleikni að næra aðra með orðum þegar vert er og er ástæða til. Jesús Kristur kenndi okkur þessa mannvinsamlegu nálgun. Hann hafði alltaf áhuga á fólki og sá í öllum eilíft gildi og gæði. Við þig segir hann með jákvæðum hætti og eins og satt er. „Þú ert frábær!“

Er einhver nálægt þér, sem þarfnast þess að heyra eitthvað jákvætt? Hrós er blóm allra daga.