F 4
600 gr þorskflök
6 msk ólífuolía
1 tsk malað kummín (cummin)
6 hvítlauksrif – þar af 3 rif kraminn og 3 fínt skorinn
2 gulir laukar – fínt skornir
6 kardimommur – kramdar en ekki muldar
2 msk rósaharissa-þykkni (rose harissa)
1 1/2 msk tómatþykkni (paste)
3 niðursoðnar sítrónur fínt skornar
800 gr niðursoðnar kjúklingabaunir – tvær dósir
600 ml grænmetiskraftur
kóríander til skreytingar
Salt
Þverskerið þorskflökin í 2-3 cm bita. Blandið saman 4 msk ólífuolíu, kummin, krömdum hvítlauk og salti. Hellið yfir fiskinn og setjið til hliðar í 15 mínútur til marineringar.
Afgangurinn af olíunni á steikarpönnu. Þegar pannan er orðin heit er niðursaxaði laukurinn steiktur, hrært í þar til hann er orðinn meyr og gulllinn. Hitinn minnkaður og saxaði hvítlaukurinn út í og svo kardimommurnar, harissa, tómatþykkni, niðursoðnu sítrónurnar, kjúklingabaunir og 1-2 tsk maldonsalt. Allt hrært saman og leyft að malla í eina mínútu og síðan er grænmetiskrafturinn settur út í og soðið í 3-4 mínútur.
Bæta fisknum ofan á og látið sjóða ca 2 mínútur og þá er fiskbitunum snúið. Kardimommurnar veiddar upp úr ef þær finnast! Færið á disk.
Borið fram með salati. Í þessu tilviki var vatnsmelónu-epla-salat haft með. Salatolían með: 1 msk olífuolía, 2 sítrónugrasstilkar, ytri trénuðu laufin kroppuð frá og síðan er afgangurinn fínsaxaður, 5 gr mintulauf, 10 kóríanderlauf, 1/2 tsk sinnepsfræ léttristuð, maldonsalt.
Fyrir þá sem vilja má rista gott brauð og bera olíu á. Nota brauðið til að moka upp þessari dásamlegu harrissasósu.
Borðbænin: Þökkum Drottni, því að hann er góður og miskunn hans varir að eilífu.
Njótið og verði ykkur að góðu.
Uppskrift kom til mín úr einni af bókum Ottolenghi.