Lilja Sólveig Kristjánsdóttir – minningarorð

Lilja 2Fólkið hennar Lilju Sólveigar, Brautarhólsfólkið, sótti kirkju á Völlum í Svarfaðardal. Barnahópurinn fór með foreldrunum Kristjáni og Kristínu. Lilja Sólveig settist á suðurbekk við hlið mömmunnar. Sá merki prestur Stefán Kristinsson steig í stólinn eftir guðspjallssálm og hóf predikun sína. Þriggja ára stelpuskottið fylgdist með flugum í gluggakistunni. Augnalokin þyngdust og kirkja, helgihald og fólk urðu eitt. Enginn svefn er sætari en kirkjusvefninn. En draumurinn gisnaði allt í einu þegar farið var að syngja sálminn “Á hendur fel þú honum…” Lilja Sólveig glaðvaknaði. Þetta kunni hún og tók undir sem mest hún mátti. Þegar fyrsta erindinu lauk beið hún ekki eftir lokum kúnstpásu organistans, heldur rauk af stað í annað erindið. Áður en nokkur annar kirkjugestur byrjaði sinn söng hljómaði skær barnsröddin og um alla kirkju: “Ef vel þú vilt þér líði…” En þegar hún gerði sér grein fyrir að hún var á undan öllum hinum steinþagnaði hún, fylltist svo skelfingu og leið illa! Hún hélt að hún hefði eyðilagt messuna fyrir prestinum og söfnuðinum! Boðskapur sálmsins hafði engin áhrif á smásöngvarann: “Hann styrkir þig í stríði og stjórnar öllu best!” Að guðsþjónustu lokinni faldi hún sig í pilsi mömmu og hélt að fólkið, sem talaði um fallegu röddina hennar og sönginn, væri að stríða sér.

Sálmasöngvarinn Lilja Sólveig hætti þó ekki eftir þetta fyrsta vers í lífinu, heldur orti eigin ljóð um Guð og menn á efnisskrá safnaðarins. Undir þau vers tóku margir síðar. Líf hennar sjálfrar varð lofsöngur um Guð.

Elskið

Eftir páska er tímabil kirkjuársins sem nefnt er gleðidagar. Textar gleðidaga færa kristnum lýð texta um hið góða líf. Í guðspjalli síðasta sunnudags talar Jesús um hlutverk manna og ástina í afstöðu og þjónustu: „Þér hafið ekki útvalið mig heldur hef ég útvalið yður. Ég hef ákvarðað yður til að fara og bera ávöxt, ávöxt sem varir svo að faðirinn veiti yður sérhvað það sem þér biðjið hann um í mínu nafni. Þetta býð ég yður, að þér elskið hvert annað.“

Útvalin – til hvers? Til lífs. Bera ávöxt – af hverju? Til blessunar fyrir aðra og Guði til dýrðar. Hvernig? Með því að elska.

Stíll þeirra, sem fylgja Jesú Kristi er að elska – því þannig var hann, elskaði alla, fórnaði jafnvel öllu vegna þeirrar elskuafstöðu. “Þetta býð ég, að þér elskið hvert annað.

Lilja lærði í bernsku að Guð elskaði. Hún reyndi í lífinu að hún nyti elsku og hún tók til sín að hún væri kölluð til að elska. Erindi Guðs skildi hún vítt og elskuboðið einnig. Lilja tamdi sér að elska fólk, smátt og stórt – og allra lita og gerðar, en líka alla sköpun Guðs, náttúruna, litbrigði himins og jarðar, syngjandi lækjarbunu og drynjandi fossa, orð og allar gjafir himins í heimi. Því var hún elskuð sjálf.

Lífið og skrefin

Lilja Sólveig Kristjánsdóttir fæddist á Brautarhóli í Svarfaðardal 11. maí árið 1923. Hún var sjötta í röðinni og yngst systkinanna. Elstur var Gísli og síðan komu Filippía, Sigurjón, Svanfríður og næstyngstur var Sigurður, karlar og konur til skiptis. Saga fjölskyldunnar var árangursrík baslsaga, sem lituð var heimiliselsku, vinnusemi, menntasókn, söng og trúrækni. Um hana bera vitni hin almennu, kristilegu mót, sem haldin voru á Brautarhóli á árunum 1940-48.

Lilja tveggja áraLilju var eins árs að aldri komið fyrir í rúmi hjá Svanfríði, móður okkar Kristínar, og var með þeim systrum óflekkaður og hrífandi kærleikur alla tíð, sem síðar var yfirfærður á ungviðið. Systkini Lilju veittu henni athygli, örvun, umhyggju og kenndu henni líka. Þó þau væru sum laus við komu þau heim til lengri eða skemmri dvalar. Munnhörpur og orgel voru til á heimilinu. Heimilisfólkið söng í rökkrinu, ekki síst ættjarðarljóð. Sálmar voru sungnir á undan og eftir húslestri kvöldsins og svo á sunnudögum ef ekki var farið til kirkju. Fjölskyldan var söngelsk, mamman var fljót að læra lög og pabbinn var kunnur kvæðamaður. Systkinin lærðu fjölradda söng í kirkjunni og höfðu gaman af. Á stilltum haustkvöldum fóru þau jafnvel í söng-gönguferðir. Raddirnar hljómuðu vel saman þó tenór væri enginn. Björt sópranrödd Lilju naut sín í þessum fjölradda kór. Söngur systkinanna barst um dalinn og einu sinni hélt heimilisfólkið á næsta bæ að ekki væri lengur hægt að slökkva á útvarpinu, þegar söngurinn hætti ekki! Vísnagerð var eðlileg heimilisiðja, sem öll fjölskyldan tók þátt í og nýttist til að búa til jólagjöf eða verða gleðigjafi á tímamótum. Þetta fólk ljóðaði hvert annað og lagði tilfinningar í.

Skólar og menntun

Bernskuheimili Lilju Sólveigar var menntunarsækið. Heimilisfaðirinn seldi bækur og gætti bókasafns. Flestar útgefnar bækur á Íslandi á þessum tíma komu því í Brautarhól og voru lesnar. Lilja Sólveig sótti unglingaskóla í heimadal sínum. Hún fór síðan til náms í Menntaskólanum á Akureyri og tók próf beint í annan bekk og varð stúdent árið 1945.

Lilja nýstúdent og hópur fólks á Brautarhólströppunum

Á menntaskólaárunum stríddi Lilja við veikindi. Hún var nærri dauða þegar hún var skorin eða öllu heldur brotin upp á Landakoti haustið 1941. Var hér upphaf veikinda, sem Lilja glímdi við síðan. Vegna heilsubrestsins ráðlögðu læknar Lilju að fara ekki í það háskólanám, læknisfræði, sem hún hafði hug til. “Læknarnir vildu mig ekki” sagði hún og varð henni áfall.

Eftir stúdentspróf kenndi hún svarfdælsku ungviði einn vetur frammi í dölum. Síðan fór hún í hannyrðaskóla í Kaupmannahöfn, Håndarbejdets Fremme, eftir lok heimstyrjaldar og stundaði jafnframt nám í listasögu við Kaupmannahafnarháskóla. Hún kom svo heim og kenndi unglingum á Dalvík. Síðan vann hún á skattstofunni á Akureyri en þá fékk hún hina illvígu Akureyrarveiki – árið 1948 – og lá rúmföst í marga mánuði. Eftir að hafa náð þokkalegri heilsu að nýju kenndi Lilja Sólveig við gagnfræðaskólann við Lindargötu frá 1949 og til ársloka 1951.

Predikarinn í Noregi

Sigurður, skólameistari á Akureyri, mat Lilju að verðleikum því hann þekkti námsgetu hennar, persónu- og trúar-þroska. Hann vildi konur í prestastétt og hvatti Lilju mjög til að læra guðfræði og verða fyrsti kvenpresturinn á Íslandi! En þá var hvorki til siðs eða í tísku að konur væru prestar. En þótt Lilja settist ekki við fótskör kennara guðfræðideildar rannsakaði hún ritningarnar og sat við fótskör hins eina meistara. Lilja fór til Noregs í ársbyrjun 1952 og hóf nám á biblíuskóla norska heimatrúboðsins eins og Svanfríður, systir hennar áður. Í skólanum, sem er rétt norðan við kóngshöllina í miðborg Osló, undi hún vel hag sínum í eitt og hálft ár. Lilja var þrítug þegar hér var komið sögu og hún sló í gegn. Útlendingurinn var svo öflugur leiðtogi að henni var falið að verða umreikandi predikari og æskulýðsfulltrúi norska heimatrúboðsins. Gerðar voru miklar kröfur til þess fólks, sem þeim störfum gengdu og tjáir vel hver staða Lilju var. Hún ferðaðist víða og predikaði á samkomum. Hún sálusorgaði fólk í sálarnauð, reyndi að greiða úr lífsgátum yngri sem eldri og var öllum engill og prestur hins góða málstaðar Guðs. Hún bjó á heimilum fólks þar sem hún fór og bast mörgum sterkum vinaböndum, sem ekki trosnuðu. Bréf og kort hennar í meira en sextíu ár eru vitnisburðir um tengslahæfni og ræktarsemi Lilju. Mörgum árum síðar bjó ég í Noregi og hitti fólk sem sagði mér sögur af hve Lilja hefði verið hrífandi og hve elska hennar hefði verið ávaxtasöm: „Ég hef ákvarðað yður til að fara og bera ávöt, ávöxt sem varir… – elskið…” sagði Jesús Kristur.

Heim

Svo kom kallið að heiman. Lilja hefði dvalið lengur í Noregi ef Sigurður, bróðir hennar, hefði ekki sent henni bréf árið 1955. Faðir þeirra var þá fallinn frá, eldri bróðirinn, Sigurjón, hafði hætt búskap vegna heilsubrests og Kristín, móðir þeirra, var komin á áttræðisaldur. Einhver varð að sjá um móður og búrekstur. Lilja brást ekki kallinu og varð bústjóri á Brautarhóli.

IMG_7593

Fjórum árum síðar kallaði sami bróðirinn aftur til hennar, en nú til kennslustarfa á Laugum í Reykjadal. Þar var Lilja Sólveig á árunum 1959-62. Síðan varð hún skólastjóri á húsmæðraskólanum á Löngumýri. En þjónusta Lilju í Skagafirði varð styttri en áætlað hafði verið. Enn hindruðu veikindi hana í starfi. Hún fór aftur heim í Svarfaðardal og starfaði sem gjaldkeri Dalvíkurhrepps á árunum 1963-64. Þá fór hún suður og bjó síðan í Reykjavík. Fyrst starfaði hún á rannsóknarstofu Borgarspítalans, en vorið 1971 varð Lilja safnvörður í Listasafni Einars Jónssonar og starfaði þar í tuttugu og þrjú ár. Lilju Sólveigu var einkar lagið að opna tákn- og trúarheim Einars. Margir muna leiftrandi og grípandi leiðsögn hennar og sóttust eftir að fara í safnið þegar Lilja var á vakt til að fá hana til að skýra hin torræðu tákn í verkum Einars.

Kveðjur

Þessum fyrri hluta minningarorðanna lýkur með kveðjum frá frændfólki og vinum sem ekki geta verið við þessa athöfn. Kristín Þórðardóttir, sem er bundin heima í Noregi vegna nýlegrar aðgerðar, þakkar að Lilja varð henni sem önnur móðir og okkur systkinum. Öyvind Kjelsvik, maður Kristínar biður fyrir kveðjur. Það gera Helgi Jónsson og Hanney Árnadóttir á Akureyri. Frá Hollandi koma kveðjur frá Jóni Þorsteinssyni og að norðan frá Sigrúnu Lovísu Sigurjónsdóttur, Eddý og Alexander Antoni. Rósa Magnúsdóttir og Jegvan Purkhús biðja fyrir kveðjur.

Nú verður sungið „Lát mér Drottinn lof á tungu vera“ – Þetta er lífsstefna Lilju Sólveigar. Hún bað frænda sinn, Þórð, að semja lagið við lofsönginn til Guðs.

—-

Seinni hluti

Siguringi, heimilislíf og þjónusta

Siguringi og Lilja Sólveig
Siguringi og Lilja Sólveig

Myndlistarsýning í Bogasalnum árið 1965 varð Lilju Sólveigu afdrifarík. Hún féll fyrir fallegri mynd af Hrafnabjörgum í Þingvallasveit, sem Siguringi E. Hjörleifsson hafði málað. Hún keypti myndina og svo hreifst hún líka af listamanninum fjölhæfa – og hann af henni. Siguringi og Lilja gengu í hjónaband árið 1967. Þau voru bæði fullþroska þegar þau kynntust og áttu hamingjurík ár saman. Heimili þeirra á Sóleyjargötu 15 var hús sumarsins í lífi beggja enda máluðu þau það glöðum og björtum litum. Heimili þeirra var fullt af tónlist, hljóðfærum, tónsmíðum, kveðskap, blómum, myndum og glaðværð. Siguringi ljóðaði til konu sinnar á fjölbreytilegan hátt. Jafnvel uppvask eftir matinn varð ævintýri líkast og það var gaman að vera nærri þeim í ham. Bæði voru hraðyrkjandi og Siguringi mátti hafa sig allan við, svo snögg var Lilja að yrkja og gjarnan með hnyttni sem illt var að svara, botna eða toppa. Svo hlógu þau og skrifuðu niður bestu stökurnar. Svo kom jafnvel lagstúfur í framhaldinu.

Í öllum verkum voru þau samhent. Líka í þjónustunni við Guð og menn. Lilja – með stuðningi Siguringa – hlúði að fjölda stúlkna sem sóttu “telpnastarfið í Betaníu” sem Lilja sá um og varð um tíma á heimili þeirra á Sóleyjargötu. Margar konur koma hingað til að kveðja í dag vegna þess að Lilju Sólveigu þótti vænt um þær og sinnti þeim af elskusemi og alúð.

Þau Siguringi voru bæði ræktunarfólk, sköpuðu litskrúðugan blómagarð, sáðu til og uppskáru ríkulega af grænmeti og potuðu furuskinnum og birkihríslum í jörð þeirra, Hamraborg, í Árnessýslu. Tími þeirra saman var ríkulegur en allt of skammur, aðeins rúm átta ár. Siguringi féll frá í júlí 1975. Nokkur af rismestu sorgarkvæðum Lilju urðu til við fráfall hans þegar sorgin vitjaði hennar. Og eitt þeirra hljómaði áðan í þessari athöfn.

Félagsstörf Lilju Sólveigar voru margvísleg. Auk þess sem áður er nefnt tók hún þátt í starfi Kristniboðsfélags kvenna í Reykjavík í áratugi og allt til heilsu- og lífsloka eins og systur hennar. Hún var lengi í stjórn félagsins. Svanfríður var formaðurinn, Lilja Sólveig gjaldkerinn og Filippía gleðigjafinn.

Þá var Lilja félagi í KFUK og var í stjórn í þrjú ár. Hún starfaði í sumarbúðunum í Vindáshlíð í nokkur ár og hafði mikil áhrif á margar stúlkur á mótunartíma.

Lilja Sólveig orkti ekki aðeins, heldur skrifaði greinar í blöð og tímarit og kom oft fram í þáttum RÚV. Hún var eftirsóttur ræðumaður í kristilegum og kirkjulegum félögum. Og svo gaf hún út heillandi barnabók Dýrin í dalnum (1968) um lífið í Svarfaðardal. Þar kemur berlega fram hversu næm og natin Lilja var í samskiptum við málleysingjana.

Aftari f.v. Thora, Gísli, Sigurjón, Þórður, Svanfríður, Fremri f.v. Filippía, Kristín Kristjánsdóttir afmælisbarn, Lilja Sólveig, Sigríður
Thora, Gísli, Sigurjón, Þórður, Svanfríður, Filippía, Kristín afmælisbarn, Lilja Sólveig, Sigríður

Ljóð og stíll

Ljóðasafnið Liljuljóð, kom út árið 2003. Ljóð og sálmar Lilju Sólveigar tjá bjarta lífssýn trúar og traust til elskandi Guðs, sem frelsar, gætir, styður og eflir. Náttúruljóðin sem Lilja samdi eiga sér samsvörun og efnislegt innrím við sálma. Náttúran í Liljuljóðum er vitnisburður um skapara, sem gleðst yfir fjölbreytni, fegurð, árstíðum, smáblómi í klaka og lækjarbunu. Jafnvel frostrósir eru líking um líf manna. Ljósið, sem bræðir frerann og rósir frostsins, er frá Guði.

Rithönd Lilju

Krossferill

Mörg ljóð Lilju meitlaði sorg. Lilja orkti sér til léttis og ljóðin urðu hennar sorgarlyftur eða höfuðlausnir. Lilja missti heilsu á unga aldri og ljóðaði um sársauka heilsumissis. Vegna eigin veikindasögu gerði Lilja Sólveig sér snemma grein fyrir þjáningardjúpi og einsemdarbaráttu Jesú Krists og gat því túlkað krossferill hans. Í honum átti hún lifandi samfylgdarmann, sem ekki vék frá henni heldur verndaði og blessaði. Og svo túlkaði Lilja Sólveig skýrt og ákveðið fagnaðarerindið um sigur lífsins sem á erindi við fólk. Lilja tjáði oft í ljóðum sínum sterkar tilfinningar, kvíða, friðleysi, ótta, öryggisleysi og lausn.

Lilja var svo lánsöm að eiga góða foreldra, sterka móður og blíðlyndan föður. Guðsmynd Lilju var því heil og ósprungin. Áberandi í ljóðum Lilju er traust til að Guð geri gott úr vanda, leiði á betri veg, bæti úr, bræði hjarn mannlífsins og gefi gróanda í lífi hennar og annarra. Liljuljóðin sem virðast almenn ljóð í hinu ytra eru þó bænir hvað varðar inntak.

Inn í himin Guðs

Lilja var næm á póesíu heimsins. Hún hreifst af sköpun Guðs, ljóðmáli lífsins í náttúrunni og mannlífinu. Hún tók alvarlega boð Jesú að elska. Því umvafði hún alla sem tengdust henni elskusemi og vandaði sig í samskiptum. Saga hennar var brot ástarsögu Jesú Krists í heiminum. Jesú sagði „…elskið hvert annað.“ Lilja Sólveig iðkaði það ljóðamál í lífinu.

IMG_0857

Jesús sagði: „En ég kalla yður vini … Þér hafið ekki útvalið mig heldur hef ég útvalið yður… … Þetta býð ég yður, að þér elskið hvert annað.“ Það gerði Lilja Sólveig Kristjánsdóttir. Hún var og er útvalin og nú er hún farin í Brautarhól elskunnar – í öndvegi guðsríkisdala – og mér þykir líklegast að þau systkin – og ástvinir með þeim – séu á kvöldssönggöngu í páskaljóma eilífðar. Þar er hrein dýrð og gleði – þar er Jesús Kristur í miðjum hóp. Þar eru stjörnur og sól, blómstur og börn, já vindur og vötn – þar er lífið sem Guð gefur.

Guð geymi Lilju Sólveigu Kristjánsdóttur og Guð geymi þig.

IMG_7661 (1)

Amen.

 

Minningarorð í útför Lilju Sólveigar Kristjánsdóttur, Hallgrímskirkju 6. maí, 2015. Jarðsett í Fossvogskirkjugarði G 14-100. Erfidrykkja í Kristniboðssalnum Háaleitisbraut 58-60.

Æviágrip

Lilja Sólveig Kristjánsdóttir fæddist 11. maí árið 1923 á Brautarhóli í Svarfaðardal. Foreldrar hennar voru hjónin Kristín Sigfúsína Kristjánsdóttir (1880-1973) og Kristján Tryggvi Sigurjónsson (1870-44). Lilja var yngst sex systkina. Hin eru Gísli Björgvin (1904-85), Filippía Sigurlaug (1905-96), Sigurjón Kristján (1907-82), Svanfríður Guðný (1910-2004) og Sigurður Marinó (1914-2009).

Lilja Sólveig lauk stúdentsprófi frá M.A. árið 1945 og kenndi síðan við farskóla í Svarfaðardal 1945-46. Hún stundaði nám við Håndarbejdets Fremme í Kaupmannahöfn 1946-47 og stundaði jafnframt nám í listasögu við Kaupmannahafnarháskóla. Lilja var kennari við Unglingaskólann á Dalvík 1947-48 og vann síðan á skattstofu Akureyrar 1948-49. Hún kenndi við Lindargötuskóla í Reykjavík á árunum 1949-51. Þá fór hún til Noregs til náms á biblíuskóla Indremisjonsselskabet í Staffeldtsgate í miðborg Oslo. Lilja Sólveig starfaði á vegum þeirra samtaka 1952-55, m.a. sem prédikari og kennari. Á árunum 1955-59 var hún á Brautarhóli og lagði búi og móður sinni lið. Kennari við héraðsskólann á Laugum í S-Þing. á árunum 1959-62, skólastjóri Húsmæðraskólans á Löngumýri í Skagafirði 1962-63 og gjaldkeri Dalvíkurhrepps 1963-64. Vann skrifstofustörf í Reykjavík 1964-67. Gæslumaður á Listasafni Einars Jónssonar í Reykjavík í 23 ár, frá 1971.

Maki frá 1. júlí. 1967: Siguringi E. Hjörleifsson (1902-75), kennari, lengstum í Austurbæjarskóla í Reykjavík, tónskáld, málari og ljóðskáld. Þau voru barnlaus.

Lilja Sólveig tók þátt í starfi Kristniboðsfélags kvenna í Reykjavík og var lengi í stjórn félagsins, sá um barna- og unglingastarf félagsins í Betaníu og heimili sínu og varð vinur og fræðari fjölda fólks vegna þeirra starfa. Þá var hún félagi í KFUK og var í stjórn í þrjú ár.

Lilja Sólveig orkti sálma og ljóð, skrifaði greinar í blöð og tímarit og kom oft fram í þáttum RÚV. Hún var eftirsóttur ræðumaður í kristilegum, kirkjulegum, félögum. Lilja Sólveig gaf út tvær bækur, barnabókina Dýrin í dalnum (1968) og ljóðasafnið Liljuljóð (2003). Ekki hafa verið birtir fleiri sálmar eftir nokkra konu í sálmabókum þjóðkirkjunnar en eftir Lilju Sólveigu. Meðal sálma hennar eru aðventusálmurinn “Við kveikjum einu kerti á…” og trúarjátningarsálmurinn “Stjörnur og sól.” Lilja Sólveig lést á Grund að kvöldi sumardagsins fyrsta, 23. apríl.