Sannleikur, vald og samviskan

Ég er með hugann við Grikkland. Þetta er Grikklandsárið mitt því ég ætlaði að fara til Aþenu eftir mánuð, út í eyjar, til Serifos, Rhodos og kannski líka til Delfí. En það verður engin Grikklandsferð, alla vega ekki þetta árið því við ferðumst innan húss og innan lands. En í stað ferðar fór ég í bókarreisu og rifjaði upp eina af Grikklandsbókum mínum. Þetta er bókin The Double Tongue. Hún er um algera breytingu, þegar heimur endaði og ný veröld varð til. Sagan er um mannlíf í Grikklandi fyrir meira en tvö þúsund árum og mannlífið var þá á fleygiferð rétt eins og á okkar tímum. Bókin fjallar um sannleika. Valdamenn vilja láta sannleikann þjóna sér en ekki öfugt. Sumir ljúga algerlega fyrirhafnarlaust og telja sannleika. Og þannig hefur það verið á öllum tímum. Þegar fólk vill umbreyta sannleikanum sér í hag verður til lygi og allt verður skælt.

Sannleikurinn vék fyrir valdinu

Þegar spekingurinn og Nóbelskáldið William Golding féll frá árið 1993 var hann að skrifa bók um völvu í Delfí. Bókin var svo gefin út þrátt fyrir, að hún væri ekki fullgerð frá hendi höfundar. Þetta er heillandi bók og segir sögu stúlku, sem varð völva, meðalgangari Guðs og manna, prestur sem flutti boðskap af hæðum. Stúlkan ólst upp á höfðingjasetri í Grikklandi. Golding lýsir vel hvernig valdabarátta og hrossakaup stýrðu, að hún en ekki einhver önnur stúlka var send til uppeldis og þjálfunar í helgisetrinu Delfí. Síðan er rekstri véfréttarinnar lýst, hvernig boðskapinn þurfti stöðugt að búa út svo hann hugnaðist valdhöfum, Rómverjum eða grískum höfðingjum. Öllu átti að hagræða til að tryggja rekstur véfréttarinnar. Allt varð að skilja pólitísku hyggjuviti og færa í trúarlegan búning og rétt orðfæri. Véfréttin var ekki lengur tengill himins og jarðar heldur PR-miðstöð, spunastofa stjórnmála og hagsmuna þess tíma. Veröldin reynir alltaf að toga himininn niður. 

Völvan unga varð að læra og horfast í augu við að heimurinn er harður, að hugsjónir, hrein trú og heilindi væru lúxus, sem aðeins glóparnir geta leyft sér. Um tíma varð hún að láta undan, en var þó stöðugt í baráttu við eigin samvisku annars vegar og forstjóra véfréttarinnar hins vegar. En dagar Delfí voru taldir, mæliglas þess tómt, guðleg návist horfin og boðskapurinn af hæðum enginn.

Er til vald sannleikans?

Hvernig reiðir anda Guðs af í framvindu lífsins? Trúariðnaður er óvinur guðlegs anda og valdapot eyðir lífi. Völvan sagði skilið við svikamylluna. Hún fór með ævilaun sín og eign og fór til Aþenu. Þar réð hún færustu listamenn til vinnu og lét gera altari. Hún hafði þekkingu á yfirborðslegum trúariðnaði og hafði enga löngun til að reisa Delfíguðum altari. En þrátt fyrir sögu sína hafði hún ekki misst trúna á, að guðlegur máttur væri til. Hún lét reisa altari og lét rita á það setninguna: „Hinum óþekkta Guði.“

Hið góða getur spillst

Þessi saga um trú og bisniss er gild fyrir alla tíma. Það sem er byggt upp af heilindum og trúmennsku getur rotnað með tímanum – og innan frá. Fyrirtæki sem verða til í krafti vits, gilda og gæða eru stundum eyðilögð vegna græðgi, valdapots, stjórnmála eða mannvonsku. Trúarhreyfingar og kirkjuhreyfingar vaxa fram en geta síðan rotnað þegar hugur stjórnenda er meira við jörð en himinn, efni en anda, vald en vit.

Breytingar dynja á heiminum og mönnunum og rugla okkur í ríminu. Kyrrstaða, íhaldsemi, er kannski það, sem við ættum að óttast mest því þá erum við mótstöðufólk hins skapandi Anda Guðs. Það eru fleiri öfl í þessum heimi en lífhvatar Guðs. Í mestu hamingju er dauðinn nærri, í gleði er fléttuð sorg, myrkrið er skuggi ljóssins. Með miklum hæfileikum er stutt í að gjafir Guðs séu notaðar til ills. Gáfur eru nýttar til fólskuverka í stað þess að veita velferð og gæsku til sem flestra.

Hinum ókunna Guði

Völvan í Delfí, fullþroska og búin að fá nóg af lygi og prettum trúariðnaðarins, fór til Aþenu og reisti óþekktum Guði altari. Samkvæmt 17 kafla Postulasögunnar í Nýja testamenntinu fór Páll um Aresarhæð og sá þar altari reist ókunnum Guði. Og lagði út af þessu altari í predikun sinni. Hinn ritsnjalli William Golding spann sögu sína um guðsdýrkun í Delfi, sem brást, að sögu kristninnar. Sagan opnast í mikilleik sínum á nýjan hátt, þegar lesandinn gerir sér grein fyrir hinu stóra samhengi. Völvan, sem vildi ekki eða gat ekki lengur spunnið blekkingarvef í Delfí, lagði kristnum dómi til altari og sögu um leit mannanna að því sem er satt. Saga hennar er brot okkar eigin sögu. Von hennar var fyrirboði um framtíð sem kom. Jesús kom í heiminn, hinn óþekkti Guð varð maður.

Á sannleikurinn að þjóna mönnum – eða öfugt?

Síðan hafa ölturu verið byggð um allan heim. Kristnin breytist í kirkjur, hreyfingar og stofnanir. Og þegar stjórnendur vilja láta sannleikann fremur þjóna sér en öfugt þá er saga Golding lýsing á vandanum. Öll musteri og kirkjur eru kölluð til að þjóna sannleika. Við eigum ekki að týna trúnni í rekstri, fjármálum, byggingum og skipulagi. Við megum aldrei láta trúariðnað – né nokkurn annan iðnað – yfirtaka líf kirkjunnar. Hvað er sannleikur og hver er sannleikans megin? Guð elskar og skapar líf.