Greinasafn fyrir merki: takk

Takk

Þessi mynd kom af himnum – falleg kveðja og þakkarverð tímasetning. Ég þakka líka Hallgrímssöfnuði og öllu því dásamlega fólki sem ég hef hitt, notið samvista með og þjónað. Kveðjumessan verður í Hallgrímskirkju á boðunardegi Maríu þ.e. 26. mars. Ég læt af störfum sem sóknarprestur Hallgrímskirkju 31. mars 2023. Takk fyrir mig – ný fæðing í vændum. Ég hef skráð mig í meistaranám í HÍ og í dekurnám á vefnum. 

Vel gert – já takk fyrir

Þau þrjú, sem svo vel hafa stýrt íslenskum sóttvörnum liðinna vikna, hafa verið dugleg að hrósa. Það hefur verið hvetjandi að heyra jákvæðnina og hve fallega þau tala um fólk og það sem vel er gert. Hrósið fer hjá þeim á undan því erfiða og þungbæra. Þau hafa verið til fyrirmyndar og markað stefnu jákvæðni í niðurdrepandi aðstæðum. Vitið hefur stýrt en ekki vald, jákvæðni en ekki fúllyndi eða hræðsla. Vel gert, takk fyrir.

Fyrir nokkrum árum fórum við fjölskylda mín til Ameríku. Við lentum í Seattle og ég átti von á hefðbundinni stórflugvallafýlu starfsmanna, sem tækju út pirring sinn á okkur ferðalöngum. Nei, ónei. Elskulegt fólk mætti þreyttum útlendingum. Einn sagði með hlýju í augum “verið velkomin” og annar sagði “njótið verunnar í Bandaríkjunum.” Takk, þetta var óvænt móttaka. Börnin sem voru með í för fengu líka sinn skammt af elskulegum viðbrögðum: “Fínn hattur” og “falleg peysa.” Jákvæðnin var skýr og almenn.

Svo héldum við áfram og enduðum suður við landamæri Mexíkó og bleyttum tærnar í Kyrrahafinu. Herra Fúll og frú Fýla virtust gersamlega týnd. Var eitthvað að? Fólk hafði getu til að sjá, virða og hrósa. Jafnvel í atinu í Disneylandi og Legolandi tjáðu vandalausir ef eitthvað hreif. Svo vorum við boðin inn á heimili vina okkar og eflingarorðin flugu.

Þessi áberandi jákvæðni og hrós urðu mér íhugunarefni. Fúll og Fýla lauma sér ótrúlega oft og fljótt í umræðu fólks. En þó margt sé okkur mótdrægt er óþarfi að temja sér neikvæðni í tengslum við fólk. Börnin hafa þörf fyrir að við sjáum þau og við bregðumst við þegar þau gera vel og vinna sigra í smáu eða stóru. Nábíturinn má aldrei yfirtaka atvinnulíf, stofnanir, fjölmiðla og samfélag okkar, ekki heldur í aðkrepptum aðstæðum. Við megum og þurfum að tjá fólki, að það og verk þess veki hrifningu og gleði. Ástvinir okkar þarfnast að við sjáum þau. Fólk við búðarkassa tekur jafnan vel við þegar hlý orð falla í þess garð.

Hrós varðar ekki málæði og yfirborðstjáningu, heldur að temja sér ákveðna afstöðu til annarra og lífsins. Fólk er einstakt, dýrmæti. Allir þarfnast orða. Við lifum í krafti tengsla, höfum þörf fyrir að vera séð, að lífshættir, hæfileikar, eigindir og verk séu færð í tal með jákvæðum hætti. Öllum verður gott af því, sem hefur verið kallað H-vítamín – hrós. Það er trúverðug lífsleikni að næra aðra með orðum þegar vert er og er ástæða til. Jesús Kristur kenndi okkur þessa mannvinsamlegu nálgun. Hann hafði alltaf áhuga á fólki og sá í öllum eilíft gildi og gæði. Við þig segir hann með jákvæðum hætti og eins og satt er. „Þú ert frábær!“

Er einhver nálægt þér, sem þarfnast þess að heyra eitthvað jákvætt? Hrós er blóm allra daga.