Góður andi

Hvað er þessi andi sem Jesús talaði um? Jú, það er sannleiksandinn, huggarinn, sem er sendur. En andi Guðs var í stóru-sprengju, þegar vetrarbrautir mynduðust. Andi Guðs var líka að verki þegar gufur þéttust og hnettir voru mótaðir. Andi Guðs kristinna manna var að verki, í spurningaleik Sókratesar og einnig kitlaði íhugun Búddha. Kristnir menn hafa ekki smæðarlega og sértrúarlega afstöðu gagnvart sköpun Guðs og handleiðslu. Það er Guð, sem er að verki þegar móðir mylkir barni sínu, þegar ástin kviknar í öllum myndum, þegar gott verk er gert, þegar sjúkur er borinn til læknis og hungraður mettaður. Andi Guðs er að starfi í hinum mestu málum geims og líka umhyggju lóunnar gagnvart unga í hreiðri. Andinn kom við sögu þegar við vorum mótuð í móðurkviði. Án þess lífsanda hefði ekkert orðið. Og það er verk Andans, sem skapar fegurðina og veitir þér færni til finna til og hrífast. Kristinn trúmaður getur átt í sér þessa nálgun gagnvart alheimi, umhverfi og lífi og hvílt í trausti til hins mikla Guðs, sem barn í móðurfaðmi.

En þegar allt þetta er sagt er líka mikilvægt að minna á að Andi Guðs verður ekki höndlaður í fyllingu af smáum huga okkar manna. Jesús sagði, að hann sendi Andann, huggarann. Opinberun Guðs er ekki lokið. Trúarlærdómar falla, aðrir lifna og nýjar áherslur verða til. Breytingar dynja á heiminum og mönnunum og rugla okkur í ríminu. Kyrrstaða, íhaldsemi, er kannski það, sem við ættum að óttast mest því þá erum við mótstöðufólk hins skapandi Anda Guðs. En vissulega er ekki nóg að róta sem mest í lífinu, hamast sem ákafast. Það eru fleiri öfl í þessum heimi en Andi Guðs. Í mestu hamingju er dauðinn nærri, í gleði er fléttuð sorg, myrkrið er skuggi ljóssins. Með miklum hæfileikum er stutt í að gjafir Guðs séu notaðar til ills. Gáfur eru nýttar til fólskuverka í stað þess að veita velferð og gæsku til sem flestra.

Það er í þessu sértæka samhengi, sem Jesús talar um sannleiksandann sem verði sendur til að sannfæra menn um synd, réttlæti og dóm.

1. Í fyrsta lagi: Andinn opnar vitund um veruleika hins illa. Synd er ekki aðeins slæm verk, mistök og hliðarspor. Synd í Biblíunni er það að missa marks. Og markið er ávallt eitt og hið sama – Guð. Sannleiksandinn hríslast í þér til að spyrja þig um samband þitt við Guð, hvort og hvenær þú sért í líflegu sambandi við Guð og hvenær ekki.

2. Hið annað, sem andinn skapar, er réttlæti. Og réttlæti í samhengi Nýja testamenntisins tengist lífi og líkn Jesús. Það er réttlætisgerningur Guðs þegar þér er hjálpað, þér sem gast ekki fundið leiðina heim til Guðs, varst lánlaus.

3. Hið þriðja sem sannleiksandinn opinberar er dómur yfir öllu því, sem er slæmt og spillt í heimi. Boðskapur Jesú varðar myrkravöld. Upprisa Jesú er dómur yfir hinu illa afli, sem aflagar fólk og náttúru.

Sannleiksandinn er kominn og spyr um trú og traust. Viljum við heyra og skilja sannleikann um okkur? Jesús er sannleikur sem frelsar. Það gagnar ekki, að hafa skarpan heila ef þinn innri maður er haminn. Það stoðar ekki að eiga liðugan fót og lausa hönd, leiðir til allra átta ef hugurinn er blindur og augun haldin. Sannleikurinn er kominn.

Guðspjall: Jóh 16.5-15
[Jesús sagði:] En nú fer ég til hans sem sendi mig og enginn yðar spyr mig: Hvert fer þú? En hryggð hefur fyllt hjarta yðar af því að ég sagði yður þetta. En ég segi yður sannleikann: Það er yður til góðs að ég fari burt því ef ég fer ekki kemur hjálparinn ekki til yðar. En ef ég fer sendi ég hann til yðar. Þegar hann kemur mun hann sanna heiminum hvað er synd og réttlæti og dómur. Syndin er að þeir trúðu ekki á mig, réttlætið að ég fer til föðurins og þér sjáið mig ekki lengur og dómurinn að höfðingi þessa heims er dæmdur.
Enn hef ég margt að segja yður en þér getið ekki skilið það nú. En þegar andi sannleikans kemur mun hann leiða yður í allan sannleikann. Það sem hann segir yður hefur hann ekki frá sjálfum sér heldur mun hann segja yður það sem hann heyrir og kunngjöra yður það sem koma á. Hann mun gera mig dýrlegan því af mínu mun hann taka og kunngjöra yður. Allt sem faðirinn á er mitt. Því sagði ég að hann tæki af mínu og kunngjörði yður.

Meðfylgjandi mynd er af efsta hluta verks Leifs Breifjörð sem nefnist Dýrð, vald, virðing. Glugginn er yfir kirkjudyrum Hallgrímskirkju.