Greinasafn fyrir flokkinn: Greinar og pistlar

Pistlayfirlit er aðgengilegt á trú.is. Þá er talsvert af pistlum einnig á sigurdurarni.annall.is

Íslensku söfnuðirnir erlendis

Ég var spurður um stefnu mína varðandi þjónustu við Íslendinga sem búa erlendis. Við, sem höfum dvalið langdvölum í útlöndum, vitum hve dásamlegt það getur verið að hitta stóran hóp landa, geta talað, sungið íslenska sálma og beðið á móðurmálinu og hlustað á kjarnmikið og vel orðað lífsorð úr prédikunarstóli.

Samkomur og messur eru Íslendingum í útlöndum mikilvægar. Auðvitað hafa þjóðernisþættir áhrif, en kirkjulífið verður sem rammi um aðra þætti og þarfir fólks. Svona hefur það verið frá því Íslendingar fluttu til Vesturheims og þannig hefur það verið í Evrópu síðustu áratugi. Hið sama gildir um annarra þjóða fólk og því heldur þjóðkirkjan messur í Hallgrímskirkju fyrir enskumælandi fólk. Sr. Bjarni Þór Bjarnason þjónar því prestsstarfi með glæsibrag. Og við ættum auðvitað að messa oftar á þýsku, dönsku, norsku, sænsku og kannski líka á frönsku og spænsku!

Íslenska kirkjan hefur, vegna fjáreklu, lagt niður prestsstöður í London og Kaupmannahöfn. En söfnuðurnir hafa notið styrkja til safnaðarstarfs þó upphæðirnar hafi ekki verið í sex núllum.

Þjóðkirkjan á að stefna að því að endurstofna prestsstöðurnar. En okkur ber líka að leita áfram lausna á viðkomandi starfssvæðum og óska aðstoðar systurkirkna. Þetta á sérstaklega við í Danmörk og Svíþjóð. Vegna hinna góðu tengsla okkar við anglikanskar kirkju, í anda Porvoo-samkomulagsins, njóta Íslendingar velvilja varðandi kirknafnot og aðstöðu. Svo mun eflaust áfram verða.

Stutt yfirlit um stöðu safnaðanna erlendis er hér að neðan – eins og ég veit best. Góðar hugmyndir og ábendingar eru vel þegnar og óháð biskupskjöri. Ég sit á kirkjuþingi og er í samkirkjunefnd þjóðkirkjunnar og læt mig varða þjónustu hennar erlendis.

Noregur

Staða íslenska safnaðarins í Noregi er góð, raunar fjárhagslega best þeirra safnaða landa okkar sem eru erlendis. Söfnuðurinn hefur verið samþykkt sem n.k. fríkirkja en presturinn, sr. Arna Grétarsdóttir, er boðinn til funda og samstarfs í norsku þjóðkirkjunn. Söfnuðurinn fær nú starfsstyrk og getur borgað prestinum laun. En vegna fjölda Íslendinga þyrfti jafnvel að bæta við presti eða djákna. Ég mun styðja það mál ef sú stefna verður tekin af presti og sóknarnefnd. Verið er að undirbúa kaup að sal og starfsaðstöðu og er okkar fólki í Noregi óskað til hamingju.

Danmörk

Danska kirkjan er að miklu leyti ríkisstýrð og ráðuneytið hefur ekki viljað samþykkja prestsstöðu í þágu íslenska safnaðarins. Enn sem komið er hefur ekki verið farin leið stofnunar fríkirkjusafnaðar. En Íslendingar þurfa þjónustu og kirkjustarf og vert að skoða alla kosti. Ég vil því stuðla að því að fá utanríkisráðuneyti í málið til styrktar með kirkjunni og sækja fastar að danska ríkið komi til hjálpar – enda greiða Íslendingar sína skatta og sinna sínum skyldum í Danmörk. Og þó ekki hafi fengist nein varanleg úrlausn prestsþjónustumála í Kaupmannahöfn er engin ástæða til að hætta. Þjónusta íslensku kirkjunnar þarf að vera öflug í Kaupmannahöfn og Danmörk.

Svíþjóð

Enn starfar prestur í hlutastarfi í Gautaborg, sr. Ágúst Einarsson og vinnur gott starf. En fjárveitingar til þjónustunnar koma ekki frá kirkjunni heldur íslenska ríkinu. Ástæðan er presturinn aðstoðar fólk sem kemur til Svíþjóðar í lækniserindum.

Það sama gildir um Svíþjóð eins og hin Norðurlöndin, að ástæða er til að reyna áfram að afla liðveislu systurkirkjunnar til að stofna og reka prestsembætti.

England og meginland Evrópu

Prestssatarfið í Englandi var lagt niður og er leyst til bráðabirgða með ferðaprestum. Sú skipan er ekki ásættanleg til lengdar. Í Lúx hefur sr. Sjöfn Þór tekið við þjónustu við Íslendinga. Vel getur farið svo að hún muni þjóna Íslendingum í Brussel einnig. En þetta starf hennar er ekki fast og alls ekki embætti í neinum formlegum skilningi.

Ísraelar áttu erfitt með að tilbiðja Guð við Babýlonsfljót og Boney M. gerði frægt. Og tilbeiðsla á framandi tungu er mörgum erfið. Þjóðkirkjan á styðja starf íslenskra safnaða og veita prestsþjónstu þar sem fjöldi Íslendinga er mikill eins og á Norðurlöndum, Englandi og Vestur Evrópu. Sá stuðningur getur verið margvíslegur. Fjármunir eru góðir en mikilvæg eru líka öll gefandi samskipti og óbeinn stuðningur.

Kirkja boðberi réttlætis

Þjóðin glímir við óvissu og öryggisleysi á sviði siðferðis og trúarlífs – ekki síst eftir hrunið. Það er mikilvægt að ganga í gegum það sorgar- og reiðiferli sem fyrir uppgjöri við áfall hrunsins. Þá er ekki síður mikilvægt að draga lærdóm af því sem miður fór og líta í eigin barm. Lærdómurinn skiptir miklu máli. Skeytingarleysi um hag náungans er mein sem ekki má grafa um sig í samfélaginu. Kirkjan gegnir mikilvægu hlutverki boðbera réttlætis og mannúðar í samfélagi okkar.

Kirkjan er kölluð til að vera salt og ljós í heiminum. Í því felst m.a. að lýsa upp skúmaskot sálar og sársauka sem kreppa okkur innvortis og gera okkur hörð og ónæm fyrir þjáningu annarra. Í boðun sinni á kirkjan að skerpa á þeim viðmiðum og gildum sem gera okkur að Íslendingum og tala kjark og von í þjóðina á tímum þegar bölmóður og neikvæðni fær svo mikið rými. Kristin trú setur frelsi og ást í brennipunkt og mótar manneskjuna til þess konar lífs. Þess vegna lætur kirkjan sig varða hvernig samfélag við byggjum og hvernig manneskjunni reiðir af.

 

Gleðilega kirkju

Ég virði en hræðist hvorki andóf gegn kirkju né trúargagnrýni. Áskoranir ögra og kalla á frjóa guðfræði. Kirkjan má ekki einangrast, heldur vera lífleg og tala frjáls á götum og torgum mannlífs, miðla gildum og beita sér til góðs í réttlætismálum samfélagsins.

Kirkjulífið á að vera til upplífgunar, til trúar á Guð og elskuríkrar þjónustu við menn. Möguleikar kirkjunnar eru miklir og heillandi. Ég býð mig fram til að þjóna, sætta og hvetja þjóðkirkjufólk til sóknar. Gleðilega kirkju.

Þrjú forgangsverkefni

Hver yrðu nú fyrstu verkefni þín í starfi ef þú yrðir kjörinn biskup? Þetta er góð spurning, sem ég varð að svara sjálfum mér og spyrjanda. Ég komst að því að forgansverkefnin væru eiginlega þrjú og varða ungt fólk og fé og fullorðið fólk. Hvað þýðir það? Fyrstu verkefni mín í biskupsstarfi yrðu:

  • Í fyrsta lagi að kalla barnafræðara kirkjunnar til átaks í þágu barna og barnafjölskyldna. Börnin eru dýrmæti og einnig framtíð kirkjunnar.
  • Í annan stað að beita mér fyrir að ríkið skili réttilega félagsgjöldum kirkjunnar, sóknargjöldum, til að söfnuðirnir geti sinnt verkefnum sínum.
  • Í þriðja lagi að hefja græðarastarf innan kirkjunnar með því að hafa sem nánast samstarf við presta, djákna og sóknarnefndarfólk um land allt. Þetta forystufólk kirkjunnar þarf að næra og hlúa að. Glatt fólk þjónar vel.

Djáknar og kærleiksþjónusta

Telur þú að auka þurfi veg djákna innan kirkjunnar? OG – getur þú tekið undir það að það sé umtalsverður kynjahalli á fjölda vígðra djákna körlum í óhag? OG ef þú getur tekið undir það myndir þú beita þér fyrir því að leiðrétta þann halla?

Þessar spurningar bárust og almennt svar mitt er þetta: Djáknar gegna mikilvægri þjónustu í starfi safnaða sem og hjá félagasamtökum og stofnunum. Kærleiksþjónustuna þarf að efla. Það hefur lengi verið vonarmál kirkjunnar að djáknum fjölgi. Að mínu viti þyrfti að ráða djákna í öllum stórum söfnuðum kirkjunnar og þar sem söfnuðir eru litlir gætu djáknar þjónað heilum prófastsdæmum. Oft andvarpa ég í prestsstarfi þéttbýlisins að ekki skuli starfa djákni í þeim söfnuði sem ég þjóna, því verkefnin kalla á díakóníu. Djáknar koma ekki í stað presta og prestar ekki í stað djákna, heldur fer best á að þessir vígðu þjónar vinni vel saman. Vegna nýs þjóðkirkjufrumvarps og endurskoðun starfsreglna er framundan fínstilling kirkjustarfsins. Hlutverk kærleiksþjónustunnar verður að skoða í því samhengi.

Fleiri konur hafa hlotið djáknamenntun og fleiri kvenkyns djáknar eru að störfum. Það er því kynjahalli meðal djáknanna. Mér er í mun að staða kynja verði sem jöfnust í kirkjulegu starfi og á öllum stjórnstigum kirkjunnar. Ég hef enga einfalda lausn á hvernig eigi að jafna kynjahlutföll í stétt djákna en ég held að betri og skýrari starfsskilgreiningar og öryggi í ráðningarmálum muni efla djáknastéttina og jafna kynjahlutföll.

Jafnréttisstefnan kirkjunnar gildir í málum djákna eins og annarra í fangi kirkjunnar. Um leið og rætt er um kynjahlutföll innan einnar stéttar, er einnig vert að horft sé á kynjahlutföll í kirkjunni í heild sinni. Því er nauðsynlegt að framkvæmdaáætlun þeirri sem sett er fram í jafnréttisstefnunni sé fylgt, en þar segir m.a.:

Í Árbók kirkjunnar og á heimasíðu jafnréttisnefndar kirkjunnar verði birtar árlega upplýsingar um kynjahlutföll í nefndum, ráðum og stjórnum, sem þar eru birtar.

Eins og fleiri heyrði ég í bernsku um djákna í sögum og Myrkárdjákninn var kannski hvað ískyggilegastur. Djáknahlutverkið var því í barnshuganum einhvers konar handantilvera. Það var ekki fyrr en á fullorðinsárum að ég uppgötvaði merkingu kærleiksþjónustunnar. Jón Þorsteinsson stundaði nám í þeim fræðum í Osló og sagði mér frá. Svo heyrði til fleiri og sá til þeirra að störfum og heillaðist. Þegar heim kom var ég hugsi yfir þörfum kirkjunnar og störfum hennar. Ég var valinn sem fulltrúi guðfræðinema til setu á deildarfundum guðfræðideildar. Á þeim vettvangi lagði ég til að deildin tæki upp nám í kristinfræði til B.A. prófs og efndi einnig til djáknanáms. Kristinfræðin komst á laggir skömmu síðar en meðgöngutími djáknanámsins var lengri. Tími kærleiksþjónustu kirkjunnar fellur aldrei úr gildi en tími djákna er að koma. Mikilvægt er að biskup og allt forystufólk kirkjunnar styðji við frekari þróun díakóníunnar og uppbyggingu djáknastarfsins. Það er í samræmi við kærleiksboðskap Jesú Krists og þar með í þágu kirkjunnar.