Greinasafn fyrir merki: viska

Söngur þjóðar

IMG_5363Árið 1874 heimsótti konungur Dana Ísland til að fagna með Íslendingum á afmæli þúsund ára byggðar í landinu og til að afhenda frelsisskrá. Þá var haldin þjóðhátíð á Íslandi. Innblásin af skilum tímans orktu skáldin ljóð og hátíðakvæði.

En skáldprestinum Matthíasi Jochumssyni var ekki gleði í huga þegar kóngur kom. Honum og þjóð hans var margt mótdrægt. Hann hafði misst mikið í einkalífi sínu og var dapur raunamaður. Í lægingunn leitaði hann að einhverju til að lyfta sér upp á vængi morgunroðans, upp til trúar á land og framtíð. Þjóð hans var á tímamótum og leit til baka við þúsund ára afmæli Íslandsbyggðar og einnig fram á veg. Hvaða stef gætu hjálpað og orðið til eflingar? Matthías fletti Biblíunni sinni og las enn einu sinni í sálmasafninu í hjarta Gamla testamentisins sem kennt er við Davíð konung. Í 90. sálmi fann hann bæn guðsmannsins Móse. Og bænin tók hug hans. Í þessum gullsálmi segir:

Drottinn, þú hefur verið oss athvarf

frá kyni til kyns.

Áður en fjöllin fæddust

og jörðin og heimurinn urðu til,

frá eilífð til eilífðar ert þú, ó Guð.

Þú lætur manninn hverfa aftur til duftsins

og segir: „Hverfið aftur, þér mannanna börn.“

Því að þúsund ár eru í þínum augum

sem dagurinn í gær, þegar hann er liðinn,

já, eins og næturvaka…

Kenn oss að telja daga vora,

að vér megum öðlast viturt hjarta.

Kannastu við þessi stef? Getur verið að þau séu til í söng sem þú hefur heyrt eða sungið? Já, því versin urðu skáldinu til hressingar og eflingar og hann fékk frá þeim innblástur, andagift, til að semja sálm, Lofsöng, sem var svo sunginn í Dómkirkjunni í konungsmessunni árið 1874. Sveinbjörn Sveinbjörnsson samdi lagið sem er raunar tónverk. Síðar varð svo þessi lofsöngurað hinum rismikla þjóðsöng Íslendinga.

Samhengið

Matthías vissi vel að trúarlegt samhengi allrar sögu þjóðar, hópa og einstaklinga væri aðeins eitt, frumuppsprettan sjálf og takmark allrar sögu. “Drottinn, þú hefur verið oss athvarf frá kyni til kyns. Áður en fjöllin fæddust og jörðin og heimurinn urðu til … ert þú, ó Guð.” Þetta eru ekki glamuryrði fyrir hátíðarstund, heldur niðurstaða lífsreynslu einstaklinga og kynslóða. Hvert er haldreipið í myrkri og flókinni sögu, hvar hjálpin í hallæri, hvar sorgarléttir við dánarbeð og hvar skjól í lífsbyljunum? Hvar annars staðar en hjá gjafara allra gæða, sem réttir fram hendur áður en kreppir að.

“Frá eilífð til eilífðar ertu þú, ó Guð.” Guð hefur gefið þér – okkur öllum – fortíð, samhengi, áa og eddur, sögu til að lifa við og af, uppbyggingu kynslóða, heimaslóðir, uppvaxtaraðstæður en síðan óslökkvandi lífsþorsta, sem hefur orðið til að einstaklingar og fólk í þessu landi hafa fundið leið í gegnum kreppur.

Gjafir tímans og lífs

Það er Guð, sem gefur þér ástina til maka og barna, umhyggju, jarðargróða og viðurværi. “…þú hefur verið oss athvarf frá kyni til kyns.” Það er stórt samhengi og uppteiknað með fjöllum, heimi, þúsundum ára og afturhvarfi mannabarna í duftdyngju árþúsunda.

Þegar einstaklingshyggja vex, hið stóra samhengi menningar, þjóða og ættboga rofnar og fátt er annað eftir en hinn eini í einstaklingsleit í smáheimi sínum hljómar þessi texti hins stóra samhengis. Boðskapurinn er að þú ert ekki einn eða ein heldur hluti heildar. Þú ert ekki einn þinnar gerðar heldur hlekkur í stórri keðju ættar og kynslóða. Líf þitt er ekki aðeins þitt eigið heldur í tengslum og samhengi. Gegn sjálfhverfingu einstaklingsins talar hið víða sjónarhorn og stóra samhengi Guðs og eilífðarinnar.

Aðhaldið, stuðningur menningarinnar og félagsmótun kynslóðanna er ekki lengur sjálfsagt og einhlýtt samhengi uppvaxandi kynslóða. Ísland er ekki lengur eyland í menningarlegu tilliti, ekki lengur afkimi meðal þjóðanna. Nú erum við beintengd og nettengd inn í viðburði og vef veraldar.

Viskan

Kenn oss að telja daga vora, að vér megum öðlast viturt hjarta. Hvernig getur þú öðlast viturt hjarta? Hvað er að vera vitur? Þú mátt vita að þú hefur mikilvægu hlutverki að gegna í sögu og samtíð. Þú ert mikilvægur og mikilvæg gagnvart fólkinu þínu. Þú hefur hlutverki að gegna við uppeldi og við að gæta réttlætis í samfélaginu. Þú hefur mótttöku- og gestgjafahlutverki gagnvart nýbúum samfélags okkar. Þú ert vökumaður náttúrunnar og gagnvart stjórnum og þjónum samfélags. Guð kallar til réttlætis, til samfélags, til eðlilegrar dreifingar lífsgæða.

Og trúin

En hið stærsta samhengi og hið dýpsta einnig er samhengi trúarinnar. Ágústínus kirkjufaðir minnti á, að hjarta mannsins væri órótt uns það hvíldi í friði Guðs. Þú getur hlaupið í lífinu og unnið allan heiminn, en þó verið manna fátækastur og örmust ef þú ekki tekur mark á dýptum þínum. Svo er um þjóð okkar einnig. Hún getur átt “allan heiminn” en verið skínandi fátæk ef innri auður er rýr.

Þú ert ekki einn eða ein, þú ert í stóru samhengi, hlekkur í risakeðju kynslóða. Og samhengi alls er Guð sem færir allt til betri vegar. Guð gefur allt, gefur þér gáfur, eignir, forsendur og samhengi. Guð getur líka gefur frið. Guð þínn sem er athvarf frá kyni til kyns.

Íhugun í Hallgrímskirkju, 17. júní, 2015, kl. 16.

Þorbjörg Þórarinsdóttir – minningarorð

Þorbjörg Þórarinsdóttir2Þorbjörg var síðustu árin á leið heim, heim í Svarfaðardal, heim í fang þess fólks sem hafði elskað hana og hún hafði elskað. Þannig för á sér önnur rök en asaerindi daganna – og er eiginlega tákn um að lifa – gerninginn að lifa.

Ævi manns er ekki aðeins það að fara að heiman, menntast og sinna og ljúka hjúskparerindum og vinnuverkefnum lífins – heldur að lifa vel. Að fara heim er ekki aðeins að snúa til baka til bernskustöðva og vera þar við lok lífs – heldur er æviferðin leiðin heim – en svo er það lífslistarmál hvers og eins með hvaða hætti og í krafti hvers heimferðin er farin og hvernig.

Í 90. Davíssálmi segir:

“Drottinn, þú hefir verið oss athvarf frá kyni til kyns. Áður en fjöllin fæddust og heimurinn urðu til, frá eilífð til eilífðar ert þú, ó Guð. Þú lætur manninn hverfa aftur til duftsins og segir: “Hverfið aftur þér mannanna börn!” Því þúsund ár eru í þínum augum sem dagurinn í gær… …Kenn oss að telja daga vora, að vér megum öðlast viturt hjarta.”

Kynslóðir koma, kynslóðir fara – athvarf frá kyni til kyns. Bæir og byggð falla – eins og tjáð er í næturljóði úr Fjörðum. Börn fæðast og dreymir, vaxa úr grasi, öðlast vit til sjálfsbjargar eða ná aldrei þroska. Og ívaf allrar sögu er: “Hverfið aftur þér mannanna börn.” Sagan verður þykk þegar forgengileikinn er numinn og framlag manna er skoðað. Lofstýr manna lifir vissulega, en allt mannlegt er sem grasið eða blómgróðurinn, sem nú lifnar – “hverfið aftur…”

Hvað gerum við gagnvart því boði? Stöldrum við og biðjum bænina í þessu ljóði guðsmannsins Móse:

“Kenn oss að telja daga vora, að vér megum öðlast viturt hjarta?”

Ævistiklur

Þorbjörg fæddist á Tjörn í Svarfaðardal 6. mars árið 1914 og var elst systkina sinna. Kristján var næstur í röðinni, Hörtur sá þriðji og Petrína yngst.

Tíma má marka með ýmsu móti. Þorbjörg var nærri tíræðu þegar hún féll frá og nú þegar Tjarnarsystkinin eldri eru öll lýkur eiginlega aldarskeiði í lífi afkomenda Þórarins Eldjárn og Sigrúnar Sigurhjartardóttur á Tjörn.

Þorbjörg naut kennslu heima fyrstu árin enda pabbinn barnakennari. Svo fór hún inn á Akureyri og lauk þar gagnfræðaprófi frá Menntaskólanum. Síðan fór Þorbjörg einnig á hússtjórnarnámskið austur á Hallormstað.

Heima gekk Þorbjörg í öll verk – og móðursystir mín sagði mér – að Þórarinn hafi treyst Þorbjörgu dóttur sinni sem afleysingakennara þegar hann gat ekki sinnt kennnslu. Svo fór Þorbjörg suður og fór að vinna fyrir sér.

Heimurinn var að breytast, ekki bara að lokast heldur líka að opnast, á fjórða áratugnum. Eins og jafnaldrar hennar horfði Þorbjörg löngunaraugum út fyrir landsteina. Kristján, bróðir hennar fór utan til náms og þegar Þorbjörgu bauðst að fara til Danmerkur tók hún skrefið og var um tíma vinnukona á heimili íslensks sendiráðsstarfsmanns í Kaupmannahöfn. Hún varð vitni að innrás í Dannmörk. Og þá voru góð ráð dýr og amasöm. En þá sem oftar var hún á heimleið og komst með Esjunni í síðustu ferð, sem síðar var kennd við Petsamó. Þessi ferð heim var löng og krókótt, en hún sá Þrándheim og kom við í Skotlandi einnig og naut fjörmikils þröngbýlisins á leiðinni. Og alla leið komst hún.

Áratugurinn 1940-50 var fjölbreytilegur tími í lífi Þorbjargar. Hún hafði löngum huga við nál og handverk. Hún vann um tíma á saumastofu sem bar það rismikla nafn Gullfoss. Og þegar Myndlista- og handíðaskólinn var stofnaður stundaði Þorbjörg nám þar. Og svo kenndi hún einnig um tíma í húsmæðraskólanum á Laugarvatni.

Engum sögum fer af samdrætti þeirra Þorbjargar og Sigurgeirs Stefánssonar. En það hefur varla spillt að hann var Eyfirðingur, frá Kambfelli í Djúpadal. Þegar þau kynntust lauk fyrri hálfleik í lífi Þorbjargar og hinn seinni hófst. Árið 1950 markaði þennan seinni hluta. Það ár gengu þau Þorbjörg og Sigurgeir í hjónaband og Þórarinn fæddist þeim einnig. Arnfríður Anna kom svo í heiminn tveimur árum síðar.

Kona Þórarins er Anna Rögnvaldsdóttir. Þeirra sonur er Ragnar.

Maður Önnu er Ellert Magnús Ólafsson. Þeirra synir eru Þorgeir, Ómar og Arnar Magnús. Kona Ómars er Lára Orsinifranca.

Þorbjög og Sigurgeir hófu búskap á Seljavegi en fluttu síðar á Sólvallagötu 50. Þau keyptu húsið og gerðu upp. Meðan börnin voru ung stundaði Þorbjörg saumavinnu heima, tók á móti fólki sem vildi nýjar flíkur eða hafði séð falleg föt í erlendum tískublöðum. Þorbjörg var listamaður á sínu sviði og kunni líka að breyta gömlu í nýtt. Hún var fengin til að kenna í Námsflokkum Reykjavíkur að sauma upp úr gömlum fötum. Það var hagnýt endurvinnsla sem hún kunni vel. Um tíma vann Þorbjörg á samastofunni Model magazin og síðustu árin nýttist hæfni hennar á saumastofunni á þvottahúsi ríkissítalanna.

Saumsporin hennar nýttust því mörgum í tæpri stöðu.

Þegar aldur færðist yfir seldu þau Þorbjörg húsið á Sólvallagötu og fluttu í Hafnarfjörð. Þau keyptu íbúð í sama húsi og Anna og Ellert og höfðu gleði og gagn af sambýlinu og nut samskipta við afkomendur sína. Þar bjuggu þau þar til Sigurgeir féll frá og Þorbjörg þar til hún flutti vegna heilsubrests í Víðines. Ævigöngunni lauk hún svo í Mörkinni þar sem hún lést.

Við þessi tímamót hafa Páll og Árni synir Stefáns og Petrinu beðið fyrir kveðju frá þeim og fjölskyndum þeirra.

Viturt hjarta

“Kenn oss að telja daga vora, að vér megum öðlast viturt hjarta.” Hvað er viska? Það er viska að bera virðingu fyrir lífi og lifendum. Það er viturlegt að lifa og lifa vel. Það er mikilvægt að nýta sér gleðiefnin til skemmtunar og vera sterkur hlekkur í keðju kynslóða.

Hvernig var Þorbjörg? Hvernig mannstu hana? Já, hún ar hógvær, ljúf, lítillát, traust, skörp, minnug í níutíu ár, trygg, hjálpsöm, bóngóð, skemmtileg.

Gleymdi ég einhverju? Hún var natin við fólkið sitt, ömmstrákana, umburðarlynd, tillitssöm en líka ákveðin, fróðleiksfús, söngvin, listræn.

Eitthvað fleira? Já, raunar margt. Þú mátt gjarnan bæta í sjóðinn og til þess eru erfidrykkjur góðar. Þar má halda ræður og ykkur Tjarnarfólki verður ekki orða vant ef þið viljið kveða ykkur hljóðs! En mér eru skorður settar og ég virði þann vilja Þorbjargar að umsagnir um hana verði ekki sem vorflóð.

Hún var á heimferð – á leið heim – norður. Fjöllin á Tröllaskaga eru dásamleg og laða. Austurlandsfjöllin handan fjarðar blasa við frá Tjörn og allur fjallahringurinn gælir við augu, Vallafjall, Rimar, Skíðadalsfjöllin með jökuglennu og svo Stóllinn, sem er sannkölluð augnhvíla, hvaðan sem hann er litinn.

Og við sem höfum gengið fjöllin ofar Tjörn vitum hve vel staðurinn er í sveit settur. En Tjörn var og er reitur fyrir líf, ræktun, menningarstarf og virðingu fyrir lífinu. Því get ég tjáð fyrir mína hönd og margra þökk Tjarnarfólki fyrr og síðar fyrir lífsrækt þess. Þau Tjarnarsystkin voru til fyrirmyndar. Þökk sé þeim og Þorbjörgu. Nú er öld lokið. Og Þorbjörg á leið heim.

Ágústínus kirkjufaðir minnti á að lífsgangan er sveigur, Guðssveigur. Hvaða leið sem við förum, hvaða fjöll sem við klífum og hvaða blóm sem við lútum að eru lok – og við hverfum í faðm eilífðar.

Þorbjörg saumar engin spor framar eða brosir við gæðum og góðu fólki. Hun sönglar enga sálma lengur nema þá í einhverjum öflugum Tjarnarkór himinsins. Hún rifjar ekki upp fótraka bernskunnar en kannski öslar hún í einhverju himnesku fergini sem skrjáfar í með eilífðarlagi. Og hvar er heima? Við notum minningar, líðan, fjöll og orð til að túlka heimþrá, djúpsetta löngun – og því getur vísuorð fangað vel. „Hann er öndvegi íslenskra dala“ er ekki aðeins hnyttin tilraun til að fanga líðan eða afstöðu heldur líka staðsetningu á korti förumanns um veröld á leið inn í eilífðina. Tjörn, dalur, fjallafaðmur, – það er heima – en líka áfangi, tákn um hið stærra, stóra, mesta. Nú er Þorbjörg farin heim – heim í Tjörn himinsins.

Guð geymi Þorbjörgu um alla eilífð.

Guð blessi þig.

Amen

Minningarorð við útför sem gerð var frá Fossvogskapellu 28. febrúar 2013.