Greinasafn fyrir merki: þjóðsöngur

Söngur þjóðar

IMG_5363Árið 1874 heimsótti konungur Dana Ísland til að fagna með Íslendingum á afmæli þúsund ára byggðar í landinu og til að afhenda frelsisskrá. Þá var haldin þjóðhátíð á Íslandi. Innblásin af skilum tímans orktu skáldin ljóð og hátíðakvæði.

En skáldprestinum Matthíasi Jochumssyni var ekki gleði í huga þegar kóngur kom. Honum og þjóð hans var margt mótdrægt. Hann hafði misst mikið í einkalífi sínu og var dapur raunamaður. Í lægingunn leitaði hann að einhverju til að lyfta sér upp á vængi morgunroðans, upp til trúar á land og framtíð. Þjóð hans var á tímamótum og leit til baka við þúsund ára afmæli Íslandsbyggðar og einnig fram á veg. Hvaða stef gætu hjálpað og orðið til eflingar? Matthías fletti Biblíunni sinni og las enn einu sinni í sálmasafninu í hjarta Gamla testamentisins sem kennt er við Davíð konung. Í 90. sálmi fann hann bæn guðsmannsins Móse. Og bænin tók hug hans. Í þessum gullsálmi segir:

Drottinn, þú hefur verið oss athvarf

frá kyni til kyns.

Áður en fjöllin fæddust

og jörðin og heimurinn urðu til,

frá eilífð til eilífðar ert þú, ó Guð.

Þú lætur manninn hverfa aftur til duftsins

og segir: „Hverfið aftur, þér mannanna börn.“

Því að þúsund ár eru í þínum augum

sem dagurinn í gær, þegar hann er liðinn,

já, eins og næturvaka…

Kenn oss að telja daga vora,

að vér megum öðlast viturt hjarta.

Kannastu við þessi stef? Getur verið að þau séu til í söng sem þú hefur heyrt eða sungið? Já, því versin urðu skáldinu til hressingar og eflingar og hann fékk frá þeim innblástur, andagift, til að semja sálm, Lofsöng, sem var svo sunginn í Dómkirkjunni í konungsmessunni árið 1874. Sveinbjörn Sveinbjörnsson samdi lagið sem er raunar tónverk. Síðar varð svo þessi lofsöngurað hinum rismikla þjóðsöng Íslendinga.

Samhengið

Matthías vissi vel að trúarlegt samhengi allrar sögu þjóðar, hópa og einstaklinga væri aðeins eitt, frumuppsprettan sjálf og takmark allrar sögu. “Drottinn, þú hefur verið oss athvarf frá kyni til kyns. Áður en fjöllin fæddust og jörðin og heimurinn urðu til … ert þú, ó Guð.” Þetta eru ekki glamuryrði fyrir hátíðarstund, heldur niðurstaða lífsreynslu einstaklinga og kynslóða. Hvert er haldreipið í myrkri og flókinni sögu, hvar hjálpin í hallæri, hvar sorgarléttir við dánarbeð og hvar skjól í lífsbyljunum? Hvar annars staðar en hjá gjafara allra gæða, sem réttir fram hendur áður en kreppir að.

“Frá eilífð til eilífðar ertu þú, ó Guð.” Guð hefur gefið þér – okkur öllum – fortíð, samhengi, áa og eddur, sögu til að lifa við og af, uppbyggingu kynslóða, heimaslóðir, uppvaxtaraðstæður en síðan óslökkvandi lífsþorsta, sem hefur orðið til að einstaklingar og fólk í þessu landi hafa fundið leið í gegnum kreppur.

Gjafir tímans og lífs

Það er Guð, sem gefur þér ástina til maka og barna, umhyggju, jarðargróða og viðurværi. “…þú hefur verið oss athvarf frá kyni til kyns.” Það er stórt samhengi og uppteiknað með fjöllum, heimi, þúsundum ára og afturhvarfi mannabarna í duftdyngju árþúsunda.

Þegar einstaklingshyggja vex, hið stóra samhengi menningar, þjóða og ættboga rofnar og fátt er annað eftir en hinn eini í einstaklingsleit í smáheimi sínum hljómar þessi texti hins stóra samhengis. Boðskapurinn er að þú ert ekki einn eða ein heldur hluti heildar. Þú ert ekki einn þinnar gerðar heldur hlekkur í stórri keðju ættar og kynslóða. Líf þitt er ekki aðeins þitt eigið heldur í tengslum og samhengi. Gegn sjálfhverfingu einstaklingsins talar hið víða sjónarhorn og stóra samhengi Guðs og eilífðarinnar.

Aðhaldið, stuðningur menningarinnar og félagsmótun kynslóðanna er ekki lengur sjálfsagt og einhlýtt samhengi uppvaxandi kynslóða. Ísland er ekki lengur eyland í menningarlegu tilliti, ekki lengur afkimi meðal þjóðanna. Nú erum við beintengd og nettengd inn í viðburði og vef veraldar.

Viskan

Kenn oss að telja daga vora, að vér megum öðlast viturt hjarta. Hvernig getur þú öðlast viturt hjarta? Hvað er að vera vitur? Þú mátt vita að þú hefur mikilvægu hlutverki að gegna í sögu og samtíð. Þú ert mikilvægur og mikilvæg gagnvart fólkinu þínu. Þú hefur hlutverki að gegna við uppeldi og við að gæta réttlætis í samfélaginu. Þú hefur mótttöku- og gestgjafahlutverki gagnvart nýbúum samfélags okkar. Þú ert vökumaður náttúrunnar og gagnvart stjórnum og þjónum samfélags. Guð kallar til réttlætis, til samfélags, til eðlilegrar dreifingar lífsgæða.

Og trúin

En hið stærsta samhengi og hið dýpsta einnig er samhengi trúarinnar. Ágústínus kirkjufaðir minnti á, að hjarta mannsins væri órótt uns það hvíldi í friði Guðs. Þú getur hlaupið í lífinu og unnið allan heiminn, en þó verið manna fátækastur og örmust ef þú ekki tekur mark á dýptum þínum. Svo er um þjóð okkar einnig. Hún getur átt “allan heiminn” en verið skínandi fátæk ef innri auður er rýr.

Þú ert ekki einn eða ein, þú ert í stóru samhengi, hlekkur í risakeðju kynslóða. Og samhengi alls er Guð sem færir allt til betri vegar. Guð gefur allt, gefur þér gáfur, eignir, forsendur og samhengi. Guð getur líka gefur frið. Guð þínn sem er athvarf frá kyni til kyns.

Íhugun í Hallgrímskirkju, 17. júní, 2015, kl. 16.