Greinasafn fyrir merki: Þegar fennir í sporin

Ástríki

Róbert, prestur, kom til Íslands í fyrsta sinn eftir fjörutíu og fjögur ár erlendis til að jarðsyngja vinkonu sína. Saga hans og vina hans er um leitina að merkingu, hamingju, tengslum, sambandi og ást. Enginn er dæmdur í þessari sögu heldur eru mismunandi aðstæður fólks túlkaðar af hispurslausri mannúð. Í henni er hlý mýkt þótt söguhetjurnar hafi gert margt misjafnt í aðkrepptum aðstæðum.

Bókin er ástrík. Hún  er margþátta spennusaga en líka þroskasaga og glæpasaga. Flækjan er þétt. Allt á sér samhengi og aðrar og dýpri skýringar en hinar yfirborðslegu. Fjölskyldan á Sóleyjargötunni er væn og heimilið athvarf vinum dótturinnar á heimilinu. Bernska vinanna var erfið. Annar hafði misst föður og hinn fór á mis við pabba. Föðurleysið í sorg eða fjarveru er eitt af íhugunarstefjum þessarar bókar. Við Njarðargötu býr þýsk móðir annars vinanna og með mörg leyndarmál, mikla upphafssögu og líka ástarsögu. Svo er það MR, JB-vískí menntaskólaáranna og mótun í flóknum og ógnandi aðstæðum. Miðbæjarlífið var og er alls konar. Framtíð ungmennannan mótaðist af ytri og innri rökum. Einn fór eftir stúdentsprófið til náms í kaþólskum prestaskóla í München, annar í lögfræði og ein í listnám. Svo eru sögur allra listilega fléttaðar saman. Sagan er að sumu leyti menningarsaga Reykjavíkur í hálfa öld.

Mér þótti áhugavert að fylgjast með söguhetjunum fara um Þingholtin, á Sóleyjargötu, í hús við Njarðargötu, í kirkjur bæjarins og líka Hallgrímskirkju. Þau fóru í ferðir að styttum bæjarins. Vera klerksins í Heidelberg færði lykt af rósum í vit mín og minningar frá skóladögum hrísluðust um mig þegar ég reyndi að staðsetja prestinn í samhengi þeirrar dásamlegu borgar. Eldamennska kemur oft við sögu og skemmti matmanninum en svo urðu afkomendur kokkanna vegan! Vínþekking er orðinn fasti í íslenskum bókum og svo er í þessari líka það ríkulegur húmor að sommelierinn skýrir út bragðgæði appelsíns og malts jólanna.  Miðbæjarlýsingar eru okkur hagvönum í þessum hluta Reykjavíkur gleðigjafar. Göturnar eru þræddar, farið um Hljómskálagarð, Hólavallagarð, að Köllunarstyttunni við Landakotskirkju og Pomona skoðuð í Einarsgarði, kaffihúsin nýtt í Miðbænum sem og skautasvellið á Ingólfstorgi.

Eftir „fjörutíuogfjögur“ ár kemur klerkur svo „heim “ – til baka til að embætta en líka kveðja vinkonu sína, leita að svörum og gera upp. Við kynnumst persónum í gegnum bréfin sem gengu á milli og smátt og smátt opnast stór og mikil saga, mikil leyndarmál, djúptæk átök, miklar tilfinningar og flókin örlög sem eru túlkuð og skýrð. Vel mótaðar persónur og eðlileg viðbrögð þeirra í ólíkum hlutverkum sem smellpassa.

Sagan fór vel af stað og hreif. Ég undraðist hvernig hverju laginu á eftir öðru var svipt frá og óvæntar víddir opnuðust og skýrðu jafnframt af hverju það gerðist sem fyrr var kynnt í bókinni. Sem besti reyfari hélt sagan spennu allt til enda. Síðustu blaðsíðurnar galopnuðu, flækjan gekk upp, púslið lagði sig og heildarmyndin blasti við og öðru vísi en búast mátti við.

Þetta er saga um ást. Útleitandi ást og innleitandi líka. Ástarsókn einstaklinga er vel teiknuð og líka þessi þvert á mæri. Svo er ást Guðs einn af ástarþráðum sögunnar. Manneskjan verður ekki bara til við mök heldur í flóknum vef samskipta. Samskipti eiga sér einnig mörk. Sum eru brotin í þessari sögu og þá verða átök, blóð rennur og sorglegir atburðir verða. Slíku tengist þögn, hylming, ótti, kaupskapur, misnotkun, ofbeldi, þjónusta, fyrirgefning og önnur stórstef mennskunnar og þar með kristninnar. Óvæntasta bók ársins sem ég mæli með. Bókaútgáfan Ástríkur gefur út þessa ástríku bók. Til hamingju Steindór Ívarsson. Ég bíð eftir næstu bók.