Greinasafn fyrir merki: Moritz Halldórsson

Moritz og englaverksmiðjan

Moritz Halldórsson var mér huldumaður. Ég hafði aldrei heyrt um hann og aldrei rekist á hann í sagnfræðigrúski mínu. Og hef þó lesið tugi þúsunda blaðsíðna um íslenska sögu seinni hluta nítjándu aldar og byrjun þeirrar tuttugustu sem og sögu íslenskra vesturfara í Kanada og Dakóta.

Konan mín las nýjustu bók Ásdísar Höllu Bragadóttur og allt í einu kom Moritz í mitt hús og með talsverðum látum. Ég náði ekki miklu sambandi meðan hún var að lesa en fékk þó að vita að Moritz hefði verið sonur Halldórs Friðrikssonar í Lærða skólanum og hinnar dönsku konu hans. Halldór var vissulega einn af helstu frömuðum mennta og menningar Reykjavíkur seinasta aldarfjórðung nítjándu aldar. Ég mundi eftir að garðurinn hans – eða öllu heldur konu hans – var keyptur þegar bygging Alþingishússins var undirbúin. En Moritz? Hver var hann og hvað varð um hann? Svo þegar ég náði sambandi sagði kona mín mér að þetta væri stórmerkileg saga um líf og harmsögu Moriz sem hefði farið utan og lært til læknis og praktíserað í Kaupmannahöfn. Hann hefði svo verið dæmdur til fangavistar fyrir aðild að fóstureyðingu og tengst stofnun sem reyndist vera englaverksmiðja – aftökustöð barna. Já, þetta hljómaði dramatískt og ég undraðist – raunar furðaði mig á – að ég hefði ekki heyrt söguna fyrr. En það voru ástæður, saga þessa fólks var þögguð niður, hún var svo rosaleg.

Þegar kona mín var búin að lesa settist ég við á nýjum morgni nýs árs 2022 og las bókina í einum rykk meðan nýársveðrið gekk yfir og bann var við helgihaldi og mannfundum. Sagan byrjaði hratt, var svo listilega skrifuð að eiginlega var ekki hægt að leggja hana frá sér. Menningarþróun á Íslandi og í Danmörk er vel spegluð og túlkuð. Heimildavinnan er aðdáunarverð og dramatískt líf Moritz ber svo sannarlega uppi fléttuna og söguna um hann og ástvini hans. Við fáum að kynnast þróun Kaupmannahafnar og pólitískum átökum sem ég vissi talsvert um. Svo fáum við innsýn í þróun vændis og fóstureyðinga sem og þróun fangelsismála sem ég vissi minna um en er mikilvægt til að skilja framvindu og líf fólks. Hvað áhugaverðast er að í sögunni er spegluð og túlkuð vel staða kvenna og hvað var til bragðs fyrir þungaðar konur. Staða Jóhönnu, konu Moritz, var ekki einföld en hún var stöndug eiginkona sem brást við áföllum sem hetja. Ég las með áfergju, grét með Moritz og Jóhönnu á fangelsistímanum og fylgdist svo með þeim vestur um haf að reyna að koma sér fyrir í landi sem þau voru hrakin til. Draugar fortíðar fylgdu þeim. Áföllin hverfa ekki si svona, leysast ekki upp og lífið verður sjaldnast einfaldara hinum megin úthafsins. Grasið er ekki grænna hinum megin. Lífið í smábæ í Dakota var öðru vísi en í Kaupmannahöfn eða Reykjavík en aldrei einfalt. Saga Ásdísar Höllu er stórsaga, gæðabók. Mæli með henni. Takk Ásdís Halla.

Læknirinn í Englaverksmiðjunni. Saga Moritz Halldórssonar. Eftir Ásdísi Höllu Bragadóttur, Veröld 2021