Greinasafn fyrir merki: Hallgrímur Smári Jónsson

Jóhanna og Hallgrímur

Börn Jó­hönnu Berg­mann og Hall­gríms Smára Jóns­son­ar komu þeim á óvart á gull­brúð­kaups­dag­inn þeirra. Jó­hanna og Hall­grím­ur voru gef­in sam­an í hjóna­band í Hall­gríms­kirkju 20. sept­em­ber ár­ið 1969 eða fyr­ir fimm­tíu ár­um. Á þeim tíma var ekki bú­ið að taka nú­ver­andi kirkju í notk­un held­ur sögðu þau já-in sín í kapellunni þar sem nú er kórinn. 50 ár­um síð­ar tóku tvö börn þeirra sig til og bjuggu til óvissu­dag fyr­ir for­eldra sína sem byrj­aði með heim­sókn í spa og dekri. For­eldr­arn­ir höfðu enga hug­mynd um hvað gert yrði en treystu börn­um sín­um full­kom­lega. „Eft­ir veislu­mat í há­deg­inu var hald­ið af stað og far­ið upp á Skóla­vörðu­holt og inn í and­dyri kirkj­unn­ar en þar beið þeirra skrýdd­ur prest­ur. Þá fóru þau að hlæja og gerðu sér grein fyr­ir að heim­sókn­in í kirkj­una væri ann­að og meira en að kíkja í kirkj­una og minna á að í kórn­um hefðu þau nú ver­ið gift,“seg­ir Sig­urð­ur Árni Þórð­ar­son, prest­ur í Hall­gríms­kirkju.

„Gull­hjón­in, börn­in þeirra, af­kom­end­ur og vin­ir kveiktu á kert­um við kirkju­inn­gang. Prest­ur­inn spurði hvort þau vildu halda áfram að elska hvort ann­að og efla. Og þau sögðu já, já. Tár komu á hvarma allra sem voru við­stadd­ir og áð­ur en yf­ir lauk var þetta orð­in fimm klúta gleði­við­burð­ur,“ seg­ir hann.

Jó­hanna seg­ir að þetta hafi ver­ið skrít­inn en stór­skemmti­leg­ur dag­ur sem kom þeim hjón­um mik­ið á óvart. Þetta var óvissu­ferð hjá börn­un­um sem varð að dá­sam­leg­um degi. Þau voru bú­in að und­ir­búa dag­inn ótrú­lega vel og allt gekk upp. „Barna­börn­in sungu fyr­ir okk­ur en við eig­um tvö börn, tengda­börn og fjög­ur barna­börn. Einnig var syst­ir manns­ins míns og dótt­ir henn­ar þarna. Mér fannst voða skrít­ið að sjá þær í kirkj­unni og varð ekki síð­ur undr­andi þeg­ar séra Sig­urð­ur birt­ist í full­um skrúða,“seg­ir Jó­hanna og hlær. „Við hjón­in vor­um ekki með nein­ar svona hug­leið­ing­ar. Vin­kona mín og mað­ur henn­ar end­ur­nýj­uðu heit­in á Flórída og við töl­uð­um um hvað það væri snið­ugt. Senni­lega hafa börn­in heyrt það úr því þau tóku upp á þessu. Ég mæli hundrað pró­sent með end­ur­nýj­un á heit­inu, þetta var eins og brúð­kaups­dag­ur, allt svo flott,“seg­ir hún. „Þeg­ar við geng­um inn í kirkj­una réttu barna­börn­in mér brúð­ar­vönd. Hann var ná­kvæm eft­ir­lík­ing af brúð­ar­vend­in­um sem ég bar á brúð­kaups­deg­in­um fyr­ir fimm­tíu ár­um. Einnig var brúð­ar­t­erta á borð­um hjá dótt­ur minni eft­ir at­höfn­ina í kirkj­unni,“seg­ir Jó­hanna en það voru ekki bara tár á hvörm­um fjöl­skyld­unn­ar þenn­an dag held­ur einnig túrista sem voru að skoða kirkj­una.

Hall­grím­ur Smári, var fyrsta barn­ið sem skírt var í ný­vígðri Hall­gríms­kirkju ár­ið 1949. Þess vegna fékk hann Hall­gríms­nafn­ið. Svo naut hann kirkj­unn­ar þeg­ar hann gekk í hjóna­band. Jó­hanna rifj­aði upp dag­inn, við vígsluna og hló þeg­ar minn­ing­arn­ar þyrl­uð­ust upp. „Það var dá­sam­legt að kveðja þau við kirkju­dyrn­ar.“

Fréttablaðið 26. október 2019.