Greinasafn fyrir flokkinn: Greinar og pistlar

Pistlayfirlit er aðgengilegt á trú.is. Þá er talsvert af pistlum einnig á sigurdurarni.annall.is

Breytingaskeið

Hvaða breytingar verða í kirkjunni? Ekki bylting heldur er sígandi lukka best. Allar breytingar þurfa að miða að því að kirkjan geti rækt betur hlutverk sitt sem er að boða fagnaðarerindið um Jesú Krist og að vera ljós og salt í heiminum. Þetta á bæði við kirkjuna á landsvísu og í söfnuðunum.

Til að biskup geti verið andlegur leiðtogi þarf að létta af embættinu þunga sem hlýst af umsýslu tengdri framkvæmdastjórn kirkjunnar. Stjórnsýsla kirkjunnar hefur ekki verið eins gegnsæ og skilvirk og æskilegt væri. Biskupsstofa á að verða þjónustumiðstöð kirkjunnar allrar. Við þurfum líka að vera vakandi fyrir því sem getur greitt götu fagnaðarerindisins heima í héraði og ráðast í breytingar á skipulagi þar.

 

Börn og líf í forgang

Málefni ungs fólks eru forgansmál kirkjunnar. Til að kirkjan eigi sér framtíð þarf æskulýðsstarf að vera forgangsstarf þjóðkirkjunnar, flaggskip kirkjunnar. Öflugt barna- og unglingastarf, byggt á nærveru og boðskap Jesú Krists, byggir upp og styður ungt fólk, uppalendur og fjölskyldur. Auka þarf þátttöku fólks í kirkjustarfi og styrkja lýðræði. Traust til þjóðkirkjunnar hefur minnkað síðustu ár. Kirkjan á að heyra gagnrýni, gera upp og vera traustsins verð. Biskup þjóðkirkjunnar á að beita sér fyrir að kirkjan sé öruggt og gott samfélag. Biskupi ber að ganga erinda friðar og leiða kirkjuna með gestrisni og til sátta en þó án þess að kirkjan tapi stefnu sinni.

Hlutverk biskups?

Margar spurningar hljóma þessa dagaa um kirkjuna og biskupsþjónustuna. Ein þeirra er: “Hvert er að þínu mati hlutverk Biskups Íslands?” Þessari spurningu má auðvitað svara með ýmsu móti. En meginmálið er, að biskup er fyrst og fremst prestur. Hann er prestur prestanna – en líka prestur þjóðarinnar. Sem prestur prestanna lítur hann til með söfnuðunum, starfi þeirra, kenningu, starfsfólki og þjónustu. Biskupinn á að veita athygli, sjá og veita tilsjón bæði fólki og lífsháttum þess í kirkjusamhengi.

Andardráttur trúarinnar er bænin og öll kirkjuþjónusta þarf að lifa í bæn. Mikilvægur þáttur biskupsþjónustunnar er fyrirbæn – fyrir kirkjunni og lífi hennar. Sem prestur þjóðarinnar er biskupinn fyrirmynd og leiðtogi í bæn og boðun.

Trúarleg leiðsögn felst m.a. í að prédika á stórum stundum í lífi þjóðarinnar og túlka meiningu trúar í samtíð okkar og benda til vegar. Til að sinna hlutverki andlegs leiðtoga þarf að létta af biskupsembættinu hlutverki framkvæmdastjóra kirkjunnar. Biskup á að vera kirkjubiskup fremur en stjórnsýslubiskup. Kristinn maður lifir í vídd himins en einnig í vídd tímans. Kirkjunni er ætlað að miðla ást Guðs. Biskup á m.a. að vera fús til samtals og að vera virkur þátttakandi í menningarþróun.

Ríkar kröfur eru gerðar til að biskup hlúi með natni og alúð að prestum, djáknum, starfsfólki og ábyrgðarfólki kirkjunnar. Til að kirkjan geti sinnt vel uppbyggingarstarfi þarf að byggja upp starfsfólk kirkjunnar. Biskup á að vera þolgóður græðari. Biskupi ber ekki aðeins að beita sér fyrir eflingu kirkjustarfs, heldur einnig að reyna að lækna sár, sem myndast hafa á líkama kirkjunnar og í samskiptum fólks.

 

Sextíu ár í sóknarnefnd!

Magnús Annasson er búinn að vera í sóknarnefnd í um sextíu ár og þar af formaður sóknarnefndar í 25 ár. Nú lýkur hann ferli sínum í þjónustu Tjarnakirkju og safnaðar á Vatnsnesi með því að kjósa biskup. Hann segir að þetta sé orðið alveg nóg hjá sér.

“Þetta er allt í lagi hjá þér” sagði hann brosandi þegar hann veifaði bréfi mínu til kjörmanna, sem hann hafði fengið fyrr um daginn. Hann rifjaði upp kirkjulífið á Tjörn, mannlífið og kynni sín af prestum og líka biskupum. Hann mundi eftir Ásmundi Guðmundssyni, síðan hafði Sigurbjörn Einarsson vísiterað og svo taldi hann biskuparöðina inn í nútíma. En Sigurbjörn hafði komið aftur – þá í einkaheimsókn. Hann hafði verið í Tjarnarkirkju einn daginn þegar dyr voru opnaðar, maður kom inn og bauð góðan daginn. Hann þekkti komumann og fagnaði honum, þar var Sigurbjörn kominn og hans fólk – á ferð um Norðurland. Það birti yfir Magnúsi þegar hann sagði frá.

Magnús talaði um Tjarnarkirkju, um þá merku presta Sigurð Norland og Róbert Jack, um gripi, alaristöfluna. Og svo væri nú nauðsynlegt að laga veggfóðrið á einum stað! Hann var búinn að minna sitt fólk á það. Nú sagði hann að aðrir tækju við. Hann væri búinn með sinn tíma, vissi ekki hvort honum entist aldur til að kjósa. Öll höfum við hlutverk í ríki Guðs í veröldinni.

Magnús hefur skilað góðu dagsverki. Kirkjan á honum mikið að þakka og vert væri að orða hann, sæma hann kirkjulegri orðu við lok ferils hans. Kirkjan þarf að temja sér að sjá, meta og tjá virðingu. Mér var þakklæti í hug þegar ég gekk út frá Magnúsi Annassyni, þakklæti fyrir umhyggju hans fyrir velferð kirkjunnar, fyrir þolgæði hans og andlegt örlæti. Ný kynslóð axlar nú ábyrgð í kristnilífinu á Vatnsnesi. Gott þú góði trúi þjónn – fyrirmynd okkur hinum um þjónustuafstöðu. Við erum öll hlekkir í þjónustufesti kristni Íslands og heims.