Kyndilmessa

Við tendrum ljós á kyndilmessu. Ljós fyrir Guð sem gefur ljósið, ljós fyrir Maríu, guðsmóðurina, ljós fyrir Guðssoninn sem er kominn og ljósið lýsir fyrir öll þau er leita heimsljóssins. Ljósið er okkur öllum tákn um samhengi lífsins og að við lifum í ljósinu.

En kyndilmessa í hinum vestræna heimi er líka veðurdagur og spádagur um árferði. Groundhogday er slíkur dagur vestan hafs og meðal germanskra þjóða er víða spáð í veður sbr. húsgangurinn:

Ef í heiði sólin sést 

á sjálfa kyndilmessu, 

vænta snjóa máttu mest 

maður uppfrá þessu.

En kyndilmessa er ekki aðeins spádagur um veðurfar næstu mánaða, snjóalög eða vorkomu heldur dagur ljóssins. Í hinu kristna túlkunarsamhengi er kyndilmessa fjörutíu dögum eftir jól. Þar er rammi í kristninni, sem á sér reyndar mun eldri rætur í hreinsunarreglum hins hebresk-gyðinglega samfélags. Fjörutíu dagar voru mæðraorlof kvenna í Palestínu við upphaf hins kristna tímatals. Þá fóru foreldrar nýbura upp til Jerúsalem til að fara í musterið og tákna helgun, þökk og gleði yfir hinu unga lífi. Í sagnasveignum um Jesú er djúpfögur saga um Maríu og Jósef sem fóru upp til Jerúsalem til musterisferðar vegna fæðingar Jesúbarnsins. Þar hittu þau ekki bara prestana heldur líka aldurhnigið fólk sem var fannst gott að vera í guðshúsinu. Anna Fanúelsdóttir var ein þeirra og Símeon annar. Símeon hafði notið þeirrar vitrunarvisku að hann skyldi ekki fara af heimi fyrr en hann hefði séð Messías. Þegar María og Jósef komu tók Símeon sveininn í fangið og hóf upp lofsönginn sem kenndur er við Símeon. „Nú lætur þú, Drottinn, þjón þinn í friði fara eins og þú hefur heitið mér því að augu mín hafa séð hjálpræði þitt, sem þú hefur fyrirbúið í augsýn allra lýða, ljós til opinberunar heiðingjum og til vegsemdar lýð þínum Ísrael.“ Þessi gjörningur var undarlegur og vakti furðu foreldranna.

Kyndilmessa, candlemas, er ljóshátíð. Ljós voru kveikt og voru notuð sem tákn á föstutímanum sem fer í hönd. Ljósin voru gjarnan helguð og blessuð á þessum tíma. Ljósin minna á ljós heimins, Jesú Krist sem kom og kemur. Hinum megin föstu verður svo borið ljós í hlið himins þegar páskarnir koma, tákn um að dauðinn dó en lífið lifir.

María bar barnið í musterið. Aldraða fólkið söng Guði dýrð og vitnaði um framtíðina. Ljósið var komið í heiminn. Kyndilmessa er fyrir ljóskveikingu. Tákn um ljósið sem Guð gefur.

Fyrir nokkrum árum sagaði ég niður mörg tré og gerði úr einu þeirra nokkra kyndla. Meðfylgjandi mynd er af einum.

Hugleiðing um Símoen og heimsljósið er að baki þessari smellu. https://www.sigurdurarni.is/2012/12/30/stora-upplifun/