Jóhann Axelsson – minningarorð

Jóhann laðaði að sér fólk. Þar sem hann fór hafði hann áhrif og jafnvel smitaði frá sér hlýju út í mannlífið. Jóhannsáran var slík – og svo sterk. Það var gaman að fylgjast með Jóhanni þegar hann kom á kaffihús. Við urðum mörg vitni að áhrifum hans þegar hann kom á Torgið í Neskirkju meðan þar var hverfiskaffihús. Hið sama varð á Kaffi-Vest við Hofsvallagötu. Þegar Jóhann kom inn breyttist eitthvað. Hann gekk frá kaupum við afgreiðsluskenkinn, settist svo niður, horfði í kringum sig, brosti lítillega en hlýlega og þá byrjaði undraferli. Fyrr en varði kom einhver til hans og gjarnan settist svo niður. Jóhann hlustaði af athygli, sagði nokkrar setningar og fékk bros að launum. Svo komu fleiri og fyrr en varði bættist í hópinn og allt í einu var Jóhann orðinn möndull eða miðja kaffishússins, kraftuppsretta gleðinnar, sögumaðurinn, sjarmörinn og fræðaþulurinn. Jóhann brosti svo óáreitið en umvefjandi og hlýlega – eins og við sjáum framan á sálmaskránni. Hann hafði mikla útgeislun, kraft í sjálfum og bræddi auðveldlega klakann á mannshjörtunum. Honum var svo mikið gefið. Hann hefði getað orðið uppistandari, slík var sagnagetan og húmorinn. Hann hefði vísast geta lagt listmálun fyrir sig því áhuginn, greiningargetan og frumlegheitin voru nægileg til að skapa stórvirki. Hann var sagnamaður af Nóbeltaginu og samfara nákvæmni, öguðum einfaldleika og spunagetu hefði getað þroskast sem öflugur rithöfundur. Það er eiginlega dapurlegt að Jóhann skyldi ekki hafa skrifað prósa heldur aðeins vísindagreinar þar sem ekki var pláss fyrir mörg orð og loftfimleika andans. En hann var raunvísindamaður á heimsmælikvarða. Það nægir. Drengurinn norðan úr myrkri Íshafsins var svo margt. Mjór vísir af heimsenda varð allt annað og meira en búast mátti við af honum sem veikburða barni. Hann varð fulltrúi allra þeirra sem eru miklir af sjálfum sér. Vöggugjöf Jóhanns var ekki staða, kjöraðstæður eða ríkidæmi heldur hæfileikar og vilji til gæða. Hið ytra og aðstæður voru engin forgjöf heldur rammi til að stæla. Saga Jóhanns Axelssonar er eiginlega í samræmi við hina klassísku hetjusögu. Eins og sagt var fyrrum um hina bestu menn: Ingenio ad magna nato – borinn til stórvirkja.

Jóhann fædist inn í sumarbirtuna Alþingisárið 1930, nokkrum dögum eftir gleðskapinn á Þingvöllum. Á þeirri tíð var birta í menningunni og allt var möguleugt. Það var sólskin á Siglufirði daginn sem Inga ól son í Lækjargötu og lagði í vöggu. Axel, pabbinn, var þá í róðri á bát sínum Draupni. Þegar hann var kominn í land og hafði kysst konu sína, stóð hann við vögguna, skoðaði son sinn og sagði: „Mikið ertu ljótur vinur, þú ert víst líkur mér.” Sagan er auðvitað frá Jóhanni sjálfum! Hann hafði gaman af að segja hana.

Foreldrarnir voru Ingiveig Þorsteinsdóttir og Gunnlaugur Axel Jóhannsson. Þau voru fædd sitt hvorum megin Eyjafjarðar. Hún í Grýtubakkahreppi en hann í Svarfaðardal. Síðan urðu þau hjón og bjuggu á Siglufirði fyrstu árin. Jóhann var yngra barn þeirra en eldri var systir hans Selma, sem fæddist réttum þremur árum fyrr en hún lést árið 1932. Þungur skuggi lagðist þá yfir fjölskylduna. Pabbinn var mikið á sjó og Jóhann ólst upp við ást og talsvert dekur sem öflugur kvennafans gat gefið honum. Jóhanni þótti vænt um heimabyggð sína og hún fylgdi honum síðan alla tíð með ýmsum hætti. Og Jóhann lauk opinberu lífi á Íslandi með því að skipa heiðurssæti Sósíalistaflokksins í Norðausturkjördæmi í síðustu alþingiskosningum. Siglufjörður er í því kjördæmi, þetta makalausa pláss sem Hallgrímur Helgason er að lýsa þessi misserin í 60 kílóa-bókaflokki sínum. Jóhann ólst upp á Siglufirði fram á menntaskólaár. Það var meira um sólskin en kjaftshögg á þeim tíma svo lagt sé út af titlum bókaflokksins um Segulfjörð. Þær aðstæður sköpuðust í fjölskyldunni að faðirinn var færanlegur hvað atvinnu varðaði og mamman hafði þörf fyrir og hag af læknisþjónustu á Akureyri. Þangað fóru þau þegar Jóhann var kominn á framhaldsskólaaldur. Jóhann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri í júní 1950.

Og hvað svo? Jóhann hafði kynnst Guðrúnu Friðgeirsdóttur í MA. Þau rugluðu reitum og eignuðust soninn Axel í janúar 1951. Þau vildu búa saman og ákváðu að fara austur í Seyðisfjörð. Þar kenndi Jóhann við barna- og unglingaskólann á Seyðisfirði veturinn 1950- 51og lærði að gera kennslu skemmtilega. Axel var þá í gerðinni. Veturinn var þeim Guðrúnu og Jóhanni góður en þau vildu út. Svo varð. Næstu ár og áratugir urðu lærdómstími Jóhanns. Hann var við nám í frábærum menntastofnunum í Osló og Kaupmannahöfn á árunum 1951-56 og lauk mag. scient.-prófi í lífeðlisfræði árið 1956. Þá hoppaði hann til Parísar og var þar eitt ár, líkaði fræðin og lífið vel í stórborginni. Frá þeim tíma kunni Jóhann á kaffihúsalífið og hafði góðan skilning á gildi bóhemanna í menningunni. Svo fór hann til Lundar og hélt áfram störfum og námi, kom sér alls staðar vel, las, greindi, hlustaði og heyrði hvað var að gerast og tengdi vel við fræði og fræðimenn þeirra skóla sem hann sótti og stofnana sem hann vann við. Lísentiatsprófi lauk hann frá Lundi árið 1958 og doktorsprófi í sömu grein og frá sömu stofnun í Svíþjóð árið 1962.

Jóhann vakti athygli í fræðunum. Ekki aðeins var hann frumlegur og fundvís heldur sérlega kjarnyrtur. Það var í frásögur fært, að hann skrifaði merka doktorsritgerð sem var aðeins sautján blaðsíður að lengd. Jóhann hafði í sér vitundina um að less is more og ekki þyrfti að tíunda hið óþarfa eða teygja lopa. Bara það sem þyrfti samhengis vegna og rökstuðnings ætti erindi í vísindaritgerð. Það er nánast póetískur mínimalismi sem einkenndi fræðaskrif Jóhanns. Jóhanni var veittur eftirsóttur styrkur, sem kenndur var við Riker, til að starfa í Oxford. Þar vann hann við rannsóknir og kennslu í fimm ár. Þá fór hann til Gautaborgar, stundaði rannsóknir og kenndi við háskólann á árunum 1962-65. Jóhann varð svo prófessor við læknadeild Háskóla Íslands frá árinu 1965.

Þegar saga Háskóla Íslands er skoðuð blasir við að kennarar í einstökum greinum voru einyrkjar. Þeir höfðu ekki starfslið sér við hlið eins og við erlendu skólana og stofnanirnar. Jóhann vissi að hverju hann gengi, en væntanlega voru viðbrigðin talsverð að koma að tómu borði, engum tækjum og tólum og enginn var kollegahópurinn í fræðunum. En af ferilskrá Jóhanns má ráða að hann gekk í verkin þrátt fyrir fjárleysi tímans, hafði frumkvæði að stofnun Rannsóknarstofnunar Háskóla Íslands í lífeðlisfræði, sem hann stýrði. Jóhann hélt áfram rannsóknum í faginu og beitti sér mjög fyrir eflingu kennslu og fræða sem tengdust sviði hans. Jóhann var í forystusveit um uppbyggingu og skipulag lífeðlisfræðimenntunar íslenskra heilbrigðisstétta bæði sunnan og norðan heiða. Jóhann var því afar mikilvægur við þróun háskóla á Íslandi og háskólakennslu. Lof sé honum og þökk. Hann hélt áfram að skrifa greinar og var sá íslenski lífeðlisfræðingur, sem oftast var til vitnað í ritrýndum tímaritum. Rannsóknir hans snertu mörg svið taugalífeðlisfræði og  lífeðlisfræði vöðva.

Jóhann var góður félagi í háskólasamfélaginu. Honum var treyst. Hann var óáreitinn, glaðsinna og lausnamiðaður í embætti. Hann hélt gjarnan hlýfiskildi yfir nemendum, sá í þeim gullið fremur en gallana. Hann lagði sig eftir inntakinu fremur en forminu og sá til þess að fyrirferðamiklir nemendur féllu ekki útbyrðis. Mér er spurn hvort Íslensk erfðagreining hefði verið stofnuð eða lyfjaiðnaðurin orðið svo öflugur á Íslandi ef mannvirðingarmannsins Jóhanns hefði ekki notið við? Jóhann var árum saman í kennslunefnd læknadeildar HÍ og í deildarráði. Um skeið var hann deildarforseti. Þá kom hann við sögu uppbyggingar náms í líffræði, landafræði og jarðfræði. Jóhann var fangvíður í fræðunum, hafði breiðan fræðaáhuga, var íhugull og athugull um þróun raunvísinda en líka mannvísinda. Jóhann var m.a. um tíma í stjórn Mannfræðifélagsins og Mannfræðistofnunar HÍ og í stjórn stofnunarinnar var hann formaður í áratug, á árunum 1975- 1986. Vegna kennsluáhugans var Jóhanni falin seta í stjórn norrænu samtakanna um kennslu í læknisfræði. Um tíma var hann forseti þeirra. Þá tók hann þátt í starfi norrænu samtaka lífeðlisfræðinga og lyfjafræðinga. Jóhann var mikils metinn í fræðasamfélaginu og tók þátt í ýmsum félögum vísindamanna. Og svo síðustu árin hafði hann gaman af að vera boðinn að taka þátt í Loka, leynifélagi afburðamanna, sem fundar reglulega. Þar er víst gaman að vera, hafa þátttakendur trúað mér fyrir.

Norðurslóðir voru Jóhanni mikið áhugamál. Siglfirski drengurinn sem horfði í norður vissi að lífið á Norðurslóð væri fjölbreytilegt, áhugavert og spennandi. Og kannski sótti hann alla tíð fremur í norður en suður. Grænland varð honum mikið áhugaefni, norðurslóðir Kanada og svo brotnaði ökli hans þegar hann var á Svalbarða. Jóhann varð einn af forvígismönnum Norðurslóðarannsókna af ýmsu tagi sem nú vaxa og eru hagnýtar og mikilvægar á þessum tíma lofstslagsbreytinga, hagsmunabaráttu stórþjóða varðandi norðursvæði jarðarkúlunnar og pólitískra stefnumörkunar um líffríki, vinnslu, nýtingu, umferð og frið. Alla tíð var Jóhann áhugasamur um sviðin og svæðin utan hrings. Hann var til í að ræða handanveruna og ofurvíddir lífs og heima við fólkið sitt og dugðu stunum kvöldin ekki til samtalanna.

Jóhann var afreksmaður við ritun greina á fræðasviði sínu. Hann skrifaði aðalega um rákótta, viljastýrða vöðva, slétta vöðva meltingarvegs, slétta vöðva æða, faraldsfræði áhættuþátta hjarta- og æðasjúkdóma og áhrif umhverfis- og erfðaþátta á tíðni skammdegisóyndis á Íslandi og í Kanada. Fyrir öll þessi vísindastörf sín og akademíska þjónustu var Jóhann maklega sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu árið 2004.

Fyrri eiginkona Jóhanns var Guðrún Friðgeirsdóttir, síðar skólastjóri í Reykjavík. Þau áttu Axel sem fæddist 15. janúar 1951. Axel er lífefnafræðingur og býr í Sydney í Ástralíu. Kona Axels er Kate McCallum. Börn hans eru Ella, Alexandra, Christopher, Matthias og Selma. Barnabörn Axels eru þrjú. Guðrún og Jóhann skildu að skiptum meðan þau voru í námi erlendis.

Jóhann eignaðist soninn Þór með Kristínu Valdimarsdóttur, sálfræðingi. Þór fæddist 21. desember árið 1969, en lést 11. október árið 1995. Þór átti dótturina Laufeyju Soffíu með Guðrúnu Halldóru Sigurðardóttur.

Seinni eiginkona Jóhanns var Inger R. Jessen, líffræðingur og kennari, sem lést árið 2010. Sonur þeirra er Viggó Karl sem fæddist 3. okt. 1974. Viggó er iðnhönnuður og er búsettur í Reykjavík.

Hvað var það sem þú minnist í fari Jóhanns? Hvað sagði hann sem sat í þér? Hvað gerði hann sem þér þótti mikilvægt eða varð þér lífshvati? Var eitthvað sem snart þig eða særði? Hvernig viltu vinna með? Hvað lifir af því sem hann var, vann eða gerði sem þú vilt temja þér til eigin lífsbóta og til stuðnings umhverfi þínu og fólki?

Jóhann var alla tíð áhugamaður um listir og kynntist mörgum listamönnum og eignaðist verk eftir þá. Má þar nefna Erró, Sverri Haraldsson, Karl Kvaran, Kristján Davíðsson og fleiri. Hann fylgdist vel með listalífinu og sótti sýningar og tónleika og eignaðist marga góða vini í hópi listafólks. Hann var afburða-sögumaður sem sagði svo skemmtilega frá. Hann hafði í sér gáska og gleði til gjörninga. Góður teiknari og nákvæmur í öllu sem hann vildi vanda. Rökvís í fræðunum, en listamaður í samfélagi. Formlegur í akademíunni en bóhem í einkalífinu. Fyrirsjáanlegur í stjórnsýslunni, góður í málafylgju, litríkur í kennslu, frumkvöðull í öllu sem hann hafði áhuga á.

Og nú er hann farinn. Engar nýjar, skapandi útgáfur af sögunum hans framar. Hann brosir ekki afvopnandi á Kaffi-Vest eða kemur á slaginu þegar hann átti að mæta einhvers staðar. Hann kaupir ekki framar módernistamynd eða skrælir vísindaritgerð niður í nakinn kjarnann. Nú er það bara umvefjandi bros Guðs, sem öllu eirir, allt elskar og fagnar góðum fræðum og bóhemískum gjörningum okkar mannanna.

Guð geymi Jóhann Axelsson, Guð styrki ykkur ástvini og blessi og efli fræði, vit og frið í heimi.

Þau sem beðið hafa fyrir kveðjur til ykkar eru Selma Friðfinnsdóttir og Jón Eiður Snorrason, dætur þeirra og fjölskyldur. Ennfremur Kristín, Sveinn og fjölskyldur.

Erfidrykkja í safnaðarheimilinu strax eftir athöfnina. Jarðsett í Gufuneskirkjugarði við hlið Ingerar Jessen. Útför í Neskirkju, 1. febrúar kl. 13. Steingrímur Þórhallsson og félagar út Schola cantorum. ÚK/LÁ