Langri, góðri og fullkomlega átakalausri sögu lauk í dag, 2. febrúar, kyndilmessu, 2022. Faðir minn hafði snemma á tuttugustu öld leigt sér bankahólf nr. 333 í Landsbankanum í Austurstræti í Reykjavík. Hann fór einstaka sinnum með verðmæti – eða sótti – sem hann taldi vísara að geyma á góðum stað. Aldrei voru seðlar, demantar, gull eða mynt geymd í þessu hólfi heldur fjölskylduskjöl og tilfinningadýrmæti. Þegar faðir minn lést axlaði móðir mín ábyrgðina og leigði hólfið áfram. Svo þegar hún lést tók ég við. En bankahólf fóru úr tísku meðal fólks af minni kynslóð. Því sagði bankinn upp þessum viðskiptum við okkur hólfafólkið. Í síðasta sinn opnaði ég bankahólf foreldra minna í dag, tók fjölskylduskjal úr kassanum, kom honum svo fyrir í hólfinu að nýju og afhenti starfsmanni bankans báða lyklana, sem gengu að hólfinu. Þar með var sögunni lokið. Lips 333 hefur lokið þjónustu sinni.
Það var alltaf gaman að fara niður í bankahvelfingu LÍ. Hólfin brostu við komufólki og mig grunaði að það sem væri í þeim gæti sagt mikla sögu og jafnvel blóðríka. Stundum var þar neðra fólk sem fór leynt með gerðir sínar og var alvarlegt og jafnvel flóttalegt við frágang sinna hólfa. Lips í Dordrecht gerði þessi þjófheldu hólf, sem aldrei hafa verið rænd. Það væri nú kannski ástæða til að taka upp svo sem eitt innbrot í banka áður en bankinn lætur kasta burt þessum miklu hirslum? Hugmynd fyrir kvikmyndafólk? Svo ættu gullsmiðirnir að geta fengið parta til að geyma dýrmætin? Ég tók mynd af lyklunum tveimur sem voru afhentir í dag. Undir þeim er krónubudda föður míns sem hefur varðveitt lyklana síðustu áratugina.
Takk Landsbanki Íslands. Bless 333.