Sonur minn

Guilli er öðru vísi en hinir strákarnir í Barcelona. Hann hefur ekki áhuga á fótbolta, forðast boltaleiki en er glaður, brosmildur og þorir að lifa sig inn furður lífsins. Kennarinn í skólanum spurði í tíma hvað krakkarnir vildu verða þegar þau yrðu stór. Svörin voru fyrirsjáanleg nema svar Guilli. Krakkarnir vildu gjarnan verða leikarar, íþróttahetjur eða annað álíka. En Guilli vildi verða Mary Poppins, ekki eins og Mary Poppins heldur raunverulega ofurhetjan sjálf. Kennarinn varð forvitinn, skildi að það var eitthvað að baki sem vert væri að ræða. Hún fékk skólasálfræðinginn í lið með sér. Sagan er síðan sögð frá mismunandi sjónarhornum, kennarans, sálfræðingsins, Guilli og Manúel, pabba hans. Við fáum tilfinningu fyrir fjarverandi Amöndu, hinni heillandi, ensku, móður Guilli sem var flugfreyja og hafði yfirgefið þá feðga til að vinna í Dubai. Svo er veitt innsýn í venjulegt skólalíf í Barcelona og hve vel starfsfólkið vinnur og gengur í hin flóknustu og vanþakklátustu verk. Vandi fjölmenningarsamfélagsins er kynntur með hlýju og næmni. Lesandinn fær að skyggnast í líf, hætti og verkefni barns í pakistanskri fjölskyldu í næsta húsi við Guilli. Þar ríkja gamlir siðir hins múslímska feðraveldis og níu ára dóttir á heimilinu var lofuð gömlum frænda. Vandi Manúels, pabbans, er kynntur og æ ljósar verður að sonurinn Guilli er getumikill og skynugur. Hann reynir að halda öllum þráðum saman sem pabbinn megnar ekki. Leyndarmálið er opinberað sem verður til að feðgarnir ná saman, fara að vinna með tilfinningar sínar og líf fólksins heldur áfram. Sonur minn er marglaga, heillandi og litrík saga um fólk sem reynir að fóta sig í flóknum aðstæðum.

Höfundur er Alejandro Palomas. Þýðandi Sigrún Á. Eiríksdóttir. Drápa 2021.