Jón Dalbú Hróbjartsson 75

Þá dettur mér Jón Dalbú Hróbjartsson í hug þegar ég heyri góðs manns getið. Í dag er hann 75 ára. Ég hef þekkt hann í nær sextíu ár og notið leiðsagnar og vináttu hans allan þann tíma. Hann er ekki aðeins mannkostamaður, dugmikill, framtakssamur frumkvöðull og hugmyndaríkur leiðtogi heldur líka þroskaður trúmaður. Í honum býr hrein og hrífandi þjónustulund sem nýttist prestsþjónustu hans með einstöku og eftirbreytnilegu móti. Manngæska Jóns Dalbú hefur alla tíð blasað við öllum sem hafa kynnst honum. Góðvildin er honum gefin í vöggugjöf og uppeldi en hann ræktaði með sér einstaka mannvirðingu sem hrífur alla sem sjá gullið í fólki. Því hefur Jón Dalbú verið svo elskaður og farsæll í einkalífi og opinberum störfum. Hann þjónaði sem prestur í fjörutíu ár og gegndi afar mörgum ábyrgðarstörfum. Vegna mannvirðingar hans hefur hann alltaf lyft öðrum og lofað. Með hug og dug samfara mannelsku hefur Jón Dalbú alla tíð komið málum áfram og hvatt til stórvirkja. Kona Jóns Dalbú er Inga Þóra Geirlaugsdóttir, sömuleiðis einstök mannkostakona. Takk og til hamingju með daginn kæri vinur.  

Myndin er tekin þegar prestaskipti urðu í Hallgrímskirkju í lok árs 2014. Jón Dalbú lét af störfum eftir 17 ára þjónustu í Hallgrímskirkju  og ég hóf þjónustu 1. desember 2014.