Greinasafn fyrir flokkinn: Greinar og pistlar

Pistlayfirlit er aðgengilegt á trú.is. Þá er talsvert af pistlum einnig á sigurdurarni.annall.is

Tími tækifæranna

“Hvað, hefur þú tíma til að vera hér í kvöld? Á ekki að telja á morgun?” Já, við Elín, kona mín, vorum á dásamlegu námskeiði um Lúther og undirbúning ferðar á Lúthersslóðir síðar á árinu. Og rétt áður en talið verður í biskupskjöri er heilsusamlegt að núllstilla og hugsa um eðli siðbótar og þjónustu kirkjunnar í sögu og samtíð. 2017 nálgast og ég er tilbúin til að vinna að því að kirkjan verði kirkja bóta og góðs siðar, hvernig sem á mál verður litið.

“Og hvernig líður þér?” var ég spurður í kvöld. Og mér líður ágætlega. Biskupskjör er ekki grískur harmleikur með eingöngu vondum kostum. Biskupskjör er fremur gleðimál með góðum kostum. Alla vega lít ég svo á, að hvað sem kemur út úr kjörinu hafi ég lært mikið, upplifað margt jákvætt og orðið svo margs vísari að ég komi út í stórkostlegum plús – óháð atkvæðamagni og útkomu kosningar. Ég hef notið fræðslu og blessunar í þessu kosningaferli. Þessar liðnu vikur hafa orðið mér ríkulegur tími, bæði persónulega og líka sem þjóni kirkjunnar og kirkjuþingsmanni. Ég hef fengið dýpri og betri skilning á þörfum kirkjunnar í landinu, afstöðu fólks, þörfum safnaða og hverju þurfi að breyta og hvað þurfi að bæta. Kirkjuþingsmaðurinn í mér hefur skarpari sýn á hvað þurfi að gera og leggja til á kirkjuþingi. Og kirkjan, fólkið, prestarnir og söfnuðurnir eru búin undir breytingar. Nú er tími tækifæranna.

Ég hef hitt stórkostlegt fólk undanfarnar vikur, hlustað á stórmerkilegar sögur, notið gestrisni, hlustað á sterkar óskir um, að kirkjan lifi fallega og vel, orðið vitni að þjónustulund framar skyldu, hlotið fararblessun margra. Ég hef notið stuðnings og velvilja samverkafólks míns á kirkjuþingi og í kirkjuráði, í öllum prófastsdæmum, í nærsamfélagi og meðal vina og samverkafólks í Neskirkju. Ég hef fengið ótrúlega margar hringingar, gagnrýni sem ég er þakklátur fyrir, blóðríkar umsagnir fólks sem eru ekki minningargreinar heldur lífsyrðingar. Allt þetta hefur orðið til að skerpa og efla.

Ég þakka biskupsefnum, sem hafa verið mér samferða um landið, en þó mest fyrir elsku þeirra gagnvart kirkjunni. Svo hefur mér þótt elja stuðningsfólks míns ótrúleg og langvarandi kraftaverk. Fyrir hug þeirra og verk er ég þakklátur. Svo er ég þakklátur Elínu, konu minni fyrir staðfestu, kátínu og jafnlyndi hennar, sem aldrei bregst. Við höfum svo sannarlega notið ferða og fundanna. Það er ómetanlegt að geta notið sterkrar lífsreynslu saman. Svo hafa börnin mín verið mér traust stoð. Þau hafa verið óspör á hvatningu í “biskupakeppninni” eins og sex ára synir mínir hafa kallað undirbúning biskupskosningar.

Kæru kjörmenn: Takk, þið sem studduð mig. Við alla kjörmenn vil ég segja: Takk fyrir að þið kjósið í þágu kirkjunnar og vegna framtíðar hennar. Kirkjan er farvegur möguleikanna og nú er tími tækifæranna. Guð geymi ykkur.

Sigurð Árna í forystu kirkjunnar – bréf kjörmanna

Við undirrituð viljum og styðjum Sigurð Árna Þórðarson sem Biskup Íslands. Við teljum hann vera rétta manninn til að leiða þjóðkirkjuna á komandi árum. Sigurður Árni er heillandi leiðtogi með hugmyndir og erindi sem við samsömum okkur heilshugar við, sem kristnar manneskjur í samtímanum. Hann nýtur víðtæks stuðnings í stórum hópi og sækir þangað styrk og umboð til að láta góða hluti gerast. Hann er maður samvinnu, samstarfs og eflingar mannauðsins í kirkjunni.

Sigurður Árni er kirkjuleiðtogi með trausta sjálfsmynd, sem gefur öðrum rými, og tekur skýra forystu.

Við teljum hann vera rétta manninn til að leiða þjóðkirkjuna á komandi árum.

Við hlökkum til tíma möguleikanna í kirkjunni með Sigurð Árna sem Biskup Íslands.

Ásbjörn Jónsson, kirkjuráðs- og kirkjuþingsmaður

Birgir Rafn Styrmisson, kirkjuþingsmaður

Birna Guðrún Konráðsdóttir, formaður Stafholtssóknar og kirkjuþingsmaður

Bjarni Karlsson, sóknarprestur Laugarneskirkju

Bolli Pétur Bollason, sóknarprestur Laufásprestakalli

Elín Jóhannsdóttir, formaður sóknarnefndar Bessastaðasóknar

Elínborg Gísladóttir, sóknarprestur Grindavík og kirkjuþingsmaður

Fjóla Haraldsdóttir, djákni í Lágafellskirkju

Friðrik J. Hjartar, prestur í Garðaprestakalli

Gréta Konráðsdóttir, djákni í Bessastaðasókn

Guðni Þór Ólafsson, sóknarprestur Melstað

Hannes Örn Blandon, sóknarprestur Laugalandsprestakalli

Hildur Eir Bolladóttir, prestur Akureyrarkirkju

Hjörleifur Þórarinsson, formaður sóknarnefndar Víðistaðakirkju

Hreinn Hákonarson, fangaprestur

Inga Rún Ólafsdóttir, formaður sóknarnefndar Breiðholtssóknar og kirkjuþingsmaður

Jóhann Ólafsson, formaður sóknarnefndar Vallasóknar

Jóhannes Pálmason, formaður sóknarnefndar Hallgrímskirkju

Jóna Hrönn Bolladóttir, sóknarprestur Garðaprestakalli

Jónína Zophoníasdóttir, formaður sóknarnefndar Þingmúlasóknar

Katrín Ásgrímsdóttir, kirkjuráðs- og kirkjuþingsmaður

Kristján Pétur Kristjánsson, formaður sóknarnefndar Njarðvíkursóknar

Lára G. Oddsdóttir, sóknarprestur í Valþjófsstaðarprestakalli

Magnús Eðvald Kristjánsson, formaður sóknarnefndar Garðasóknar og kirkjuþingsmaður

Margrét Jónsdóttir, formaður sóknarnefndar Gaulverjarbæjarsóknar og kirkjuþingsmaður

Pétur Björgvin Þorsteinsson, djákni Glerárkirkju

Reynir Sveinsson, formaður sóknarnefndar Hvalsnessóknar

Sigurður Ægisson, sóknarprestur í Siglufjarðarprestakalli

Sigurvin Jónsson, æskulýðsprestur Neskirkju

Steindór Haraldsson, kirkjuþingsmaður

Sunna Dóra Möller, æskulýðsfulltrúi Akureyrarkirkju

Svavar Alfreð Jónsson, sóknarprestur í Akureyrarkirkju

Ursula Árnadóttir, sóknarprestur Skagaströnd.

Vigfús Ingvar Ingvarsson, fyrrv. sóknarprestur á Egilsstöðum

Þórdís Ingólfsdóttir, formaður sóknarnefndar Hagasóknar

Þórey Dögg Jónsdóttir, djákni Fella- og Hólakirkju

Örnólfur Jóhannes Ólafsson, sóknarprestur Skútustöðum


A.m.k. eitt

Þetta var yfirskriftin á tölvupósti sem ég fékk í gær. Svo var meðfylgjandi mynd af kjörseðli í biskupskjöri sem búið var að útfylla og kross var við nafnið Sigurður Árni Þórðarson.

Já, “a.m.k. eitt” en síðan kom runa af skeytum og smáskilaboðum frá kjörmönnum: “Búinn að kjósa” – “búin að póstleggja” “kjörseðill kominn í kassann” “framtíðin að koma.” Það var ánægja í þessum skipalboðum og stemming sem fólk fann til og leyfði sér að njóta og tjá. Hún smitaði og gladdi.

Biskupskjör skiptir máli. Kostirnir eru góðir og valið er úr stórum hópi hæfra biskupsefna. En eitt verður kjörið og atkvæðin sem greidd eru þessa dagana skera úr um framvinduna. Síðustu vikur hafa verið afar ríkulegar og ánægjulegar. Hópurinn, sem hefur farið um landið til að undirbúa kjör, hefur lagt mikið til umræðu um kosti og möguleika kirkjunnar. Megi biskupskjörið verða jafn farsælt og undirbúningur þess hefur verið.

Skeytið með yfirskriftinni “A.m.k. eitt” var fyrst af mörgum. Og yfirskrift eins tölvupóstsins var sem töluð úr mínu hjarta: “Guð gefi okkur gleðilega framtíðarkirkju.” Ég segi því Amen.

Nálægð í kirkjunni

“Geturðu talað við mig, ég hef þörf fyrir samtal?” Svona setning hljómar þegar eðlilegt traust ríkir milli fólks. Og þannig eiga tengsl milli biskups og ábyrgðarfólks í kirkjunni að vera. Þetta fólk þarf að hafa næði og tíma til að tala saman, miðla reynslu, hugmyndum, álagsmálum og vonarefnum.

Ég hef á kynningarfundum vegna biskupskjörs nefnt, að ég vilji breyta biskupsvísitasíum. Mikilvægur þáttur biskupsþjónustu er að vitja fólks. Biskup á að vera hlustandi biskup – vera á eyrunum – og veita athygli.

Græðarastarf gagnvart prestunum og fólkinu í kirkjunni er mikilvægur þáttur biskupsþjónustu. Rétt eins og prófastar þurfa biskupar kirkjunnar að heyra hvað fólk segir, grennslast eftir hvernig því líður og reyna að efla það til starfa og lífs.  Líðan presta, þarfir þeirra og velferð prestsfjölskyldna skiptir miklu máli og varðar því biskupstilsjón.

Til að fólki líði vel þarf að næra það. Það sama gildir í fjölskyldulífinu. Til að kirkjulífið blómgist þarf að sjá, heyra og styrkja.

Biskupinn á að iðka tilsjón – það er að sjá, heyra, vera náinn, meta og efla. Biskupinn á ekki að vera í stjórnsýsluskáp heldur vera meðal fólks í kirkju og landi. Biskup á að heyra nándarkall og gegna nándarskyldu í kirkjunni.