Kirkja í gerðinni

Dagurinn í dag er merkisdagur í sögu Hallgrímskirkju. Einn af mörgum dögum ársins sem tengjast viðburðum í sögu guðshússins, safnaðar, Hallgríms eða einhvers sem hefur þjónað kirkjunni vel. Þetta er dagur helgirýmisins. Á þessum degi, 14. október, árið 1962 var haldin fyrsta guðsþjónustan í þaklausu kirkjuskipinu. Til þess tíma – og raunar næstu tólf árin á eftir líka – var messað í kór Hallgrímskirkju. Milli bragganna í Skipton Camp á Skólavörðuholti hafði kapellan verið byggð og vígð Guði þann 5. desember árið 1948. Svo var haldið áfram með kirkjubygginguna – en þó í miklum rólegheitum. Þegar við horfum í kringum okkur í fullbyggðri kirkjunni megum við gjarnan hugsa til baka. Á árinu 1962 hafði verið lokið að steypa upp veggi kirkjuskipsins til hálfs og einnig undirstöður súlna í kirkjuskipinu. Þá hafði gólf kirkunnar einnig verið steypt. Til að marka þessi tímamót var ákveðið að lofsyngja Guði í framtíðarhelgirými kirkjunnar þó ekkert væri þakið og svæðið væri ófrágengið byggingarsvæði. Stemmingin var í anda hins forna: „Ég var glaður er menn sögðu við mig: Göngum í hús Drottins.“

Á guðsþjónustudeginum í október var veðrið hryssingslegt, það rigndi ákaflega. Söfnuðurinn, um eitt hundrað manns, leitaði skjóls undir vinnupöllum sem stóðu við útveggina. Jakob Jónsson, sóknarprestur Hallgrímskirkju, stýrði helgihaldinu. Hann stóð fyrir miðju þar sem kórtröppurnar eru nú og blessunardaggir himins féllu yfir klerkinn og rennbleyttu. En lofsöngurinn hljómaði, orðið einnig, söfnuðurinn var mættur. Guðshúsið var í gerðinni. Og þannig er kirkja alltaf – í gerðinni. Þar sem búið var að steypa upp megnið af veggjum kirkjuskipsins hófst undirbúningur að byggingu turns kirkjunnar. Að turnbyggingunni var unnið á næstu árum. Lokið var að steypa í topp í árslok 1968. Það var meðvituð ákvörðun byggingar- og sóknarnefndar í hvaða röð hlutar stórkirkjunnar voru byggðir. Ef kirkjuskipið hefði verið fullklárað á sjöunda áratugnum hefði turninn líklega aldrei orðið til – kirkjan hefði ekki orðið sú perla sem tíminn hefur slípað. Forsjálnin bar árangur. Skynsemin var í þágu guðsríkisins – og þá er vel.

Suðursalurinn í turnvængnum var vígður til helgihalds á 300 ára ártíð Hallgríms Péturssonar. Vígsludagurinn var 27. október árið 1974. Í tengslum við vígslu salarins og fyrir vígsluathöfnina var hornsteinn lagður að kirkjunni. Á skjalinu í hornsteininum segir m.a. „Drottni til dýrðar er kirkja þessi reist í minningu Hallgríms Péturssonar.“ Svo kom þak á kirkjuskipið, kórgólf var steypt, tröppur líka og gólfið allt lagt norskri skífu. Svo var málað, allt snurfusað, sópað og prýtt. Kirkjan var vígð 26. október 1986 og á því 35 ára afmæli í ár. Veisla er í vændum eftir liðlega viku.

Til hvers kirkja – til hvers helgirými? Yfir dyrum Hallgrímskirkju er íhugun Hallgríms í 24. passíusálmi.

Þá þú gengur í guðshús inn,

gæt þess vel, sál mín fróma,

hæð þú þar ekki herrann þinn

með hegðun líkamans tóma.

Beygðu holdsins og hjartans kné.

Heit bæn þín ástarkveðja sé.

Hræsnin mun síst þér sóma.

Um allar aldir hafa menn ígrundað merkingu helgistaða. Í Saltaranum erum mörg helgigönguljóð. Í 122. Davíðssálmi segir: „Ég varð glaður er menn sögðu við mig: Göngum í hús Drottins. … Friður sé innan múra þinna, heill í höllum þínum.“

Til hvers kirkja? Kirkjuskip er fyrir andlega siglingu. Hlið himins er vettvangur sem hentar opnun – upp og niður, út og ofar, inn á við og til samfélags. Kirkjuhús þjónar kossi tíma og eilífðar, er faðmhús réttlætis og friðar. Opnun. Það er köllunin. En kirkjuhús, kirkjuhreyfingar, stofnanir geta daprast og misst gildi. En það eru ekki húsin og kerfin sem eru aðalatriðin heldur erindi þeirra. Kirkjuhúsunum geta menn þjónað eða reynt að eignast ríkidæmi þeirra og táknkraft. En þá fer andi Guðs annað. Í trú er ekki eign heldur tengsl, gildi og stefna. Á þessum minningardegi fyrstu guðsþjónustu í kirkjuskipinu er okkar vitjað með spurningu um til hvers kirkja sé. Þegar Hallgrímur Pétursson talar um kirkju notar hann orðið guðshús. Það er mikilvægt. Kirkja á að vera guðshús og þar má svar mannsins vera bæn ástar: „Heit bæn þín ástarkveðja sé.“

Hugleiðing í kyrrðarstund 14. október, 2021. Myndin er frá guðsþjónustunni 14. október 1962.