Friðrik Hjartar sjötugur

Fyrsta minning mín um Friðrik Hjartar er tillit hans. Hann hefur einstakt gleðiblik í augum, sem umvefur og eflir. Guðfræðineminn Friðrik vakti athygli mína og samstúdenta fyrir hlýlega framkomu og jákvæðni. Í tímum og samskiptum lagði hann alltaf gott til. Svo kynntumst við heimilismanninum og Önnu, konu hans. Þau umbáru bernskubrek okkar og opnuðu alltaf heimili sitt fyrir gleðisæknum guðfræðinemum. Þau létu sér annt um okkur hin, studdu okkur í lífsskrefunum og glöddust yfir hjónaböndum, börnunum sem við eignuðumst og viðfangsefnum okkar. Ég þakka margar samverur á heimili þeirra hjóna á þessum árum og æ síðan. 

Friðrik kallaði félagana gjarnan til funda og hvatti til gleði. Við, samnemendur, efndum til vísindaferða sem voru fremur litríkar og alltaf skemmtilegar. Eftirminnilega ferð fórum við í Reykholt til að heimsækja klerkinn, félaga okkar, sem kynnti okkur fyrir staðarfólki sem kom í prestshúsið. Friðrik kenndi okkur unglingunum skotfimi og var forsprakki í stofnun skotveiðifélags við guðfræðideildina. Við útskrift efndum við nokkrir samkandídatar frá guðfræðideild til útskriftarveislu í safnaðarheimili Bústaðakirkju. Og við, skotfélagsmennirnir, sungum fyrir ástvini Söng villiandarinnar, ljóð Jakobs Hafstein: „Í vor kom ég sunnan … “ Það var eftirminnilegur sólskinssöngur ungra manna sem síðan tvístruðust um land og heim til starfa og verka. Einn er fallinn frá úr þessum góða hópi og farinn inn í himininn.

Friðrik fór til starfa á Vesturlandi, fyrst í prestsembætti í Búðardal og síðan í Ólafsvík. Svo kom hann suður og varð prestur í Garðaprestakalli þar til hann lauk stöfum og hélt áfram námi. Friðrik Hjartar hefur verið hamingjumaður, gæfumaður og málsvari erindisins um fögnuð. Í augum hins sjötuga valmennis vakir gleðiblikið, umhyggjan er öllum ljós og hlý kátínan sprettur fram í samtölunum. Takk Friðrik fyrir vináttu fjögurra áratuga, samverur og veiðiferðir. Guð blessi þig, Önnu og allt ykkar fólk.

SÁÞ 8. október 2021.