Greinasafn fyrir flokkinn: Greinar og pistlar

Pistlayfirlit er aðgengilegt á trú.is. Þá er talsvert af pistlum einnig á sigurdurarni.annall.is

Þá verður lífið bænalíf

Ég var spurður um bænalíf og það varðar trúar-afstöðu og túlkun. Trúarlíf og bænalíf varða það sama. Guð varð mér altækur veruleiki á unga aldri. Þar er trúarafstaðan, en þar sem Guð er mér umfaðmandi Guð lifi ég og hrærist í þeim veruleika á öllum stundum og í öllu sem ég er og geri. Lífið er mér bænalíf og bænalífið greinist í ýmsa þætti. Bænalíf er ekki aðeins það að bera fram beiðni til Guðs eða tjá tilbeiðslu í orðum heldur líka það að upplifa, nema, lifa – allt sem er verður trúmanninum þáttur í bænalífi. Þegar Guð er umlykjandi veruleiki verður lífið þar með bænalíf.

Börn, unga fólkið og þjóðkirkjan

Í þeim niðurskurði sem hefur átt sér stað í æskulýðsstarfi er meira í húfi en það fé sem sparast hefur. Ég mun sem biskup beita mér fyrir því að hvergi verði slegið af faglegum kröfum í æskulýðsstarfi og að þjónusta við börn og unglinga verði skilgreind sem grunnþjónusta kirkjunnar. Söfnuðir landsins standa frammi fyrir erfiðu verkefni við ráðstöfun fjármuna, en æskulýðsstarf á að vera forgangsverkefni.

Ég mun beita mér fyrir því að söfnuðir vinni saman að því að tryggja faglegt umhverfi fyrir barna- og æskulýðsstarf og að samsetning safnaða ráði forgangsröðun verkefna. Í sóknum þar sem barnafjölskyldur eru í meirihluta er óeðlilegt að minnihluti sóknargjaldi sé varið í þjónustu við þær. Á landsbyggðinni sinna sóknarprestar barna- og unglingastarfi og það er hlutverk biskups að tryggja þeim aðgang að kennsluefni og faglegu baklandi til að sinna unga fólkinu.

ÆSKÞ gegnir mikilvægu hlutverki sem málsvari æskulýðsstarfs og landssamtök æskulýðsfélaga. Ég hef fylgst með uppbyggingu ÆSKÞ undanfarin ár og mun fagnandi þiggja boð um að sækja Landsmót æskulýðsfélaga í október næstkomandi. Þjóðkirkjan á að setja starf í þágu unga fólksins í forgang. Og það er nútíðarverkefni. Framtíð kirkjunnar verður til með þjónustu við unga fólkið. Við sáum til framtíðar með því að gera æskulýðsstarf að flaggskipi íslensku þjóðkirkjunnar.

 

Hvert er álit þitt á sérþjónustu kirkjunnar?

Ég uppgötvaði sérþjónustu kirkjunnar þegar kynntist sr. Jóni Bjarman. Ég var fangavörður tvö sumur í Síðumúlafangelsi. Þangað kom fangapresturinn og vitjaði fanga, færði þeim stundum bækur, hlustaði grannt á sögur þeirra og rak erindi þeirra og gætti hagsmuna með margvíslegum hætti. Hann var sem umboðsmaður fanga. Svo staldraði hann líka við hjá okkur fangavörðum.

Mér þótti þessi prestur áhugaverður og leitaði eftir að ræða við hann þegar báðir áttum tómstund. Jón opnaði mér ýmsar gáttir þegar hann ræddi um hlutverk prests í sérstæðum aðstæðum. Hann kenndi mér að skilja milli eigin persónu og vinnuþátta og þar með mikilvægi þess að setja mörk. Það hefur síðan orðið mér æviverkefni. Og hann opinberaði fyrir mér mikilvægi þes,s að leita þroska hið innra og vera jafnframt öflugur fagaðili í starfi. Því varð fangapresturinn ráðhollur meistari – öflugur fulltrúi Jesú Krists – í flóknum vinnuaðstæðum. En síðar varð hann vinur minn og velgerðarmaður.

Sr. Jón Bjarman opnaði mér gáttir að fagmennsku. Síðar komst ég að því að margir sérþjónustuprestar og síðar sérþjónustudjáknar eru flestum kollegum fyrirmynd um fagmennsku í starfi. Þau er þjóna í sérþjónustu hafa aflað sér sérmenntunar, sem hefur ekki aðeins nýst á fagstofnunum og í sértækum aðstæðum, heldur hafa miðlað þekkingu og starfsreynslu bæði gagnvart djákna- og guðfræðinemum en líka frætt okkur prestana. Fagstyrkur sérþjónustunnar hefur eflt fagmennsku prestanna og þar með kirkjustarfs með margvíslegum hætti. Sálgæsla í samtíð okkar er líklega mun öflugri en var fyrir tíð sérþjónustunnar.

Hvað finnst þér um fyrirkomulag sérþjónustu kirkjunnar?

Sérþjónustan hefur orðið skýr framlenging kirkjustarfs safnaðanna og hin kirkjulega þjónusta hefur náð mun lengra vegna sérþjónustunnar. Í sérhæfingarþróun samfélags okkar og uppbroti þjóðfélags í æ fleiri hópa og kima er sérþjónusta kirkjunnar nauðsyn.

Með árunum hafa ýmis embætti verið stofnuð og þau hafa ekki verið stofnuð út í loftið heldur í ljósi þarfa. Fleiri er þörf og er vísast flestum ljóst. Fjárskortur er raunar eina hindrunin. Ég hef nokkrar áhyggjur af launamálum sérþjónustunnar og tel mikilvægt, að launaþróun í þessu geira sé með sama hætti og meðal annarra vígðra þjóna.

Telur þú þörf á því að breyta núverandi fyrirkomulagi sérþjónustunnar?

Engra stórra breytinga er þörf að mínu viti nema auka fjárstreymi til þjónustunnar. En ég hef oft velt vöngum yfir hvort sérþjónustan þarfnist aukinnar prófasts- og tilsjónarþjónustu. Sérþjónustan nýtur prófastsþjónustu í Reykjavíkurprófastsdæmi vestra, sem er stórt, fjölmennt og fjölbreytilegt prófastsdæmi og nær út fryer landamæri Íslands. Prófasturinn er í fullu starfi sem prestur í stórri sókn, hefur því ærin verkefni og getur ekki haft daglega tilsjón með tugum fólks í sérþjónustunni. Búast má við tilfærslu verkefna til prófastsdæma á næstu árum. Því er mér spurn hvort sérþjónustan þarfnist prófasts? Sá gæti verið aðstoðarprófstur í R. vestra til að varðveita tengslin við prófastsdæmi á Reykjavíkursvæðinu og þar með safnaðatenginguna. Tilsjón er mikilvæg. Sérþjónustan þarf sinn stuðning og athygli.

Telur þú þörf á því að efla sérþjónustu kirkjunnar og ef svo er með hvaða hætti?

Ég styð heilshugar frekari þróun og styrkingu sérþjónustunnar. Í samfélagi sundurgerðar er sérhæfingar þörf til, að þjóðkirkjan sinni þeirri þjónustu, sem á kirkjuna eru lagðar af ríkinu og felst einnig í hlutverki hennar sem þjóðkirkju. Kirkjan á að þjóna allri þjóðinni – og þjóna vel.

Mikilvægt er, að mínu viti, að tengja sérþjónustuna við kirkjur og söfnuði, ef hægt er. Í Neskirkju höfum við notið, að sérþjónustupresturinn, Toshiki Toma, hefur starfsstöð í safnaðarheimili kirkjunnar. Hann hefur með störfum, fagmennsku, þátttöku í helgihaldi og samtölum eflt starfshópinn, sem er að störfum í Neskirkju. Starfshættir og starfskunnátta hans hefur dýpkað skilning okkar hinna. En jafnframt á hann í okkur hinum kollega, sem geta stutt hann með ýmsum hætti. Þetta fyrirkomulag, að sérþjónustuprestur eða sérþjónustudjákni, eigi sér starfsstöð í söfnuði er til góðs. Ég mæli með því þegar því verður við komið.

Þessar spurningar voru sendar af fimm sérþjónustuprestum. Ég vil nota tækifærið til að þakka sérþjónustunni fyrir faggjafir hennar og þjónustu í þágu fólks og kirkju.

Sigurður Árni

Börn, græðarastarf og Fréttablaðið

Fréttablaðið spyr um afstöðu biskupsefna. Spurningar og mín svör eru þessi:

Hverju er mikilvægast að breyta innan kirkjunnar?

Kirkjan er að nútímavæðast. Góðar breytingar hafa orðið á skipulagi þjóðkirkjunnar. Ég vil kalla barnafræðara kirkjunnar til átaks í þágu barna og barnafjölskyldna því börnin eru mestu dýrmætin. Ég vil líka hefja græðarastarf innan kirkjunnar með því að efla samstarf við presta, djákna og sóknarnefndarfólk um land allt. Glatt fólk þjónar vel.

Hver er þín afstaða til fulls aðskilnaðar ríkis og kirkju?

Aðskilnaðurinn er að mestu orðinn, en þjóðarsamtalið um framtíðarsamskipti þjóðar, ríkis og kirkju er varla byrjað. Kirkjan hefur ekki og sækist ekki eftir forréttindum, heldur að þjóna fólki. Þjóðkirkjan vill frið til þess að þjóna fólki vel og um allt land.

Mundir þú taka þátt í Gleðigöngunni (e. Gay Pride)?

Já. ég tek mér stöðu þar sem ég held, að Jesús Kristur hefði viljað vera. Hann stóð alltaf með fólki. Gleðigangan er í þágu réttlætis í samfélagi okkar. Mínar göngur eru göngur til gleði og Gay Pride er ganga til góðs.

 

Sigurður Árni í Fréttablaðinu og Skessuhorni

Í gær, miðvikudaginn 29. febrúar, birtist viðtal við Sigurð Árna í Skessuhorni. Smelltu hér til þess að lesa greinina. 

Þá birtist viðtal við Sigurð Árna í aukablaði Fréttablaðsins um fermingar í dag, 1. mars. Þar segir Sigurður Árni frá fermingardegi sínum þann 23. október 1966. Þá fermdist hann, ásamt Kristínu systur sinni, sem er einu og hálfu ári eldri. Smelltu hér til þess að lesa viðtalið.