Greinasafn fyrir flokkinn: Greinar og pistlar

Pistlayfirlit er aðgengilegt á trú.is. Þá er talsvert af pistlum einnig á sigurdurarni.annall.is

Ávaxtasamir dagar

Dagarnir eru litríkir þessar vikurnar. Birtan vex með hækkandi sól. En litríki daganna er þó fremur huglægt og andlegt. Ég tala við marga á hverjum degi. Tek við tugum skilaboða í tölvupósti og með hjálp samkiptavefja og síma. Ég var með viðtalstíma í kirkjunni, var við hádegisbænir í Neskirkju á meðan vinir mínir í Háskólaprenti prentuðu 600 bréf til kjörmanna í biskupskjöri. Kona mín smeygði bréfunum í umslög og skaut þeim í pósthús. Þau verða borin út á morgun og föstudag. Ég skrifaði svo pistil fyrir Fréttblaðið, líklega þann síðasta um tíma því ekki rímar saman að skrifa meðan ég verð í kjöri til biskups. Ég hitti ástvini til að undirbúa útför og gekk frá minningarorðum. Síðan þjónaði ég við kistulagningu og útför. Svo naut ég þess undurs, að annar drengurinn minn las fyrir mig úr lestrarbókinni sinni og ég launaði honum – og bróðir hans fékk að njóta þess með honum – með að lesa fyrir þá úr frábærri bók Elínar Elísabetar Jóhannsdóttur um Eddu og Snorra fara í tímaflakk um kristnisöguna. Þegar tímaflakkinu lauk og drengirnir voru sofnaðir fór ég á mitt ritflakk og skrifaði ég tvær greinar. Annasamir en ávaxtasamir dagar.

Melstaður, Skagaströnd, Löngumýri, Vestmannsvatn og Akureyrarkirkja!

Fundir framundan á Norðurlandi. Biskup Íslands verður kosinn í næsta mánuði. Nú er ráð að þau sem hafa kosningarétt komi saman til að tala um málefnin í því kjöri. Stuðningsfólk mitt býður til funda norðan heiða 16. – 19. febrúar.

Hverjir koma á svona fundi? Það er fólk, sem vill ræða um biskupskjör, stöðu kirkjunnar og framtíð. Fundarboðendur eru vissulega stuðningsfólk mitt og ég mun ræða um stefnu og áherslur mínar. En auk þess er tilgangur fundarins samtal um kirkjuna. Því eru allir velkomnir til fundar hvaða stefnu eða afstöðu sem menn hafa í biskupskjöri. Að sækja svona fund er ekki yfirlýsing um stuðning við biskupsefni heldur yfirlýsing um stuðning við kirkjuna.

Fundarstaðir eru fjórir þess daga.

Melstaður í Miðfirði, fimmtudaginn 16. febrúar kl. 17.

Skagaströnd – Hólaneskirkja – föstudaginn 17. febrúar kl. 12.

Löngumýri, föstudaginn 17. febrúar kl. 17.

Vestmannsvatn, laugardaginn 18. febrúar, kl. 13.

Akureyrarkirkja – safnaðarheimili, sunnudaginn 19. febrúar, kl. 13.

Ég mun prédika um hið lifandi vatn og skírn Jesú í Akureyrarkirkju þennan sunnudagsmorgun. Messan hefst kl. 11 og fundurinn verður kl. 13.

Stóru kirkjuvíddirnar

Á annadögum er mikilvægt að setjast niður, draga djúpt andann og lyfta sjónum. Það er líka gott að njóta samfélags viturs fólks. Þessa nýt ég í dag því ég tek þátt í ársfundi samkirkjunefndar og þar er mörgu miðlað sem varðar kirkjuna, starf hennar, hlutverk og sýn.

Kirknasamtök eru perlubönd kristninnar. Íslenska þjóðkirkjan er t.d. aðili að Heimsráði kirkna, Lútherska heimssambandinu, Kirknasambandi Evrópu og Porvoo-sambandinu. Þetta samstarf er mikilvægt fyrir kirkjuna því samskiptin eru gagnvirk og veita hugmyndum yfir mörk og mæri. Þær verða til hvatningar um starf, nýjar áherslur og þjónustu kirkjunnar. Afstaða okkar til hlutverks kirkju og kirkjusýnar verður fyrir áhrifum frá systurkirkjum og eflir sjálfsmynd kirkjunnar og þjóna hennar.

Það er magnað að hlusta á frásagnir um líf og starf þeirra kirkna og kirknahreyfinga, sem Íslendingar tengjast. Kirkjurnar í Afríku eru á fleygiferð og breytingaskeiði sem og samfélög þeirra. Smákirkjurnar í múslímska heiminum hafa margar misst vernd sína þegar ríkisstjórnum er steypt og arabíska vorið “skellur” á. Sagðar voru fréttir frá kirknasamtökum, hvernig kirkjur bregðast við breytingum, hvernig prests- og djáknaþjónustan er að breytast.

Erum við rík kirkja eða fátæk kirkja? Hvað eigum við að þiggja erlendis frá? Við höfum notið velvilja og alls konar stuðnings. En þrátt fyrir fjáreklu þjóðkirkjunnar þurfum ekki fé frá útlöndum. Miðlun hins djúptæka og óefnislega er mikilvægara. Mannauðurinn og andlegu dýrmætin eru mikilvægust. Þjóðkirkjan tók á fjárvana tímum ákvörðun um að vera grein á tré heimskirkjunnar. Og nú er kirkjan ekki rík en þó ekki svo snauð að fjármunum að hún geti ekki staðið við skuldbindingar sínar erlendis, t.d. að greiða árgjöld sín til kirknasamtakanna.

Oikoumene er grískt orð og merkti mannheimur í rómversku samhengi og hefur á síðari árum verið samheiti um heim kristinnar kirkju. Kristin kirkja varðar menn í nærsamfélagi og fjarsamfélagi. Að rækta tengsl við systur og bræður – fjölskyldukirkjur – er til bóta. Gott fjölskyldulíf er mikilvægt og þjóðkirkjan nýtur stórfjölskyldu kristninnar. Eflum samkirkjustarfið og allir styrkjast.

Bréfið farið – svarið er?

Á blaðinu fyrir framan mig var prentuð tilkynning til kjörstjórnar um, að ég gæfi kost á mér í biskupskjöri. Svo voru þarna tilvísanir í starfsreglur um kjör og hæfi mitt. Ég fór yfir textann og hugsaði um merkingu hans. Svo tók ég sjálfblekung – ekki hæfir annað – og ritaði nafnið mitt, braut blað og smokraði í umslagið og lokaði.

Svo fór ég út í hraglanda morgunsins og ók niður í bæ. Eina stæðið, sem ég fann, var við Hallgrímskirkju. Mér þótti gott að leggja þar og rölti svo niður á Laugaveg. Á þriðju hæð Biskupsstofu var Hanna Sampsted, sem tók brosandi á móti bréfinu og kvittaði. “Þetta er fyrsta tilkynningin” sagði hún. Og við kvöddumst og Steinunn Arnþrúður Björnsdóttir var þarna líka og við blessuðum hvort annað.

Svo fór ég út á Laugaveginn með vitund um, að ég hafði tekið skref í lífinu. Ég hef aldrei fyrr skilað inn tilkynningu um, að ég gefi kost á mér í biskupskjöri. Var þetta rétt ákvörðun, rétt skref? Ég hef verið kallaður í hinu ytra og innra. Ákvörðun hafði verið tekin áður, en enn einu sinni horfði ég í djúp sálar, speglaði allar víddir og álitamál. Já, þetta var skref til góðs og blessunar. En það er mál kjörmanna að ákveða. En bréfið er þegar í höndum kjörstjórnar, en bréfin frá kjörmönnum ókomin. Megi krossar atkvæðaseðlanna verða góðir biskupskrossar.

Að breyta

“Er einhvern tíma bakkað þegar menn hafa gert mistök?” Þessi spurning kom upp á einum fundi með kjörmönnum nú í vikunni. Við ræddum m.a. fækkun prófastsdæma á Suðurlandi. Þar hefur þremur prófastsdæmum verið skellt saman í eitt stórt.

Á fundum á Suðurlandi síðustu daga hefur margt merkilegt komið fram. Mér hefur orðið betur ljóst, að skipulagsbreytingar í kirkjunni síðustu ár hafa kannski ekki heppnast sem skyldi. Hvernig getur prófastur stýrt starfi á svæði, sem nær vestan frá Reykjanesi og austur fyrir Höfn í Hornafirði? Raunar þyrfti sá prófastur að vera losaður undan sóknarprestsstarfi. En svo er ekki á Suðurlandi né í öðrum prófastsdæmum. Og ég spyr hvort ekki þurfi þor og þrek til að bakka með skipulagsbreytingar sem ekki skila sem skyldi.

Framundan er að meta nýtt frumvarp um þjóðkirkjulög. Frumvarpið verður lagt fyrir prestastefnu í sumar og síðan kirkjuþing í haust. Í tengslum við það þarf að ræða, ákvarða og móta starfsreglur um skipulag kirkjunnar. Samstarfssvæði er einn angi þessa stóra máls. Skilgreina þarf stöðu vígslubiskupa betur en hefur verið gert og efla stöðu þeirra. Staða biskupsembættisins er einnig í mótun og létta þarf af biskupi ýmsum störfum við framkvæmdastjórn kirkjunnar. Störf og stöðu prófasta þarf að endurskilgreina, stærð og rekstur prófastsdæma. Og það er ekki sjálfgefið að ef vígslubiskupar eru efldir rýrni hlutverk prófasta eða öfugt. Prófastar mega gjarnan eflast sem verkstjórar að skandinavískri mynd og vígslubiskupar eiga vera fullvirkir tilsjónarmenn í kirkjunni.

Þorum við að skoða og endurskoða breytingar? Árangursmat þarf að verða eðlilegur þáttur í lífi og starfi kirkjunnar. Þegar reynsla er komin af nýjum starfsreglum þarf að meta gildi og árangur. Kirkjuþing hefur sýnt að það þorir að endurskoða strax ákvarðanir sínar þegar gallar koma í ljós.

Ég heyri að Sunnlendingar vilji opinskáar umræður um skipulagsgalla og breytingar. Þegar mistök hafa verið gerð er betra að bakka en þrjóskast við og spóla.