Greinasafn fyrir merki: Ísabella Helga Seymour

IHS – fermingin

„Sæll og kærar þakkir fyrir flottu ferminguna og bókina og takk fyrir að vera svona skemmtilegur við okkur.“ Þessi fallega þakkarkveðja kom í tölvupósti og nokkrar myndir með frá fermingarstúlku eftir sumarfermingu í Hallgrímskirkju.

Ísabella Helga Seymour kom fljúgandi frá Ameríku til að fermast í Hallgrímskirkju sunnudaginn 18. júlí. Viktoría, mamma hennar, og Margrét Helga, yngri systir, komu með henni í messu viku fyrir fermingardaginn. Það var gaman að kynnast þeim, allar svo jákvæðar og kraftmiklar. Ísabella Helga tók því vel að útdeila í altarisgöngunni með okkur Ágústu Þorbergsdóttur. Svo báru móðir hennar og systir ljósin út í lok messu. Ísabella Helga valdi vers úr Rómverjabréfinu: „Við vitum að þeim sem Guð elska samverkar allt til góðs, þeim sem hann hefur kallað samkvæmt ákvörðun sinni. … Ef Guð er með okkur hver er þá á móti okkur?“

Í ávarpinu til Ísabellu var talað um nafnið hennar, merkingu og hún var minnt á að skammstöfun nafns hennar væri IHS. „Sú skammstöfun er algeng í kirkjum heimsins, í kirkjulistinni sem og munum, skreytingum kristninnar í húsum, bókum og miðlunarefni. Á fyrstu öldum kristninnar urðu til alls konar styttingar, nk. emoji þess tíma. IHS var eitt af þeim. Upprunalega var IHS stytting á Iesus Hominum Salvator, sem er latína og þýðir: Jesús frelsari mannkyns. Þegar þú sérð IHS í kirkjulist heimsins máttu muna að Guð er nærri, elskar, gefur líf, ástvini sem elska þig, fjölskyldu, vonir og lífskraft. Þú mátt vera vinur IHS – bæði sjálfrar þín og mannkynsfrelsarans. Svo vil ég minna þig á að ein merking nafnsins Isabella er að vera eiðsvarin Guði, vilja vera Guðs. Fermd Guði með jái. Nafnið Helga er tengt helgi, sem er ekki föstudagur til sunnudags heldur að vera heilög. Það merkir að vera tengd Guði og lifa fallega og vel. Nafnið, viðburðurinn í dag hvetur þig að lifa alltaf vel. Iðkaðu sjálfsvinsemd og Guðsvinsemd.“

Ísabella Helga Seymour er fermd og fékk Passíusálma að gjöf. Í kirkjunni var hún sjálf gleðigjafi, hrósaði fólki sem brást vel við þessari ungu og geislandi konu. Já og Ísabella Helga sendi mér þessar líka fínu myndir og þakkaði fallega fyrir sig. Það er rækt í svona sjálfstæði og þakkarafstöðu. Svo kemur hún vonandi aftur þegar hún staldrar við á Íslandi í framtíðinni. Svo samverkar allt til góðs í lífi hennar og hún á í Guði öflugan bandamanna. Sumarfermingar eru líka skemmtilegar. IHS.

Með á kennimyndinni, efstu myndinni, er Matthías Harðarson sem var orgelleikari dagsins. Til heiðurs Ísabellu Helgu spilaði hann Ungi vinur, sem er lag Oddgeirs Kristjánssonar við hvatningarljóð Ása í Bæ.