Greinasafn fyrir merki: dans

Dans vatnsins

Sólskinið kyssti okkur, skútufólk, á siglingu um sundin milli Koster og Strömstad í Svíþjóð. Skyndilega varð skýfall. Ofsarigning á sólskinsdegi og í skamman tíma. Þegar fossinn að ofan byrjaði kyrrði sjóinn. Öldugangurinn snarminnkaði þegar risadroparnir skullu á yfirborð sjávar og rugluðu sjávarbylgjurnar. Ofankoman stillti mátt að neðan og frá hlið, eins og jafnvægi kraftanna kæmist á, kannski til að dans vatnsins yrði sem bestur. Ekki aðeins menn, fuglar og dýr dansa. Vatn dansar líka á krossgötum samfundanna. Vatnsballettinn var hrífandi, samstilling allra krafta. Það er gömul, sprelllifandi speki Biblíunnar að til að lífið sé gott skuli kraftar samstillast. Við, menn, eru kallaðir til að beita okkur í þágu þeirrar samstillingar en líka gleðjast og hrífast þegar hún verður. Í þessum vatnsdansi fannst mér ég skynja húmor Guðs. Þetta var vitjun dagsins.