Greinasafn fyrir merki: sjómennska

Bjössi og samherjar lífsins

Þegar ég ólst upp á Grímstaðaholtinu var á vorin mikið fjör við Þormóðsstaðafjöruna við Ægisíðu. Þar voru bátar grásleppukarlanna. Björn Guðjónsson var kóngurinn á svæðinu. Íbúar í Vesturbænum könnuðust við Bjössa og allir krakkar á Grímsstaðaholtinu þekktu hann. Við, smáfólkið, sóttum í fjölbreytilegt lífið við ströndina, skoðuðum kuðunga og iðandi fjörulífverur og veiddum fisk. Stundum synti torfa af stórufsa upp í fjöruna þar sem þurrkhjallur Björns var. Það var gaman að veiða ufsann á stöng því hann var svo sprettharður. Trillukarlarnir skildu veiðihug barnanna og gáfu beitu. Þeir voru flestir vinsamlegir en Björn var þeirra fremstur. Hann var sækóngurinn í heimi okkar barnanna, glæsilegur eins og Hollywoodstjarna, hélt sig vel og var sómi stéttar sinnar. Báturinn hans var alltaf hreinn og kofinn hans sérlega snyrtilegur. Björn var mildur höfðingi í sinni verstöð. Hann var glettinn og elskulegur við yngri sem eldri og sannur mannvirðingarmaður. Skapfestan kom vel í ljós þegar á einhvern var hallað. Þá var Björn strax kominn við hlið þess sem að var sótt eða var minni máttar. Einu gilti hvort til hans komu börn, útigangsmenn eða þjóðhöfðingi. Allir nutu sömu ljúflyndisglettninnar, en hinir fátæku nutu hins vegar sérstakrar viðskiptavildar og verðið til þeirra var stundum talsvert neðan við þekkt kílóverð. Björn þekkti ekki aðeins umhyggjusiðfræði kristninnar, heldur iðkaði hana í lífinu og í samskiptum við fólk. Hann var „grand” í lífinu og stærstur í samskiptum. Hann var samherji í samfélagi.

Í róður

Af því mér þótti Bjössi heillandi og traustins verður spurði ég hann ein sinni þegar ég var ellefu ára hvort ég mætti fara á sjó með honum. Hann tók spurningunni ljúflega en lofaði engu fyrr en foreldraleyfið væri veitt. Og pabbi og mamma treystu Birni Guðjónssyni og öllu hans fólki. Róðurinn með Bjössa var eftirminnilegur dýrðardagur. Góðmiðin við Staðarboða út af Álftanesi gáfu vel. Skipstjórinn var fumlaus. Meðan hann dró netin og skellti inn hrognkelsum og rauðmaga, fylgdist hann með skýjafari, blikum á lofti og lífi í sjó. Hann skýrði líka verkin fyrir hásetanum, talaði um sker og boða, benti mér á hnísu í sjónum og sagði frá þaraþyrsklingi, sem hann sá í djúpinu og hélt örfyrirlestur um hvernig þarinn skilaði kviðlit fiskjarins. Það var helgi í manninum og lotningarverð elska í starfi hans.

Dagur sjómanna

Á sjómannadegi hugsa ég gjarnan til sjómannanna sem ég þekki og hafa haft áhrif á fólk og mótað umhverfi sitt. Margir sjómenn hafa verið fyrirmyndir eins og Björn var mér. Sjómennirnir sem fólkið þeirra og fjölskyldur hefur verið lykilfólk í mótun velferðarsamfélags Íslands. Við minnumst líka þeirra sem farið hafa í hafið og íhugum afleiðingar fyrir ástvini þeirra og menningu þjóðarinnar. Við erum flest komin af fólki sem hefur sótt sjóinn. Báðir afar mínir voru sjómenn meðfram fjár- og kúabúskap. Fjölskylda konu minnar hafði lifibrauð af sjósókn. Sjómenn eru í flestum íslenskum fjölskyldum og höggvin hafa verið skörð í þær flestar. Algengt var fyrrum að þegar vermenn fóru á vertíð kvöddu þeir ástvini sína eins og þeir færu að heiman í síðasta sinn og ættu aldrei eftir að sjá þá aftur. Í stærstu sjóslysum aldanna fórust svo margir að hlutfallstollurinn var meiri en mannfall herþjóða í stríðum. Slagur Íslendinga var við haf og æðandi náttúruöfl. Í þeirri glímu varð til slitsterk trú og tenging við allt það mesta, besta og stærsta, Guð.

Kirkjuskipin

Trú og sjór tengjast. Aðalrými kirkna eru kölluð kirkjuskip. Og svo eru í ýmsum kirkjum skip sem svífa yfir höfðum fólks, oftast trébátar, annað hvort smækkaðar útgáfur af árabátum eða seglskipum. Skipin eru oftast fagrir gripir og völundarsmíð. Fallegar skútur, skonnortur og sú tegund skipa sem þekkt voru á fyrri öldum, en ég hef aldrei rekist á kafbát í kirkju, ekki smækkaða útgáfu af herskipi, togara eða fraktara. Þrátt fyrir alla sjómennsku Íslendinga eru skip þó ekki eins algeng í kirkjum okkar eins og víða erlendis. Guðjón Samúelsson skoðaði vel Grundvigskirkjuna áður en hann teiknaði Hallgrímskirkju og í hinu einfalda og stílhreina rými þess hrífandi guðshúss er fagurt skip svífandi. Þessi skip í kirkjum heimsins eru ekki sett upp á sjómannadögum. Þau eru þarna allt árið. Þau eru tákn. Og minna ekki aðeins á að Guð gefur fæðu og það sem við þörfnumst til lífsgæða. Þau minna líka á að Jesús var veiðimaður og lærisveinar hans líka. “Legg þú út á djúpið, og leggið net yðar til fiskjar”, sagði Jesús. Veiðisögurnar af Jesú varða að tryggja líf, bæta það og efla. Veiðiskapur þeirra var í þágu manna, veiða menn til lífsbjargar og lífsgæða. Veiðskapur guðsríkisins.

Guð – líka á kantinum

Í guðspjalli sjómannadagsins er greint frá björgun Jesú. Hann er vakinn til að bjarga mönnum. Í pistli dagsins er sagt frá viðburðaríkri ferð Páls postula og frasögnin er um björgun. Páll var á ferð við eyjuna Krít. Hann hafði reyndar illan bifur á íbúum hennar. Fram kemur t.d. í fyrra bréfi hans til Tímótesuar þessi óskaplega umsögn: „Krítarmenn eru síljúgandi, óargadýr og letimagar!“ Já, gott fólk – þetta stendur í Biblíunni! En Páll átti ekki sökótt við Kríteyinga í þetta sinn. Hann var fangi Rómverja og um borð í rómversku skipi. Páll var vanur að fara beint á torgin í borgunum sem hann kom til og talaði um Jesú Krist, mesta kraftaverk heimsins. Þess vegna var honum oft kastað í fangelsi. Enn á ný var hann dreginn fyrir dóm, en vegna stöðu sinnar sem rómverskur borgari, sem veitti aukna réttarvernd, var Páll sendur til Rómar. Veðurofsi skall á, magnaður af krítverskum snæfjöllum. Allt virtist stefna á versta veg. En Páll var draumamaður, svefnmyndirnar voru farvegur í boðmiðlun milli himinsins og hans. Hann hóf upp raust sína að morgni, talaði spádóms- og huggunar-orð, talaði kjark í áhöfn og lagði til góð ráð og stefnu. Mark var tekið á orðum hans og því fórst enginn þegar skipið strandaði. Sagan er björgunarsaga.Í hættunni hljómar boðskapurinn um björgun.

Hver biblíutexti á sér eigin rök og eigin merkingu. En síðan hefur hver lesari möguleika á að lesa með nýjum augum, frá öðrum sjónarhóli, með nýjum gleraugum, ekki til að afskræma merkingu textans, heldur til að nýta hann til andlegs fóðurs. Biblíutextar eru margrétta máltíð með dásamlegum desert – bónus til lífs. Hægt er að sjá í mynd Páls kristniboðann, sem má verða okkur fyrirmynd um siðferðisstyrk og siðvit. Hann er fordæmi um samskipti kristins manns og samfélagsábyrgð. En við getum dregið lærdóminn lengra og séð allan heiminn birtast í þessu sögulega og biblíulega sjávarlöðri. Sagan um Pál er björgunarsaga og björgunin tengd við trú, siðvit og Guð.

Björgunin

Einstaklingar og samfélög lenda í raunum. Enginn maður hefur lifað án átaka. Í sögunni um Pál kemur fram að í sjávarháskanum hafi mönnum fyrst dottið í hug að drepa fangana. En það er þó einn fanganna sem sá lausnina, leysti vandann og talaði máli lífsins. Þannig er það oft. Í háska bregðast valdsmenn oft og björgun verður með óvæntu móti – að neðan. Í þessari sögu um Pál er það fanginn sem bjargaðiþeim sem gættu fanganna. Þannig starfar Guð gjarnan. Guð starfar ekki aðeins með viðurkenndum lögum og kerfistækni heldur opnar lífið, hjálpar með óvæntu móti og með hjálp hinna vanmetnu. Guð er ekki bara efst heldur líka neðst, á kantinum og meðal hinna fyrirlitnu. Hjálpin er að handan og verður til góðs ef menn opna í auðmýkt og virða heilagleika fólks, náttúru og lífs.

Samherjar lífsins

Í dag er sjómannadagur – merkilegur dagur sem minnir okkur á upphaf okkar Íslendinga, lífsbaráttu fólksins okkar og þjóðar. En sjómenn allra alda hafa ekki aðeins veitt fisk til næringar heldur líka verið ábyrgir björgunarmenn, þjónar samfélags síns. Ég minntist Björns Guðjónssonar áðan. Hann dró ekki aðeins fisk úr sjó heldur var líka öflugur félagi í samtökum smábátaeigenda. Hann lagði ekki aðeins fisk við dyr þeirra sem höfðu lítið milli handa og í búri. Hlutverk hans var stórt, að þjóna öðrum og gegna kalli mennskunnar. Hann var sem tákn samstöðu, samheldni og samvinnu. Björn bjargaði fólki og var eiginlega heil björgunarsveit í sjálfum sér, alltaf á vakt og til reiðu. Þegar hann sá, að ungmenni voru að leika sér á Hrakhólmum, sem eru sker við Álftanes, fór hann stóran krók til að tryggja að þau flæddi ekki á skerjum. Hann bjargaði þeim og kom þeim á þurrt. Krakkarnir á Grímsstaðaholti fleyttu kössum og flekum á flot og svo tók útfallið þessi fley og krakkana með. Oft bjargaði Björn börnum af flekum á floti, sem stefndu til hafs.

Mannbjörgin

Já, í dag er sjómannadagur. Sjómenn róa helst ekki á sjómannadegi. Skipin eru í höfn og sjómenn gleðjast í landi. Á slíkum dögum vitjaði Björn Guðjónsson ekki heldur neta sinna utan einu sinni. Hann var ekki í rónni þegar hann vaknaði, fann kallið hið innra, ræsti út son sinn sem ekkert skildi í karlinum. En í þetta sinn skyldi róið. Ekki höfðu þeir lengi farið þegar þeir komu að skútu á hvolfi. Kaldir menn voru á kili og í bráðri lífshættu. Þeir feðgar björguðu þeim um borð í trilluna og komu í hlýju og til lífs. Lengra fóru þeir Björn og sonur hans ekki þennan daginn. Erindi þeirra var lokið þann daginn því fólki var bjargað. Veiðskapur guðsríkisins, samherjar lífsins. Engra neta var vitjað þennan dag, en sá sem heyrir kallið þvert á kerfi og reglur veit hvenær á að fara út þrátt fyrir hefðbundin mótrök. Björn Guðjónsson vaktaði lífið. Hann útdeildi gæðum lífsins meðal sinna og samferðamanna. Hann var mannbjörgunarmaður og lukkumaður í lífinu. Og þannig hefur verið með sæfarendur aldanna og þannig eiga allir sjómenn að vera og hegða sér. Við megum njóta gæða sem Guð gefur en hlutverk okkar er að deila gjöfunum með öðrum eins og Björn gerði – vera lífsbjörgunarmenn – blessun fyrir aðra. Þannig er besta sjómennskan.

Þakkið Drottni því að hann er góður,
því að miskunn hans varir að eilífu.

Dýrð sé Guðiföður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda – Amen.

To those of you not speaking Icelandic: Today is a day for the rememberance of the Icelandic fishermen and fishing in Icelandic waters. Fishing has been of utmost importance for our country and more and more we realize how important it is to take good care of the blue planet. I did tell personal youth stories abaout a fisherman who bcame my friend and benefactor. I did learn important lessons for life from him. He was not only devoted to fish but to make sure the wellfare and safety of his neighbors. Not working only for his own good but for the benefit of the whole. We are members of a nexus, society, nature, universe, God. You go from the church today with blessing – and be a blessing to others.

Þriðja textaröð sjómannadags:

Lexía: Slm 107.1-2, 20-31
Þakkið Drottni því að hann er góður,
því að miskunn hans varir að eilífu.
Svo skulu hinir endurleystu Drottins segja,
þeir er hann hefur leyst úr nauðum.
Þeir skulu þakka Drottni miskunn hans
og dásemdarverk hans við mannanna börn,
færa honum þakkarfórnir
og segja frá verkum hans með fögnuði.
Þeir sem fóru um hafið á skipum
og ráku verslun á hinum miklu höfum
sáu verk Drottins
og dásemdarverk hans á djúpinu.
Því að hann bauð og þá kom stormviðri
sem hóf upp öldur hafsins.
Þeir hófust til himins, hnigu í djúpið,
og þeim féllst hugur í háskanum.
Þeir skjögruðu og reikuðu eins og drukkinn maður
og kunnátta þeirra kom að engu haldi.
Þá hrópuðu þeir til Drottins í neyð sinni
og hann bjargaði þeim úr þrengingum þeirra.
Hann breytti storminum í blíðan blæ
og öldur hafsins lægði.
Þeir glöddust þegar þær kyrrðust
og hann leiddi þá til þeirrar hafnar sem þeir þráðu.
Þeir skulu þakka Drottni miskunn hans
og dásemdarverk hans við mannanna börn.

Pistill: Post 27.13-15, 20-25

Nú rann á hægur sunnanvindur. Hugðust þeir þá hafa ráð þetta í hendi sér, léttu akkerum og sigldu fram með Krít nærri landi. En áður en langt leið skall á af landi ofan fárviðri, hinn illræmdi landnyrðingur. Skipið hrakti og varð því ekki beitt upp í vindinn. Slógum við undan og létum reka. Dögum saman sá hvorki til sólar né stjarna og ekkert lát varð á ofviðrinu. Tók þá að þrjóta öll von um að við kæmumst af. Nú höfðu menn lengi einskis matar neytt. Þá stóð Páll upp meðal þeirra og mælti: „Góðir menn, þið hefðuð átt að hlíta mínu ráði og leggja ekki út frá Krít. Þá hefðuð þið komist hjá hrakningum þessum og tjóni. En nú hvet ég ykkur til að vera vonglaðir því enginn ykkar mun lífi týna en skipið mun farast. Því að á þessari nóttu stóð hjá mér engill þess Guðs sem ég heyri til og þjóna og mælti: Óttast þú eigi, Páll, fyrir keisarann átt þú að koma. Guð hefur gefið þér alla þá sem þér eru samskipa. Verið því vonglaðir, góðir menn. Ég treysti Guði, að svo muni fara sem við mig hefur verið mælt.

Guðspjall: Matt 8.23-27

Nú fór Jesús í bátinn og lærisveinar hans fylgdu honum. Þá gerði svo mikið veður á vatninu að bylgjurnar gengu yfir bátinn. En Jesús svaf. Þeir fara til, vekja hann og segja: „Drottinn, bjarga okkur, við förumst.“
Hann sagði við þá: „Hví eruð þið hræddir, þið trúlitlir?“ Síðan reis hann upp, hastaði á vindinn og vatnið og varð stillilogn.
Mennirnir undruðust og sögðu: „Hvílíkur maður er þetta? Jafnvel vindar og vatn hlýða honum.“

2021 Sjómannadagurinn. 6. júní. Hallgrímskirkja.

Meðfylgjandi mynd tók ég við Skerjafjörðinn og sést yfir til Bessastaða og Álftaness. Skvettan til hægri á myndinni kom frá sel sem stakk sér.