Greinasafn fyrir merki: Dagný í Reykholti

Dannebrog í Tallinn og fleiri furður

Stundum smækkar stórveröldin. Eða samsláttur veralda verður sem maður á ekki von á. En furður verða og ég varð fyrir skörun heimanna í Tallin í Eistlandi í október 2018. Ég var í stórum og fjölþjóðlegum hópi kirkjufólks. Við vorum í skoðunarferð um elsta hluta borgarinnar og nutum góðrar leiðsagnar heimamanns. Hann sagði skemmtilega frá stórviðburðum aldanna sem höfðu áhrif á þróun borgarinnar og lýsti undri frá 13. öld. Þá féll danski fáninn af himni og danskur herflokkur sem sat um borgina vann orrustuna. Það fór eiginlega mýthólógískur skjálfti um tilheyrendur og hlátrarnir hljómuðu. Ég sneri mér við og var tilbúinn í fleiri ævintýri. Þá sá ég Pál í Húsafelli, þann stórkostlega listamann, og við Elín mín eigum meira segja skúlptúr eftir hann. Svo sá ég Helga í Lúmex og kirkjusmið, sem ég dái mjög. Hann hefur ljóshannað tvö hús, sem ég hef átt. Svo var þarna Dagný, prestsfrú, í Reykholti, forkur og sérlega skemmtileg kona. Og þar sem hún fer er ekki lengi að bíða sr. Geirs Waage. Hann kom í sínu fínasta pússi. Þetta var ótrúleg sýn. Rétt þegar ég var búinn að heyra hina litríku sögu um að Dannebrog féll á Tallinn birtust þessir vinir mínir sprelllifandi og með nokkra Dannebrog-furðu í augum. Þau féllu ekki af himni si svona og duttu ekki inn í mína veröld fluvélalaust, heldur voru þau komin til Tallinn til að vera við opnun húss til heiðurs Arvo Pärt sem ég met flestum tónskáldum meira. En dóttir Dagnýjar og Geirs er tengdadóttir meistarans Pärt. Heimurinn lítill? Nei, heimurinn er stór og stórkostlegur og fullur af undrum. Takk fyrir líf dásemdanna. Og takk fyrir Pärt og aðra undramenn sem sameina margar veraldir.