Er þessi pabbi í lagi?

Hvernig hefur fjölskylda þín mótað þig? Ekki aðeins erfðavísarnir heldur samskipti, uppeldi og áföll. Við erum öll hluti fjölskyldu og fjölskyldusögur eru alls konar. Við mótumst af fjölskyldu okkar og sögu hennar. Í Biblíunni er fjöldi fjölskyldusagna, sem eru erkisögur, lærdómssögur og viðmið en líka víti til varnaðar. Jesús var meðvitaður um gildi, vegsemd og vanda fjölskyldna. Hann sagði litríkar sögur um fjölskyldur. Íhugunarefni dagsins er ein af þeim merkilegu sögum.

Saga guðspjallsins er um ungan mann í útrás og viðbrögð fjölskyldu hans. Þessi saga um týnda soninn, eyðslusegginn, er í guðspjallinu síðasta sagan um missi og endurheimt. Og ungi maðurinn sem drífur áfram framvindu sögunnar var með huga við peninga. Hann kreisti út arf sinn fyrirfram, sóaði öllu með miklum látum og klúðraði fjármálum sínum herfilega. Hann eignaðist að sjálfsögðu viðhlægjendur meðan hann átti aur. En svo var auðurinn búinn og hryllilegur raunveruleikinn blasti við. Þegar maðurinn var meðal svínanna varð hann að horfast í augu við stöðu sína. Hann hafði náð botninum og viðurkenndi þá, að hann hafði verið týndur. Þá byrjaði hann að sjá að sér, iðrast, – koma til sjálfs sín eins og sagt er svo fallega.

Þrír karlar

Heima var týnda syninum fagnað með grillveislu og dansi. Eldri bróðirinn hafði aldrei verið til vandræða. Hann bara var heima og kom svo einn daginn úr vinnunni og horfði forviða á rjóðar, dansandi konur, syngjandi sveina og viðbjóðslegan bróður, sem hafði komið í tötrum en hafði verið færður í glansandi veisluklæði. Þegar sukkarinn kom var dekrað við hann.

Því lengur sem ég íhuga þessa sögu vex samúð mín með eldri bróðurnum. Var þessi veisla fyrir ruglukollinn nokkuð annað en meðvirkni? Í flestum fjölskyldum heimsins eru til sukkarar, sem týnast af einhverjum ástæðum. Og það er alltaf átakanlegt. Svo eru hin, sem eru ábyrg og standa við sitt og sinna sínum hlutverku en geta þó átt í miklum vanda. Eldri sonurinn í líkingasögu Jesú var ekki fullkominn. Hann var ekki týndur í útlöndum en var þó týndur heima, dugnaðarmaður en tepptur hið innra. Hann var sjálfmiðaður í gæðasókn sinni en hafði tapað tengslum við ástvini sína. Fólkið í fjölskyldu karlanna var týnt hverju öðru og úr varð misskilningur. Allir rugluðust – allir voru týndir?

Meginstefið og yfirdrifnar sögur Jesú

Þekkir þú svona fjölskyldulíf? Til hvers sagði Jesús þessa sögu? Var það til að benda á að brotnar fjölskyldur ættu að halda partí hvenær sem fíkillinn kæmi úr meðferð – hvenær sem einhver flakkarinn kæmi heim frá útlöndum? Nei.

Hver er aðalpersóna sögunnar? Er það sukkarinn eða kannski heimalningurinn, bróðir hans? Eða getur verið að hvorugur sé lykilpersónan?

Sögur Jesú Krists eru merkilegar. Hann var slyngur sögumaður, kunáttusamur um byggingu, flækju og merkingarburð sögu. Sögur Jesú eru gjarnan með andstæðupari og í þessari sögu eru bræðurnir pólarnir. En svo sprengir Jesús venjulegar aðstæður og almenna úrvinnslu í mannheimum með óvæntri framvindu og furðulegum úrslitum. Sögur hans enda oftast með yfirdrifnum viðbrögðum og óvæntum niðurstöðum. Af hverju?

Jesús reyndi með sögum sínum að kalla tilheyrendur sína til vits. Faðirinn, viðbrögð hans og örlæti eru á skjön við það, sem við myndum gera og andstæð því sem fólk í öllum heimshornum myndi gera í hliðstæðum aðstæðum þegar barnið kemur loks heim. Flest viljum við taka á móti iðrandi börnum okkar en þó ekki að umbuna fyrir vitleysuna.

Já, bræðurnir eru mikilvægar persónur í dramanu en miðjan í sögunni er þó faðirinn, viðbrögð hans og verk. En föðurmyndin sem Jesús dregur upp sprengir alla ramma hins venjulega fjölskyldulíf, sprengir allt faðerni og móðerni þessar veraldar. Það er ekki faðir af þessum heimi, sem sprettur fram í sögunni heldur hinn himneski FAÐIR. Afstaða þess föður einkennist af yfirfljótandi og markalausri ást, sem umvefur allt og alla.

Iðrun og sátt.

Jesús sagði þessa líkingasögu til að vekja tilheyrendur til íhugunar um guðsafstöðu. Tveir synir. Var annar týndur en hinn bara vís heima? Eða báðir í ruglinu? Týndi sonurinn – hver er hann? Jesús segir okkur sögu um alla, líka okkur, bendir á að við séum öll eins, týnd í einum eða öðrum skilningi. Vinna, eignir og athæfi greina okkur bara að í hinu ytra. Hið innra eru við að leita, reynum að tengja og gleðjast. Hvað skiptir mestu máli í lífinu? Þegar þú ert búinn að tæma alla gleðibikara lífsins getur þú komið til sjálfs þín og séð að allt voru þetta mistök. En Guð sér þig á veginum til lífs og tekur á móti þér. Ekki af því að þú sért búinn að vinna þér inn höfuðstól, heldur af því að Guð elskar þrátt fyrir vitleysur þínar. Guð opnar líka fyrir hinum sem alltaf voru heima – ekki vegna þess hver þú ert, hvað þú átt eða hefur gert, heldur af því að þannig er flóð eða hömluleysi guðlegrar ástar.

Heim

Allir þrá hamingju og að lifa vel, falla í fang elskunnar. En bræður, systur, systkin og fjölskyldur klúðra lífi sínu. En þá er komið að undri hins guðlega. Lífið er ekki búið heldur sprettur líf fram úr dauða. Boðskapur Jesú er fagnaðarerindi og það merkir að nýir möguleikar opnast, öllum er boðið til veislu himins. Guð er ekki lítill, smár, reiður og refsandi dómari heldur elskulind, sem veitir nýtt upphaf. Þegar við erum búin að týna öllu og erum komin á botninn megum við halda heim. Nýr möguleiki. Það er einkenni elskunets Guðs að við þér er tekið. Guð sér þig, finnur þig þegar þú heldur heim til sjálfs þín. „En nú varð að halda hátíð og fagna, því hann bróðir þinn, sem var dauður, er lifnaður aftur, hann var týndur og er fundinn.“

Í Jesú nafni – amen

2019 3sdeftirþrenn B 7. júlí

Myndin sem fylgir þessari íhugun er eftir Oleg Korolev. 

A few words on the text of the day. It is Jesus‘ story about the lost son, the prodigal son. He tricked out his inheritance and went abroad for an expensive life ending in absolute disaster. So when – without money or food – the man realized and admited his awful situation. He decided to return. But he knew that he had lost his former status. The father welcomed him with a feast. But the older son was astonished that the scoundrel, who had been such a pain in the family, was rewarded and redeemed. So what to do with the story? All families have a prodigal son or a daughter, father or mother. All families struggle with how to cope with some loss og disaster. Jesus marvellous story relates to all families of the world. The two guys, the brothers, are important in the drama. The yonger son was a misfit but he decided to depart from his wrongdoing. The older son, with a completely different view, was a lost son too. While just doing right he forgot seeing the possibilites and richness of life. And of cource he is the representative of legalistic way of living, that was the political-cultural message of Jesus. But the message – the sense – of his story concerns the abundance excemplified by the Father. He is greater than all fatherhood in the world. The father in the story is an icon, image of the divine, excuberant, more loving than the sons deserve. Applied to you: However, you spend your wealth or how you have lived your life there is a possibility, an openness. However you have disrespected the depth in your soul, or that which is divine, you are welcome nevertheless. God is not a resenting, grumpy old guy – but overflowing love. When you are lost you are nevertheless seen and cherished.

Lexía: Slm 145.8-13
Náðugur og miskunnsamur er Drottinn,
þolinmóður og mjög gæskuríkur.
Drottinn er öllum góður
og miskunn hans hvílir yfir allri sköpun hans.
Öll verk þín lofa þig, Drottinn,
og dýrkendur þínir vegsama þig.
Þeir segja frá dýrð ríkis þíns
og tala um mátt þinn
til að boða mönnum veldi þitt,
hina dýrlegu hátign konungdæmis þíns.
Konungdæmi þitt varir um allar aldir
og vald þitt stendur frá kyni til kyns.

Pistill: 1Tím 1.15-17
Það orð er satt, og í alla staði þess vert að við því sé tekið, að Kristur Jesús kom í heiminn til að frelsa synduga menn og er ég þar fremstur í flokki. En Guð miskunnaði mér til þess að ég yrði fyrstur þeirra sem Kristur Jesús sýnir allt sitt mikla langlyndi og þar með yrði ég dæmi handa þeim sem á hann munu trúa til eilífs lífs. Konungi eilífðar, ódauðlegum, ósýnilegum, einum Guði sé heiður og dýrð um aldir alda. Amen.

Guðspjall: Lúk 15.11-32
Enn sagði Jesús: „Maður nokkur átti tvo sonu. Sá yngri þeirra sagði við föður sinn: Faðir, lát mig fá þann hluta eignanna sem mér ber. Og faðirinn skipti með þeim eigum sínum. Fáum dögum síðar kom yngri sonurinn eigum sínum í verð og fór burt í fjarlægt land. Þar sóaði hann fé sínu í óhófsömum lifnaði. En er hann hafði öllu eytt varð mikið hungur í því landi og hann tók að líða skort. Fór hann þá og settist upp hjá manni einum í því landi. Sá sendi hann út á lendur sínar að gæta svína og hefði hann feginn viljað seðja sig á drafinu er svínin átu en enginn gaf honum. En nú kom hann til sjálfs sín og sagði: Hve margir eru daglaunamenn föður míns og hafa gnægð matar en ég ferst hér úr hungri! Nú tek ég mig upp, fer til föður míns og segi við hann: Faðir, ég hef syndgað móti himninum og gegn þér. Ég er ekki framar verður að heita sonur þinn. Lát mig vera sem einn af daglaunamönnum þínum. Og hann tók sig upp og fór til föður síns. En er hann var enn langt í burtu sá faðir hans hann og kenndi í brjósti um hann, hljóp og féll um háls honum og kyssti hann. En sonurinn sagði við hann: Faðir, ég hef syndgað móti himninum og gegn þér. Ég er ekki framar verður að heita sonur þinn. Þá sagði faðir hans við þjóna sína: Komið fljótt með hina bestu skikkju og færið hann í, dragið hring á hönd hans og skó á fætur honum. Sækið og alikálfinn og slátrið, við skulum eta og gera okkur glaðan dag. Því að þessi sonur minn var dauður og er lifnaður aftur. Hann var týndur og er fundinn. Tóku menn nú að gera sér glaðan dag. En eldri sonur hans var á akri. Þegar hann kom og nálgaðist húsið heyrði hann hljóðfæraslátt og dans. Hann kallaði á einn piltanna og spurði hvað um væri að vera. Hann svaraði: Bróðir þinn er kominn og faðir þinn hefur slátrað alikálfinum af því að hann heimti hann heilan heim. Þá reiddist eldri bróðirinn og vildi ekki fara inn. En faðir hans fór út og bað hann koma. En hann svaraði föður sínum: Nú er ég búinn að þjóna þér öll þessi ár og hef aldrei breytt út af boðum þínum og mér hefur þú aldrei gefið kiðling að ég gæti glatt mig með vinum mínum. En þegar hann kemur, þessi sonur þinn sem hefur sóað eigum þínum með skækjum, þá slátrar þú alikálfinum fyrir hann. Faðirinn sagði þá við hann: Barnið mitt, þú ert alltaf hjá mér og allt mitt er þitt. En nú varð að halda hátíð og fagna því að hann bróðir þinn, sem var dauður, er lifnaður aftur, hann var týndur og er fundinn.“

Einu sinni var í austri

Hvernig var að alast upp í Kína eftir að Maó komst til valda? Hvernig var líf venjulegs fólks? Hvað gerðist í þorpunum? Hvernig var skipulag aldanna endurstokkað og siðum riðlað með stjórnmálalegum breytingum? Hvað gerði fólk við trú sína? Hversu djúpt ristu breytingarnar út í héruðunum? Hvernig voru fulltrúar kommúnismans og hvernig var tekið á skoðunum fólks sem voru alls konar? 

Uppvaxtarsaga Xiaolu Guo, Einu sinni var í austri, er eiginlega saga Kína síðustu áratugina. Xiaolu fæddist árið 1973. Mamman var í baráttusveit kommúnismans og pabbinn listamaður. Og þar sem Xiaolu var óvelkomið annað barn var hún gefin til fátækra barnlausra bændahjóna. En lífsbarátta þeirra var það hörð að þau gátu ekki séð sér farborða. Í stað þess að bera stúlkuna út fóru þau með hana til föðurforeldra Xiaolu. Afinn og amman bjuggu í sjávarþorpi og þar ólst hún upp fyrstu árin. Afinn drakk, barði ömmuna og var á skjön við samfélagið og tímann. Amman grét, eldaði, fór með sútrurnar sínar og reyndi að verja barnið í hörðum heimi.

Bókin lýsir vel litríkum en erfiðum uppvaxtaraðstæðum. Xiaolu gekk ekki í skóla, en varð snjöll í skóla lífsins þar sem þau náðu lengst sem voru útsjónarsömust. Afinn gafst upp og fargaði sér með því að hella skordýraeitri í búsið sitt. Og þá var komið að því að taka ákvörðun um framtíð stúlkubarnsins. Blóðforeldrarnir komu og náðu í dóttur sína. En þær náðu aldrei neinum tilfinningatakti blóðmóðirin og dóttirin. Meir pabbinn, þó fjarlægur væri flestum, var nær dóttur sinni. Við tók líf í bæ, sem var að breytast úr landbúnaðarþorpi í iðnaðarstórborg.

Xiaolu lifði af í menningarflaumi, námi, kynferðisofbeldi, heimiliskulda, fóstureyðingu, einsemd og eftirsjá. Hún átti í sér persónukjölfestu og einurð, sem fleytti henni alltaf áfram. Svo tók hún ákvörðun um að læra kvikmyndagerð. Og keppti við þúsundir um örfáar námsstöður í kvikmyndaskóla ríkisins. Eftir mikla dramatík komst hún inn og þá lauk bernskunni. Nýtt skeið í lífi Xiaolu Guo hófst í fjölbreytni menningarlífs borgarinnar og áhrifin að vestan heilluðu. Þar á eftir voru svo starfsár hennar í Kína og Englandi, sem er seinni hluti bókarinnar. Sú blóðríka saga verður ekki rakin hér. Það er sagan um austrið í vestrinu.

Einu sinni var í austri er listilega vel skrifuð bók. Hún er laðandi lestrargripur. Bókin gefur innsýn í menningarbreytingar í Kína, veitir skilning á fjölbreytileika mannlífsins, mismunandi þörfum mismunandi héraða, kjörum og kjarabreytingum, áhrifum að utan á kínverska menningu og hópa, vinnubreytingar og baráttu einstaklinganna innan sinna menningarkima. Þessi persónusaga gefur fréttum um Kína mennska ásjónu. Og það er kona sem segir þessa sögu Kína, gefur innsýn í kjör og aðstæður kvenna sem karla, baráttu þeirra, tilfinningar og aðstæður sem voru alls konar. Þessi kvennavinkill gefur sjónarhól að lífi fólks og kjörum þess. Saga um  ást og ástleysi, frelsi og ófrelsi, samskipti og einsemd, áföll, von og sigra. Sagan er sögð af djúpum heilindum og einurð, ást og hugrekki sem ekki hvikar þrátt fyrir sviftingar og ægileg áföll.

Frábær, læsileg og hrífandi bók um lífsbaráttu í Kína á hraðbraut breytinganna. Og bók um að allt er fólki fært, sem tekur stefnu. Jafnvel stórveldið Kína kremur ekki vilja til lífs og frelsis. Fjórar og hálf stjarna af fimm.

Ingunn Snædal þýddi og gerði afar vel. Ég rakst aðeins á tvo frágangshnökra í allri bókinni. Bókaútgáfan Angústúra gefur út. Lof sé útgáfunni, sem hefur metnað að gefa út frábærar bækur um efni utan vestræns samhengis. Angústúra er að verða nútímaútgáfa menningarsjóðs, færir okkur heimsbókmenntirnar heim í hlað. Fimm stjörnur til Angústúru. Og dásamlegt er að njóta sumarfrís líka með því að lesa miklar bækur.

Barn, steinn og skírnarfontur Neskirkju

Þór Sigmundsson, steinsmiður og Guðrún Rannveig Stefánsdóttir, skáld, og börn þeirra gáfu Neskirkju fagran skírnarfont þegar Kolbeinn Tumi var skírður 16. 2009. Hugvekja þess dags fer hér á eftir. 

Skírnarfontur úr steini er tákngripur, vísar út fyrir sig til annars og dýpri veruleika, minnir á steinþróna, sem Jesús var lagður í og líka að lífið spratt fram. Neskirkja fékk skírnarfont að gjöf og drengur gefenda var skírður. Margt er því til íhugunar.

Ég hef verið að kenna öllum sonum mínum ferðabæn Hallgríms Péturssonar. Þeir taka vel við og bænin er orðin ómissandi upphaf ferða, sem við förum. Bænin er í sálmabókinni og er svona:

Ég byrja reisu mín,


Jesús, í nafni þín,


höndin þín helg mig leiði,


úr hættu allri greiði.


Jesús mér fylgi í friði


með fögru engla liði.

Þetta er góð bæn og ekki síst í reisuaðstæðum lífsins. En lífið – er það ekki ferðalag? Skáldið Tómas minnti á, að það væri undarlegt ferðalag. En við megum gjarnan skilja það sem svo það sé undursamlegt. Tilveran er ekki bara hótelgisting heldur heimili ef við virðum eigandann. Okkur, börnum jarðar, er ekki ætlað að halda okkur til hlés í einhverju skoti heldur taka viðburðum daganna með opnum huga, með áræðni og bjartsýni. Og þannig má afstaða okkar vera gagnvart litlum börnum og nýju lífi.

Nýr fontur

Í dag höldum við hátíð. Harður en klappaður steinn er blessaður. Lítið, mjúkt og margstrokið barn, Kolbeinn Flóki var borinn að grjótinu til skírnar. Skírnarfonturinn er fallegur og drengurinn er stórkostlegur. Þessi nýi skírnarsár Neskirkju er gerður af föður drengsins. Þegar fóstrið stækkaði í kviði móðurinnar var listaverkið að mótast í huga pabbans. Hann skoðaði steina, gerði skissur og kannaði möguleika og leiðir. Það er fallegt að meðganga barnsins var samtíða meðgöngu fonts. Samtímis urðu þau til barn og fontur. Þau eru af sama meiði og eiga sér þegar dýpst er skoðað upphaf í veruleika þess sem klappar heiminn til lífs, Guðs.

Ferjustaður

Í sumar fór ég í ævintýraferð austur við Selfoss. Við, fjölskyldan, fundum Hellisskóg, unaðsreit á vesturbakka Ölfusár, uppvaxandi skóg Selfyssinga. Merkileg listsýning var sett upp þar í rjóðrum og á árbakkanum til minningar um baráttu fólks við fljótið og langa ferjusögu. Fólk, varningur og búsmali var um aldir ferjaður yfir ána við Laugardæli. Ölfusá er stórfljót og þegar ég stóð í flæðarmálinu, horfði yfir skolað sundið skerptist vitundin um, að ferðirnar voru ekki hættulausar og eins gott að ferjumenn væru vanda vaxnir og kunnáttusamir.

Listaverkin í skóginum eru skemmtileg. Eitt sýnir hangandi plastfiska í hjalli og minnir á að greiða varð ferjutoll fyrir flutninginn, fiskar voru gjaldmiðill. Annað verk hafði verið sett í tjörn í skóginum, fjöldi smárra báta sem átti að sigla þar sumarlangt. En í margar vikur rigndi ekki og tjörnin þornaði og gestir gátu gengið þurrum fótum að strönduðum bátunum. Synir mínir kunnu þessu vel og sáu ekkert athugavert við að blautlistaverk væri á þurru, að þeir gætu gengið að þessum bátum. Engum hefði þótt gott að lenda á botni Ölfusár fyrrum, en áin þornaði ekki þótt þurrt væri.

Vörður

Niður við vatnsbakkann sáum við sláandi verk, vörðu með mannsbrag. Hvað var þetta? Var þetta steingerður ferjumaður sem skyggndi ána, leitaði leiðar, horfði yfir straumkastið og stefndi yfir. Listfengið og handbragðið vakti grun minn um hver höfundurinn væri. Þetta hlýtur að vera skúlptúr eftir Þór Sigmundsson? Við kíktum því í bæklinginn um sýninguna. Jú mikið rétt, þetta var varða sem Þór hafði gert, raðað steinflögum saman og myndað merkan minnisvarða. Ekki áminningu um ferjumann, sem flutti sálir til heljar, heldur ferjumenn aldanna, sem ferjuðu til lífs, þeir börðust vissulega á mörkum lífs og dauða. Lítið mátti út af bera, þá gat ferðin endað í dauða, orðið feigðarflan. Hlutverk ferjumanna var að tryggja líf og ferja með öryggi.

Þór hefur gert marga og merkilega skúlptúra. Og svo kom lífið í fang hans, lítið barn og hann langaði til að gera font til skírnar barnsins síns. Þór ólst upp á bökkum Ölfusár og þekkir því hinn glæsilega skírnarfont Selfosskirkju, sem er verk Sigurjóns Ólafssonar. Hann hefur því vitað frá bernsku, að fontur er afar mikilvægur við upphaf lífsferðarinnar.

Í dag byrjar nýtt líf, eilíft líf. Skírnarfontur úr steini er tákngripur, vísar út fyrir sig til annars og dýpri veruleika, minnir á steinþróna, sem Jesús var lagður í. Grjóti var velt fyrir opið, en svo var því velt frá til tákns um að lífið kviknaði, líf Jesú hélt áfram og líf heimsins breytist. Ekkert getur hamið hið eilífa líf. Enginn steinn tefur elsku Guðs, en fólk, efni, og þar með talið grjót mega þjóna lífinu. Nú hefur Þór klappað steininn og búið til úr honum fang fyrir vatnið sem með táknrænum hætti vísar til hreinsunar Guðs á flekkuðum heimi. Skírnarfontur minnir á að lífið sprettur fram úr grjótinu.

Steinn og barn spanna hið stóra mál trúar, mannlífs, tíma og eilífðar. Við höldum hátíð þegar barn er fætt, við minnumst afmælis okkar árlega. Víða um hinn kristna heim minnast menn hinna andlegu afmæla sinna og halda skírnarafmæli hátíðleg. Það er ekki síðra tilefni en fæðingardagur. Við megum gjarnan gera meira úr skírninni, skírnardögum og þar með skírnarminningum.

Hvað er mikilvægast?

Fontur og barn eru mikilvæg en hvort skyldi nú vera mikilvægara? Foreldrarnir, Þór og Guðrún Rannveig, myndu ekki hika við að svara. Það er barnið, sem er dýrmætasta perlan. Grjótið er gott, fonturinn er fagur en barnið er ómetanlegur dýrgripur, sem ekkert getur komið i staðinn fyrir. Slík er skipan lífsins, þannig er málum háttað í ríki Guðs. Lífið er mikilvægast og það ber að vernda, og allt sem er í heimi ber að nota vel og með fegurð til að þjóna lífinu.

Guðspjallið, sem lesið er við allar skírnir, er síðustu orðin i Matthesuarguðspjalli, svonefnd kristniboðsskipun. Þar er boð Jesú um að vinir hans beri allri heimsbyggðinni góðar fréttir um Guð, elsku hans, að við erum börn hans. Þar segir einnig, að við skyldum kenna og skíra í nafni föður, sonar og heilags anda og síðan halda allt það, sem Jesús hefur boðið. Hvað verður þá? Jú, að Jesús verður með nálægur alla daga til heimsenda. Þar með er hann ferjumaður allra alda, allra manna, ekki aðeins minnisvarði um góðan ásetning og góða stefnu, steinn á árbakka, heldur ferjumaðurinn sjálfur sem stýrir, er nærri, verndar í öllum háska, og blessar allt til enda. Þess vegna er lítill drengur borinn að skírnarþrónni til að hann fái blessun til ferðarinnar yfir fljót ævinnar. Hættur og erfiðleikar munu örugglega mæta á honum eins og okkur öllum. Því þarfnast hann góðs ferjumanns, góðs vinar, heilags anda.

Eilífa lífið

Hvenær byrjar eilífa lífið? Margir halda, að það byrji fyrst þegar komið er hinum megin við dauðastundina. En hið eilífa líf byrjar í hinu jarðneska lífi. Það byrjar ekki hinum megin við dauða og gröf heldur í skírninni. Þá byrjar æviferðin með Guði. Skírnin er því merkasti viðburður mannsævinnar því barnið er vígt himninum. Í skírninni er stefnan tekin og vökumaður himinsins sest í skut og stýrir. Veröldin er áin sem við höldum yfir, kristindómurinn er skipið sem ber okkur yfir fljótið, ferjumaðurinn er bróðirinn besti. Landfestar eru við skírnarfontinn, þar eru fyrstu áratog lífsferðarinnar, þar er beðið og barnið blessað og fær nafnið í veganesti.  Við ströndina hinum megin bíður vörður lífsins, sem tryggir að allt sé gott. og nafnið skráð í bók lífsins.

Þökk sé Þór og fjölskyldu hans fyrir þennan klappaða stein hins agaða einfaldleika og djúpu merkingar. Blessun fylgi Kolbeini Flóka og þeim öllum. Nessöfnuður blessist af gjafmildinni. Og dýrð sé Guði föður, syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda,

Amen.

Hugvekja við blessun skírnarfonts Neskirkju, 16. ágúst 2009.

Fonturinn er gjöf hjónanna, Þórs Sigmundssonar, steinsmiðs og Guðrúnar Rannveigar Stefánsdóttur og barna þeirra. Skírnarþeginn Kolbeinn Tumi kom í hjónavígslu 2013 og þá ræddum við saman. 

 

Flýja eða mæta – Trevor Noah og frelsið

Hvað gerum við þegar við verðum fyrir áfalli? Kostirnir eru oftast tveir og báðir erfiðir: Að fara eða vera. Við annað hvort flýjum eða mætum áfallinu. Þegar við flýjum reynum við að losna undan afleiðingunum, tilfinningum, sorg, missi, því sem ekki varð eða rættist, öllu þessu skelfilega eða óþægilega, sem áfallið olli eða opinberaði. En ef við mætum skelfingunni erum við færari um að vinna úr, eflast af eða styrkjast – af því að glímt er við meinið, talað um það, rætt um það og reynt að greina hvað er hægt að læra af því. Við erum aldrei algerlega strand í grískum harmleik. Áfalli getum við mætt í frelsi. 

Í liðinni viku sat ég á grískri strönd. Kliðmjúkur söngur smáöldunnar leið í eyru, birta sótti í sál og ég las bók í skugga ólífutrjánna á ströndinni. Forlagið Angústúra gefur út þrungnar bækur í nýrri ritröð og Elín mín hafði tekið með tvær úr röðinni. Ég fór að lesa uppvaxtarbók Trevor Noah, Glæpur við fæðingu, sem ég vissi ekkert um áður. Bókin er grípandi. Höfundur teiknar vel aðskilnaðarstefnu S-Afríku í framkvæmd. Hann er sonur s-afrískrar, þeldökkrar konu og hvíts, svissnesks föður. Og slíkur blendingur var brot á lögum og drengurinn lenti utan hópa, kerfa og menningarkima og fór líka á mis við nánd föðurins. Og þvílíkur rússíbani stórmála, áfalla og tilfinninga. Höfundur miðlar okkur sýn til fólks og lífsbaráttu þess á breytingartíma í S-Afríku. Honum tekst líka að miðla okkur lokunum, heftingum, tabúum, niðurþrykkingum og fjölda glerþaka. Hvað er til ráða? Og þar er komið að viskunni í þessari fjörmiklu lífsleiknibók.

Trevor Noah lenti í rosalegum málum, en hann var elskaður og það er besta vegarnestið. Hann átti lífsviljandi móður, sem var honum fyrirmynd um frelsi, sjálfstæði, hugrekki, einbeitni og húmor líka. Og Trevor Noah lærði, að maður þarf ekki að draga áföll á eftir sér, er ekki skuldbundinn til að láta sektarkennd og eftirsjá eða afbrot annarra verða aðalmál eigin framtíðar. Hlutverk okkar er að vinna úr áföllum okkar og lifa í frelsi.

Áfallaflóttin býr bara til vælupúka, fórnlömb. En þegar fólk mætir og glímir við er hægt að taka ákvörðun um að sleppa. Það er alltaf val þeirra, sem lenda í áfalli, að sleppa reiðinni gagnvart þeim sem brjóta á manni, hafa skaðað eða kerfum og hópum sem níðast á öðrum. Það er líka hægt að fyrirgefa gungunum sem ekki þora að standa með sannleika eða réttlæti og hlaupa í burtu frá líðendum og þolendum til að bjarga eigin skinni. Frelsi eða fangelsi, skilyrðingar eða opnun.

„Ég hef hlustað á þennan gaur,“ sagði annar sonur minn. „Hann er stjarna í Ameríku og á Youtube.“ Og þá komst ég að því að Trevor Noah hafði ekki bara lifað af og iðkað lífsleikni, heldur líka slegið í gegn sem uppistandari og þáttastjóri. Svo unglingurinn fór að lesa bókina – bókin er alltaf betri!

Mér þótti efnið kjarnmikið veganesti fyrir okkur öll því ekkert okkar sleppur. Við lendum öll í stórum og smáum áföllum. Við líðum margt og mikið en við erum þó aldrei fórnarlömb nema við ákveðum það sjálf. Annað hvort flýjum við eða mætum áfallinu. Við þurfum að viðurkenna og tala um sorgarefni okkar. Trevor Noah og mamma hans sýna, að enginn neyðir okkur til að leika hlutverk fórnarlambsins. Við erum frjáls – jafnvel í ómögulegum aðstæðum og fangelsum anda, menningar og líkama. 

Takk Angústúra fyrir að koma þessari bók út.

Þýðing Helgu Soffíu er góð og ég hikstaði sjaldan í hraðlestrinum. Kynning forlagsins á bók Trevor Noah er á þessari slóð:

https://www.angustura.is/glaepur-vid-faedingu

Glæpur við fæðingu

Stórmerkileg saga uppistandarans og stjórnmálaskýrandans Trevor Noah sem ólst upp í skugga aðskilnaðarstefunnar í Suður-Afríku: Sjálf tilvist hans var glæpur, því samband móður hans og föður af ólíkum hörundslit var refsivert á þeim tíma. Trevor segir á heillandi hátt frá æsku sinni og unglingsárum í samfélagi sem enn er í sárum, fyrstu skrefunum í skemmtanabransanum og trúrækinni móður sem opnaði fyrir honum heiminn.

Trevor Noah (f. 1984) hefur vakið mikla athygli fyrir hárbeitta þjóðfélagsrýni í þættinum The Daily Show í Bandaríkjunum sem hann hefur stýrt frá árinu 2015. Hann er vinsæll uppistandari og má nálgast heimildarmyndir um hann á Netflix. Glæpur við fæðingu var valin ein besta bók ársins af helstu fréttamiðlum Bandaríkjanna þegar hún kom út. Kvikmynd er í bígerð.

„Ástarbréf til einstakrar móður höfundarins.“ – The New York Times

„Lykilrit… því það afhjúpar aðskilnaðarstefnuna… fremur en aðrir nýlegir fræðitextar.“ – The Guardian 

Trevor NoahHelga Soffía Einarsdóttir þýddi

Saumuð kilja 110 x 180 mm 368 blaðsíður.

Besta baðströnd í heimi?

Hver er besta baðströnd í heimi? Ég hef sótt í sjóinn víða. Synt í Kyrrahafinu, Dauðahafinu, víða í Miðjarðarhafi, Eystrasalti og Atlantshafi. Og hef hrifist af góðum ströndum og góðri baðaðstöðu. En tvær strendur eru í uppáhaldi. Í dag kom ég og mitt fólk á baðströnd sem er kannski ein sú besta í heimi. Hún er nærri Sidari á Corfu.

Grísku eyjarnar eru flestar dásamlegar og tvisvar hef ég verið á Krít, sem ég er hrifinn af. En Corfu er græn, líklega grænust grísku eyjanna. Og margar strendur eyjarinnar eru heillandi. Baðströndin við Daphnilla-flóa er afar fjölskylduvæn, hættulaus, hvít og sjaldan nokkur alda, enda sundið milli eyjarinnar og Albaníu fremur þröngt. En Aþena, ráðgjafinn okkar á hótelinu, sagði að ef við færum í ökuferð um norðurhluta Corfu væri eiginlega skylda að fara á sólarlagsströndina við 7th. Heaven Café. Og þangað fórum við m.a. í dag. Dásamlegt veður, stillt, hlýtt, sjórinn tær og heitur, fáir ferðamenn og kyrrð og ró yfir öllu. Gróðurinn fagur, kalk- og sandsteinsklettarnir glæsilegir, svölurnar heilluðu, bátar liðu hjá eins og í draumhemi og mitt fólk lék sér í tæru vatninu. Og við vorum mun lengur en við höfðum skipulagt. Niðurstaðan var: Þetta er besta baðströnd í heimi!

Ef þú ferð með fólkið þitt um Corfu er ráð að fara til Sidari og alla leið út á strönd, taka baðfötin með, fara í sjóinn, njóta og heimsækja svo kokkana í kaffihúsinu sem kennt er við sjöunda himin. Og ströndin var áttundi himininn.