Dachau, útrýmingarbúðir og við

 

75 ár eru frá því útrýmingarherferð nasista lauk og fangar voru frelsaðir úr dauðabúðunum. Í Póllandi, Jerúsalem og Þýskalandi hafa verið haldnar minningarathafnir á þessum tímamótum. Í búðunum voru meira en sex milljónir myrtar. Gyðingar voru stærsti hópurinn, en líka þau sem voru talin óæskileg, samkynhneigðir, fólk með þroskahamlanir og pólitískir andstæðingar yfirvalda. Fólk var pyntað, kvalið, niðurlægt og myrt. Börnum var jafnvel hent lifandi inn í eldofnana og kvalaópin skáru í hlustir hinna fanganna, sem ekkert megnuðu í varnarleysi sínu annað en hlusta og æpa hljóðlausar bænir inn í eilífðina. Er nema von að fólk spyrði í kjölfar styrjaldarinnar hvort Guð væri ekki beinlínis nauðsynlegur til að gera upp sögu með þvílíkri hryllingsvídd.

Skammt utan við borgina München í Þýskalandi er Dachau, lítill staður með stóra sögu. Ég átti einu sinni leið til München og fór þá til Dachau. Ég vissi fyrirfram um staðinn og hafði kynnst fólki sem hafði misst ættingja sína í Dachau. Það er sálarslítandi að lesa helfararbækur en grípandi og nístandi að hugsa um mismunandi viðbrögð fólks í dauðabúðum. Þessar bækur halda að manni íhugun um merkingarleysi en líka lífsmöguleika. Meðal þess sem ég hafði lesið var viskubók Viktor Frankl Leitin að tilgangi lífsins, en Frankl var um tíma fangi í Dachau.

Yfir búðahliðinu var stóð: Arbeit macht frei – vinna til frelsis. En veruleikinn var annar og myrkari innan hliðs og girðingar. Þar voru óæskilegir vistaðir og þeim fargað, fólk sem var af ákveðnum kynþætti, þroskaheft eða með aðrar skoðanir en valdhafar. Meðal þeirra var hinn kunni prestur Martin Niemöller, sem benti á mannelsku Guðs sem ekki gerir greinarmun á fólki.

Skálarnir, húsin og minnismerki búðanna sögðu hljóðláta sögu sem var ávirk þeim sem höfðu næði til að hlusta á nið sögunnar og höfðu einhver tengsl við hana. Sláandi var minnismerki um kristna menn, sem höfðu dáið á þessum stað. Það var róða, magur og hrjáður Jesús Kristur hékk á krossinum. Þetta var kaghýddur og vannærður Jesús, kunnugur þjáningu, bróðir harmkvælamanna búðanna.

Gyðingaminnisvarðinn í Dachau er hús en í mynd stórs bjargs. Til að komast inn í þá byggingu varð að fara niður í jörðina og þegar inn var komið sást, að veggirnir voru bognir en komu saman á einum stað. Veggir og loft hækkuðu til þeirrar áttar, sem veggir komu saman. Þar var því hæst. Augu leituðu upp og hátt uppi var hringlaga op. Þar sást upp í himininn . Öll byggingin var myrk. Tilfinningin fyrir grjóti var sterk, þetta var eins og grafhvelfing og minnti mig á grafarhvelfingu Jesú. Ein ljósleið var þarna og það var leiðin upp í himininn. Sjónlínan, ljóslínan, var vonarlína.

Á leiðinni til Dachau voru nokkur ungmenni í sömu lest og ég sat í. Við töluðum saman á leiðinni og þau sögðu mér að þau væru á lestarferð, Interrail-reisu, í Evrópu. Þau fóru hraðar yfir en ég þegar inn í búðirnar var komið, voru snögg að skoða fábrotna svefnskálana og ég heyrði að þau sögðu hvert við annað: “Hér er ekkert að sjá.” Þau settust svo niður og fengu sér smók og fóru svo. Þau sáu aldrei neitt annað en nakta skála og nokkrar byggingar. Þau sáu aldrei hinn krossfesta Krist, sáu aldrei grafarminnismerkið um Gyðingana, þetta með ljósopinu til himins. Þau höfðu ekkert heyrt um þennan stað annað en að þetta hefðu verið fangabúðir. Þau voru snögg að sjá – að það var ekkert að sjá. Það var ekkert gert til að auka áhrifin. Áhrifin voru í huga þeirra sem komu.

75 ár frá því að Þýskalands nazismans var neytt til að hætta manndrápum. Hvað höfum við lært? Ef maður vill ekki sjá sér maður ekkert, fær sér bara sígó og fer svo. Ekkert er svo myrkt að himinbirtan megni ekki að upplýsa. 

Bæn

Guð minn, Guð minn, hví hefir þú yfirgefið mig? Ég hrópa, en hjálp mín er fjarlæg. Guð minn! hrópa ég um daga, en þú svarar ekki, og um nætur, en ég finn enga fró. Og samt ert þú Hinn heilagi. …  Til þín var mér varpað frá móðurskauti, frá móðurlífi ert þú Guð minn. Ver eigi fjarri mér, því að neyðin er nærri, og enginn hjálpar. … Endimörk jarðar munu minnast … og hverfa aftur til Drottins og allar ættir þjóðanna falla fram fyrir augliti hans.

Megi ljósið blessa þig. Megi birtan upplýsa myrkur þitt. Megi afturelding umvefja alla menn og allt líf og gefa réttlátan frið.