Sunna Dóra Möller, æskulýðsfulltrúi Akureyrarkirkju

Ég styð framboð dr. Sigurðar Árna Þórðarsonar prests í Neskirkju til embættis biskups Íslands.  Dr. Sigurður Árni er reynsluríkur kennimaður, sem hefur skýra sýn á margt það sem er kirkjunni mikilvægara en annað sbr. barna-og ungmennastarf.  Æskulýðsstarf þjóðkirkjunnar er mér hugleikið og eftir samtöl við frambjóðandann hef ég trú á því að hann muni vinna að því að efla þetta mikilvæga starf og beita sér fyrir því að byggja upp kirkju til framtíðar.

Bolli Pétur Bollason, sóknarprestur Laufásprestakalli

Dr. Sigurður Árni Þórðarson prestur í Neskirkju býður sig fram til embættis biskups Íslands. Ég styð það framboð heilshugar og hef þannig trú á þeim mæta manni til að leiða þjóðkirkjuna í ólgjusjó nútímans. Ég kann vel við áherslur frambjóðandans hvað snertir barna-og ungmennastarf innan kirkjunnar.  Það er mikilvægt starf. Dr. Sigurður er málsnjall og hugsandi maður og býr yfir röggsemi og mýkt í senn. Hann hefur því að mínu mati alla burði til að leiða fólk saman kirkjunni til heilla og blessunar.

Gréta Konráðsdóttir, djákni í Bessastaðasókn

Mikið var ég glöð þegar Sigurður Árni Þórðarson sagði mér að hann ætlaði að bjóða sig fram til þjónustu sem biskup Íslands.   Ég tel að sá ágæti maður Sigurður Árni hafi svo margt fram að færa fyrir kirkjuna okkar, hann er vel lesinn eins og sagt er og horfir til framtíðar.  Það sem kirkjan þarf er leiðtogi sátta og sameiningar  með ríka réttlætiskennd og í það verkefni er Sigurður Árni vel hæfur.  Síðast en ekki síst er hann afskaplega hlýr maður sem veitir fólki og málefnum fulla athygli.  Ég treysti Sigurði Árna til þeirrar mikilvægu og vandasömu þjónustu sem biskup Íslands gegnir.

Gréta Konráðsdóttir, djákni í Bessastaðasókn.

Sextíu ár í sóknarnefnd!

Magnús Annasson er búinn að vera í sóknarnefnd í um sextíu ár og þar af formaður sóknarnefndar í 25 ár. Nú lýkur hann ferli sínum í þjónustu Tjarnakirkju og safnaðar á Vatnsnesi með því að kjósa biskup. Hann segir að þetta sé orðið alveg nóg hjá sér.

“Þetta er allt í lagi hjá þér” sagði hann brosandi þegar hann veifaði bréfi mínu til kjörmanna, sem hann hafði fengið fyrr um daginn. Hann rifjaði upp kirkjulífið á Tjörn, mannlífið og kynni sín af prestum og líka biskupum. Hann mundi eftir Ásmundi Guðmundssyni, síðan hafði Sigurbjörn Einarsson vísiterað og svo taldi hann biskuparöðina inn í nútíma. En Sigurbjörn hafði komið aftur – þá í einkaheimsókn. Hann hafði verið í Tjarnarkirkju einn daginn þegar dyr voru opnaðar, maður kom inn og bauð góðan daginn. Hann þekkti komumann og fagnaði honum, þar var Sigurbjörn kominn og hans fólk – á ferð um Norðurland. Það birti yfir Magnúsi þegar hann sagði frá.

Magnús talaði um Tjarnarkirkju, um þá merku presta Sigurð Norland og Róbert Jack, um gripi, alaristöfluna. Og svo væri nú nauðsynlegt að laga veggfóðrið á einum stað! Hann var búinn að minna sitt fólk á það. Nú sagði hann að aðrir tækju við. Hann væri búinn með sinn tíma, vissi ekki hvort honum entist aldur til að kjósa. Öll höfum við hlutverk í ríki Guðs í veröldinni.

Magnús hefur skilað góðu dagsverki. Kirkjan á honum mikið að þakka og vert væri að orða hann, sæma hann kirkjulegri orðu við lok ferils hans. Kirkjan þarf að temja sér að sjá, meta og tjá virðingu. Mér var þakklæti í hug þegar ég gekk út frá Magnúsi Annassyni, þakklæti fyrir umhyggju hans fyrir velferð kirkjunnar, fyrir þolgæði hans og andlegt örlæti. Ný kynslóð axlar nú ábyrgð í kristnilífinu á Vatnsnesi. Gott þú góði trúi þjónn – fyrirmynd okkur hinum um þjónustuafstöðu. Við erum öll hlekkir í þjónustufesti kristni Íslands og heims.